14.11.1974
Efri deild: 7. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

30. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Þetta frv. var, eins og flm. gat um, rætt í fyrra og menn tóku efnislega jákvæða afstöðu til frv. sem slíks, og það gerði ég einnig í nefndinni og vil lýsa yfir efnislegum stuðningi við frv. Þetta er gömul hugmynd sem oft hefur verið rædd en erfitt að koma í framkvæmd hjá mörgum ríkisstjórnum og jafnan borið við fjármagnsskorti, eins og 1. flm. reyndar gat um. Það, sem ég vildi fá að vita vegna tengsla hans nú einmitt við hæstv. sjútvrh., er hvort hann hefur ekki með nokkru móti gert sér grein fyrir því að sjóðurinn er í meiri vandræðum nú en um fjölda ára. Ég veit ekki annað en sú frumtilraun að smíða nú tvö sérstaklega hönnuð skip á Akureyri sé enn í hnút, a.m.k. var það fyrir mjög stuttu, vegna þess að Fiskveiðasjóður hefur ekkert fjármagn til reiðu til að svara þeim lánsfjárupphæðum sem nauðsynlegar eru vegna þessarar skipasmíði. Það munu vera yfir 500 millj. sem þessi tvö skip taka til sín. Auk þess beindi ég þeirri fsp. til hæstv. forsrh. á sumarþinginu að hann hlutaðist til um að margra mánaða gömul lánsloforð hjá Fiskveiðasjóði yrðu afgreidd. En hvað hefur skeð? Ekkert einasta lán afgr, mér vitanlega fyrir skömmu, ekki eitt einasta í marga mánuði. Veldur þetta nú fjölda fiskvinnslustöðva eða útgerðarfyrirtækjum um allt land bullandi vandræðum og vanskilum og er orðið óþolandi starfsástand fyrir fjölda manna er bera ábyrgð á þessum rekstri.

Það hefði því farið vel á því, um leið og efnislega gott frv. kom fram, ef við fengjum hugmynd um hvernig fjárhagsstaða Fiskveiðasjóðs væri, þegar lagt er til að auknar álögur komi á sjóðinn. Hæstv. forsrh. er ekki víðstaddur í deildinni, en hann lofaði þá úr þessum ræðustóli að hann skyldi líta á málið, en það hefur ekkert skeð þrátt fyrir ýmsa fresti og ýmiss konar góð áform. Vandamálið við að kaupa og selja gömul skip er það að verðbólgan hefur oft hækkað svokallað eignarhlutfall þeirra, er hafa skipin undir höndum, það mikið að hér er um hreina verðbólgukrónu að ræða og þess vegna kannske deiluefni, hvað mikið á að lána út á slíkan verðbólgugróða, þó að það sé bráð nauðsyn. Ég tek alveg undir það sem flm. sagði, það er bráð nauðsyn að stuðla að eðlilegum viðskiptum, þ.e.a.s. kaupum og sölum á þessum skipum, og ég er honum fullkomlega sammála um það. Ég vil ekki deila á hann þannig séð, heldur styð hans hugmynd. En ég er aðeins að deila á það að við fengum ekki upplýsingar um fjárhagsstöðu Fiskveiðasjóðs vegna þess að í nefndinni komu fram í fyrra nokkrar mótbárur um erfiðleika sjóðsins.

Það hefði verið rökrétt vegna breyttrar aðstöðu hjá hv. 1. flm. að nokkrar athugasemdir hefðu fylgt með um greiðslustöðu Fiskveiðasjóðs. Hann á þar nú hæg heimatökin. Það má svo deila um hvort það sé rétt að fara inn á þetta svið vegna kaupa á skuttogurunum. Það réttlætir þetta skref ekki þegar kaup á skuttogurum valda því að ágætir bátar af annarri stærð liggja nú bundnir við bryggju. Þá fer ávinningurinn að verða hæpinn. Ég ætla ekki út í þá sálma, það er miklu lengra mál en svo, þó að ræðumaður hafi jafnvel gefið tilefni til að fjölyrða nokkuð um slíkt. Ég ætlast ekki til að hann geti svarað þessu þegar í stað.

Ég vil beina því til formanns hv. sjútvn. að við í n. fengjum glöggt yfirlit yfir fjárhagsstöðu Fiskveiðasjóðs, hvað lægi nú fyrir af beiðnum. Mér er kunnugt um að margir hafa viljað breyta skipum sínum, ekki fara út í nýsmíði, heldur stækka skipin og jafnvel smiða yfir þau. Tel ég það líka skynsamlega þróun. Fiskveiðasjóður hefur greitt götu ýmissa í því efni, en á við mjög mikinn fjármagnsskort að búa nú, aldeilis óvenjulegan. Það er ekki nema eðlilegt að við sækjum á það, af því að við viljum þetta frv. í gegn. Ég styð frv. enn, ég vil taka það fram — styð frv. efnislega algerlega. En við verðum að gera okkur grein fyrir hvað það þýðir. Það þarf líka átak til að tryggja eðlilega nýsmíði í landinu, jafnframt því sem við samþykkjum þetta frv.