05.02.1975
Neðri deild: 39. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

84. mál, útvarpslög

Frsm. minni hl. (Kjartan Ólafsson):

Hv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. menntmn. í þessari hv. d., en að því minnihlutaáliti stendur auk mín hv. þm. Magnús T. Ólafsson. Við höfum einnig leyft okkur að leggja fram brtt. á þskj. 265 og mun ég hér á eftir koma nokkru nánar að efni brtt. okkar og víkja að nál.

Efni þess frv., sem hér er til umr., er ekki flókið. Frv. er aðeins ein setning. Hv. alþm. er öllum kunnugt hver sú setning er, hvert efni hennar og innihald er, í stuttu máli það, að í stað þess að útvarpsráð skuli kjörið til 4 ára í senn og þá óháð alþingiskosningum, þá gerir hið nýja frv. hæstv. ríkisstj. ráð fyrir því að útvarpsráð skuli jafnan kjörið að loknum hverjum alþingískosningum, hvort sem þær fara fram árlegra, sem stundum gæti verið, eða aðeins á fjögurra ára fresti.

Um þetta mál urðu harðar deilur á hv. Alþ. fyrir jólaleyfi þm. Í Ed. fóru fram 3 umr. um málið og d. afgr. það frá sér hingað til Nd., en hér í Nd. fór aðeins fram 1. umr. á næturfundi sem stóð fram til kl. að ég hygg u.þ.b. 2 um nóttina a.m.k., og í báðum d. var mjög um þetta deilt og sýndist sitt hverjum.

Af hálfu ríkisstj. var svo að sjá, að mikið kapp væri á það lagt að ljúka afgreiðslu þessa máls fyrir jólaleyfi, og fór ekki milli mála að að því var stefnt. Fulltrúi Alþb. í menntmn. Ed., þegar málið var þar til meðferðar, var veðurtepptur í kjördæmi sínu norðanlands. Hann bar fram óskir um það, mjög alvarlegar, að málið væri ekki afgr. út úr n. að sér fjarstöddum, en ef n. vildi þoka því nokkuð áleiðis að sér fjarverandi, þá yrði látið duga að senda það til umsagnar eins og venja er hér á Alþ. Þessari alvarlegu ósk var neitað og þar með farið á svig, að mínu viti, við þingleg vinnubrögð. Kappið var svo mikið að koma málinu fram, að það mátti ekki dragast einn dag að afgr. það í Ed. Það var sýnt að hugmynd þeirra, sem. áhugasamastir voru um að koma þessu máli fram, var sú að það skyldi í gegnum þingið fyrir jólaleyfið. Þegar málið kom á dagskrá hér í Nd. var hins vegar brátt sýnt að það væri með öllu óraunhæft að ætla að afgr. þetta mál fyrir jólaleyfið, nema þá því aðeins að menn legðu til hliðar hin veigamestu mál, svo sem afgreiðslu fjárl. fyrir jól. Niðurstaðan varð sú að málið fór þá aðeins í gegnum 1. umr. hér í Nd.

Ég vil minna á það, að við umr. í hv. Ed. fyrir jólaleyfi lét hv. forseti þeirrar d. Þorv. Garðar Kristjánsson, sem lengi hefur átt sæti í útvarpsráði, í ljós mjög alvarlegar og rökstuddar efasemdir um að sú skipan, sem hér er lögð til varðandi kjörtímabil útvarpsráðs, væri heppileg frá almennu sjónarmiði ríkisútvarpsins, og það voru mjög eðlilegar og rökréttar skoðanir sem þar komu fram frá hv. þm. sem á sæti í útvarpsráði. En það var brugðið ákaflega skjótt við af hálfu hans samflokksmanna og hann var hirtur opinberlega í helsta málgagni flokksins, Morgunblaðinu, með þeim hætti sem mjög óvenjulegt er að komi fyrir um einstaka alþm. í málgögnum þeirra flokka. Ég er ekki gjörkunnugur vinnubrögðum innan Sjálfstfl. og kann þess vegna ekki vel að meta vægi slíkrar hirtingar almennt. En í þessu ákveðna tilviki kom hún nokkurri breytingu til leiðar. Að vísu tókst ekki að kúga þennan hv. þm. og meðlim útvarpsráðs til að greiða atkv. með því frv. sem hér liggur fyrir, en það tókst að koma því fram, að hann lét sér duga að sitja hjá. Það var hálfur sigur, en ekki allur, Ég vil minna á það hér til stuðnings þeirri fullyrðingu minni, að hér sé ekki og eigi alls ekki að vera um að ræða deilumál, þar sem annars vegar hópist menn undir merki ríkisstj. og hins vegar stjórnarandstöðunnar, heldur beri hv. alþm. skylda til að spyrja sjálfa sig vandlega, sína eigin samvisku, að það voru reyndar fleiri en þessi eini hv. þm. í Ed. úr stuðningsmannahópi ríkisstj., sem ekki vildu veita frv. brautargengi, a.m.k. einn hv. þm. Framsfl. í þeirri d. neitaði einnig að greiða atkv. með þessu ákveðna frv.

Í hv. menntmn. þessarar d. lá þetta frv. þangað til þing kom saman á ný. Fyrir nokkrum dögum var kallaður saman skyndifundur í þeirri hv. n., sem ég á sæti í. Hann hefur staðið í hæsta lagi í 10 mínútur, og þar var þetta mál afgr. Þessi fundur var boðaður af formanni hv. menntmn. Nd., Ingvari Gíslasyni, fjarverandi. Það vakti athygli mína óneitanlega að svo skyldi vera. Það skyldi þó aldrei vera að tækifærið hafi verið gripið til að afgr. málið einmitt vegna þess, að hv. alþm. Ingvar Gíslason, formaður menntmn. Nd., var fjarverandi.

Við 1. umr. þessa máls hér í hv. d. var það athyglisvert að enginn, ekki einn einasti þm. Framsfl. sá ástæðu til að taka til máls við þær umr., sem hér fóru fram, utan hæstv. menntmrh. einn. Ég vil beina því til hv. þm. Framsfl., þeirra sem eiga sæti í þessari d., að þeir láti í ljós nú við 2. umr. hver er skoðun þeirra á þessu máli. Þeir, sem sátu hér á næturfundi við 1. umr., heyrðu röksemdarfærslu og boðskap hv. þm. Sjálfstfl. sem þar töluðu. En ég hlýt að leyfa mér að draga það mjög í efa að þeir séu margir hv. þm. Framsfl. hér sem tækju undir þann málflutning sem þar fór fram. Og ég held að það væri ákaflega heppilegt að þeir létu í sér heyra, en þegðu ekki þunnu hljóði, líka þeir þeirra sem kynnu að ætla sér að greiða frv. atkv. Það væri þá fróðlegt að heyra þeirra rök fyrir því.

Á þeim skyndifundi sem haldinn var um þetta mál í hv. menntmn. Nd., var umsvifalaust af hálfu meiri hl. á þeim fundi hafnað till. frá mér um að senda frv. til umsagnar útvarpsráðs og útvarpsstjóra og málið afgr. þegar í stað, án þess að umsagna nokkurs aðila væri leitað. Er slíkt að sjálfsögðu ekki í nokkru samræmi við það sem venja er hér á Alþ. Ég vil leyfa mér að minna á, að útvarpsstjóri, sem ég lagði m.a. til að málið væri sent til umsagnar, var einn þeirra þriggja manna sem áttu sæti í þeirri n. er undirbjó útvargslögin er Alþ. setti 1971 og nú er verið að leggja til breyt. á. Í till. þeirrar n., er að lögum varð, var einróma lagt til. að útvargsráð skyldi kjörið til 4 ára, en fallið yrði frá því að það skyldi jafnan kosið að loknum alþingiskosningum, svo sem áður hafði tíðkast um skeið og nú er aftur lagt til. Þetta var eitt meginatriðið í þeim nýju lögum er sett voru 1971 og útvarpsstjóri átti hlut að að semja ásamt tveimur nm. öðrum. Þetta verður, að skoðun útvarpsstjóra sé enn óbreytt. En hafnað var af meiri hl. n. að senda málið til umsagnar hans eða annarra aðila, svo sem ég gat um áðan.

En um hvað snýst þetta mál? Það snýst aðeins um þetta eina atriði, kjörtímabil útvarpsráðs. Hugmyndirnar að baki geta svo e.t.v. verið á margan veg.

Á síðari árum hafa menn almennt boðað þá stefnu, að æskilegt væri, að Ríkisútvarpið væri sem allra sjálfstæðust stofnun. Þegar sett voru ný lög um Ríkisútvarpið í mars 1971, meðan ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. sat enn að völdum, voru allir flokkar sammála um að það skyldi vera einn megintilgangur hinna nýju laga, að Ríkisútvarpið væri sem sjálfstæðust stofnun, og öll meginatriði þeirra útvarpslaga, sem þá voru sett, voru samþ. hér á hv. Alþ. ágreiningslaust, einróma, þ. á m. breytingin á kjörtímabili útvarpsráðs á þann veg að það skyldi ekki kjörið að loknum hverjum alþingiskosningum, sem vissulega kunna að verða háðar árlega eða oftar á stundum, heldur reglulega til 4 ára í senn, hvað sem alþingiskosningum og úrslitum þeirra liði. Fyrir tæpum 4 árum voru allir þáv. hv. alþm. sammála um að þetta þá nýja fyrirkomulag stuðlaði að því að auka sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Það voru rökin fyrir breytingunni. Enginn andmæli komu fram. Með því frv., sem hér er til umr., er lagt til, að þessu verði breytt á ný og útvarpsráð það, sem nú situr og kjörið var til 4 ára, verði svipt umboði sínu nokkrum mánuðum áður en kjörtímabil þess rennur út og sá háttur tekin upp að sérhvert útvarpsráð skuli kjörið til óákveðins tíma, starfi stundum í hálft ár, stundum 2, stundum 4, allt eftir því hvernig vindurinn blæs á leikvangi stjórnmálanna. Svo augljóst sem það er ætti reyndar að vera óþarft að rökstyðja að með slíku frv. er gengið þvert gegn þeirri meginreglu, sem allir flokkar þóttust áður fylgja, að vilja gera Ríkisútvarpið sem óháðast stjórnmálaerjum, að gera það sem sjálfstæðasta stofnun, svo sem stefnt var að með lögunum 1971.

Þeir, sem útvarpsráð skipa hverju sinni, hafa m.a. það verkefni að móta dagskrárgerð. Augljóst er, að í þeim efnum og mörgum öðrum hlýtur það að vera ærin nauðsyn með tilliti til skynsamlegra vinnubragða að sérhvert útvarpsráð viti, hversu lengi því er ætlað að starfa, og geti því sett upp drög að dagskrá nokkuð fram í tímann, en þurfi ekki jafnan að vera við því búið að verða rekið heim innan fárra vikna, ef alþingiskosningar kynnu að verða háðar, sem oft vill verða. Hitt, að ætla útvarpsráði, eins og hér er lagt til, að vera fyrst og fremst fulltrúi starfandi ríkisstj. á hverjum tíma, svo sem það stjórnarfrv. miðar að er hér er til umr., slíkt er fyrst og fremst einkar vel til þess fallið að undirstrika að útvarpsráðsmenn skuli gegna hlutverki pólitískra varðhunda umfram allt annað.

Menn hafa velt því nokkuð fyrir sér vegna ummæla, sem féllu hér fyrr í þessum umr., hvort breytingin á útvarpslögunum varðandi þetta atriði árið 1971, breytingin um kjörtímabil útvarpsráðs, hafi verið gerð að vanhugsuðu eða óyfirveguðu ráði, og enda þótt færð hafi verið full rök fyrir því við 1. umr. málsins, að svo hafi ekki verið, heldur hafi þarna verið um skynsamlega hugsun að baki að ræða, þá vil ég enn á ný rifja upp rökin fyrir því að þarna hafi verið um skynsamlega hugsun að baki að ræða, þegar breytingin var gerð, en ekki neitt fljótræðisverk.

Þáv. menntmrh., hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason, mælti sem ráðh. fyrir frv. að nýjum útvarpslögum hér á Alþ. Þau komu til umr. á tveimur þingum og voru afgr. fyrir þinglok vorið 1971. Ég vil vitna hér í örfá ummæli, sem þáv. hæstv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, sem talaði fyrir munn ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl., lét þá falla um þetta atriði. Hann segir á fundi í þessari hv. d. 29. okt. 1970:

„Þá er það nýmæli í frv., eina nýmælið sem ég tel orka nokkurs tvímælis og vil beina sérstaklega til hv. n. að athuga rækilega, en það er ákvæði frv. um breyt. á reglulegum kosningum útvarpsráðs.“

Þarna beinir hæstv. þáv. ráðh. þeim eindregnu tilmælum til n., að hún skoði þetta mjög vandlega og yfirvegað, og ég vil ekki efast um, að það hafi n. gert.

Síðar í ræðu hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar, þá hæstv. ráðh., segir:

„Sú skipan, sem frv. gerir ráð fyrir,“ — þ.e.a.s. sú skipun, sem nú er lagt til að hverfa frá, — „sú skipan, sem frv. gerir ráð fyrir, hefur ýmsa kosti. Hún gerir útvarpið óháðara stjórnvöldum en verið hefur. En því er ekki að leyna að þeirri skipan fylgir líka nokkur ókostur. Það kann að vera að það torveldi samstarf útvarpsráðs og ríkisstj. eða menntmrh. og þá sérstaklega samstarf form. útvarpsráðs og menntmrh. ef þeir eru úr sitt hvorum flokknum.“

Hér eru taldir fram kostir og gallar og menn beðnir að yfirvega hvorir vegi þyngra, mjög eðlilegur og sjálfsagður málflutningur. Og það segir áfram í sömu ræðu hæstv. fyrrv. menntmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar: „Ég fyrir mitt leyti get þó vel fellt mig við þá skipan, sem hér er lögð til“ — þ.e.a.s. að útvarpsráð skuli kosið jafnan til 4 ára, en ekki alltaf að loknum hverjum kosningum. Ég endurtek þessa tilvitnun í fyrrv. ráðh.: „Ég fyrir mitt leyti get þó vel fellt mig við þá skipan, sem hér er lögð til. Sama gildir um ríkisstj. Annars væri frv. ekki flutt í því formi sem það er flutt. En ég vil vekja athygli þm. og hv. n. á því, að hér er um mikilsverða breytingu að ræða og rétt að athuga hana vandlega.“ — Það væri fróðlegt að vita, hvort núv. hæstv. menntmrh. telur breytinguna mikilsverða eða ekki.

Það er hér örlítið meira af tilvitnunum, sem ég vildi gefa hv. alþm. kost á að heyra. Það er reyndar á þinginu næst á undan, þegar málið var einnig til umr. Það eru aðeins örfá orð, sem hæstv. þáv. menntmrh. segir í svipuðum dúr, á þessa leið: „En ég vildi vekja athygli hv. alþm. og þá sérstaklega þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, væntanlega hv. menntmn., á þessu ákvæði.“ Það er ákvæðið sem við erum hér að ræða um. „Hér er í raun og veru um að ræða eina ákvæðið sem ég persónulega hef ekki gert upp endanlega afstöðu mína til.“ Ég læt þess getið, að þetta er sagt við umr. á fyrra þinginu. Á síðara þinginu er búið að þrauthugsa málið og þá er því lýst yfir af þáv. hæstv. menntmrh., að afstaða ríkisstj. sé mörkuð og ljós. Og aðrir flokkar, sem þá voru í stjórnarandstöðu, voru sammála þessum skilningi.

En hver eru þá þau rök, sem eru færð fram nú fyrir að breyta þessu á ný í fyrra horf? Rökin af hálfu talsmanna Sjálfstfl. hér á Alþ., m.a. þeirra sem töluðu við 1. umr. málsins hér í hv. d., og rök Sjálfstfl., sem komið hafa fram í hans málgögnum, eru alkunn. Við vitum öll bæði innan þings og utan hver þau rök eru. Og þau eru í stuttu máli þessi, að meiri hl. útvarpsráðs nú skipi óalandi og óferjandi kommúnistar, sem verði að reka þar frá þegar í stað, ef þjóðinni eigi ekki að stafa stórkostleg hætta af. Og hver er þessi meiri hl., hverjir eru þessir 4 menn, sem þarna eru taldir jafnhættulegir og fram hefur komið? Það eru í stuttu máli sagt kjörnir fulltrúar allra stjórnmálaflokka í landinu nema Sjálfstfl., að vísu ekki allir kjörnir fulltrúar þeirra, en kjörnir fulltrúar frá Framsfl., SF, Alþfl og Alþb. Ég þarf ekki að nefna nöfn þeirra. Ég vænti þess að hv. alþm. þekki þau.

Sem sýnishorn af þessum málflutningi vil ég leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að vitna til ummæla sem féllu í þessari hv. d. við 1. umr. málsins. Þau voru mælt af einum hv. þm. Sjálfstfl., hv. 6. landsk. þm., Guðmundi H. Garðarssyni. Ég er ekki viss um að þessi ummæli hafi verið tekin upp í Morgunblaðinu. Þau hafa kannske ekki þótt þar fyllilega boðleg, ekki skal ég dæma um það. En víst er um það, að það voru ekki margir hv. alþm. staddir í þessari hv. d. þegar ummæli féllu, og er þess vegna fróðlegt fyrir þá að heyra þau. Þau voru á þessa leið orðrétt úr Alþingistíðindunum, dálki 1150 í síðasta heftinu sem út er komið, 7. hefti:

„Ég vil aðeins segja það,“ segir „að því miður hefur núv. útvarpsráð stuðlað að ofstæki og örvað ofstæki og ég vil segja unnið gegn borgaralegu siðgæði, sem er eitur í beinum Þjóðviljamanna, gegn manneskjulegum viðhorfum, gegn íslenskri menningu og íslenskri erfð.“

Minna mátti það ekki vera. Við skulum þakka fyrir meðan slíkir menn hafa ekki meiri völd en þeir þó hafa. Og það segir síðar í þessari sömu ræðu hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar, hann er þá að lýsa starfi útvarpsráðs: „Leitað var í ríkum mæli í aðrar áttir eftir efni, sem hafði ákveðinn boðskap að flytja, boðskap sósíalismans. En það er boðskapur sem er íslensku þjóðinni mjög ógeðfelldur og gagnvart honum var þjóðin óvarin.“

Ég vil biðja hv. alþm. að leggja sér þessi orð vel á minni. Það er fulltrúi Sjálfstfl., alþm. hans, sem talar. Og við höfum dæmin af málflutningi Sjálfstfl, utan þingsins líka. Ég hirði ekki um að tefja tímann við að rekja þau mörg, en menn minnast kannske þess, að fyrir fáum dögum var birt í ritstjórnardálkum Morgunblaðsins, í ritstjórnardálkum þess sem bera yfirskriftina „Staksteinar“, bréf, — það var að vísu sagt aðsent, en nafnlaust, — en þótt það hafi verið aðsent var talin ástæða til að hafa svo mikið við það, að það var tekið upp í sjálfan ritstjórnardálkinn og hefur Morgunblaðið þar með tekið á því fulla ábyrgð. Þar er ráðist að meiri hl. útvarpsráðs fyrir ýmsar sakir og allt á það að vera á þann veg, að svokölluðum kommúnistum og þeirra fylgifiskum verið hampað í Ríkisútvarpinu, og dæmin eru tekin: Unglingaþáttur Ríkisútvarpsins, Frá ýmsum hliðum heitir hann víst, í höndum kommúnista samkv. Morgunblaðinu, Poppþáttur Ríkisútvarpsins t höndum kommúnista, þátturinn Spurt og svarað, allt var í höndum öruggra Marxista. Og til skamms tíma sá sama kona um að skrifa barnabækur í Þjóðviljann og velja efni handa Ríkisútvarpinu til flutnings fyrir börnin okkar. „Geðslegt eða hitt þó heldur“, segir þar. — Ég vil nú aðeins láta þess getið, að hér er um að ræða konu sem kannske einhverjir hv. alþm. kannast við. Hún hefur lokið háskólaprófi í íslenskum fræðum, að ég hygg, frá Háskóla Íslands og heitir Silja Aðalsteinsdóttir. Og ég vil segja það hér, að þó að það hafi gerst, að þessi ákveðna kona hafi um eitthvert skeið skrifað um barnabækur í Þjóðviljann, en á öðrum tíma eða sama tíma komið nálægt álíka efni í Ríkisútvarpinu, þá kann að vera að þeim sjálfstæðismönnum þyki skömm að því fyrir Ríkisútvarpið að nota starfskrafta þeirrar ákveðnu konu sem hér um ræðir, en ég segi fyrir mig og fyrir hönd þess blaðs, sem ég starfa við, og þess flokks, sem ég er hér fulltrúi fyrir, að okkur þykir sómi að því.

En þetta voru aðeins örfá dæmi, annars vegar frá ummælum innan þings, hins vegar utan þings, um þann málflutning sem hafður hefur verið uppi til að — ég vil segja æra fólk í ótta við þetta hroðalega útvarpsráð, sem hér á að reka frá. En það er kannske vert að vekja athygli á því hér, að sennilega hefur samt talsmönnum Sjálfstfl. innan þings og utan láðst að nefna alvarlegasta illvirkið, sem þarna hefur verið unnið. Það hefur nefnilega gerst ekki alls fyrir löngu, að einum a.m.k. þjóðfrægum, ef ekki heimsfrægum kommúnista Sverri Kristjánssyni sagnfræðingi, hefur verið falið að lesa Passíusálmana í Ríkisútvarpinu. Og við hljótum að skilja áhyggjurnar.

Þau ummæli, sem ég vitnaði til hér áðan úr þingræðu hv. alþm. Guðmundar H. Garðarssonar, voru ekki vægileg. Það er talað um, að Ríkisútvarpið og útvarpsráð hafi gengist fyrir boðun sósíalisma og þjóðin hafi verið óvarin. Ég kannast að vísu ekki við þennan sósíalíska áróður í Ríkisútvarpinu. Ég kannast alls ekki við hann. Ég hlusta að vísu ekki mjög oft á Ríkisútvarpið, en ég hygg að þeir séu fáir sem gætu tekið undir það að yfirveguðu máli og eftir að hafa spurt sína samvisku, að í þessari stofnun íslenska ríkisins glymji sýknt og heilagt það sem hægt væri að kalla með einhverjum rökum sósíalískan áróður. Ég vildi þá a.m.k. gjarnan, áður en menn greiða atkv., fá dæmin á borðið um þetta, og við skulum þá ræða þau hvert og eitt fyrir sig. Og þetta, að þjóðin sé óvarin fyrir þessum áróðri í útvarpinu, — við skulum ekki gleyma þessum orðum: þjóðin sé óvarin og þess vegna þurfi að koma upp nýju útvarpsráði, sérstöku varnarliði til að verja þessa vesalings þjóð, fávísan almúgann fyrir sósíalískum áróðri Ríkisútvarpsins. Minnir þetta tal ekki óhugnanlega rækilega á vissa atburði í öðrum löndum? Má vera, að hv. alþm. Guðmundur H. Garðarsson kunni vel við sig í félagsskap þeirra aðila sem slíkum rökum beita, en ég ætla að vona að þeir hv. alþm. séu fáir sem það gera.

Hver eru rök stjórnvalda sem meina með valdbeitingu ákveðnum skoðunum að komast fyrir augu og eyru þegna sinna? Alltaf og ævinlega eru þau hin sömu, að heilög skylda þeirra, þ.e.a.s. valdhafanna, sé að verja þjóð sina, hún megi ekki vera óvarin, — að verja þjóð sína, allan almúga, fyrir hættulegum skoðunum og kenningum. Slíkt má hvergi sjást, hvorki í ræðu né riti, ekki í fjölmiðlum, ekki í bókmenntum eða listum, þjóðin er óvarin gagnvart útsmognum áróðri hættulegra manna. Byggjum varnarmúr, þöggum niður í þeim órólegu. — Slík er jafnan kenning einræðissinnaðra stjórnvalda, hvort sem hættan er talin stafa af kapítalisma eða sósíalisma eða yfirleitt hverju sem er. Og dæmin þarf ekki að rekja í þessum efnum.

Þjóðin er óvarin, sagði hv. alþm. Guðmundur H. Garðarsson, burt með útvarpsráð strax. Fróðlegt verður að sjá, hvort kommúnistinn Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur fær að ljúka lestri Passíusálmanna, er nýtt varnarlið gegn kommúnismanum hefur sest að völdum í nýju útvarpsráði.

Morgunblaðið bendir af alvöruþunga á hættuna af því að unglingur, sem skrifaði í Þjóðviljann, eigi jafnframt hlut að einhvers konar poppþætti í Ríkisútvarpinu, og hversu ógnvænlegt hlýtur það þá ekki að vera í augum ráðamanna Sjálfstfl. að texti Hallgríms Péturssonar um réttlæti þessa heims og annars skuli fluttur í Ríkisútvarpinu með útsmognum áherslum undan rifjum heimskommúnismans.

En hvað þá um hæstv. menntmrh.? Ég leyfi mér að spyrja hæstv. forseta: Er hæstv. ráðh. í d.? Ég vildi óska eftir að hann væri hér við vegna þess sem ég mun segja nú. (Forseti: Það er rétt að tjá hv. þm., að það er verið að sækja hæstv. menntmrh.) Ég þakka fyrir. Hæstv. menntmrh. má heyra mál mitt, sé ég, og ég held þá áfram ræðu minni. Ég hafði lokið við að rekja hér nokkuð það sem að baki er að mínum dómi kröfum Sjálfstfl. um breyt. á lögum um útvarpsráð og rekja um það dæmi hvernig þeirra málflutningur hefur verið, og ég spyr: En hvað þá um hæstv. menntmrh.? Er hann þátttakandi í þessum kór? Syngur hann bara lægri rödd heldur en hinir eða er hann alls ekki í kórnum? Ég vildi gjarnan fá að vita það. Ég bar þá spurningu fram til hæstv. ráðh. hér við 1. umr., en hann leiddi hjá sér að segja neitt um það. Hann hefur þó tekið að sér að bera höfuðábyrgð á þessu frv. Er hann jafnáhyggjufullur vegna voðaverka núv. útvarpsráðs og einstakir þm. Sjálfstfl. eru og Morgunblaðið er? Svo hefur reyndar alls ekki verið að heyra. Það hefur reyndar ekki verið að heyra á því, sem hæstv. ráðh. hefur sagt við fyrri umr. um þetta mál hér á þingi, að hann hafi yfirleitt nokkra hugmynd um allan þann ofstopa, sem fram hefur komið af hálfu Sjálfstfl. varðandi þetta mál. Við allar umr. hér í báðum d. þingsins, sem fram hafa farið til þessa, hefur hæstv. ráðh. talað eins og hann hafi aldrei heyrt dóm Sjálfstfl. yfir núv. útvarpsráði. Svo virðist sem hann telji störf núv. útvarpsráðs eiga engan þátt í flutningi þessa frv., heldur byggist frv. eingöngu á því, að við það kosningafyrirkomulag, sem allir þm. voru sammála um fyrir 3–4 árum að væri rétt, þ. á m. núv. hæstv. menntmrh. sjálfur, væri nú ekki hægt að una stundinni lengur. Það hefur ekki verið hægt að lesa annað í hans málflutningi hingað til en svona líti hann á. Þetta kæmi hins vegar ekkert því við, hvernig núv. útvarpsráð hefur hagað sínum störfum. Það hefur máske allt verið í góðu lagi að hans dómi.

Ég verð að segja það, að það er furðulega mikið sem þarna ber á milli í málflutningi stjórnarflokkanna tveggja. En frv. er í þeim anda sem komið hefur fram hjá talsmönnum Sjálfstfl. um að innleiða verði á ný öryggi fyrir því, að útvarpsráð sé í fullkomnum takt við ríkisstj. landsins og að þjóðin verði ekki lengur óvarin.

Margir hafa haft á orði, að þeir aumkist yfir hæstv. menntmrh. Í þessu hlutverki blindingjans og telji honum fara betur annað hlutskipti. Ég get því miður enga samúð látið í ljós honum til handa varðandi þetta mál, því að hvað sem öðru líður trúi ég því ekki að hæstv. ráðh. viti ekki hvað hann er að gera, enda þótt honum þyki henta að leika hér blindan mann.

Þær ásakanir, sem fram hafa verið bornar varðandi einstök atriði í störfum útvarpsráðs, sem nú situr, eru svo veigalitlar að það er varla að taki því að minnast á þær. Það eru þó örfá atriði, sem þar hefur borið hæst og ég vil nefna hér enn.

Einn mesti hávaðinn var út af dagskrá háskólastúdenta 1. des. s.l. Ég hef þó engan mann, hvorki innan þings né utan, heyrt halda því fram í alvöru, hvað sem um þessa dagskrá var að segja, að rétt hefði verið af útvarpsráði að stöðva flutning þessarar dagskrár og brjóta þar með áratugahefð í landinu, að háskólastúdentar réðu dagskrá á þessum degi. Ég hef engan heyrt halda þessu fram. Og ef menn eru að tala um að þetta hafi verið hættulegt fyrir þjóðina, þá vil ég fá svör við því: Vilja menn lýsa því hér yfir, að útvarpsráð hefði átt að stöðva þetta? Annars er ekki verið að bera á ráðið neina sök.

Það var allmikill hávaði á sínum tíma, hjá Sjálfstfl. fyrst og fremst, út af því að útvarpsráð eða meiri hluti þess leyfði sér að gera athugasemd við fádæma einhliða fréttaflutning frá atburðum í Chile eftir fall Allendes forseta og valdatöku fasistískrar ríkisstj. herforingja þar. Mér dettur ekki í hug að saka þá fréttamenn útvarpsins, sem þarna áttu hlut að máli, um að þeir hafi vitandi vits hugsað sér að halla réttu máli og gera hlut herforingjanna meiri eða jákvæðari en efni stóðu til. Ég er hins vegar sammála því, sem hefur vafalaust verið skoðun meiri hluta útvarpsráðsmanna þá, að þeir ágætu fréttamenn hafi ekki gætt sín nægilega gagnvart erlendum fréttamiðlum sem þeir byggja á. Slíkt er mannlegt og getur alltaf komið fyrir. Ef um það hefði verið að ræða, að útvarpsráð hefði viljað reka einhvern ákveðinn fréttamann eða fréttamenn fyrir þessar sakir, þá hefði málið vissulega verið stórt og alvarlegt, en það var ekki aldeilis um það að ræða. Útvarpsráð leyfði sér hins vegar, og ég hygg að það hafi verið í samræmi við ýmislegt sem áður hafði gerst í þeirri stofnun, að láta í ljós þá skoðun sina opinberlega að þarna hafi ekki verið gætt reglna útvarpsins sem eru ákaflega eindregnar um það, að fyllstu óhlutdrægni skuli gætt. Um þetta má að sjálfsögðu deila, t.d. hvort útvarpsráð hefði átt að láta duga að gera þessa athugasemd við viðkomandi fréttamenn þeirra á milli, ekki láta þetta í fjölmiðla. En þetta er hégómamál, algjört hégómamál.

En það hefur hins vegar gerst annað. Það er reyndar fyrsta dæmið í tíð núv. útvarpsráðs, sem ég hef yfirleitt heyrt getið um, og menn skulu þá gjarnan hressa upp á mitt minni, ef þeir vita betur, — eina dæmið um það, að útvarpsefni væri með ákvörðun útvarpsráðs dæmt óhafandi, útvarpsefni sem búið var að vinna, tilbúið var til útsendingar, fleygt í ruslakörfuna, það er eitt dæmi. Talsmenn Sjálfstfl. hafa aldrei í öllum sínum hávaða nefnt eitt einasta dæmi um þetta, þegar þeir hafa verið að heimta að útvarpsráð yrði rekið frá. En hvaða dæmi er það sem ég er með í huga og gerðist nú fyrir fáum dögum? Það er — hvað heitir þessi þáttur, „Það eru komnir gestir“, trúi ég, í sjónvarpinu. Þar munu hafa verið ungir menn sem fást við að spila á gítar og syngja, þeim kvað hafa verið boðið þarna, Böðvari Guðmundssyni, menntaskólakennari á Akureyri, ljóðskáldi og söngvara og manni sem kallar sig Megas. Ég veit ekki hvað hann heitir réttu nafni. Hann mun eitthvað fást við yrkingar og söng líka. Þessum mönnum var meinaður nú fyrir fáum dögum aðgangur að Ríkisútvarpinu, þ.e.a.s. sjónvarpinu, með þátt, sem starfsmaður sjónvarpsins var búinn að taka upp, þar sem þeir komu fram. Mér kæmi býsna mikið á óvart ef hv. þm. Sjálfstfl. eða Morgunblaðið í sínum skrifum færu að ráðast á útvarpsráð fyrir þetta. Eru nokkrar raddir um það? Við fáum að heyra það í máli manna hér á eftir. Ætli þetta hafi ekki að þeirra dómi bara verið rétt og nauðsynleg ritskoðun, en þá líka sú eina eða a.m.k. ein af alveg örfáum, sem núv. meiri hluti útvarpsráðs hefur gengist fyrir? Og þegar ég segi núv. meiri hluti, þá er það nú kannske ekki alveg rétt, vegna þess að í þessu máli, varðandi þetta ákveðna bann, sem framkvæmt var, munu atkv. innan útvarpsráðs hafa fallið nokkuð á annan veg en oftast hefur verið á þess starfstíma. En ég mun ekki rekja það hér, enda þekki ég það ekki nákvæmlega. En allar ásakanir, sem hafðar hafa verið uppi gegn þessu útvarpsráði og þessum ákveðna meiri hluta, hafa verið um það, að þessi meiri hluti hafi leyft of mörgum að komast að, leyft of mörgum að tala og tjá sínar skoðanir, en ekki að mönnum hafi verið bannaður aðgangur að þessum ríkisfjölmiðlum. Og menn verða að hafa í huga þann reginmun sem er á þessu tvennu. Það er kannske hægt að ganga of Langt í því að hleypa öllum mögulegum einstaklingum í Ríkisútvarpið, en sú synd getur aldrei verið dauðasynd. Það er minni háttar yfirsjón, ef svo hefur verið, en hitt er alvarlegt, ef menn eiga að fara að byggja hér upp varnarlið í kringum útvarpið til að bægja mönnum þar frá, til að meina þeim að tala vegna þess að þjóðin sé óvarin. Það er nú svo, að meiri hlutinn í einu þjóðfélagi, þær skoðanir í einu þjóðfélagi, hvers svo sem það er, sem eru almennar, viðteknar, sem hinn þögli meiri hluti, sem svo er stundum kallaður, klappar fyrir og hrópar húrra fyrir, þær hafa jafnan greiðan aðgang að fjölmiðlum eins og Ríkisútvarpinu hér. Það er ekkert vandamál, að það sé verið að bægja þeim frá. Slíkt er hreinn misskilningur. Hitt er oft vandamál fyrir hvaða stofnun sem er af tægi Ríkisútvarpsins, bæði hér á landi og í öðrum löndum, og fyrir þá menn, sem eiga þar að bera ábyrgð, í hve miklum mæli á að hleypa minnihlutaaðilum þar að, þannig að þeir eigi líka nokkurn rétt, þó að þeir séu ekki að tala fyrir hinn þögla meiri hluta, heldur kannske fyrir tiltölulega lítinn hóp. Ég hygg, að það sé í raun og veru vilji og afstaða, ég vil ekki trúa öðru en það sé í raun og veru vilji og afstaða meginþorra allra alþm. hér, hvaða flokki sem þeir tilheyra, að það sé rétt hjá stofnun eins og útvarpsráði að vera rýmilegt í þessum efnum. Mín skoðun er sú, að það eigi að vera það alveg tvímælalaust.

Ég kem þá að lokum að þeirri grg. og brtt. sem við í minni hl. menntmn. höfum leyft okkur að leggja fram. Ég hygg að í máli mínu hér áður hafi komið fram öll þau efnisatriði sem í grg. felast og vísa til hennar á þskj. 264. Um brtt. gegnir hins vegar nokkuð öðru máli. Ég mun ekki hirða um að svara í löngu máli þeim röksemdum, sem komu fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. n. gegn þeim takmörkunum á kjörgengi manna til útvarpsráðs sem þarna eru lagðar til. Ég vil alveg sérstaklega vekja athygli á því, að þessi till. er í tveimur liðum og hv. frsm. meiri hl. n. minntist aðeins á fyrri liðinn, og það er best að ég komi að honum fyrst, þ.e.a.s. þetta eru tvær málsgreinar.

Í fyrri málsgreininni er lagt til að starfsmenn Ríkisútvarpsins, starfsmenn annarra fjölmiðla, þ.e. dagblaðanna þá fyrst og fremst, svo og þeir, sem vinna að upplýsingamiðlun fyrir einstök fyrirtæki eða stofnanir, geti ekki átt sæti í útvarpsráði, séu þar ekki kjörgengir. Þetta er sjálfsagt umdeilanlegt atriði, en ég er þó þeirrar skoðunar, að með tilliti til þeirrar meginreglu, að útvarpið skuli vera sem allra sjálfstæðust stofnun, með tilliti til þeirrar óhjákvæmilegu samkeppni, sem í sumum tilvikum hlýtur að vera til staðar milli Ríkisútvarpsins og dagblaðanna, þá sé ekki heppilegt, að starfsmenn dagblaðanna, samkeppnisaðilar, sitji í yfirstjórn útvarpsins. Ég held að útvarpsins vegna sé þetta ekki heppilegt. Víst geta þessir menn haft ágæta þekkingu á ýmsum sviðum eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð gat um, þekkingu sem í sumum tilvíkum gæti verið þarna gagnleg. En hitt vegur þyngra í mínum augum, að með tilliti til þeirrar samkeppni, sem þarna hlýtur að vera á milli, sé þetta ekki heppilegt. Það hefur verið nokkur tilhneiging í þessa átt á undanförnum árum hjá sumum stjórnmálaflokkanna, að tefla fram stjórnmálaritstjórum blaða sinna í útvarpsráð og við viljum með þessari till. útiloka það.

Varðandi starfsmenn Ríkisútvarpsins sjálfs er það að segja, að hugsun okkar, sem að þessari till. stöndum, er sú að útvarpsráð eigi að vera fulltrúi hins almenna manns í landinu, að vísu kosið af stjórnmálaflokkunum, meðan því fyrirkomulagi hefur ekki verið breytt hér á Alþ., en að þeir, sem kosnir eru, eigi að líta á sig sem fulltrúa almennings í landinu, ekki flokkanna fyrst og fremst, ekki stofnunarinnar sem slíkrar, heldur almennings og þess vegna eigi fastir starfsmenn útvarpsins þar ekki heima.

Þá er það með þá sem vinna, eins og þetta er orðað hér, að kynningarstarfsemi eða upplýsingamiðlun fyrir fyrirtæki, samtök eða stofnanir. Við leggjum sem sagt til að slíkir aðilar verði ekki kjörgengir til útvarpsráðs, og rökin fyrir því eru þau að verið er að bægja frá hættu á misnotkun á aðstöðu. Hugsum okkur að samtök, mikilvæg samtök, eins og þau sem Eyjólfur Konráð, hv. þm., minntist hér á áðan, þ.e.a.s. Vinnuveitendasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands, þau væru með blaðafulltrúa í störfum hjá sér, upplýsingafulltrúa, — ekki væri óeðlilegt að svo væri, það er því miður ekki hjá Alþýðusambandinu, ég þekki það minna á hinum staðnum, — en hugsum okkur að svo væri. Þá kæmi það t.d. strax upp, að mjög óeðlilegt væri að annar þessara manna sæti í útvarpsráði, en ekki hinn. Ef við skrifum upp þá reglu að segja, sem ég hygg að menn vilji almennt gera, að þarna sé um mótaðila að ræða, sem geri kröfu til þess að sitja við sama borð. Ég tek það að vísu fram, að ég er ekki með þessu að leggja Vinnuveitendasamband Íslands að jöfnu við Alþýðusamband Íslands. Þar er stór og mikill munur á, og ég mundi ekki ætla þessum aðilum sömu réttindi í öllum tilvikum. En í þessu ákveðna tilviki og miðað við þær þjóðfélagsaðstæður og þau vinnubrögð, sem tíðkast í okkar þjóðfélagi, þá væri það vafalaust talið óeðlilegt og gagnrýnisvert af mjög mörgum, ei þarna væri annar aðilinn með fulltrúa, en ekki hinn. Þess vegna teljum við hreinlegast, að slíkir aðilar séu útilokaðir. Þar getur að sjálfsögðu verið um að ræða miklu fleiri en fulltrúa slíkra félagasamtaka. Það getur verið um að ræða fyrirtæki, stofnanir eða samtök af ýmsu tagi.

Ég kem þá að lokum að síðari málsgr. þeirrar brtt., sem við í minni hl. menntmn., ég og hv. þm. Magnús T. Ólafsson, höfum, leyft okkur að leggja hér fram. Brtt. er á þessa leið, síðari málsgr.: „Sama gildir um íslenska starfsmenn erlendra sendiráða eða fjölþjóðasamtaka, er njóta fríðinda gagnvart íslenskum lögum vegna starfs síns.“

Hér er mjög alvarlegt mál á ferðinni. Útvarpsráð er kjörið af Alþingi íslendinga. Í því eiga sæti sjö menn. Ég vænti þess að alþm. almennt, flestir, telji að þar geti ekki komið til greina að sæti eigi menn, sem ekki eru að öllu leyti undir íslenskum lögum, sem eru undanþegnir íslenskum lögum í meira eða minna mæli. Því miður verður það að segjast eins og það er, að tilefni þessarar till., sem við leggjum hér fram, er það að í veruleikanum er þetta þannig, að sæti í útvarpsráði á einstaklingur sem er vegna alþjóðlegra samninga undanþegin ákaflega mikilvægum ákvæðum í íslenskum lögum. Einn af þeim þáttum í Ríkisútvarpinu, sem minnst var á í Morgunblaðinu og ég las hér upp áðan að ekki væru í góðum höndum, skv. því sem þar var haldið fram, var þátturinn „Spurt og svarað“, held ég að hann heiti. Þann 8. des. s.l. var mættur til að svara spurningum hlustenda ráðuneytisstjóri íslenska fjmrn., Höskuldur Jónsson. Ég hef hér af segulbandi skrifað upp þau ummæli sem féllu í þessum þætti. Ég les þau orð orðrétt á þessa leið:

„Fyrstu spurningunni í þættinum í kvöld svarar Höskuldur Jónsson, ráðuneytisstjóri í fjmrn. Hún er í framhaldi af upplýsingum ríkisskattstjóra í þætti nú fyrir skömmu og það er Sigríður Stefánsdóttir sem spyr. Spurningin er þríliðuð: 1) Hvaða ríkjabandalög eru það, sem hafa starfsmenn hér á landi sem undanþegnir eru sköttum? 2) Hve marga menn er hér um að ræða hjá hverju bandalagi? 3) Hve miklar tekjur hafa viðkomandi starfsmenn undanþegnar sköttum skv. lögum eða reglugerð þar um?“ Og það er Höskuldur Jónsson ráðuneytisstjóri, sem svarar orðrétt: „Ekki er vitað um önnur ríkjabandalög, sem hafa starfsmenn hér á landi, en Atlantshafsbandalagið, en það hefur einn starfsmann hér á launum. Tekjur hans eru skv. A-launafl. bandalagsins. Um skatta starfsmanns þessa fer skv. samningi milli aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, er gerður var í Ottava 20. sept. 1951.“

Ég var dálítið forvitinn að vita hvað stæði í þessum samningi frá Ottava 24. sept. 1951. Ég fletti upp í Stjórnartíðindum íslenska ríkisins. Þar var ekki annað að finna um þetta mál en það, að þetta samkomulag aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins hefði verið fullgilt. Af hálfu Íslands hafi hinn 11. maí 1953 utanrrn. Bandaríkjanna verið afhent fullgildingarskjal. Þetta er dagsett í Stjórnartíðindunum 30. júní 1953, en ekkert um innihald þessarar fullgildingar eða hvað í henni hafi falist, hvað í samningnum hafi falist. Ég hygg að menn telji það eðlilegt að utanrrn. Íslands svari þegar spurt er hvað í þessu fólst. Og það gerði það að nokkru leyti. Þetta samkomulag lá þar fyrir hendi staðfest, en athyglisvert var að það var eingöngu til á enskri tungu — ekki á þeirri tungu sem nú heitir íslenska og áður norræna, heldur á enskri tungu. Ég hef fengið þetta skjal í hendur og ég hef ekki viljað eiga neitt á hættu með þýðingar á því. Ég hef fengið til þess löggiltan skjalaþýðanda og ég er með það hérna í höndunum. Ég hygg, að það þurfi ekki að geta þess, hvað sá starfsmaður heitir, sem um er talað í útvarpsþættinum, sem ég hér vitnaði til. Það er sem alkunnugt er einn af meðlimum útvarpsráðs á Íslandi, og ráðuneytisstjóri fjmrn. hefur svarað, að um skatta starfsmannsins fari skv. samningi milli aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, er gerður var í Ottava 20. sept. 1951. Og hvað segir þar? Þar segir, það er hér fjórði hluti, ég les ekki allan samninginn, heldur aðeins þau atriði, sem skipta máli varðandi það, sem ég hef hér að flytja, — það er fjórði hluti þessa samnings. Hann fjallar skv. fyrirsögn um alþjóðastarfslið og sérfræðinga í sendiþjónustu fyrir stofnunina, og þar segir, fyrst í 17. gr.:

„Semja ber milli formanns fulltrúaráðsins“ — þ.e.a.s. fulltrúaráðs Atlantshafsbandalagsins — „og sérhvers viðkomandi aðildarríkis um þá flokka embættismanna stofnunarinnar, sem 18.–20. gr. ná til. Ber formanni fulltrúaráðsins að tilkynna aðildarríkjunum nöfn embættismannanna, sem þannig eru flokkaðir.“

Síðan koma þessar 18.–20. gr. Ég hirði ekki um að lesa 18. og 20. gr., vegna þess að þær fjalla um þá aðila, sem ekki eru þegnar þess ríkis bar sem þeir starfa. En 19. er. fjallar m.a. um þá einstaklinga sem eru jafnframt þegnar þess ríkis, þar sem þeir eru í störfum sem sáarfsmenn Atlantshafsbandlag síns, og það er það tilvik sem á við hér. Segir í 19. gr.:

Embættismenn stofnunarinnar,“ — þ.e.a.s. Atlantshafsbandalagsins — „sem um semst skv. 17. gr., eiga að vera undanþegnir skattlagningu á laun sín og hlunnindi, sem stofnunin greiðir þeim fyrir slík embættisstörf. Hvaða aðildarríki sem er getur þó gert samkomulag við ráðíð, sem kemur fram fyrir hönd stofnunarinnar, um að aðildarríkið ráði og framselji til stofnunarinnar alla þegna sína sem þjóna eiga í alþjóðastarfsliði stofnunarinnar og greiði laun og hlunnindi þessa fólks úr eigin sjóðum og skv. launaskrá sem það ákveður.“

Íslenska ríkið á í því tilviki, sem hér um ræðir, þennan rétt út af fyrir sig, en skv. upplýsingum ráðuneytisstjóra fjmrn., sem ég lagði fram hér áðan, hefur það ekki notað hann, heldur er viðkomandi manni greitt kaup frá Atlantshafsbandalaginu skv. þessu ákveðna samkomulagi, og það er þá líka skv. þessu ákveðna samkomulagi undanþegið öllum sköttum og þar með íslenskum lögum um skatta íslenskra ríkisborgara. Það er þetta, sem við viljum einfaldlega útiloka með i lið till. okkar, sem ég mæli hér fyrir, við sem að henni stöndum, því að þetta er hneyksli og ekkert annað en hneyksli.

Og það segir meira í þessu samkomulagi frá Ottava 20. sept. 1951 um réttindi slíkra starfsmanna sem hér um ræðir, og það er í 23. gr. Þar segir:

„Ákvæði 18., 20. og 21. gr.“ — hér er 19. gr. ekki talin, sem ég var að lesa úr áðan, ég vek athygli á því, að ég las úr henni vegna þess að hún er ekki talin hér, heldur segir: „Ákvæði 18., 20. og 21. gr. hér að framan skuldbinda ekki ríki til að veita nein forréttindi eða undanþágur, sem um getur í gr., neinum þegnum sínum utan“ - eða nema, — nema hvaða forréttindi. Það kemur hér í líð a., b. og c. til viðbótar við skattana.

„a. Undanþága frá lögsókn vegna ræðu og rits eða aðgerða við framkvæmd opinberra starfa fyrir stofnunina.“

Undanþága frá lögsókn vegna ræðu og rits. Hvað er hér verið að gera? Hér er verið að taka einstaka menn undan íslenskum lögum vegna þess að þeir eru starfsmenn ákveðins hernaðarbandalags, sem á að heita að við séum aðilar að.

„b. Friðhelgi allra skjala varðandi störf þeirra í þágu stofnunarinnar.

c. Fyrirgreiðsla varðandi gjaldeyrishömlur eftir því sem nauðsynlegt er til að framkvæma störfin.“

Ég legg áherslu á höfuðatriðið í þessu, sem er að undanþiggja menn, sem slík störf vinna, skv. þessu samkomulagi, — og það er aðeins um einn mann að ræða nú, eins og ráðuneytisstjórinn hefur upplýst. Höfuðatriðin eru þau, að þeim ber ekki, slíkum starfsmönnum, að greiða hér skatt af sínum launum og þeir eru undanþegnir frá lögsókn vegna ræðu og rits. Það vildu kannske ýmsir fleiri búa við svipuð kjör.

Ég mun nú ljúka mínu máli, en ég vil beina því mjög alvarlega til hv. alþm. að hugleiða: Getur það verið eðlilegt, að einstaklingur, hversu ágætur sem hann er, — ekki ætla ég að gera lítið úr ágæti þessa einstaklings, — en getur það verið eðlilegt með nokkru einasta móti, að maður, sem er í þessari aðstöðu, nýtur slíkra forréttinda vegna starfa á vegum fjölþjóðasamtaka — er undanþegin íslenskum lögum — sé kjörinn í útvarpsráð? Fyrir utan allt annað hafa þau samtök, sem um ræðir, NATO, verið hér ákaflega umdeild, svo að ekki sé meira sagt. Látum vera að hann hafi þessi fríðindi. Við skulum segja að það geli gengið. En ef það á að bætast við að stjórnmálaflokkur leyfi sér að kjósa persónu, hversu ágæt sem hún er, til þess að stjórna ríkisfjölmiðlum íslenska ríkisins, aðila sem með þessum hætti er tekinn undan íslenskum lögum, þá er það hneyksli. Og ég vil biðja menn að forða Sjálfstfl. — ég segi Sjálfstfl. — frá því hneyksli. Upplýsingaskrifstofa Atlantshafshandalagsins, ég lít á hana sem anga af hernaðarkerfi Bandaríkjanna, og það er hér önnur upplýsingaskrifstofa. Það er upplýsingaskrifstofa, sem gengur undir nafninu Novosti. Ég veit ekki alveg hvað það þýðir, en hún er á vegum Sovétríkjanna, á vegum þeirra hernaðarkerfis. Hún gæti hæglega samkv. íslenskum lögum ráðið menn í sína þjónustu, sjálfsagt boðið þeim einhver fríðindi o.s.frv. En hvert værum við eiginlega komnir, ef við ætluðum að tefla starfsmönnum slíkrar erlendrar upplýsingaþjónustu hér til setu í okkar útvarpsráði? Ég bið menn að hugleiða þetta og bera þetta saman, vegna þess að þetta er í raun og voru að öllu leyti hliðstætt.

Það kann að vera að einhver segi: Það vill nú svo til, að við erum í Atlantshafsbandalaginu. — Jú, jú, við erum það, og það kann að vera hægt að færa ýmis rök fyrir því að það sé rétt. Og þau eru fyllilega viðræðuhæf. Ég væri tilbúinn að ræða þau á öðrum vettvangi, þótt ég sé þeim ekki sammála. Og látum vera, að því fylgi það að þetta ákveðna bandalag hafi hér starfsmann. En hitt getur ekki gengið — getur einfaldlega ekki gengið með setu hans í útvarpsráði, eins og mál standa, og þess vegna höfum við lagt fram þá till., sem hér er að finna á þskj. 265, og síðari mgr. hennar er til komin í tilefni af þessu.

Ég hef lokið máli mínu, hv. forseti.