06.02.1975
Sameinað þing: 39. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að lýsa ánægju minni yfir þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar, að því marki sem þær bera vitni um að ræðumenn og fulltrúar viðkomandi stjórnmálaflokka, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, gera sér grein fyrir því, að viðhorfin í efnahagsmálum eru alvarlegs eðlis. Um vandamál er að ræða, sem leysa þarf og ekki verður fram hjá gengið. Ég vil enn fremur lýsa ánægju minni yfir því tilboði stjórnarandstöðuflokka að taka þátt í samráði og samstarfi við stuðningsflokka ríkisstj., til þess að unnt verði að finna sem hagkvæmasta lausn á því vandamáli sem við er að glíma.

Ég hlýt þó að gera nokkrar aths. við ræður þær, sem fluttar hafa verið, þótt ég ætli mér ekki að taka þær efnislega til meðferðar, síst af öllu lið fyrir lið. Ég er nefnilega sammála því, sem segir í bréfi þingflokks SF til mín og talsmaður flokksins las hér upp áðan, þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Þessu hlutverki teljum við“ — þ.e.a.s. að ræða efnahagsmálin eða ráða fram úr þeim — „þessu hlutverki teljum við að Alþ. geti betur valdið innan þess ramma, sem hér er lagt til, þ.e. með nefndarstarfi, fremur en í kappræðu á þingfundi að fengnum till. ríkisstj.

Það er því miður, að talsmaður þessa flokks skuli ekki fara eftir þeim reglum og skoðunum, sem hann sjálfur hefur tjáð að fylgja bæri.

Það er gerð aths. við það, að á þeim dögum, sem Alþ. hefur setið að loknu jólaleyfi, þ.e.a.s. á s.l. 10 dögum eða svo, hafi stjórnvöld ekki lagt fyrir Alþ. nýjustu upplýsingar og álitsgerðir um ástand og horfur í efnahagsmálum. Ég minnist þess ekki, þótt um vanda hafi verið að ræða í efnahagsmálum, að legið hafi fyrir þm. strax í upphafi málsmeðferðar upplýsingar eins og þær, sem hér er farið fram á. Sannleikurinn er sá, að á þessum 10 dögum og nokkuð löngu fyrr hefur verið unnið að gagnasöfnun og upplýsingaöflun til þess að gera grein fyrir vandanum, sem við blasir. Vegna þess hve útlit hefur verið óvíst, m.a. varðandi verðlag á útflutningsafurðum okkar, hafa þessar skýrslugerðir dregist. Enn sem komið er hafa þær tæpast verið annað en vinnugögn í umr. í sambandi við ákvörðun fiskverðs. Það hefur þó verið talið rétt og sjálfsagt, að formenn stjórnarandstöðuflokkanna fengju þessi gögn til skoðunar, og það er von mín, að þessi gögn verði gerð fyllri og við þau verði bætt nú næstu daga og þá verði öllum þm. jafnóðum send þau til skoðunar og yfirlits, svo að þeir geti gert sér grein fyrir hvernig málin horfa við.

Það er enn fremur fundið að því, að ráðh. hafi ekki séð ástæðu til að gefa Alþ. og þjóðinni til kynna með samræmdum hætti, hvaða áform eru uppi innan ríkisstj. til lausnar vandanum. Ég verð að segja, miðað við það, sem hér hefur einnig komið fram, að vandlifað er. Annars vegar er ætlast til þess, að ráðh. gefi skýrslu um ástand og horfur í efnahagsmálum. Hins vegar hefur það komið fram í fleiri en einni ræðu, að hæstv. viðskrh. er gagnrýndur fyrir að hafa einmitt gert þetta opinberlega nú nýverið. Ég skil ekki samræmið í þessum málflutningi. En að því leyti sem rætt er um það, að ríkisstj. hafi ekki nú þegar tiltækar till. með samræmdum hætti um lausn vandamálsins, vil ég láta það koma hér skýrt fram, að ég er þeirrar skoðunar, að við þurfum fyrst og fremst að koma okkur niður á fiskverðið, ákveða fiskverðið, og er sammála þeim röddum, sem hér hafa heyrst um það, að mikill nauðsyn sé á að flýta því.

Víð skulum rifja upp, með hvaða hætti fiskverð er ákveðið. Fiskverð er ákveðið með lögbundnum hætti og er í höndum yfirnefndar, þar sem fulltrúar sjómanna og útvegsmanna og fiskframleiðenda eiga sæti ásamt oddamanni. Þessir aðilar þurfa helst að koma sér saman eða alla vega ná sem víðtækustu samkomulagi um fiskverðið. Það er skylda oddamanns að leita sem viðtækasts samkomulags í þessum efnum. Jafnhliða snertir ákvörðun fiskverðs kjör almennings í landinu og því þurfa að fara fram viðræður við fulltrúa launþegasamtakanna um viðhorf þeirra í kjaramálum. Það þarf að tengja marga fleti þessa vandamáls saman við úrlausn og ákvörðun fiskverðs. Mér er vel ljóst, að auðvitað verður ríkisstj. að vera reiðubúin til að gefa ákveðnar leiðbeiningar, sem stuðla að og auðvelda ákvörðun fiskverðs. Það þarf að vera samráð á milli þessara aðila, þegar um er að ræða ákvörðun fiskverðs. Í þessu sambandi er einmitt fróðlegt að rifja það upp, sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði áðan, að þarna kemur margt til álita: við hvaða aflamagn á að miða, við hvaða verðlag á útflutningsafurðum, við hvaða afskriftir, og hann bætti við: við hvaða vaxtagjöld. Ég er sammála hv. þm. að þessu leyti. En í þessum efnum ræður ekki mat ríkisstj. einnar, heldur verður að ná sem víðtækastri samstöðu um mat á þessum atriðum.

Úr því að ég er farinn að nefna þessi atriði, get ég ekki komist hjá því að segja, að mér finnst það lítið raunsæi af hálfu hv. þm. þegar hann telur, að afskriftir séu ekki kostnaður. A.m.k. ætti að vera ljóst, að afskriftir að því marki sem afborganir nema eru nauðsynlegur útgjaldaliður sjávarútvegsins og fiskútgerðarinnar. Rétt til þess að hafa orð á því, að hv. þm. gagnrýndi vaxtaútgjöld sjávarútvegsins, má geta þess, að að því er ég best veit eru vaxtaupphæðir — þ.e. vaxtagjöld — reiknaðar með nákvæmlega sama hætti nú og gert var í tíð hv. þm. sem bankamrh.

Af þessu má sjá, að það tekur nokkurn tíma að móta þær till., sem ríkisstj. mun leggja fram, og grundvöllur þess er ákvörðun fiskverðs, en samhliða hljóta ákvarðanir einnig að vera teknar eða fyrirheit að vera gefin.

Þá er að því fundið, að Alþ. hafi ekki átt þess kost að taka þessi aðkallandi vandamál, þ.e.a.s. efnahagsmálin, til umræðu og krufningar. Í því sambandi vil ég láta koma fram, að Alþ. getur vitaskuld, hvenær sem einn einstakur alþm. óskar eða telur sig knúinn til þess, vakið máls á hverju því máli sem á dagskrá er. Ég þarf ekki að upplýsa alþm., með hvaða hætti unnt er að gera það. Það hefur t.d. verið gert hér í dag með því að taka þessi mál til umr. utan dagskrár. Ég tel það ekki réttlætanlegt nema að því marki sem um er að ræða málsmeðferð og aths. að því leyti. Hins vegar ef um efnisumr. átti að vera að ræða, þá átti að gera slíkt með því að fara fram á að þessi mál yrðu tekin upp sem sérstakur dagskrárliður á fundi Sþ., og ég skil ekki í að forseti og því síður ríkisstj. mundi nokkuð hafa haft við það að athuga.

Ég vil þá ekki draga lengur að svara þeim tilmælum, sem í bréfi þingflokks SF felast. Að því er snertir upplýsingaöflun vil ég láta koma fram, að í lögum um Þjóðhagsstofnunina er beinlínis gert ráð fyrir því að Þjóðhagsstofnunin sé Alþ. og alþm. til aðstoðar varðandi upplýsingaöflun. Hygg ég, að allir alþm. hafi fullt traust á þeirri stofnun og hafi fengið góða fyrirgreiðslu af hennar hálfu.

Ég vil láta það koma skýrt fram, að ég tel það auðvitað hlutverk ríkisstj. að móta till. til úrlausnar vanda liðandi stundar og framtíðarinnar og leggja slíkar till. fram á hverjum tíma. Núv. ríkisstj. mun ekki bregðast þessari ábyrgð, sem á hverri ríkisstj. hvílir, og hún telur vitaskuld, að það sé skylda hennar að eiga frumkvæði í þessum efnum. Það liggur svo í augum uppi, að að svo miklu leyti sem till. ríkisstj. taka t.d. gildandi fjárlög til endurskoðunar, hljóta þær till. að koma til meðferðar fjvn. Og það liggur sömuleiðis í augum uppi, að að svo miklu leyti sem efnahagstill. ríkisstj. þarfnast löggildingar og lagasamþykktar, hljóta slíkar till. að koma til meðferðar Alþ. og þeirra n., sem um þær eiga að fjalla, svo sem fjh.- og viðskn. En umfram það, sem felst í slíkri þinglegri meðferð, vil ég lýsa því yfir fyrir hönd ríkisstj., að hún vill eiga sem nánasta samvinnu við alþm. og Alþ. og hafa samráð við þingflokkana um þær till., sem fram verða lagðar til úrlausnar efnahagsvandanum. Ég vil þó gera fyrirvara um það, með hvaða fyrirkomulagi slíkt samráð verður, og í þeim efnum tel ég réttast og eðlilegast, að við ráðgumst um það, formenn stjórnarandstöðuflokkanna og ráðh., og er ég í engum vafa um að við náum samkomulagi um það efni sérstaklega.

Loks vil ég lýsa því yfir sem minni skoðun, að ég tel að öll gögn varðandi ástand og horfur í efnahagsmálunum eigi að birta strax og þeir, sem útbúa þau, telja þau svo áreiðanleg að á þeim sé að byggja upplýsandi umr. um lausn vandamálanna.

Umfram það, sem ég hef hér látíð koma fram, sé ég ekki ástæðu til í umr., sem til er stofnað með þeim hætti sem ég hef gert hér grein fyrir, að fjalla um einstök efnisatriði þeirra ræðna, sem hv. þm. hafa hlustað á. Ég vil þó láta það koma fram, að ég er að vissu marki svartsýnn á að samráð slíkt sem við höfum rætt um að hafa til lausnar þessum vanda beri árangur, ef menn eru svo óraunsæir að álíta, að unnt sé að skjóta vandanum svo á undan sér sem fram kom hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni. Ég gat ekki betur heyrt en að hann léti að því liggja, að það þyrfti t.d. ekki að horfast í augu við hækkun olíuverðsins til fiskiskipaflotans. Það er að vissu leyti í samræmi við það fyrirheit, sem hann gaf fiskiskipaflotanum við næstsíðustu áramót, við ákvörðun fiskverðs þá, að olíuverð til fiskiskipaflotans skyldi vera óbreytt frá því sem var síðla árs 1973 þrátt fyrir hinar stórkostlegu olíuverðshækkanir. Það var eitt af þeim vandamálum, sem óleyst voru þegar núv. ríkisstj. var skipuð, að afla fjár til að efna þetta loforð. Ef hv. þm. þykir of há útflutningsgjöld vera á sett til þess að afla fjármagns til þess að efna hans eigin loforð, þá á hann við sjálfan sig að sakast. En það er líka ljóst, að þessi reynsla sýnir okkur, að ekki er unnt að ýta slíku vandamáli á undan sér. Það er ekki heldur efnilegt, þegar talað er um það sem mögulegt ráð til þess að leysa vandamálin að minnka megi eða lækka framlög í vátryggingasjóði fiskiskipa. Vátryggingasjóði þessum er fjár vant í dag, og það þýðir ekkert annað en horfast í augu við að það verður að afla fjár til hans, ef fiskiskipaflotinn á að vera tryggður. Það er sömuleiðis ekki vænlegt til lausnar vandamálsins, ef við ætlum í mjög ríkum mæli — ég segi ekki, að það sé útilokað að einhverju lágmarki — að skjóta á undan okkur afborgunum af stofnlánum fiskiskipa. En þær úrlausnir, ef úrlausnir skyldi kalla, sem felast í þessum skoðunum hv. þm., hafa þann annmarka til viðbótar því að vera engan veginn raunsæjar, að þær auka á eftirspurnarþensluna innanlands, og þegar gjaldeyrisvarasjóður okkar er uppurinn, þá er ekki upp á neitt að hlaupa og því er það eingöngu til þess fallið að treysta á aukna skuldasöfnum erlendis eða algert greiðsluþrot. Ég nefni þessi dæmi aðeins til þess að sýna, að nauðsynlegt er, þegar þingflokkarnir hafa samráð sín á milli um lausn vandamálsins, að menn geri það af fullu raunsæi og ábyrgðartilfinningu.

Hv. þm. Benedikt Gröndal nefndi að það væri gagnrýnisvert, ef við þyrftum nú að taka til endurskoðunar fjárlög, sem gengið var frá fyrir jól, áður en þinghald hætti þá. Í því sambandi er rétt að það komi fram, að forsenda fjárl. 1975 er viðskiptakjaravísitala 96.9 miðað við viðskiptakjaravísitölu 100 á árinu 1972. Nú telur Þjóðhagsstofnunin rétt að setja fram nýja hugmynd forsendna, sem annaðhvort yrði 90 stiga viðskiptakjaravísitala eða 86.7 stiga vísitölu. Ég vil líka taka fram, að við afgreiðslu fjárl. var búist við að viðskiptakjararýrnunin á árinu 1975 skerti þjóðarframleiðslu um nálægt 11/2%, en miðað við þessar nýju hugmyndir Þjóðhagsstofnunarinnar mun þjóðarframleiðslan skerðast um 3% eða 4%. Hér er um það veigamikla breytingu forsendna að ræða, að það gefur tilefni til endurmats á stöðunni, þótt ekki væri öðru til að dreifa.

Með tilvísun til þess, sem ég hér hef sagt, að ríkisstj. vill efna til sem mestrar samvinnu alls þingheims um lausn vandamálanna og mun hafa samráð við formenn stjórnarandstöðuflokkanna nánar, hvernig slíku samráði eigi að haga, tel ég ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri og læt máli mínu lokið.