06.02.1975
Sameinað þing: 39. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. í sambandi við efnahags- og fjármál ríkisins. Það gefst tækifæri til þess sjálfsagt áður en langt um líður. En út af ummælum hv. 5. þm. Vestf. áðan, þar sem hann vék að mér persónulega og hélt því fram, að í sjónvarpsþætti s.l. föstudag hafi komið fram að ég vissi ekki, hver laun mín væru, þá vil ég leiðrétta það sem þm. sagði, um leið og ég lýsi furðu minni á þessum málflutningi hv. þm., þar sem hann hallar réttu máli gegn betri vitund.

Í nefndum sjónvarpsþætti var ég ekki spurður að því, hver laun mín væru né heldur laun þm., heldur hvort þm. Reykn. fengju sérstakar greiðslur vegna búsetu sinnar utan Reykjavíkur og hvort sú upphæð væri 30 þús. kr. Ég svaraði og sagði að það væri rétt, að þm. Reykn. fengju greiðslur vegna búsetu sinnar þar, en ég vissi ekki nákvæmlega hver upphæðin væri nú.

Mér hefur verið legið á hálsi að hafa ekki gert grein fyrir því og gefið skýringu á því, hvers vegna ég væri ekki viss um, hver upphæðin væri. Ástæðan er einfaldlega sú, að ég fæ ekki þessar greiðslur vegna þess að ég gegni störfum í Reykjavík, en þm., sem hafa með höndum störf í Reykjavík, eru ekki taldir hafa aukakostnað af þingsetu sinni og fá þess vegna engar greiðslur. Þá hefur það og komið í ljós, að upphæð sú, sem nefnd var í sjónvarpsþættinum, var ekki rétt.

Þá finnst mér og rétt, að það komi hér fram, að fjmrh. hefur ekki með höndum greiðslur til þm. Það er Alþ. sjálft og þá sérstaklega þingfararkaupsnefnd.