06.02.1975
Sameinað þing: 39. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Virðulegi forseti. Ég má e.t.v. byrja þessa ræðu með því að segja, að því miður hefur mér ekki að fullu leyti orðið að þeirri ósk minni, að erindi þingflokks SF og ræða mín yrði til þess að hér kynnu að spinnast á Alþ. íslendinga gagnlegar, fróðlegar og skynsamlegar umr. um efnahagsmál. Er þetta sjálfsagt enn eitt dæmið um skort minn á þingreynslu og hroka. En ég má til með að byrja samt sem áður á því að þakka þá landsföðurlegu mildi, sem einkenndi alla ræðu hæstv. fyrrv. forsrh. svo mjög, að það hvarflaði stundum að mér að hann hefði á vissum stöðum í ræðunni jafnvel gleymt því, að það hefðu farið fram stjórnarskipti, svo landsföðurleg var sú meðhöndlun sem skólameistarinn fékk í ræðunni.

Ég var spurður og hæstv. viðskrh. efaðist ekki um, að ég mundi svara því á stundinni: Hvenær er heppilegt, að stjórnmálamenn segi satt og hvenær ekki? Það er rétt, svarið við þessu er einfalt. Stjórnmálamenn eiga alltaf að segja satt, Það fer eftir aðstæðum, hvenær þeir meta það svo, þegar þeir gegna einhverjum tilteknum embættum, hvenær sé hyggilegt að þeir láti stundum satt kyrrt liggja.

Gagnrýni mín á úreltar og skammsýnar hagstjórnaraðferðir vinstri stjórnarinnar beindist m.a. mjög að því, að ábyrgir valdhafar stjórnarinnar brugðust þeirri skyldu sinni að segja satt nógu snemma. En það hljóta allir menn að skilja við nána umhugsun, að á þessu tvennu er mikill munur, og þykir gjarnan virðingarverðara að draga það ekki um of.

Fleyg voru eitt sinn þau ummæli hæstv. fyrrv. forsrh., sem hann viðhafði í kosningabaráttunni síðustu, þegar þá var spurt um hug hans og flokksmanna hans til áframhaldandi vinstra samstarfs, en þá mun hann hafa komist að orði eitthvað á þá leið, að slyngur spilamaður héldi spilunum jafnan upp að brjóstinu og sýndi ekki spil sín fyrir fram, það væri ekki hygginna manna háttur. Þess vegna varð mér óneitanlega mjög skemmt, vegna þess að fyrri hluti ræðu hæstv. ráðh. snerist mjög um það, að nú hefði mér hugsanlega orðið á í spilamennskunni, ég hefði nefnilega sýnt spilin, ég hefði sagt nokkurn veginn allan hug minn um það, hvernig ég met ástand efnahagsmála. Samkv. spilamennskuformúlu er það væntanlega ekki hyggilegt. Og ég skal taka það fram, að hvort sem sumir menn telja þetta til afglapa, þá var það auðvitað að yfirveguðu ráði af minni hálfu, því að til þessara spurninga um pólitíska spilamennsku hef ég alveg ótvíræða afstöðu. Hún er sú, sem vikið var að og er svar við spurningunni til hæstv. ráðh. áðan: Stjórnmálamenn eiga að segja satt og þeir eiga ekki að leyna þjóð sína neinu. Þeir þurfa ekki á því að halda. Þó að það kunni að hafa þótt hyggindi til skamms tíma að fara með blekkingar, þá mun það ásannast fyrr en varir, að það er einmitt skammsýni. Og það er satt að segja ekki spurning um einhverjar siðferðilegar vangaveltur manna, heldur er þetta einn mjög veigamikill þáttur í pólitísku uppeldi íslendinga og pólitísku viðhorfi stjórnmálaforingja, að viðhorf spilamennskunnar eru þar allt of ríkjandi.

Hæstv. viðskrh. vildi leggja á það mikla áherslu, að með málflutningi okkar hefðum við sýnt fram á, að við værum sammála ríkisstj. Þetta þarfnast dálítið athugunar við. Við höfum skriflega lagt fram mat okkar á ástandi efnahagsmála, og þá er að spyrja: Á hverju byggjum við það? Við byggjum það á þeim upplýsingum um ástand efnahagsmála, sem hverjum almennum borgara á Íslandi er tiltækt að afla sér og kynna sér. Það er byggt á öllum þeim upplýsingum, sem liggja fyrir opinberlega, án þess að við hefðum haft nokkurn aðgang að þeim sérstöku viðbótarupplýsingum um ástandið á allra seinustu vikum, sem ríkisstj. einni eru innan handar. Svo er annað mál, að ef upplýsingarnar, sem fyrir hendi eru, eru ábyggilegar og réttar, þá á það að vera svo, að í ástandi eins og nú er, ef menn á annað borð viðurkenna að í nútíma þjóðfélögum sé ekki einasta réttlætanlegt, heldur sjálfsagt að beita þeim hagstjórnaraðferðum, sem þau þjóðfélagsvísindi, sem ganga undir nafninu hagfræði, hafa komið upp á seinustu áratugum og hafa verið reyndar með öðrum þjóðum, þá er e.t.v. að vissu leyti tæknilega séð takmarkað svigrúm til ágreinings. Enda lagði ég á það áherslu, að vandamálið er ekki tæknilegs eðlis. Vandamálið er pólitísks eðlis. Þess vegna hef ég ekki tjáð mig um það enn, hvort ég verði sammála þeim úrræðum, sem ríkisstj. kann að grípa til, vegna þess að ég legg á það áherslu að úrræði ríkisstj. liggja ekki fyrir. Við kunnum að meta ástandið svipað, en eftir er að vita hvaða ályktanir ríkisstj. dregur af þessum ályktunum og til hvaða ráða hún grípur. Ég hygg að það sé óþarfi að leggja á það áherslu og það á að hafa komið nægilega skýrt fram í mínu máli, að um leið og ég rakti þau úrræði, sem ég taldi óhjákvæmilegt að grípa til við slíkar aðstæður, þá um leið skilyrti ég það að því er varðar pólitískar grundvallarstærðir, m.ö.o. að það yrði að skipta tapinu eftir efnum og ástæðum, ekkert síður en gróðanum á uppgangstímunum var misskipt eftir efnum og ástæðum. Það er kannske kjarni málsins. Ég bíð enn eftir því, að það hefur ekki komið fram í þessum umr., að fá hins vegar að vita, hvaða stefnu ríkisstj. tekur, hvaða úrræði hún birtir.

Sé það rétt, að ræða mín hér áðan hafi verið á köflum kannske harðorð gagnrýni á hagstjórnaraðferðir fyrrv. stjórnar, þá er enn eftir að láta á það reyna, hvort sú gagnrýni á kannske við um hagstjórnaraðferðir núv. stjórnar, því að það er einmitt mjög athyglisvert, að þrátt fyrir það að þessi ríkisstj. var mynduð í ágúst á s.l. sumri, þá er það raunverulega ekki komið á daginn hvort þessi ríkisstj. hefur lært eitthvað af mistökum fyrri ríkisstj. í glímunni við hagsveifluvandamál íslendinga, hvort hún ætlar, þegar lítið er fram hjá skammtímaráðstöfunum, sem eiga að bjarga okkur í svipinn, að móta einhverja herstjórnarlist í stjórn efnahagsmála, sem er í einhverju samræmi við þekkingu nútímamanna á slíkum hlutum.

Málsvörn hæstv. viðskrh. fyrir vinstri stjórnina, þ.e.a.s. hennar hagstjórnaraðferðir, var að vísu til mikilla muna þekkilegri og íhugulli að mínu mati heldur en fram kom í ræðu hæstv. fyrrv. sjútvrh. En engu að síður var hún meira að segja dálítið skemmtileg á köflum, sem er mjög lofsvert, því að það er mjög mikils um það vert að stjórnmálamenn reyni að ræða efnahagsmál íslendinga með þeim hætti að þau verði ekki svo leiðinleg, að þjóðin hætti að leggja við hlustirnar. En ef sú málsvörn væri grandskoðuð nokkru nánar, þá held ég samt sem áður að meginatriði þeirrar gagnrýni, sem að henni hefur verið beint og m.a. kom fram í minni ræðu, hafi ekki verið svarað. Ég gleymdi ekki áhrifum eldgossins í Vestmannaeyjum og viðurkenndi sérstaklega, að það áfali hefði vafalaust kynt verulega undir verðbólguþenslu innanlands, átt sinn þátt í því að verðbólguþróunin innanlands varð meiri en nam innfluttri verðbólgu. Megingagnrýnin beindist að sjálfum hagstjórnaraðferðunum. Það er rétt, það var gerð tilraun til gengishækkunar, enda voru skilyrði fyrir því að reyna þá ráðstöfun. En um allar aðrar hliðarráðstafanir, sem jafnframt þurfti að beita, er því miður svo, að meira þurfti til.

Ég skal viðurkenna, að það er stundum svo sem ekki stórmannlegt að þykjast vera vitur eftir á. En ég get að vísu vitnað til þess, að á þeim tíma, á fyrri hluta árs 1973, lét ég í ljós þungar áhyggjur út af skorti á pólitískri herstjórnarlist og aðferðum vinstri stjórnarinnar í efnahagsmálum, mjög svo í þeim dúr sem ég gerði nú, þannig að það var ekki um að ræða gagnrýni sem fundin hafði verið upp eftir á. Svo að nefnt sé eitt atriði, það voru keyptir togarar. Og þetta er vafalaust ásamt með auðvitað landhelgismálinu það, sem allir fylgismenn vinstri stjórnarinnar og velunnarar munu segja, að muni halda nafni hennar á lofti. Nú er það svo, að ég veit ekki hvort bað er rétt af hæstv. ráðh. að metast um það hvor eigi þarna meiri heiður, vegna þess að kjarni málsins er þessi: Skipastóll íslendinga hafði verið látinn grotna niður um langt skeið. Síðan gerist það, að vinstri stjórnin er í grundvallaratriðum svo heppin, að hún nýtur geysilega hagstæðrar hagsveiflu. Hún er við völd á mjög svo hagstæðum tímum, líkt og gilti um viðreisnarstjórnina á ákveðnu tímaskeiði. Þetta þýddi það, að vinstri stjórnin hafði ósköp einfaldlega mjög gilda sjóði, hún hafði mikil fjárráð. Það var geysilega mikil fjármunamyndun í þjóðfélaginu. Að sjálfsögðu lá beint við að auka fjárfestingu í endurnýjun fiskiskipa, og að sjálfsögðu var við því að búast á slíkum tímum að fjárfesting væri ör. En menn mega ekki rugla því saman annars vegar, að sú ríkisstj. eða sá stjórnmálamaður, sem á slíkum uppgangstímum segir: Nú hef ég tækifæri til að kaupa mér minnisvarða, að láta reisa mér sem allra mestan og stærstan minnisvarða, með því að beita þeim fjármunum, sem upp í hendurnar koma, alveg aðhaldslaust og fyrirhyggjulaust, án tillits til annarra grundvallarþátta, sem hljóta að móta hagstjórnaraðferðir manna. Staðreynd er það, að þrátt fyrir að fjárfestingarstuðull hefur verið hár jafnaðarlega á Íslandi, þá er það svo að arðsemi fjárfestingar hefur verið allt of lág löngum og löngum. Og það er annað, sem gerist á efnahagsreikningi við að leggja í fjárfestingar og kaupa tæki, og hitt, að meta það á hverjum tíma miðað við efnahag fyrirtækis eða þjóðfélags, hversu miklum fjármunum er skynsamlegt að verja á þessum tíma við þessar aðstæður til þess að byggja upp framleiðslutæki og fjárfestingu.

Auðvitað er það ein af heilögum kúm í íslenskum stjórnmálaumræðum, að það má ekki orða það, að hugsanlegt væri að það hefði verið hyggilegt að fjárfesta í togaraflotanum á lengri tíma, alveg eins og það kemur fram hjá hæstv. sjútvrh., að um leið og sagt er: Það á á uppgangsárum að reyna að takmarka það, að uppsveiflan gangi í gegnum allt þjóðfélagið og kollvarpi því innan skamms, sem æskilegt er að hafa í góðu horfi, þá eru menn sakaðir um að þeir vilji lækka kaup verkamanna, vilji láta skera niður, eins og hér sé um eitthvert val að ræða. Auðvitað er ekki um val að ræða. Það er einfaldlega um ágreining að ræða um aðferðir, hvort eigi að láta allt vaða stjórnlaust á súðum, eins og frjálshyggjumandaríninn, hæstv. fyrrv. sjútvrh., hefur enn ítrekað að sé hans grundvallarstefna, eða hvort eigi að beita einhverjum hyggindum, skynsemi og skipulagshyggju í ætt við sósíalisma til þess að tryggja að kollsteypurnar verði ekki jafnörar, en árangurinn meiri, þegar til lengri tíma er litið.

Ég ætla að láta eins getið í sambandi við fjárfestingarmálin. Ég veit ekki, hvað menn hafa tekið mikið tillit til þess eða hlustað mikið á fiskifræðinga eða reynda sjómenn um það, hvert er líklegt ástand fiskstofna og hvaða magn við getum gert okkur vonir um að geta veitt. Auðvitað tengist Þetta útþenslu landhelgismálsins sjálfs og þeim árangri, sem við getum gert okkur vonir um að ná með því. En ef það er staðreynd, ef það er yfirvegað mat manna, að við séum í vaxandi mæli, miðað við sókn á íslensk mið, að lenda í rányrkju og tefla jafnvel framtíðinni í hættu vegna sírýrnandi fiskstofna, þá er það mál sem við þurfum að taka til gaumgæfilegrar íhugunar. Það er ekki nóg að segja á heldur yfirborðslegan máta: Ég hef reist mér minnismerki. — Það verður stundum að skyggnast dálítið dýpra.

Ég má til með að fá að víkja örfáum orðum að ræðu hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, en það þarf ekki að vera lengi. Ég vil rifja það upp, að í framsögu minni fór ég heldur viðurkenningarorðum um það, að hv. þm. nyti almennt viðurkenningar fyrir þá reynslu, sem hann hefur aflað sér, og þá hagnýtu þekkingu, sem hann hefur á málefnum sjávarútvegs og fiskiðnaðar. Þrátt fyrir ræðu hans hér áðan ætla ég að ítreka það, að ég hef ekki skipt um skoðun, þó að ég hafi ekki í annan tíma heyrt ræðu manns, sem hefur jafnlanga stjórnmálareynslu og hv. þm., þar sem hann tekur afstöðu til þeirra efnahagsvandamála, sem við erum hér að lýsa, sem er jafnfátækleg, yfirborðskennd og þröngsýn og ræða hans óneitanlega var. Hann vék sérstaklega að því, að hann hefði oft sætt gagnrýni hagfræðinga og ýmiss konar spekinga, sem ekki var nú hlýlega eða virðulega talað um, en látum það nú vera. Hann byggir á reynslu sinni, það er virðingarvert. Og hann vék sérstaklega að því, að ég mundi hafa litla reynslu af slíkum málum. Það er rétt. Reynsla mín til sjós t.d. var ekki nema eitt eða tvö sumur á togaraútgerð Lúðvíks Jósepssonar. En hún var þó þess eðlis, að ég sé ekki eftir henni og tel hana hagnýta. En reynsla mín að því er varðar stjórn efnahagsmála er líka takmörkuð. Hún byggist á því fyrst og fremst — og er dálítið skyld reynslu Lúðvíks Jósepssonar — að vera bæjarstjórnarmaður í bæjarfélagi vestur á fjörðum. Ég veit nákvæmlega af þeirri reynslu, að spurningarnar, sem hv. þm. var svo ósvífinn að bera upp á einfeldningslegan máta um það, að ég hefði í ræðu minni sýnt að ég tæki undir einhver íhaldsúrræði um að það bæri að lækka kaup, að það bæri að skera niður fjárfestingu, eru ekkert annað en ósvífin undanbrögð og þýða ekkert annað en að hv. þm. er að skjóta sér undan að ræða af skynsamlegu viti, sem ég vefengi ekki að hann hljóti að hafa til að bera, um vandamálin. Þetta er „billeg“ lausn. Mér er fullkomlega ljóst, að afleiðingarnar af þeirri óstjórn, sem átt hefur sér stað í íslensku þjóðfélagi, eru nú slíkar, að það er ekki vegna minna óska, heldur er það staðreynd, að það munu verða skornar niður fjárveitingar til verklegra framkvæmda um land allt. Og það er þegar staðreynd, að sveitarfélög um allt Ísland standa frammi fyrir því vegna þeirrar óðaverðbólgu, sem hefur afskræmt allt þjóðfélagið sem afleiðing af þessu, að geta ekki fyrirsjáanlega ráðið við þau verkefnt sem að var stefnt.

Ég vek athygli þingheims á því, að í þessum umr., sem snúast um skilning manna og skilgreiningu á mjög flóknum efnahagslegum vandamálum og þar sem raunverulega mætti ætlast til þess að menn tækju afstöðu til og gerðu grein fyrir ekki einasta ástandinu eins og það er og þá ekki aðeins að því er varðar útflutningsatvinnuvegi, heldur varðandi allar meginstærðir þjóðarbúskaparins, þá kemur hingað í ræðustól einhver reyndasti stjórnmálamaður á Íslandi, maður sem hefur um langt árabil haft meiri áhrif en sennilega nokkur annar á stjórn efnahagsmála, og hvað hefur maðurinn fram að færa? Hann segir tvennt: Mín pólitík er sú, að það á að lækka vexti, og mín pólitík er sú, að það á að hækka fiskverð.

Við skulum víkja að fyrra atriðinu. Hvað ern vextir? Vextir eru verð á peningum. Ef það á að lækka vextina, þá á að gera peninga ódýrari. Þm. lét þess getið, að það lægi opinberlega fyrir í skýrslum frá bankakerfinu, að verslunin skuldaði 9 milljarða kr. í bankakerfinu. Hvers vegna skuldar verslunin 9 milljarða í bankakerfinu? Vegna þess að það er verið að gefa henni af almannafé út úr bankakerfinu peninga. Það er verið að gefa versluninni fé, vegna þess að útlán bankakerfisins á vöxtum, sem eru ekki nema brot af raunverulegu verðgildi peninga, eru gjöf. Með þessum orðum sínum er Lúðvík Jósepsson –auðvitað óviljandi, því að hann gerir það ekki vitandi vits, — að gerast málsvari þess, að versluninni í landinu sé skenkt stórfé af almannafé. Og hann ætti manna gerst að vita frá hverjum það fé er tekið, sem er rekstrarfé í bönkum. Það er auðvitað hægt að greiða niður peninga, það er hægt að halda lágum vöxtum. En hverjir eiga að borga þann reikning? Ég er ekki að neita því, að það hafi verið til í dæminu til skamms tíma til þess að leysa brýnustu vandamál útflutningsatvinnuveganna að grípa til vaxtalækkana, ef við höfum einhvers staðar þá sjóði, ef það er málsvörn Lúðvíks Jósepssonar, að almenningur í landinu eigi að axla byrðarnar af óstjórninni með því að reiða fram sína sjóði í niðurgreiddum peningum til þess, sem þörf er á í atvinnurekstrinum. En það er afleiðingin af lágvaxtapólitík. Undir eðlilegum kringumstæðum ættu vextir að vera réttir. Ef þeir eru það ekki, þá er verið að taka peninga frá einhverjum öðrum. — Lágvaxtapólitíkin á Íslandi er búin að færa gífurlegar, ótrúlegar fjárhæðir frá almenningi í landinu, frá launþegunum í verkalýðshreyfingunni yfir til atvinnurekenda og oft á tíðum ekki endilega þeirra, þar sem það fé var best niður komið.

Það á að hækka fiskverð. Jú, hvernig ákvarðast fiskverð. Fiskurinn er ein helsta útflutningsafurð landsmanna og er einn meginþátturinn í vandamálinu, sem við erum að ræða um, að skyndilega hafa orðið snögg umskipti í viðskiptakjörum. Verðlag á erlendum mörkuðum hefur lækkað, þ.e.a.s. fiskverð hefur lækkað. En það á að hækka fiskverð. Það á ekki að fara eftir því, sem fáránlegir hlutir eins og hlutlæg markaðslögmál segja til um, — að sjálfsögðu ekki. Við eigum að stjórna að okkar eigin geðþótta. Hverjir eiga þá að borga niður fiskverðið? Það er spurningin, sem hv. þm. á eftir að gera grein fyrir. Sú fullyrðing, að það eigi að hækka fiskverð, er ekkert annað en fullyrðing um það, að einhverjir eigi að borga þetta hærra fiskverð. Það væri fróðlegt að fá að vita, hverjir eiga að borga það.

Lúðvík Jósepsson hélt því reyndar fram ranglega, að ég hefði fullyrt í ræðu minni, að á árinu 1973 hefði verið tekið út úr verðjöfnunarsjóði. Ég hélt því ekki fram. Ég var að halda því fram, að á því mikla uppgangsári, því einstæða uppgangsári, sem gekk þá yfir sjávarútveg og fiskiðnað, átti að gera meira að því að binda fé í verðjöfnunarsjóði, láta ekki með hækkuðu fiskverði þessa peninga ganga út í aðgerðir til þess að magna upp verðbólgu, vegna þess að það reyndist endanlega engum til góðs, hvorki útgerðarmönnum, sjómönnum, launþegum í landi né einum né neinum. Það var bara skammsýn, heimskuleg ráðstöfun.

Þegar samdrátturinn kemur, þá er spurningin: Hver á að borga? Kjarninn í allri viðleitni okkar til þess að mæta þeim miklu sveiflum, sem eru í eðli íslensks efnahagskerfis, er sá, að það á að taka upp á miklu fleiri sviðum verðjöfnunarsjóðspólitík, sem hér um ræðir, vegna þess að það á að losa okkur undan þeim hókus-pókus aðferðum, sem Lúðvík Jósepsson hefur gerst sérstakur talsmaður fyrir að eigi að grípa til alltaf þegar komið er í þrot, en það megi ekki gera neitt, sem ber keim af fyrirhyggju, viti, skynsemi og ég tala nú ekki um sósíalisma, þegar allt leikur í lyndi. Það væri reyndar mjög fróðlegt, þegar hv. þm. ber mér, sem flyt hér sjónarmið skipulagshyggju og viti borinnar stjórnar í efnahagsmálum, það á brýn að ég sé með þeim ummælum mínum, með þeim málflutningi sérstaklega að setja mig á bekk með íhaldsöflunum í landinu, alveg sérstaklega. Ég hefði gaman af að heyra einhvern tíma, hvaða hugmyndir hv. þm. hefur, hver er hans grundvallarstefna og hver eru hans lífsviðhorf yfirleitt. Það mætti stundum álykta, að hv. þm. Lúðvík Jósepsson væri fyrst og fremst talsmaður á Alþ. og talsmaður í ríkisstj. skammsýnustu brasksjónarmiðanna í þjóðarbúskap íslendinga. Ég minnist þess varla að hafa heyrt hv. þm. gerast talsmann raunverulegrar skipulagshyggju í efnahagsmálum.

Að lokum eitt atriði. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson vék sérstaklega að því, að eitthvað kynni það að vefjast fyrir okkur í SF að samræma sjónarmiðin, þar sem annars vegar kæmi fram jafnhörð gagnrýni af minni hálfu og hér um ræðir á hagstjórnaraðferðum vinstri stjórnarinnar og hins vegar sú staðreynd, að hv. þm. Magnús T. Ólafsson sat í þeirri ríkisstj. til enda. Það kynni að vera, að þetta væri mjög alvarlegt mál. Ég er alveg sannfærður um að við hv. þm. Magnús Torfi erum menn til þess að hafa vissan ágreining um mat á reynslu vinstri stjórnarinnar, og við gætum vafalaust rætt það báðum okkur til gagna og fróðleiks. Sá ágreiningur er ekki þess eðlis, að hv. þm. Magnús T. Ólafsson taki undir þau skammsýnu sjónarmið eða þau óskiljanlegu sjónarmið hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar að vísa með fyrirlitningu og hroka á bug þeim hagstjórnaraðferðum, sem helst má kenna við sjónarmið jafnaðarstefnu og hafa reyndar sett mark sitt á alla þróun, efnahagslega og þjóðfélagslega þróun Vesturlanda. Þar er ekki um ágreining að ræða á milli mín og hv. þm. Magnúsar T. Ólafssonar. En ég gæti trúað því, að sá ágreiningur væri öllu meiri milli mín og hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, enda þótt hann snúist að vísu ekki um skiljanlega hugmyndafræði.

Ég vil að lokum taka það fram, að að því er þetta varðar hef ég áður leyft mér að gagnrýna stefnu vinstri stjórnarinnar í efnahagsmálum. Ég hef oft leyft mér það að láta í ljós opinberlega skoðanir án þess að spyrja einhverja forustumenn flokka að því, hvort þeim líki það betur eða verr. Ég vil t.d. — með leyfi hæstv. forseta — vekja athygli á því, að á öndverðu ári 1973 túlkaði ég skoðanir mínar á þáverandi stöðu í efnahagsmálum og aðgerðum vinstri stjórnarinnar með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Endanlegur dómur um reynsluna af þessu stjórnarsamstarfi verður ekki kveðinn upp að sinni. En því er ekki að neita, að um of margt hafa stjórninni verið mislagðar hendur. Henni hefur reynst ósýnt um að hafa nokkra viti borna stjórn á þróun efnahagsmála. Afleiðingin er sú, að oft hefur orðið minna en efni stóðu til úr þeim réttarbótum almenningi til handa, sem tryggðar hafa verið með lagasetningu. Engin ástæða er til að efast um góðan vilja stjórnarinnar í garð launþega og verkalýðshreyfingar. En vegna skorts á raunsæi í efnahagsmálum og takmarkaðra stjórnmálahygginda hefur oft orðið að taka viljann fyrir verkið.“

Þessi ummæli þýða ekki af minni hálfu, að ég hafi snúist öndverður gegn vinstri stjórninni og hafi verið andstæðingur hennar frá upphafi. Þau tákna það, að ég áskildi mér rétt til þess að vara við því, að einmitt þetta stjórnleysi í efnahagsmálunum, sem aðrir bera ábyrgð á en ég, er hin raunverulega orsök þess, að þessi vinstri stjórn varð ekki langlífari í landinu en hún varð. Það hefði farið betur, að hún hefði í tæka tíð látið sér lærast af mistökum margra ríkisstjórna í landinu.

Ég tel að lokum, að það sé meginatriðið að meta hleypidómalaust reynsluna af glímu þessarar ríkisstj. sem annarra við þessi vandamál, vegna þess að eðli þeirra er mjög svipað. En það er ógæfusamlegt, þegar til lengri tíma er litið, ef menn ætla einfaldlega og fyrir fram að vísa á bug algerlega að nota þær aðferðir, sem einar duga til þess að jafna þessa sveiflu og tryggja þannig einhverja kjölfestu og einhvern varanlegan öruggan hagvöxt og lífskjarabætur í okkar þjóðfélagi.