06.02.1975
Sameinað þing: 39. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef nú ekki hugsað mér að framlengja þann málfund, sem hér hefur farið fram í tilefni af langri og ítarlegri ræðu hv. 5. þm. Vestf. Ég vildi þó ekki láta hjá líða að vekja athygli á einu alveg ákveðnu atriði í öllum hans málflutningi, þar sem gætir reyndar í mínum augum — ég veit ekki hvort svo er í annarra augum — ákaflega mikils misræmis. Þetta atriði er reyndar með þeim hætti, að það er ákaflega auðkennandi fyrir hans röksemdafærslu í heild.

Hann fer um það hér ákveðnum orðum vegna þess, sem hv. 2. þm. Austf., Lúðvík Jósepsson, hafði sagt, að nú þyrfti að hækka fiskverð, — þá fer hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson um það þeim orðum, hvort menn ætli þá ekkert tillit að taka til markaðslögmálanna. Hafa menn ekki heyrt það, spyr hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, að okkar fiskur hefur lækkað í verði á mörkuðunum, og virðist furða sig á því, að svo sé hér fólk að tala um hækkað fiskverð, eins og það vilji ekkert gera með sjálf markaðslögmálin. Ef það hefði bara verið þetta eitt, þá hefði ég ekki látið það verða til þess að biðja hér um orðið. En það var fleira, sem þessi hv. þm. sagði. Hann talaði nefnilega líka um ákvörðun fiskverðs og hvernig henni hefði verið háttað á árinu 1973. Þá var fiskverðið hér innanlands hækkað allt of mikið að hans dómi, og það var ein höfuðsök vinstri stjórnarinnar og það sem hafði skapað hvað mestan vanda, jafnvel réð úrslitum um það efnahagsöngþveiti, sem hér ríkir í dag.

Var það í samræmi við markaðslögmálin þá, að fiskverð hér innanlands var hækkað? Er það ekki öllum hv. alþm. kunnugt og einnig hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni, að á okkar mörkuðum fór fiskverð mjög hækkandi og það mjög verulega á árinu 1973. Og ég spyr: Ef það var algerlega rangt að láta fiskverð til sjómanna og útgerðarmanna fylgja markaðsverðinu til hækkunar þá, hvers vegna á þá endilega að fara eftir markaðslögmálunum núna, þegar fiskur á útflutningsmörkuðunum fer lækkandi?

Það er fiskverðið, sem ræður úrslitum og segir í raun og veru eitt til um kjör íslenskrar sjómannastéttar. Samkv. þeim málflutningi, sem hv. 5. þm. Vestf. hafði hér uppi áðan, virðist þetta eiga að ganga þannig til, að markaðslögmálin eiga að gilda, þegar fiskverð á mörkuðunum fer lækkandi. Þá verður að taka tillit til þeirra fyrst og fremst og alls ekki hækka laun sjómanna. En þegar fiskverðið á mörkuðunum fer hækkandi, þá má það ekki koma fram í bættum kjörum sjómanna. Þetta er reyndar hagfræði, sem við könnumst ósköp vel við. Þetta er í samræmi við þá stefnu, sem viss stjórnmálaflokkur hér á Íslandi, Sjálfstfl., hefur gjarnan haldið uppi í sínum viðskiptum við verkafólk í landinu og sjómenn þ. á m. Sú stefna hefur verið á þá leið og jafnan komið fram í verki, að þegar okkar þjóðartekjur hafa farið hækkandi þá hefur kaupmáttur eða raungildi tekna verkafólks og þ. á m. sjómanna ekki mátt hækka í samræmi við það. Ég nefni viðreisnarárin og minni á dæmi, sem ég hygg að flestum alþm. sé kunnugt og ekki verður vefengt. Á árunum 1959–1970 hækkuðu þjóðartekjur okkar samkv. opinberum skýrslum að raungildi og föstu verðlagi um 43% á mann, en kaupmáttur samningsbundins dagvinnutímakaups verkamanna hækkaði á sama tíma ekki nema um 15% eða rétt rúman þriðjung. Nú er það hins vegar stefna Sjálfstfl. í dag, að kaupmátturinn, m.a. hjá þeim lægstlaunuðu og ég tala nú ekki um hjá sjómönnum, sem kannske hafa farið verst út úr ráðstöfunum núv. ríkisstj., þá skal kaupmátturinn lækka, ekki aðeins um það sem nemur lækkuðum þjóðartekjum. Hingað til hefur því verið spáð, að þær mundu lækka á þessu ári um 1%. Hæstv. forsrh. kom hér fram með nýja spá áðan, og kann að vera að hún sé raunsærri. Þar var talað um 3–4%. En það er langtum meira, sem kaupmátturinn bæði hjá verkafólki og sjómönnum hefur hins vegar verið lækkaður nú. Ég vil vekja sérstaka athygli á þessu.

Þeir, sem tala máli Sjálfstfl., bæði nú og áður, hafa í málflutningi sínum haft uppi í raun og veru ákaflega líkar röksemdir og þær, sem komu hér fram í máli hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar. Þess varð aldrei vart í málflutningi hans, að hann gerði sér þess grein að hér er um stéttskipt þjóðfélag að ræða sem við búum í. Það kann að vera að þau vísindi, sem hv. þm. talar um með mikilli virðingu, nútíma hagfræðivísindi, fell í sér nokkurt brot af sannleika. En það skiptir miklu máli, í hverra þágu þeirri þekkingu er beitt. Hv. þm. talar um herstjórnarlist í samræmi við þekkingu nútímamanna á slíkum hlutum. En ég vil nota tækifærið til að minna hann á það, sem ég held, að hann hafi einu sinni kunnað, og það er að herstjórnarlist verkalýðshreyfingarinnar er eitt og herstjórnarlist stéttar andstæðinga hennar annað.