06.02.1975
Sameinað þing: 39. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég heiti því fyrir fram, að þetta skal vera mjög stutt. — Þegar notað er orðið markaðslögmál í sambandi við verðlagsþróun á erlendum mörkuðum er rétt að taka fram eða skýra það, úr því að um er beðið eða fram á það er farið, hvað við er átt.

Við sem þjóð, við sem útflytjendur ráðum ekki verðlagi á erlendum mörkuðum. Við eigum það undir markaðslögmálum. Það er nákvæmlega það, sem ég átti við, þegar ég vísaði til markaðslögmála. Við ráðum ekki verðlagi og verðlagsþróun fyrir fiskafurðir á erlendum mörkuðum. Við getum hins vegar ráðið því, hvaða ákvörðun við tökum um fiskverð. Ég hef verið borinn hér þungum sökum, og ég veit svo sem ósköp vel, til hvers refirnir eru skornir. Ég er borinn þungum sökum af útúrsnúningameisturum Alþb. í þessu máli, sem enn einu sinni hafa sannað að þeir vilja ekki vera viðræðuhæfir um efnahagsmál. Ég er borinn þeim sökum, að ég sé að halda því fram, það sé minn málflutningur, að það eigi að lækka fiskverð, það eigi að halda fiskverði lágu. Nú vil ég taka þetta til athugunar.

Ég sagði: Á árunum 1973 átti að beita ýmsum ráðstöfunum til þess að halda verðhækkunum og ýmsum öðrum hagstærðum í skefjum. Var ég að gera þetta vegna þess, að ég vildi hafa kaup af sjómönnum? Ég ætla bara að biðja menn að íhuga, að ef öll tekjumyndunin í sjávarútveginum, ef auknar tekjur af hækkuðu fiskverði og auknum afla í sjávarútveginum breiðist út um allt hagkerfið, eins og gerðist, þá þýðir það að tekjumyndunin heldur áfram með keðjuverkandi áhrifum, og þannig er raunverulega lýsingin á hagsveiflunni. Útflutningsverðshækkun leyfir hækkað fiskverð, ég tala nú ekki um, ef aflaaukning fer saman. Þetta þýðir batnandi viðskiptakjör. Þetta þýðir auknar þjóðartekjur. Þetta þýðir aukið fé til ráðstöfunar. Þetta þýðir, að aðrar stéttir koma í kjölfarið með auknum tekjum, þangað til málið er komið hringinn og svo er komið, að við fyrstu viðbrögð til hins neikvæða hjá sjávarútvegi og fiskiðnaði verður hann að standa undir raunverulegu kaupmáttarstigi og neyslustigi, sem hann fær ekki undir risið, en er síðan haldið áfram að halda uppi þrátt fyrir þá staðreynd, að sjávarútvegurinn, fiskiðnaðurinn og útflutningurinn standa ekki undir því.

Það, sem ég er að segja, og það, sem hver einasti maður, sem í fyrsta lagi tekur eitthvert tillit til margrómaðra hagstjórnaraðferða, ég tala nú ekki um hver einasti maður sem hefði einhverja nasasjón af sósíalískum áætlunarbúskap, ályktar út frá þessu, er þetta: Verðjöfnunarsjóðurinn hefur því hlutverki að gegna að jafna verðsveifluna. Það þýðir, að með því að hafa hækkun fiskverðs takmarkaða á góða árinu er verið að koma í veg fyrir, að fiskverðið hrynji á slæma árinn. Það er verið að mynda sjóð. Það er tekið af einni stétt manna, það er rétt, til þess að tryggja það, að hún fari ekki algerlega á vonarvöl, að hún lendi ekki í algeru hruni lífskjara, þegar hagsveiflan snýst niður á við: Mér er spurn: Hv. viðskrh. og sjútvrh. sá til þess, að fiskverð var ekki skert, ekki var af sjómönnum tekið, — hann Lúðvík tekur ekki af sjómönnum, nei, því var haldið háu, en hvað gerðist svo? Jú hin stjórnlausa frjálsræðishagsveifla, sem Lúðvík Jósepsson ber ábyrgð á, gekk sinn gang. Og hvernig er komið kjörum sjómanna nú? Ætli sjómenn á Íslandi viti það ekki gerst sjálfir? Eru þeir ánægðir með það, hvað þeir hafa í hlut nú? Hvað er orðið af góðu afkomunni hjá fiskiðnaðinum, sem var árið 1973? Hvað er orðið af öllum arðinum, sem fiskiðnaðarfyrirtækin skiluðu? Hvað er orðið af hinum háu tekjum sjómanna? Þeir tala alltaf um það, þessir góðu herrar, vegna þess að þetta var þarna og þá eigi það að vera þarna enn þá. En þeir átta sig ekki á því, vegna þess að þeir skilja ekki, að það er breytingin, sjálfur breytingaferillinn, sem skiptir máli. Hvernig sem ástandið var þá, er það staðreynd núna og um það ástand erum við að tala, að allt er komið í óefni í íslenskum efnahagsmálum, vegna þess að valdamiklir menn hafa af þröngsýni neitað að beita þeim aðferðum einum, sem duga, og eru svo ósvífnir ofan í kaupið að bera aðra menn sökum um það, að þeir vilji kauprán, að þeir vilji lífskjaraskerðingu, að þeir vilji ræna sjómenn. Heyr á endemi! Hvílík röksemdafærsla!