14.11.1974
Efri deild: 7. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

42. mál, farmiðagjald og söluskattur

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem ég hef leyft mér að bera fram, hef ég samið ásamt Vilhjálmi Sigurbjörnssyni alþm. og er frv. tvíþætt. Í fyrsta lagi fjallar það um afnám söluskatts á flugferðum innanlands og í öðru lagi álagningu farmiðagjalds. Söluskattur er aðaltekjustofn ríkisins. Með honum er stefnt að því að skattleggja neyslu og ýmsa þjónustu, m.a. flugfargjöld í innanlandsflugi.

Eitt meginatriði tekjuöflunarkerfisins er jöfnuður, þ.e. að allir, sem eins eru settir og búa við sömu aðstæður, greiði sambærilega skatta. Þessi meginstoð gjaldþolstefnu í skattlagningu, að skattþegnar með sama gjaldþol greiði sömu skatta og mismunandi gjaldþol eigi að leiða til mismunandi skatta, hefur mikla þýðingu og hana má því ekki vanrækja.

Það er mikil hætta því samfara að skipta um tekjuöflunarkerfi. Sú stefna hefur verið mörkuð fyrir mörgum árum, að óbeinu skattarnir skuli auknir, og var þá farið yfir á nýjar brautir með álagningu söluskatts. Við breytingu á kerfi hefur skattjafnaðarsjónarmiðið raskast á nokkrum sviðum og ójöfnuðurinn vex eftir því sem meiri áhersla er lögð á viðkomandi tekjustofn.

Flugferðir innanlands byggjast að mjög miklu leyti á ferðum milli Reykjavíkur og hinna ýmsu byggða landsins. Reykjavík er aðalþjónustumiðstöð landsins og þeir íbúar landsbyggðarinnar, sem þurfa á þessari þjónustu að halda, verða að leggja í þann aukakostnað sem ferðalaginu eru samfara. Með því að leggja söluskatt á flugferðir í innanlandsflugi er meginstoð tekjuöflunarkerfisins, jöfnuður, brotin.

Ég sagði áður að meginatriði tekjuöflunarkerfisins væri jöfnuður, þ.e. að allir sem eins eru settir og búa við sömu aðstæður, greiði sambærilega skatta. Ferðakostnaður þeirra, sem þurfa að sækja ýmsa þjónustu til Reykjavíkur, er mikil byrði á íbúum landsbyggðarinnar og skapar mikinn aðstöðumun. Með því að leggja söluskatt á flugfarmiða í innanlandsflugi er þessi aðstöðumunur hreinlega skattlagður því meira sem fjarlægðin vex. Þannig greiðir farþegi frá Egilsstöðum 1236 kr. í söluskatt, frá Norðfirði 1290 kr., frá Höfn í Hornafirði 1096 kr., frá Vestmannaeyjum 592 kr. og frá Akureyri 910 kr. í söluskatt fyrir eina heimsókn til höfuðstaðarins. Á þessu má sjá að ein aðalstoð tekjuöflunarkerfisins, jöfnuður, er ótvírætt brotin.

Samkvæmt upplýsingum Flugfélags Íslands var farþegafjöldi og álagður söluskattur á áætlunarleiðum innanlands sem hér segir: 1972 var farþegaþegafjöldi 192246 og söluskattur 19 millj., 1973 183287, söluskattur 31.1 millj., 1974 farþegafjöldi 201650 eða 52 millj. og 900 þús. og 1975 farþegafjöldi áætlaður 217800 og gefur í söluskatt 75 millj. 500 þús. Tölur liggja ekki fyrir um farþegaflutninga smærri flugvéla, en varla er þar um umtalsverðar söluskattsgreiðslur að ræða. Virðist því mega áætla tekjutap ríkissjóðs á árinu 1975 af niðurfellingu söluskatts af farþegaflutningum innanlands ca. 80 millj. kr.

Mér er hins vegar ljóst að ríkið þarf á tekjustofnum að halda og ekki er vænlegt til árangurs í ríkisfjármálum að koma aðeins með till. um lækkun tekna og hækkun ríkisútgjalda. Frv. gerir ráð fyrir að leggja á farmiðagjald og skal gjald þetta vera 250 kr. á hvern seldan farmiða innanlands, en 500 kr. á farseðli landa í milli. Með þessu gjaldi er stefnt að meiri jöfnuði í skattlagningu og skv. 2. gr. frv. skal þessu fé ráðstafað til byggingar á flugvöllum innanlands og öryggisvalla fyrir millilandaflug.

Flugsamgöngur verða með hverju ári mikilvægari þáttur í samgöngumálum landsmanna. Skortur flugvalla með þeim öryggisbúnaði, sem krefjast verður, hefur löngum verið þróun flugsamgangna verulegur hemill. En bygging góðra flugvalla er dýr og öryggisbúnaður og frágangur hans kostnaðarsamur. Fjárveitingar til flugmála hafa löngum verið af skornum skammti og í litlu samræmi við brýna þörf úrbóta í þessum málum öllum. Gildir hér jafnt bygging stórra flugvalla í hinum einstöku byggðarlögum og smærri flugvalla sem tryggja flug milli þeirra og aðalflugvallanna.

Með þessu frv. er leitast við að afla fjármagns til stærri átaka í þessum málum. Verður það vart gert með öðru móti en að finna nýjan tekjustofn sem félli óskiptur til flugmála auk þess fjármagns, sem þeim er ætlað hverju sinni á fjárlögum, og lántöku til stærri verkefna. Þessari skattlagningu verður þó að stilla svo í hóf að hún spili ekki samkeppnisaðstöðu flugfélaganna og annarra, sem að þessum málum vinna. Má geta þess að í fjárlfrv. 1975 er gert ráð fyrir að lagðar verði til byggingar flugvalla í landinu og flugöryggismála 184 millj. kr. Til Reykjavíkur skal varið 30 millj., til Súgandafjarðar 5 millj., Sauðárkróks 39.5 millj., Egilsstaða 30 millj., Hornafjarðar 9 millj., Vestmannaeyja 15 millj., sjúkraflugvalla 12 millj., fjarlægðarmælitækja fyrir fjölstefnuvita 10 millj., tækjabúnaðar flugvalla 20 millj., mælitækja og búnaðar radíóverkstæða 1.5 millj. og óráðstafað 12 millj. Ég get nefnt í þessu sambandi að í því kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir, vantar betri aðstöðu á hverjum einasta flugvelli, sem almennt er flugfært á, og gæti ég trúað því að svo væri í öðrum kjördæmum, og eins má geta þess að nauðsynlega vantar öryggisflugvöll fyrir millilandaflug og úrbætur í þessum málum koma ekki nema frekari fjárframlög komi til.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að flugmiðagjald á alla farmiða í innanlandsflugi verði 250 kr. og landa í milli 500 kr. Það liggja ekki fyrir nákvæmar tölur um fjölda farþega með áætlunarvélum og í leiguflugi, en í Árbók flugmálastjórnar 1973 eru flugfarþegar í innanlandsflugi taldir 183287. Áætlað er að fjöldi farþega Flugfélags Íslands verði á yfirstandandi ári 217800. Samkvæmt þessum upplýsingum og áætluðu flugi annarra flugfélaga innanlands þykir mega áætla tekjur af flugmiðagjaldi í innanlandsflugi 60 millj. kr. Samkvæmt skýrslu flugmálastjórnar voru farþegar í millilandaflugi 162192 á árinu 1973, en þar eru áningarfarþegar ekki meðtaldir. Samkvæmt þessu virðist mega áætla farþegafjölda 1975 um 200 þús. sem gæfu 100 millj. kr. í tekjur. Farmiðagjald 1975 yrði því samtals 160 millj. kr.

Með því að veita 160 millj. kr. viðbótarfjármagni til flugvallagerðar á árinn 1975 mundi skipta sköpum í flugmálum. Með því yrði unnt að hefja nýtt átak í þessum mikilvæga þætti samgöngumálanna. Í mínum huga er hér um mjög arðbæra fjárfestingu að ræða sem mundi stórbæta samgöngumál margra byggðarlaga og skapaði aukin tengsl meðal þjóðarinnar.

Ég vil að lokum geta þess að kostnaður við innheimtu þessa gjalds verður ekki umtalsverður. Í því sambandi vil ég einnig nefna að talning farþega í millilandaflugi fer ætíð fram, þannig að nauðsynlegt eftirlitskerfi er þegar fyrir hendi.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. vil ég æskja þess að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.