10.02.1975
Neðri deild: 40. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1606 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

84. mál, útvarpslög

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja mjög þessar umr. Þær eru orðnar vel langar til viðbótar við næturfund hér fyrir jólin. En þar eð ég átti hlut að máli við afgreiðslu meiri hl. menntmn., tel ég rétt að ég skýri sjónarmið mitt í því sambandi út af orðum hv. 5. landsk., Kjartans Ólafssonar.

Það var rétt, sem hv. þm. sagði, að fundurinn var óeðlilega stuttur. Ég hefði gjarnan viljað ræða þetta í betra tómi í menntmn., enda þótt ég ímyndi mér ekki, að lengri umr. hefðu breytt niðurstöðu fundarins. Formaður n., hv. 1. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, var fjarverandi, en mér er ekki kunnugt um að hann hafi óskað þess fyrir brottför sína, að afgreiðslu málsins yrði frestað, og það kom fram í máli hæstv. menntmrh. hér í Nd. fyrir helgina, að hann fór þess á leit að þessu máli yrði hraðað, og því var varaformanni n. falið að kalla saman n., sem ég held að hljóti að teljast í alla staði eðlileg og þingræðisleg aðferð.

Hvað varðar till. minni hl. um umsögn útvarpsstjóra um málið, sem kom fram á fundinum, þá vil ég segja það sem mína skoðun, að ég tel að útvarpsstjóri sé of skyldur og náinn aðili í þessu máli til að hann gæti talist eðlilegur og hlutlægur umsagnaraðili. Með það viðhorf í huga fannst okkur ekki ástæða til þess að seinka málinu með því að leita umsagnar utan Alþ. Og ég tek undir orð hæstv. menntmrh., sem hann viðhafði um þetta atriði í umr. hér s.l. viku.

Ég endurtek það sem ég sagði fyrir jólin á fundi í hv. Nd., að ég harma að lagabreyting eða frv. til slíkrar lagabreytingar skuli nú koma fram, en eins og margoft er af ýmsum þm. búið að taka fram er það að gefnu tilefni, því miður. Útvarpslögin frá 1971, sem voru vissulega heiðarleg tilraun í rétta átt hafa mistekist svo að ekki verður um villst. Ég er ekki þar með að segja, að við eigum að útiloka pólitík úr útvarpinu. Pólitík er hluti þjóðlífsins og verður að fá inni í okkar ríkisfjölmiðli, Ríkisútvarpinu. En ég tel að óhlutdrægni og jafnvægis hafi ekki verið gætt undir forustu meiri hl. útvarpsráðs, eins og það er skipað í dag. Það hefur margt verið vel gert í dagskrá meðan þetta útvarpsráð hefur setið að völdum, en að mínu mati og ótalmargra fleiri hefur það mótast um of af pólitískri þráhyggju og þröngsýni, sem er í senn hvimleitt fyrirbæri og hættulegt frjálsri skoðanamyndun í landinu.

Það er óumdeilanlegt, að Ríkisútvarpið hefur undanfarin 3 ár verið vettvangur pólitísks áróðurs, enda vitað mál, að margt af því fólki, sem þar á hlut að máli, er þeirrar skoðunar að tilgangurinn helgi meðalið til þess að koma fram pólitískum áróðursáformum. Ég vil eindregið taka undir þá skoðun, að Ríkisútvarpið eigi að vera sem allra sjálfstæðast og óháðast ríkjandi stjórnmálaflokkum og það er ákaflega langt því frá að ég sé ánægð með þessa skipan mála, að útvarpsráð sé kosið af Alþ. pólitískri hlutfallskosningu. Ákaflega miklu geðfelldara væri og menningarlegra, að í útvarpsráð veldust menn án tillits til pólitískra skoðana, sem gættu þeirrar menningarlegu víðsýni og þroska sem við hljótum að krefjast af mönnum í slíkri ábyrgðarstöðu sem fulltrúi í útvarpsráði óneitanlega er. En við höfum ekki enn, því miður, fundið aðra skárri leið en þessa, — ég skal manna fúsust verða til þess að ganga inn á aðra leið, jákvæðari og menningarlegri en þessi er, en á meðan svo er ekki og þessi háttur er á hafður vil ég enn leggja áherslu á, að stjórnmálaflokkarnir hver um sig vandi sérstaklega val sitt á fulltrúum sínum í útvarpsráð og láti ekki pólitíska hagsmuni koma til greina við það val. Í útvarpsráð þurfa, eins og ég sagði, að veljast menntaðir, frjálshuga og víðsýnir menn, sem eru ekki haldnir neinni pólitískri áráttu, hvorki til hægri né vinstri, menn, sem ekki sjá alla skapaða hluti gegnum pólitísk gleraugu eftir forskrift frá flokksforustu eða hundleiðinlegum og úreltum pólitískum kreddum.

Ég er, eins og fram hefur komið, samþykk þessari lagabreytingu nú, vegna þess að meiri hl. núv. útvarpsráðs hefur því miður gefið tilefni til þess að gripið sé til þessa ráðs. Og ég vil í tilefni af orðum hv. 3. landsk. taka það fram, að ég dreg enga dul á það, að sú afstaða mín byggist ekki á því að ég telji ekki hina aðferðina og hin lögin, sem gilda í dag, skemmtilegri og geðfelldari, heldur hitt, að sá háttur, sem nú hefur verið á hafður s.l. 3 ár, hefur leitt til pólitískrar misnotkunar. Ég tel að það sé nauðsynlegt, að menn í útvarpsráði viti, að þeim verður ekki liðið, hvorki af stjórnvöldum né þjóðinni sjálfri, að misnota þennan volduga ríkisfjölmiðil í pólitískum tilgangi, svo að ég lít á þessa lagabreyt. nú, ef að lögum verður, sem beina viðvörun til eftirmanna þess útvarpsráðs sem nú situr. Ég skal ekki segja, hvort þessi vinnubrögð meiri hl. núv. útvarpsráðs eru til komin af ráðnum hug eða vanhæfni þessara manna til að meta hvar draga skuli mörkin. En hvort tveggja er illt og getur haft skaðleg áhrif. Með illu skal illt út reka, segir gamall málsháttur, og ég vil leggja áherslu á, að ég tel það ekki girnilega lífsreglu til eftirbreytni. En þeir menn, sem nú ásaka aðra um ofstæki, öfgar og ofríki, gera ekki annað en að hitta hér sig sjálfa fyrir.

Varðandi brtt., sem minni hl. menntmn. lagði hér fram, vil ég segja það að ég tel eðlilega fyrstu setninguna, að enginn fastur starfsmaður Ríkisútvarpsins skuli kjörgengur í útvarpsráð. Það tel ég eðlilegt og ég mundi vilja styðja þann hluta brtt. En hitt, að meina öllu fólki, sem kemur nálægt fjölmiðlum, kjörgengi í útvarpsráð, tel ég ekki ná nokkurri átt.

Ég vil að lokum láta í ljós þá ósk mína og von, að næsta útvarpsráð, hvernig sem það verður skipað, beri gæfu til farsællar og menningarlegrar samvinnu, okkur hlustendum, hvar sem við stöndum í pólitískum flokki, til ánægju og andlegrar uppbyggingar.