10.02.1975
Neðri deild: 40. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

84. mál, útvarpslög

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég hef áður á stuttum þingferli lýst þeirri skoðun minni, að upplýst almenningsálit sé einn helsti burðarás lýðræðislegra stjórnarhátta. Ástæða er til að vekja athygli á því, að eftir því sem okkar þjóðfélag gerist flóknara, eftir því sem öllum almenningi gengur kannske verr að skilja samhengi í öllum þeim urmul upplýsinga, öllum þeim urmul mismunandi skoðana og sjónarmiða sem fram koma á ýmsum þáttum þjóðlífsins, þá skiptir meira máli að fjölmiðlar gegni því meginhlutverki sínu að stuðla að því að almenningsálit í landinu geti myndast á grundvelli haldgóðra upplýsinga og hleypidómalausra umr.

Félagsfræðingum samtímans hefur orðið þetta vandamál æ meira íhugunar- og rannsóknarefni á seinustu árum og áratugum. Það er t.d. ástæða til að benda á það, að stjórnmálamönnum sem hópi manna er að því gífurlegt aðhald og nauðsynlegt að fjölmiðlar gegni því hlutverki sínu að leggja á þá mat, eftir því sem tök eru á, út frá sem hlutlægustum mælikvörðum, að þrengstu sjónarmið stjórnmálamanna, að flokkshagsmunir stjórnmálamanna, áróðurssjónarmið stjórnmálaflokka verði ekki þau sjónarmið sem látin verði ríkja í almennri þjóðmálaumr., eins og hún fer fram í fjölmiðlum.

Það er ástæða til þess að vekja athygli á því, að það er illa komið fyrir þeirri þjóð sem af einhverjum ástæðum á ekki greiðan aðgang að óhindraðri og hleypidómalausri umr. um málefni líðandi stundar. Það er hætt við því að slíkri þjóð nýtist illa liðin reynsla, ef hún getur ekki lagt á hana mat, við skulum segja á ágreiningsefni samtímans, hvort sem það er á vettvangi stjórnmála eða menningarmála, ef hlutverk fjölmiðla er það fyrst og fremst að viðhalda einhverjum tilteknum áróðurssjónarmiðum eða goðsögnum eða hindra fólk, sem af einhverjum ástæðum hefur myndað sér sérstakar skoðanir sem kannske eiga ekki upp á pallborðið hjá valdhöfum, í því að koma þeim sjónarmiðum sínum á framfæri. Sumir vilja ætla svokölluðum menntamönnum sérstakt hlutverk í þessum efnum, þ.e.a.s. þeir eigi kannske öðrum fremur að gegna því hlutverki að vera ekki bundnir á einhverja tiltekna hagsmunaklafa og eigi kannske menntunar sinnar vegna að einhverju leyti sérstöku hlutverki að gegna við að taka til gagnrýninnar meðferðar vandamál líðandi stundar. Þess vegna skiptir það miklu máli fyrir almennt menningarstig einnar þjóðar að sem minnstar hömlur séu lagðar á frjáls skoðanaskipti og frjálsa skoðanamyndun í fjölmiðlum. Einkum og sér í lagi skiptir það kannske máli, ef sú kenning styðst við einhver rök, að skáld og rithöfundar elgi að vera samviska þjóðarinnar, að meðal þeirra myndist oft viðhorf og skoðanir sem lengi vel kannske eiga erfitt uppdráttar, hafa ekki náð almannahylli, hafa ekki náð útbreiðslu, en eiga kannske smám saman eftir að vera sú lygi dagsins í gær, sem verður sannleikur dagsins á morgun, að fjölmiðlar ræki það hlutverk sitt að gefa þeim, sem eiga erindi við þjóðina, hvort heldur eru stjórnmálamenn, skáld, rithöfundar eða aðrir, milliliðalaust og hleypidómalaust samband við hana.

Það er kannske ekki úr vegi á löggjafarsamkomu íslendinga, sem hlýtur að vera pólitískur vettvangur, að minnast þess að í mjög innblásinni umr. um slíka hluti milli tveggja ágætra stjórnmálarithöfunda, mannsins sem öðrum fremur skoðast e.t.v. ábyrgur fyrir rússnesku byltingunni, Lenins, og einhvers innblásnasta gagnrýnanda þeirra stjórnarhátta, sem mynduðust og mótuðust í Sovét-Rússlandi eftir byltinguna, innan hreyfingar sósíalista, Rósu Luxemburg. Það er vitnað til ummæla hennar í gagnrýnum skrifum um hin pólitísku viðhorf Lenins, sem lagði áherslu á miðstjórnarvald, þegar hún sagði, kannske ekki endilega orðrétt, en eftir minni: Það, sem sker úr um það hvort lýðræði er virkt eða ekki, er það, hvort réttur minni hl. til þess að reyna að verða meiri hl. er virtur. Það er kannske heldur ekki úr vegi á þessum stað að rifja upp sígildustu ummæli verjanda frjálsrar skoðanamyndunar, ummæli hins franska háðfugls og dæmigerða menntamanns, Voltaires, sem hann viðhafði í tilefni af deilum um rit samtímamanns hans, Rousseaus, þegar hann sagði: „Ég fyrirlít hvert einasta orð sem þú segir, en ég skal berjast til seinasta blóðdropa fyrir rétti þínum til þess að fá að segja það.“

Ég vona að hv. alþm. telji ekki að aths. af því tagi, sem ég nú hef nefnt, séu endilega úr vegi þegar talið berst að hlutverki fjölmiðla í íslensku þjóðfélagi. Það er ástæða til þess að vekja athygli á því að af ýmsum sérstökum, sögulegum ástæðum hefur þróast á Íslandi, að því er varðar eignarhald og starfsemi fjölmiðla, næsta sérstakt stjórnkerfi, sem ég, á mínum yngri árum þóttist ekki geta betur lýst en með því að kalla flokksræðiskerfi. Það, sem átt er við, er fyrst og fremst það að helstu fjölmiðlar í landinu, þ.e.a.s. dagblöð, eru í eigu stjórnmálaflokka. Hlutverk þeirra er það fyrst og fremst að túlka áróðurssjónarmið viðkomandi stjórnmálaflokka. Það flokkakerfi, sem við búum við, byggir á þessu sem hyrningarsteini. Að þessu leyti er íslenskt þjóðfélag ólíkt þeim þjóðfélögum í grennd við okkur, sem við gjarnan tökum nokkurt mið af, hvort við heldur tölum um frændur okkar á hinum Norðurlöndunum, eins og sumir orða það í merkingunni annars staðar á Norðurlöndum, eða tölum um ríki Vestur-Evrópu eða vestræn lýðræðisríki. Dagblað sem er í eigu stjórnmálaflokks og hefur fyrst og fremst því hlutverki að gegna að koma á framfæri áróðurssjónarmiðum flokksins, að vegsama hlutverk foringjans, að hefja til vegs og álits sína flokksmenn, er allt annars konar blað en blað, sem er óháð slíkum pólitískum safnaðarforingjum, og leggur á það annað mat. Nú er það háttur gagnrýnenda frá vinstri að benda þar á móti á vald fjármagnsins í slíkum þjóðfélögum, eignarrétt fjársterkra aðila, auðhringa, að t.d. áhrifamiklum dagblöðum, og gjarnan líta menn þá til Bandaríkjanna. Það merkilega er, að reynslan kennir okkur að þrátt fyrir það, að áhrifamikið blað, áhrifamikill fjölmiðill, svo að við nefnum tvö dæmi, New York Times í Bandaríkjunum og The Washington Post, þótt enginn geti út af fyrir sig neitað vissum tengslum þessara málgagna við fjársterka aðila og fjársterkar ættir, fjölskyldur í þjóðfélaginu, þá hefur vegna þróunar ákveðinna pólitískra erfða þróast sú hefð, að ritstjórnarpólitík þessara blaða reynist mjög óháð. Ef menn vilja ekki viðurkenna þá staðreynd, þá geta menn ekki skilið fall Nixons forseta í Bandaríkjunum vegna þess að það liggur alveg ljóst fyrir, að það var hlutverk þess, sem við köllum stundum frjálsa fjölmiðla, í Bandaríkjunum, frjálsrar pressu, sem ekki var taglhnýtt einhverjum pólitískum flokki, og þrátt fyrir eignarhald fjársterkra aðila á þessum blöðum stóðst sú aðdáunarverða erfð bandarísks lýðræðisþjóðfélags að ritstjórn þessara blaða var ekki hindruð í því að snúast gegn æðsta embætti Bandaríkjanna og bera sannleikanum vitni, koma sannleikanum á framfæri við þjóðina með þeim afleiðingum að ofurvald forsetaembættisins í Bandaríkjunum stóðst ekki og varð að lúta í lægra haldi. Þetta er nýjasta, en um leið eitthvert aðdáunarverðasta dæmið um það að þær pólitísku erfðir, sem við kennum við pólitískt lýðræði á Vesturlöndum, hafa staðist alvarlega þrekraun með miklum sóma.

Ef við beinum sjónum okkar nær okkur, sjáum við allt aðra mynd blasa við hér á okkar landi. Hér hefur sú þróun skapast að áhrifaríkustu fjölmiðlarnir, dagblöðin, starfa á allt annan máta. Þeirra hlutverk er ekki að taka til hlutlægrar meðferðar deilumál líðandi stundar. Þessir fjölmiðlar eru ekki þess umkomnir að setja eitthvert ákveðið viðmiðunarmark á störf stjórnmálamanna. Stjórnmálamenn hafa ekki það aðhald af þessum blöðum, þessum fjölmiðlum, sem þeir verða að sætta sig við í þeim löndum, sem við kennum við vestrænt lýðræði. Tengsl stjórnmálaforingjanna við þessi blöð og blöð af þessu tagi eru þau, að blöðin eru í þjónustuhlutverki við stjórnmálaforingjana og hafa það hlutverk að lyfta þeim á stall, draga upp af þeim fagra mynd, auglýsa þá upp og hlífa þeim við þeirri almennu viðmiðun, við þeirri gagnrýni sem þeir ella mundu sæta. Og staðreynd er það, að hvert blað hefur almennt tilhneigingu til þess að segja nokkurn veginn fjórða part af sannleikanum.

Það er þessi meginstaðreynd sem veldur því, að íslendingar sem þjóð hafa að mjög verulegu leyti átt erfitt með að fá ólogna, óýkta, óskrumskælda mynd af staðreyndum mála í íslensku þjóðfélagi. Sem þjóð höfum við átt erfitt með að taka reynslu okkar til gagnrýnins mats. Sem þjóð búum við við það, að það er allt of mikið um heilagar kýr, tótem og tabú, í íslenskri þjóðmálaumr., sem ræðst ekki af tengslum við veruleikann, heldur af því, hvað hentaði hinum pólitíska áróðri hverju sinni.

Mér finnst ekki úr vegi að taka sem dæmi, því að það er mér ferskt í minni, frásagnir fjölmiðla af umr. sem nýlega varð hér á hv. Alþ. um þau vandamál. sem mest voru aðkallandi og brýnust úrlausnar íslenskri þjóð, þar sem ern vandamál sem steðja að efnahagskerfi íslendinga. Mér virðist, að það séu ekki ýkjur að segja, að frásagnir fjölmiðla af þessum umr., sem hér urðu, hafi mjög einkennst af því hver voru þrengstu flokkssjónarmið viðkomandi flokks, fremur en þeirri skyldu hvers blaðamanns að segja satt og rétt frá því sem sagt var og gerðist. Ég skal nefna nokkur dæmi máli mínu til stuðnings.

Í Alþýðublaðinu, málgagni jafnaðarstefnu á Íslandi, var t.d. frá því skýrt daginn eftir í örstuttri rammaklausu, að formaður Alþfl., Benedikt Gröndal, hefði kvatt sér hljóðs á Alþ. og gert málin að umtalsefni, efnahagsmálin. Af þeirri frásögu mátti ekkert annað ráða. Af þeirri frásögn varð ekki sýnt, að nokkur annar hefði tekið til máls, að nokkur annar hefði sagt eitt né neitt. Og það var ekki hægt að skilja af hvaða tilefni hv. þm., formaður Alþfl., tók til máls. Þetta er afleiðing af því, að þetta blað, eins og reyndar önnur blöð, og ég beini þessari gagnrýni ekkert sérstaklega að Alþýðublaðinu, var einfaldlega trútt sínu hlutverki. Það var ekki að segja frá því sem gerðist, það var ekki að koma á framfæri við lesendur sína því sem sagt var í raun og veru, það var bara að draga upp ákveðna mynd af því, að form. Alþfl. hefði ekki látið deigan síga, hann hefði gegnt skyldu sinni. En frásögn af þessu tagi er náttúrlega í engu samræmi við hugmyndir manna um hvert skuli vera hlutverk blaða eða fjölmiðla.

Þannig mætti nefna fleiri dæmi. Það, sem var augljóst við þessar frásagnir, var að hvert blað sagði auðvitað fyrst og fremst frá því, sem flokksmenn viðkomandi blaða höfðu sagt. Fyrirsagnir mótuðust af því að það var flokksforingi þess blaðs sem sagði þetta. Það, sem aðrir sögðu, skipti að sjálfsögðu minna máli. Okkur getur greint á um það, ef við tækjum t.d. bara blaðaúrklippur þessa daga til meðferðar, hvaða blað hafi sennilega verið fjærst því að gegna hlutverki fjölmiðils, eins og mikil þörf er á að þau gegni sínu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi. Dæmið, sem ég tók af Alþýðublaðinu, er slæmt. Ég hika ekkert við að segja það sem mitt persónulega mat, að málgagn verkalýðs og sósíalisma á Íslandi, Þjóðviljinn, er að því leyti kannske dálítið sérstakt, að málflutningur þess einkenndist að verulegu leyti ekki aðeins af þessari venjulegu reglu um það að segja fyrst og fremst frá því, hvað flokksmenn viðkomandi flokks sögðu, heldur jafnframt af því að segja rangt frá því sem andstæðingarnir sögðu, gefa lesendum sínum rangar forsendur um það, til þess að auðveldara væri að kveða þá niður.

Þessi dæmi, sem ég get stutt frekar einstökum tilvitnunum, ef fram á það verður farið, sýna það að því miður er svo komið, að við búum ekki við það á nokkurn máta, að því er varðar dagblöð okkar, sem kalla mætti á slæmri íslensku „frjálsa pressu“. Við verðum að sætta okkur við það, að þessir áhrifamiklu fjölmiðlar eru áróðurstæki. Þetta er geysilega þýðingarmikill þáttur í íslensku þjóðlífi, þáttur sem oft er vanmetinn, þáttur sem menn vilja oft gleyma. Og þetta er mál, sem snertir í raun og veru undirstöðuatriði lýðræðislegra stjórnarhátta. Það er mjög erfitt að halda uppi gróskumikilli gagnrýni á lýðræðislegu þjóðfélagi með tækjum af þessu tagi. Þó að ég segi þetta táknar það ekki að ég vilji endilega æðrast þess vegna. Ég er þeirrar grundvallarsannfæringar, og miða þar við reynslu mína af öðrum þjóðfélögum, að þrátt fyrir allt eru íslendingar forréttindaþjóð í þessari veröld að því leyti, að við búum í einhverju opnasta og frjálsasta þjóðfélagi, sem ég þekki a.m.k. í þessari veröld. Og þrátt fyrir þessa alvarlegu annmarka á okkar stjórnkerfi og á okkar þjóðmálaumr., sem vonandi stendur til bóta, þótt þess sjáist kannske ekki greinileg merki enn, þá er engu að siður hægt að nefna margt annað sem veldur því að íslenskt þjóðfélag er aðdáunarvert að mörgu leyti fyrir þær sakir að það er þrátt fyrir allt, þrátt fyrir þessa annmarka, tiltölulega opið, tiltölulega frjálst.

Með hliðsjón af þessum almennu ummælum um þá þýðingarmiklu fjölmiðla, sem heita dagblöð, vil ég aðeins víkja nánar að því sem hér er beinlínis á dagskrá, brtt. borinni fram af hæstv. menntmrh. við tiltölulega nýlega sett útvarpslög, lög um starfsemi þess þýðingarmikla fjölmiðils sem heitir Ríkisútvarpið, frá 26. mars árið 1971. Ég hygg, að það hafi ekki verið út í hött að lög um starfsemi Ríkisútvarpsins voru endurskoðuð. Ef ég man rétt var það orðin allvíðtæk skoðun að fenginni reynslu af flokksræðisstjórnarfari fjölmiðlanna, sem heita dagblöð, og reyndar líka af því að hetta flokksræðisstjórnarfar gerði sér mjög far um og það kannske í vaxandi mæli á ákveðnu árabili, að setja sitt mark líka á starfsemi Ríkisútvarpsins. Þá held ég, að a.m.k. hinum sanngjarnari og umburðarlyndari mönnum hafi verið orðið ljóst, að það væri æskilegt að við íslendingar þokuðumst svolítið fram á við að því er þetta varðaði, tækjum svolítið mið af þeirri þróun sem átt hafði sér stað með öðrum þjóðum, tækjum svolítið mið af okkar eigin reynslu, sem var slæm, af þessu flokksræðisstjórnari. Ég hygg að það sé rétt, sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e., að ákvæðið um að stefnt skuli að kjöri útvarpsráðs til fjögurra ára, — það er að vísu ekki út af því brugðið, að hér skuli vera um að ræða kjör útvarpsráðs samkv. reglum um hlutfallskosningar, en það skuli kjörið til fjögurra ára, — hafi í raun og veru verið eitt þýðingarmesta ákvæðið, þ.e.a.s. það væri ákveðinn lágmarkstími sem útvarpsráði væri tryggður til starfa, jafnframt að það hafi ekki einasta verið sú lagagr. einsömul, heldur hitt, að andinn á bak við þessa lagasetningu hafi verið sá, að verið var af ásettu ráði að stefna að því að þokast út úr þessu pólitíska varðhundakerfi frekar í áttina til þess að efla sjálfstæði þessa þýðingarmikla fjölmiðils eða fjölboða.

Það er skammur tími liðinn síðan þessi lög voru sett og auðvitað ætti það þá að vera uppistaðan í þessari umr. að meta reynsluna. Ég vil aðeins, áður en ég vík að því, rifja upp hvernig komið var, hvernig ástandið var eða a.m.k. öllu heldur, svo að ég orði það rétt, eins og mér kom það fyrir sjónir, áður en l. var breytt.

Ég held að það þurfi ekki að rifja upp fyrir hv. þm., sem margir hverjir a.m.k. hafa lengra minni en ég, að það virtist vera mjög eindregið keppikefli innsta hringsins í hverjum pólitískum söfnuði að tryggja sína hlutdeild í yfirráðum yfir Ríkisútvarpinu. Það var nokkurn veginn orðin algild regla, að stjórnmálaflokkarnir freistuðust til þess að setja sína helstu pólitísku varðhunda, þ.e.a.s. kerfismenn síns flokksræðiskerfis, nánar tiltekið sína áróðursstjóra, sem heita ritstjórar dagblaðanna, inn í útvarpsráð til þess auðvitað fyrst og fremst að gæta þar sinna hagsmuna. Nú þarf ekki að íhuga það lengi hverjir eru hagsmunir pólitískra varðhunda af þessu tagi, hverjir eru hagsmunir pólitískra áróðursstjóra sem heita ritstjórar dagblaða. Það er auðvitað framlenging á því hlutverki sem þeir gegna við sín eigin blöð. Það er fyrst og fremst náttúrlega að sjá til þess að einhverjir af meðlimum safnaðarins komist til einhverra áhrifa hjá þessum ríkisfjölmiðli, að þeir komist til þess að hafa umsjón með ákveðnum þáttum, ekki hvað síst að því er varðar túlkun innlendra og erlendra stjórnmála, komist jafnvel kannske að innbyrðis samkomulagi um það að skipta þessu milli sin, jafnvel þótt það þýði það að útiloka einhverja aðra á þeirri forsendu að skoðanamyndun í landinu eða með þjóðinni, sem er kannske óháð þessum pólitísku valdaklíkum, eigi ekki rétt á sér. Það er m.ö.o. hin stofnanabundna skoðanamyndun flokksklíknanna, sem átti að setja svip sinn á ríkisfjölmiðilinn, Ríkisútvarpið, alveg eins og hún hafði sett sitt soramark á dagblöðin. Það þarf ekki að rifja það upp fyrir mönnum, sem muna þann tíma, að það var föst regla að það voru pólitísk helmingaskipti eða þriðjungaskipti um það, hvaða mönnum var treystandi til þess að fjalla t.d. um innlend og erlend stjórnmál, og yfirleitt starfsmannaráðningar fjölmiðilsins mjög bundnar slíkum sjónarmiðum. Það þótti ekkert athugavert við það að ef ekki ritstjórar blaðanna, þá þeir menn sem gegndu lykilhlutverki hjá þessum blöðum, annað hvort sem innlendir eða erlendir fréttastjórar, skiptu með sér verkum um það að koma þessum flokkssjónarmiðum sínum líka á framfæri í ríkisfjölmiðlunum. Þá var ekki sú tíð upp runnin, að til væru einhver fagsjónarmið blaðanna, að til væru einhverjar þær siðareglur blaðanna eða eitthvert það hlutlægt mat starfsmanna, að þeim væri treystandi til þess að fjalla um mál af skynsamlegu viti, að setja fram gagnrýnisjónarmið, jafnvel þótt ekki væri endilega svo, að fyrirfram væri tekin um það ákvörðun, hvað þeir ættu að segja, í miðstjórnum í tilteknum flokkum. Að sjálfsögðu á það ekki við í umr. sem þessari að nefna hér ákveðin nöfn. Ég held að það hafi t.d. á ákveðnu tímabili verið nærri því algild regla, að menn, sem voru flokksbundnir í Alþb. á þeirri tíð, hafi helst ekki þótt gjaldgengir í þessum ríkisfjölmiðlum. Ég held, að það hafi þótt eðlileg regla að hinum svokölluðu þrem lýðræðisflokkum, þeim einum eða fulltrúum þeirra flokka og þeirra flokkssjónarmiða, væri treystandi til að fjalla um innlend eða erlend stjórnmál. Nú breytti það engu þótt Alþb. væri flokkur sem kannske hafði 15–18% atkv. Það var ekki til siðs, ef ég man rétt, — og ég bið menn að leiðrétta mig ef þeir muna betur, að blaðamaður, sem starfandi væri á Þjóðviljanum, starfaði við ríkisrekinn fjölmiðil á þeim tíma. Nú heyri ég aftur á móti, að það þykir mikið hneyksli og stórháskalegt mál, ef það kynni að fara saman að maður, sem starfar við flokksáróðursmálgagnið Þjóðviljann, starfar við slíkan ríkisfjölmiðil, en allt í lagi, ef hann er við einhverja aðra flokkspólitíska áróðursmiðla. Lái mér hver sem vill að ég skil ekki samhengið í þessu. Það komu upp hneyksli, þau voru mörg. Það komu upp hneyksli af því tagi að einstakir valdhafar í landinu fundu sig til þess knúna að hlutast til um það, stundum jafnvel fyrir fram, hvaða einstakur útvarpsþáttur fengi að birtast í fjölmiðlum. Við skulum nefna nokkur nöfn.

Maður heitir Ólafur Ragnar Grímsson. Hann hafði menntast í Bretlandi og kynnst þar ákveðinni — áhugaverðri, skulum við segja — tækni eða aðferðum við starfsemi fjölmiðla, lagt sig greinilega fram um að kynnast því, og hann tók að sér að annast þátt í útvarpinu, sem vakti athygli fyrir það að hann var með nýstárlegu sniði, yfir honum dálítið ferskur blær. Maðurinn var ungur, og kannske ekki algerlega ánetjaður hinum steingeldu flokksáróðurssjónarmiðum og leyfði sér bæði að kalla menn til umr. sem kannske þótti ekki til siðs að ræða við, eða leggja þannig spurningar fyrir menn að ekki þótti til siðs að menn ættu því að venjast að þurfa að svara slíkum spurningum. Og það er skemmst frá að segja, að þar kom að valdamiklir ráðh. skárust í leikinn og tryggðu það með þeim aðferðum sem ekki er hægt að kalla neitt annað en valdníðslu — jú það má kalla það skort á umburðarlyndi, að einum slíkum þætti var aflýst og maðurinn rekinn frá slíkum störfum.

Það má nefna annað dæmi. Maður er nefndur Magnús Torfi Ólafsson. Hann hafði um árabil vakið á sér athygli allra skynsamra og réttsýnna manna fyrir það, að hann hafði á síðum Þjóðviljans fjallað um utanríkis- og alþjóðamál af óvenjulega yfirgripsmikilli þekkingu og ég hygg, að flestra dómi, aðdáunarverðri hlutlægni. Hann kom um skamma hríð til starfa hjá þeim ágæta ríkisfjölmiðli Ríkisútvarpinu og mætti orða það svo, að Ríkisútvarpið hafi fengið að njóta reynslu hans sem blaðamanns og þekkingar hans. En þar kom nú svo engu að siður, að þetta þótti ekki fært, og ákveðinni valdníðslu var beitt til þess að koma í veg fyrir það. Læt ég hv. þm. eftir að meta, hvílíkur háski hlustendum Ríkisútvarpsins var búinn við það að hlýða á mál þessa vammlausa heiðursmanns. Hann fékk að vísu síðar tækifæri til að sýna, — í þætti sem heyrir ekki undir kerfið, spurningaþætti, af einhverjum ástæðum hefur það form ekki komist undir þetta flokksræðiskerfi, — að hann bjó yfir alveg óvenjulega fjölskrúðugri þekkingu á ýmsum málum. Það er kannske til marks um það, hversu ritskoðunin er oft og tíðum óhyggin, óklók. Hún hefði frekar átt að banna honum þátttöku í þeim þætti heldur en að fjalla um alþjóðamál.

Í umr. hér um daginn var mikið rætt um hvort það væri eðlilegt að það færi saman, að starfsmaður fjölþjóðasamtaka ætti sæti í útvarpsráði. Ég minnist þess frá þessum árum, frá árunum fyrir 1970, frá viðreisnarárunum, að starfsmaður þessa fjölþjóðasamtaka, Atlantshafsbandalagsins, var til þess fenginn, væntanlega af útvarpsráði, að vera einn af þremur samkv. þriðjungaskiptareglunni sem fjölluðu um alþjóðamál. Nú skal ég taka það fram að það, sem ég segi hér á eftir, er engin umsögn um viðkomandi starfsmann. Við búum í smáu þjóðfélagi og ég get sagt það hispurslaust sem mína skoðun, að ég hef hinar mestu mætur á Magnúsi Þórðarsyni, sem einu sinni var ungur og efnilegur marxisti. En ég verð samt sem áður að lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel það undir engum kringumstæðum fara saman að maður sé ráðinn upplýsingastjóri erlends hernaðarbandalags, þótt svo við eigum aðild að því, og um leið til þess fenginn af ríkisfjölmiðli að vera fréttaskýrandi Ríkisútvarpsins um alþjóðamál. Ég vitna til þess, að það þykir ekki hæfa í háborg kapítalismans, Bandaríkjunum, annað en þeir auðkýfingar, sem þar veljast til trúnaðarstarfa, sjái svo a.m.k. um að hlutabréfaeign fjölskyldunnar sé komið fyrir í góðgerðarstarfsemi eða með einhverjum hætti komið þannig fyrir að ekki særi almenningsálit, og vil eindregið segja það í fullri alvöru að slíkt fer að sjálfsögðu ekki saman. Mér er t.d. spurn hvað jafnvel hinir umburðarlyndustu menn í ritstjórn Morgunblaðsins mundu segja ef upplýsingafulltrúi hernaðarbandalags sem kennir sig við Varsjá, eða upplýsingastofnunar í meira eða minna óskilgreindum tengslum við það hernaðarkerfi, því að allt er þetta sama leyniþjónustan, væri til þess fenginn af Ríkisútvarpinu að vera fréttaskýrandi um alþjóðamál. Nú leiðrétti menn mig ef það kann að vera hægt að nefna dæmi um að þarna séu einhverjar hliðstæður á ferðinni.

Það er eitt sem rétt er að víkja að í þessum samningi. Menn hafa á orði, að það séu vaðandi uppi í þjóðfélaginu svo óskynsamlegar, öfgakenndar og mannhatursþrungnar skoðanir, að það þurfi að gera eitthvað í því að koma í veg fyrir að þær fái að ná eyrum alþjóðar. Ég get ekki að því gert að mér finnst þetta varla sjálfu sér samkvæmt. Ef menn hafa trú á dómgreind almennings, og ég veit ekki hvernig maður getur sagt þetta tvennt: ég er lýðræðissinni og ég hef ekki trú á dómgreind almennings — í einni og sömu andránni, — ef menn hafa trú á dómgreind hins upplýsta almennings á Íslandi, þá er ekkert betra þessum fámennu, þröngsýnu, öfgakenndu mannhatursþróunaröfgahópum til háðungar en að hafa þá sem allra oftast í hljóðvarpinu, og í raun og veru má skilja það svo að hafi slíks eitthvað gætt, þá eru viðbrögð alls almennings, sem hefur alveg ótrúlega heilbrigða dómgreind, gjarnan á þá leið að þeir, sem að slíkum sjónarmiðum standa, hafa ekki hag af. Ég held því að þeir menn, sem gerast málsvarar lýðræðis, eigi að minnast þess að lýðræðislegt stjórnarfar er að vísu afskaplega ófullkomið, kannske eitt með því versta í heimi, en ástæðan fyrir því að við trúum á það er þó sú, að enn hefur ekki verið fundið upp annað stjórnarfar skárra, og það fær aldrei staðist ef menn eru ekki reiðubúnir til þess að verja til síðasta manns rétt þess skoðanahóps, sem maður er algerlega ósammála, til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Ef menn vilja víkja talinu að pólitískum hyggindum, þá hygg ég að málsvarar andlegs frelsis í Sovétríkjunum, sem að sjálfsögðu eru aðallega saman komnir á ritstjórn Morgunblaðsins, ættu að athuga sinn gang áður en þeir hleypa sér í spor valdhafa austur þar, þ.e.a.s. að gefa Solzhenitsyn og félögum píslarvættið, því að geti sú skoðun stuðst við rök að það volduga herveldi og það volduga lögregluríki, Sovétríkin, sé risi á leirfótum, þá er það vegna þess að menn hafa nokkuð til síns máls þegar þeir segja að þetta sé land sem byggir á pólitísku stjórnarfari og pólitískum kenningum, sem er siðferðilega rotið, og stoðar þá vonandi lítt, þegar til lengdar lætur, yfirþyrmandi máttur lögregluríkisins.

Það má kannske skjóta því að hér, svo sem eins og innan sviga, að það fer ekki hjá því að mér hafi verið kannske dálítið skemmt við þær umr., sem hér áttu sér stað af þessu tilefni siðast, þegar ég virti fyrir mér málflutning ritstjóra Þjóðviljans, innblásna ræðu málsvara frjálsrar menningar, sem hann flutti hér af miklum ástríðuhita í hálfa aðra klukkustund eða svo og beitti þar að sjálfsögðu öllum röksemdum þeirra sem gjarnan trúa einlæglega og dýpstum skilningi á lýðræðislegt stjórnarfar. Nú vil ég engan veginn gera þessum hv. þm. upp skoðanir heldur aðeins vekja athygli á því að hann er, eins og aðrir pólitískir varðhundar, undir sömu sök seldur. Sem ritstjóri síns málgagns gætir hann síns fjórða parts af sannleikanum. Hlutverk hans sem ritstjóra er það, sem ég vék að í upphafi, að lofa og vegsama sína menn, að fegra og halda fram málstað síns flokks, áróðurslinum síns flokks, miklu fremur en opna t.d. málgagn sitt fyrir öllum sjónarmiðum, fyrir hvers kyns gagnrýni kannske á sjónarmið þessa flokks, sem ekki veitti nú af, og þar tala ég af reynslu. Ég þekki marga menn í hinni sósíalístísku hreyfingu á Íslandi sem geta borið vitni um að þeir hafi orðið fyrir ritskoðun þess blaðs og ekki átt þar inni fyrir þær greinar og sjónarmið og einlægan áhuga á sósíalisma sem hefði sennilega átt að eiga heima einhvers staðar á síðum þess blaðs. Þeim mun skringilegra er það að ritstjórar Morgunblaðsins og máttarstólpar Sjálfstfl., sem á að vera sá borgaralegi flokkur á Íslandi, og ef hið marxíska skammarheiti: borgaralegt lýðræði — ætti sér einhverja sögulega réttlætingu, þá ættu oddvitar þessa flokks að vera málsvarar þess sem heitir borgaralegt lýðræði og er hlutur sem ég vil ekki vanmeta.

Að loknum þessum almennu hugleiðingum er kannske ástæða til þess að spyrja: Hvers vegna er verið að flytja svona skrýtna till. um það að breyta kosningafyrirkomulagi til útvarpsráðs nú á þessum tíma, þ.e.a.s. till. felur það í sér, eins og mönnum er kunnugt, að hvenær svo sem það kann að henda sem afleiðing af hinu íslenska efnahagsglundri eða fallvelti íslenskra efnahagsmála, að við efnum til kosninga, þá skal það jafnframt koma í hlut Alþ. að kjósa nýtt útvarpsráð, þannig að öllu lýðræði sé fullnægt, svo að ég vitni til þeirrar meginröksemdar hæstv. menntmrh. að útvarpsráð eigi á hverjum tíma að endurspegla þjóðarviljann? Ég get ekki dulið þá skoðun mína, að hér er um annað af tvennu að ræða: afskaplega mikinn misskilning eða þá að hér er um að ræða yfirvegaða skoðun, þ.e.a.s. að í þessari till. felist vantraust á því útvarpsráði sem kosið var og gegnt hefur störfum nú að undanförnu, svo mikið vantraust að stjórnvöld, ríkisstj. og æðsti yfirmaður, menntmrh., geta varla beðið þann skamma tíma, sem eftir er þangað til kjörtímabil útvarpsráðs er útrunnið, til þess að koma þar að sínum mönnum. Þeim mun undarlegra er það þá að hæstv. ráðh. skuli ófáanlegur með öllu til þess að ræða málið. Þá fáu daga sem ég hef hér setið og þann tíma sem málið var rætt fékkst hæstv. ráðh. ekki til þess að segja annað en það að hann væri nánast að gegna embættisskyldu sinni að tryggja það að öllum formsreglum lýðræðis væri fullnægt. Hæstv. ráðh. fékkst með engu móti til þess að lýsa vantrausti á útvarpsráð, að nefna dæmi um pólitíska misnotkun útvarpsráðs, að nefna dæmi um það, hvernig það hefði gerst, að þetta voðalega útvarpsráð hefði leitt Trjóuhesta heimskommúnismans inn í musterið. Sei, sei, nei, þetta var bara embættisskylda.

Þetta er svo saklaust og einfalt, að það setur að manni grun um að hér séu á ferðinni dálítið sniðug pólitísk látalæti. Tilgangurinn með endurskoðun l. árið 1971 var sá, vitandi vits og yfirlýstur, að efla sjálfstæði stofnunarinnar. Það tel ég vera meginatriði málsins. Og um það mætti gjarnan fara fram einhver umr., hvort útvarpsráð hafi reynst nógu sjálfstætt, nógu óháð þessum pólitísku hagsmunahópum, nógu óháð þeirri flokkspólitísku gagnrýni, sem það hefur sætt, hvort það hafi gengið nógu langt í því að fitja upp á nýjungum, hvort það hafi gengið nógu langt í því að gefa einstökum starfsmönnum stofnunarinnar nægilegt svigrúm til þess að leika nógu mikið lausum hala. Ef ég ætti að gagnrýna það, þá mundi það sennilega beinast að því að ekki hefði verið nægilega langt gengið. En ég get að vísu sætt mig við það að þetta gangi hægt og það taki lengri tíma en 4 ár.

Ég held að við ættum með hliðsjón af því, hversu illa við erum staddir að því er varðar fjölmiðlana í eigu flokkanna, fyrst og fremst að beina sjónum okkar að reynslu nágrannaþjóða okkar hvað það snertir að finna form fyrir því að efla sem mest sjálfstæði þessa ríkisfjölmiðils. Þar skiptir náttúrlega meginmáli að ríkisfjölmiðillinn hafi í sinni þjónustu vel menntað starfsfólk, starfsfólk sem hefur til þess löngun að setja hlutlægan mælikvarða þessarar stofnunar sem hæstan, hefur til þess andlegt þrek, menntun og hæfileika og er tilbúið að bjóða þröngum flokksklíkusjónarmiðum byrginn. Æskilegast væri náttúrlega að slíkir starfsmenn ættu hald og traust í yfirmanni menntamála, þar sem væri hæstv. menntmrh., fyrir slíkum nýjungum, tilraunastarfsemi af hverju tagi sem væri.

Að sjálfsögðu má ekki gleyma því, að það skiptir meginmáli, að jafnvel þótt fjölmiðlum tækist að fá í sína þjónustu vel menntaða og sæmilega andlega sjálfstæða starfsmenn, þá skiptir líka miklu máli að þeir eigi hauk í horni, þar sem eru ráðh. og aðrir valdhafar, um það að tryggja þeim fjárráð til þess að þeir geti staðið sjálfstæðari gagnvart ýmsum hagsmunahópum og pressu, sem á þá kann að verða beitt. Ég vil t.d. vekja athygli á því með þann litla flokk, sem ég tilheyri, sem er vafalaust einn lítill minnihlutahópur í þessu þjóðfélagi, en vill þó óska eftir réttindum til þess að mega halda áfram að verða meiri hl. eftir lýðræðislegum leiðum, að ég veit ekki betur en þessi flokkur hafi á sínum tíma tilnefnt í útvarpsráð mann, sem ekki var í þessum flokki, heldur í allt öðrum flokki. Ég man ekki betur en form. útvarpsráðs hafi tilheyrt Alþfl. á þeirri tíð. Minn flokkur gat ekki heldur borið ábyrgð á því, þótt hann hafi síðar séð ástæðu til þess að breyta því ástandi. Þetta gefur kannske til kynna að þau sjónarmið hafi verið ríkjandi í þessum litla flokki að við óskuðum ekki eftir því að eignast pólitískan varðhund til þess að tryggja það að fimmti partur sannleikans væri örugglega tryggður í ríkisfjölmiðlum, þannig að við gætum örugglega treyst því að við gætum troðið þarna inn einhverjum okkar manni til þess að hafa hönd í bagga um það, að þeir pólitíkusar, sem kynnu að koma fram einhvers staðar í einhverjum þáttum fyrir hönd þessara samtaka, hefðu eitthvert innhlaup inn í innsta hring þessa fjölmiðils. Auðvitað á ekki að hælast um slíkt, en það má kannske láta þess getið.

Ég held, að þetta leiði til þess, að menn geti ekki rætt og ekki borið fram þessa till. í alvöru um einhverja lýðræðislega nauðsyn á því að breyta nú útvarpslögum til þess að fullnægja skilyrðum lýðræðis um það að útvarpsráð endurspegli þjóðarviljann, nema þá með því móti að þeir komi fram með dæmi um það að misnotkun útvarpsráðs á því sjálfræði, sem því hefur verið falið, sé svo yfirmáta yfirþyrmandi að sannanlega megi fullyrða að siðgæðisvitund þjóðarinnar sé ofboðið. Ég hef verið að bíða eftir því að talsmenn þessa frv. kæmu fram með dæmin. Það hafa verið nefnd einhver dæmi. Ég tek t.d. eftir því að hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir frá Vigur, ágætiskona, hafði orð um það að hún væri mjög óánægð með þessa till. Henni þótti miður farið að útvarpsráð skyldi kosið pólitískri hlutfallskosningu. Ég tek undir það, þetta er skynsamlegt sjónarmið. Ef ég tók rétt eftir, þá komst hv. þm. svo að orði, að æskilegt væri að annað form fyndist, og eiginlega ættum við að leggja saman um það að leita að öðru formi. Það er ekki óskaplega erfitt. Það er hægt að nefna dæmi um það með öðrum þjóðum að ýmis önnur form hafi verið fundin heldur en þau, að stjórn ríkisfjölmiðils af þessu tagi skuli endurspegla einhver hlutfallssjónarmið þingflokka. Mér virðist að með slíkum orðum sé ljóst, að hér á hv. Alþ. koma fram sjónarmið hjá hv. þm. sem bera í sér skilning á því að það, sem á að stefna að, sé auðvitað að losa enn frekar um flokkspólitísk yfirráð, húsbóndavald pólitískra flokksforingja og safnaðarstjóra yfir Ríkisútvarpinu. Og ég er í engum vafa um það, að auðvitað mundum við finna slíkt form, ef vinnubrögðum Alþ. væri beitt til þess, menn gætu einhvern tíma komið sér saman um það að beita nefndakerfi Alþ. til þess að vinna hlutlægt að málum fremur en að nota það, eins og gert hefur verið, þannig að það eins og annað endurspegli hin flokkspólitísku hlutföll. Ef ég tók rétt eftir, þá sagði hv. þm. um lagasetninguna frá 1971, að óneitanlega þætti henni þetta ákvæði, þetta umdeilda ákvæði, 5. gr., skemmtilegra og geðfelldara eins og það var en í þeirri mynd sem nú er verið að flytja brtt. Hver er svo skýringin á stuðningi hv. þm. við þessa brtt.? Jú, rökin eru þau að reynslan hafi sýnt að útvarpsráð hafi misnotað þennan þýðingarmikla ríkisfjölmiðil í pólitískum tilgangi, að í störfum útvarpsráðs hafi gætt pólitískrar þráhyggju, þröngsýni, og að þessi fjölmiðill hafi verið notaður sem vettvangur til pólitísks áróðurs. Nú vita allir menn það að hv. þm. er, svo sem hann á ætt til, orðvar, yfirvegaður í málflutningi. En ég tók eftir því sérstaklega að hv. þm. nefndi engin dæmi þessu til stuðnings. Og ég er í vandræðum með að nefna þau sjálfur, þótt ég hafi reynt að koma þar til hjálpar, en hef þó heyrt í þessum umr. almennt nefnd þrjú dæmi.

Það er barnatíminn hennar Olgu Guðrúnar, sem mér skilst að hafi stafað af því að dagskrárstjóri í útvarpinu var þeirrar skoðunar, að fenginni reynslu, að þetta væri efnisstúlka og vildi gera henni greiða með því að sjá til þess að hún fengi skotsilfur til utanferðar, sem mér finnst aðdáunarvert sjónarmið.

Nefnt hefur verið að stúdentakrakkar 1. des. hafi verið haldnir ofstæki og þröngsýni. Nú er það svo að ég get að vissu marki tekið undir það sjónarmið, sem fram hefur komið í dálkum Velvakanda að það væri kannske tímabært að stofna foreldrafélag við Háskólann. En það breytir engu um það að það hefði verið mjög varhugavert af útvarpsráði að rjúfa áratugahefð um að krakkarnir fengju að segja það sem þeim þóknast 1. des. Ég a.m.k. vona, að ég verði seint svo gamall að ég muni gera þá kröfu að unglingar á mótunarskeiði megi ekki segja það sem þeim sýnist og mjög svo gjarnan t.d. hafa þá hefð, að þeir segi þetta 1. des., og skil ekki ritskoðunarsjónarmið þeirra manna sem segja svo: Ef ofstæki, mannhatur og þröngsýni krakkanna er svo mikið að þjóðinni ofbjóði, þá hygg ég að það reyni á pólitískan þroska stúdenta þeir hljóti þegar í stað að standa frammi fyrir þeim pólitíska vilja þjóðarinnar að gera eitthvað í málinu, svo sem að draga alvarlega úr lánveitingum til stúdenta erlendis. Og ég veit ekki, hvernig menn eiga að öðlast pólitískan þroska ef ekki þannig. Menn verða að trúa á hinn pólitíska, lýðræðislega feril, trúa á það að menn þroskist.

Það hefur verið nefnt þriðja dæmið, kvikmynd um Grindavík. Ég var svo óheppinn að ég hef ekki séð þessa kvikmynd, en er sagt af mönnum, sem ég ber traust til, sem bera skynbragð á kvikmyndun, að út frá handbragðssjónarmiðum og listrænni gerð hafi myndin verið heldur mislukkuð og vafalaust hægt að færa rök að því að menntamenn, nýkomnir utan úr löndum, fullir af gagnrýni á þetta heldur þröngsýna, leiðinlega flokksræðisstjórnarfar sem við búum við, kunni að hafa heldur yfirborðskenndar og ósanngjarnar skoðanir. En guð minn almáttugur, ef þjóðfélagið ætlar að rjúka upp til handa og fóta, þótt það sjái eina mislukkaða mynd, en getur setið kvöld eftir kvöld, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár undir nánast þeim dreggjum bandarísks kvikmyndaiðnaðar, sem varla þættu boðlegar nokkurs staðar á byggðu bóli nema hér, af því að þetta fæst með afsláttarprís. Ég verð að segja fyrir mig að sjónarmið af þessu tagi valda mér áhyggjum. Ég geri mér grein fyrir því, að þrátt fyrir þá skoðun, sem ég hef á íslensku þjóðfélagi, og margt er að í því, þá er ég á margan hátt vegna íslenskrar, sögulegrar erfðar, vegna smæðar þessa þjóðfélags eða vegna margháttaðra forma mannlegra samskipta, sem hér hafa þróast, þeirrar skoðunar að íslenskt þjóðfélag sé eitt hið eftirtektarverðasta sem til er og þessi litla þjóð eigi í raun stórkostlegt tækifæri til þess að skapa hér nánast mikið fyrirmyndarsamfélag og ber ég það þá saman við þau ægilegu, hrikalegu vandamál og allt að því vonlausu aðstöðu sem mörg auðugri, þróaðri þjóðfélög í kringum okkur standa nú frammi fyrir, í og með vegna þess að við, ung þjóð, nýfrjáls þjóð, erum geysilega atorkumikil þjóð, við erum þjóð sem hefur áreiðanlega notið þess alveg í ótrúlegum mæli, að við höfum sent marga af okkar bestu sonum og dætrum um allar trissur, alla veröld. Þetta fólk hefur komið heim með margvíslega lífsreynslu og hugmyndir. Má ég t.d. rifja upp fyrir hv. þingheimi viðtal sem haft var við fulltrúa frá Álandseyjum sem kom hingað í tilefni af 1100 ára þjóðhátíð íslendinga. Hann vakti athygli manna á því, að það væri merkilegt þrátt fyrir þann góða efnahag sem íslendingar byggju við, þrátt fyrir reynslu þeirra af því að fara vítt um veröldina, að þess væru fá dæmi að íslendingur, sem legði land undir fót, vildi ekki koma aftur. Þetta er geysilega þýðingarmikil staðreynd og hún er mjög áhrifamikil umsögn um íslenskt þjóðfélag. Það er þrátt fyrir allt eftirsóknarvert og ekki leiðinlegt. Og einmitt með hliðsjón af því veldur það mér áhyggjum að það skuli vera eitt helsta keppikefli valdhafa á Íslandi nú, þegar við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegum vandamálum, að reyna að keyra í gegnum löggjafarsamkomu þjóðarinnar mál, sem er jafnlítilfjörlegt, lágkúrulegt, smátt eins og þetta, smátt vegna þess að það kemur einhvern veginn upp um svo yfirborðskenndan skilning á mannlegum samskiptum og mannlegum vandamálum, eitthvað svo takmarkað umburðarlyndi gagnvart fjölbreyttum skoðunum.

Má ég ekki af þessu tilefni beina því til hæstv. menntmrh. að hann taki nú sér að kjörorði — og meini það, — eitthvert stórkostlegasta pólitíska kjörorð á okkar tímum, sem eitt sinn var sett fram af Maó formanni, um það að láta frekar þúsund blóm blómstra, að gefa öllum skoðunum svigrúm, tækifæri, ekki af pólitískri undirhyggju til þess að geta látið leynilögregluna loka fyrir það aftur síðar, heldur af undirhyggjulausri trú á yfirburði lýðræðislegra stjórnarhátta, þrátt fyrir allan sinn ófullkomleika, fram yfir það þröngsýna, smáa pólitíska varðhundakerfi sem við þurfum endilega að losa okkur við sem fyrst.