10.02.1975
Neðri deild: 40. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

84. mál, útvarpslög

Jón Skaftason:

Herra forseti. Sú ræða, sem hv. þm. flutti hér síðast, ekki síst upphaf hennar, var að mínu viti á margan hátt afar athyglisverð, og var ég honum í mörgum atriðum nokkuð sammála. Það væri freistandi að fara út í ýmis þau atriði, sem fram komu í ræðu hans, en ég sé ekki ástæðu til þess hér á þessari stundu, e.t.v. gefst tækifæri og tími til að gera það síðar. Mér fannst þetta ekki síst athyglisvert fyrir það, að við, sem aðhyllumst lýðræðislegt þjóðskipulag og lifum við aðstæður eins og þær eru þar sem lýðræðisskipulagið er hvað fastast í sessi, í Vestur-Evrópu, verðum að viðurkenna að í mörgum löndum Vestur-Evrópu á lýðræðið nú í vök að verjast og vafasamt er að það lifi af í öllum þessum löndum á næstu mánuðum og árum. Við lýðræðismenn trúum ekki síst á það, að hægt sé að gera almenningi ljósan þann mikla mun, sem á að vera á lýðræðisskipulagi og einræðisskipulagi og á m.a. ekki hvað síst að koma fram í því, að lýðræðisþjóðfélögin séu umburðarlynd um skoðanir og beiti ekki sömu ráðum til þess að berja niður skoðanir og einræðisríkin gera. Og ég verð satt að segja að játa það hér, þrátt fyrir að mér sé það ekki létt, að ég tel það frv., sem hér er verið að ræða, þess eðlis þótt í litlu sé, að innihald þess, ef samþ. verður, geri muninn á lýðræðisskipulaginu og einræðisskipulaginu minni í reynd heldur en ætti að vera. Þegar af þeirri ástæðu get ég ekki lýst fylgi mínu við þetta frv.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég á þess kost á þessu Alþ. að lýsa skoðun minni á þessu frv. Ég var á þingi Sameinuðu þjóðanna fyrri part vetrar, þegar þetta frv. var til umr. í þeim þingflokki, sem ég tilheyri, Ég harma það, því að ég mundi hafa gert mitt til þess að fá þann ágæta og ofstækislausa mann, sem ber frv. fram, til þess að athuga sinn gang betur og íhuga betur, hvort það er virkilega þess virði að flytja — ja, kannske ekki stórt frv. í sjálfu sér, en þó um visst „prinsip“ mikilvægt, til þess eins, að mér sýnist, að fá kjörið nýtt útvarpsráð aðeins 10 mánuðum áður en eðlilegur tími er kominn til þess að kjósa nýtt útvarpsráð. Ég hefði ráðið frá því í þingflokknum, ef ég hefði verið þarna staddur. Ég tel að frv. eins og þetta þurfi að byggjast á mjög sterkum forsendum og tilefnið þurfi að vera ákaflega ríkt til að flytja það.

Ég heyrði ekki þá útvarpsdagskrá, sem vitnað hefur verið hér til, frá 1. des s.l. Ég sá ekki heldur myndina um Grindavík, en af og til heyrði ég að vísu barnatímann, sem Olga Guðrún stóð fyrir, og ég get sagt það hreinskilnislega að fæst af þessu féll mér sjálfum. Og að því sem ég hef séð um dagskrána 1. des. s.l. með lestri blaða, þá hefði ég tvímælalaust notað mér þann rétt og þann möguleika, sem ég eins og aðrir útvarpshlustendur hef, að skrúfa fyrir þá þætti í útvarpinu sem mér falla ekki. Enda verður að segja það, að útvarpsdagskráin 1. des., jafnfráleit og hún var að mínu mati, var að sjálfsögðu fyrst og fremst flutt á ábyrgð stúdentaráðs Háskólans væntanlega eða annarra yfirvalda í Háskólanum. Og ég er víss um að það hefði heyrst víða hljóð úr horni og með nokkrum rétti ef útvarpsráð hefði fyrirfram viljað banna þessa dagskrá, sem á sér áralanga hefð í íslenskri útvarpssögu.

Ég sagði áðan að frv. þetta væri ekki efnislega stórt. En í því er nokkurt fordæmi, sem ég vil ekki lýsa fylgi mínu við.

Hver er þörfin fyrir að svona frv. er flutt? Ég hef sjálfur ekki heyrt neinar umr. hérna um þetta mál, eins og ég gat um áðan. Ég hef hins vegar lesið nál., sem hafa fram komið, og ég hef lesið frásagnir í blöðum af umr. um þetta mál.

Og mér skilst að hæstv. menntmrh., sá ágæti og ofstækislausi maður, hafi talið eðlilegt að flytja þetta frv. af þeirri ástæðu fyrst og fremst, að eðlilegt sé að kjósa nýtt útvarpsráð eftir hverjar nýjar alþingiskosningar, svo að fram kæmi í skipan útvarpsráðsins þjóðarviljinn sem á að vera hér á Alþ. Ég get ekki alveg gleypt þessa skýringu hráa. Mér finnst hún yfirborðsleg og satt að segja ekki trúverðug. Eða ef þetta væri rétt, hvers vegna á þá ekki að hafa sömu reglu um kosningu annarra ráða og annarra nefnda, sem kosnar eru hér á hv. Alþ. og þá gjarnan til fjögurra ára, þar sem sömu sjónarmið hafa ráðið um skipun nm. eða ráðsmanna eins og í útvarpsráði, þ.e. að hinir pólitísku flokkar á Alþ. hafa sett þangað sína skoðanabræður fyrst og fremst? Hvers vegna skyldi þá ekki sú sama regla gilda um kosningu í slíkar n.? Og jafnvel þótt það þætti nú of mikið verk, en einhverjir tryðu því, að það væri alveg lífsnauðsynlegt sérstaklega að kjósa nú nýtt útvarpsráð að samþykktu þessu frv., vegna þess að þjóðarviljinn, hinn rétti þjóðarvilji, sem kom fram í síðustu kosningum, yrði nauðsynlega að koma fram í skipan þess, hvers vegna má þá ekki hafa í frv. ákvæði um að hinar nýju reglur skuli ekki taka gildi fyrr en að loknu því kjörtímabili núv. útvarpsráðs sem enn þá eru um 10 mánuðir eða svo eftir af? Ég get því miður ekki trúað því að þessar séu ástæður þær sem að baki ákvörðunar ráðh. liggja, og mér er það satt að segja hulin ráðgáta, þó að ég hafi eftir eins miklum leynilögregluleiðum og ég get farið reynt að finna skýringarnar í mínum þingflokki. Ég get ekki fundið, hverjar raunverulegar ástæður liggja til þess að svona frv. er flutt, og hlýt satt að segja að komast að þeirri niðurstöðu að þarna knýi einhverjir þeir á sem sé brátt í brók að ná kosningu í útvarpsráð á ný af eigingjörnum ástæðum.

Á maður að trúa því að Alþ. íslendinga, sem árið 1971 samþykkti ný útvarpslög með þeim ákvæðum í að kjörtímabil útvarpsráðs skuli vera 4 ár, sé rúmum þrem árum síðar svo gersamlega breyttrar skoðunar, að mikill meiri hl. þess nú í dag telji lífsnauðsynlegt að fá þetta frv. samþykkt? Erum við alþm. virkilega þannig að við getum látið kalla okkur til þess að samþykkja næstum hvað sem er, ef einhverjum hæstv. á ráðherrastólum dettur svo í hug? Ég segi nei. Ég held að það séu fá fordæmi á Alþ. íslendinga að flutt séu frv. í þeim tilgangi fyrst og fremst að losna við ákveðna kjörna menn í nefndum eða ráðum af því að þeir þyki óþægilegir á þeim stað.

Ég vil undirstrika það og endurtaka það, að margt af því, sem meiri hl. útvarpsráðs hefur staðið fyrir í dagskrárgerð, er samkv. mínum smekk fyrir neðan allar hellur. En það er ekki neitt nýtt í sögunni að menn, er skipa ráð og nefndir, fari þannig með sitt vald að mönnum falli það ekki öllum. Ég minnist ekki þess, síðan ég kom á þing fyrir 15 árum, að flutt hafi verið frv., þó að mig kunni að misminna, beint í þeim tilgangi að losna við menn úr nefndum og ráðum. Þó kann það að vera. Og ég vona a.m.k., að hafi það verið gert, þá hafi ég ekki fallið í þá gryfju að greiða því atkv., því að ég tel að tilgangurinn geti ekki helgað meðalið í efnum sem þessum. Við lýðræðismenn verðum að hefja okkur upp yfir þann ótta, sem einkennir einræðisþjóðfélögin, að þola ekki frjáls skoðanaskipti eða að menn eigi kost á því að komast í fjölmiðla til þess að túlka sínar skoðanir, ef þær falla ekki valdhöfunum í geð. Og við eigum ekki að reyna að nálgast slík vinnubrögð. Okkar opna þjóðfélag, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, á að vera okkar aðalsmerki og við eigum ekki að gera neitt til þess að reyna að þrengja eða loka því meir. Ég segi því: Mér er algerlega óskiljanlegt hvernig sú ranga niðurstaða hefur orðið ofan á í mínum flokki að flytja þetta frv., af því að ég reikna nú með að frumástæðan fyrir því, að það er flutt, sé sú að ýmsir telji nú, að við höfum ekki verið mjög heppnir um val fulltrúa í útvarpsráð. En í þeirri erfiðu stöðu okkar hefði þó sá kosturinn verið miklu betri að þreyja þorrann og góuna og láta það útvarpsráð, sem nú situr, sitja út sitt eðlilega kjörtímabil, en grípa ekki til þess neyðarúrræðis sem flutningur þessa frv. er, eins og ég hef verið að reyna að lýsa.