10.02.1975
Neðri deild: 40. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

84. mál, útvarpslög

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti: Örfá orð að gefnu tilefni í framhaldi af þessari athyglisverðu umr.

Ég má e.t.v. taka það fram í upphafi máls míns að e.t.v. finnst mörgum hv. þm. og kannske öðrum sem þetta mál okkar heyra, að margt annað sé brýnna í verkahring Alþ. en að skiptast á skoðunum eins og gert hefur verið hér í kvöld um tiltekin undirstöðuatriði okkar þjóðfélagsskipunar. Mörgum finnst brýnna að þm. ræði einstök mál sem þeir flytja sem eru þrengra afmörkuð og kannske í vissum skilningi einfaldari í sniðum. Ég vil einungis lýsa þeirri skoðun minni að því er varðar starfshætti Alþ., að ég tel mjög æskilegt að Alþ. gefi sér öðru hverju tíma til þess sem heitir pólitísk umr., þ.e.a.s. til skoðanaskipta um tiltekin grundvallarsjónarmið í þjóðmálum. Þess vegna segi ég það sem mína skoðun, þó að ég sé ekki dómbær á — eigum við að segja gæði þeirrar umr. sem hér hefur farið fram, þótt vafalaust megi eitthvað að henni finna, — þess vegna finnst mér það ekki eftirsjárvert þótt Alþ. t.d. nú að gefnu tilefni taki upp pólitískan eldhúsdag svo oft sem ytri aðstæður í okkar þjóðfélagi knýja á um það, að menn fyrst og fremst skiptist á skoðunum og takist á um efnahagsmál, þ.e.a.s. skiptingu þjóðartekna og efnislegra verðmæta.

Það, sem þessar umr. hafa leitt í ljós, er að þrátt fyrir allt, bak við hinn að mörgu leyti tilbúna og dulda skoðanaágreining, sem fram kemur í þjóðmálaumr. flokksblaða, þá er e.t.v. ekki, ef því birtingarformi þjóðmálaumr., sem birtist í málflutningi flokksblaðanna, er sleppt, — þá er e.t.v. ekki um eins hatramman, djúpstæðan ágreining að ræða um ákveðin grundvallarverðmæti í okkar þjóðfélagi og mönnum kynni að virðast ef einhver framandi fræðimaður ætti að kynna sér þetta af heimildum dagblaðanna. Og það er út af fyrir sig merkilegt. En það er ekkert óeðlilegt við það þótt ágreiningur sé. Ef hann væri ekki, þá væri stjórnarfar hins menntaða einvalda sennilega miklu meira aðlaðandi og miklu réttmætari þjóðfélagsskipun heldur en það marglofaða lýðræðisskipulag sem við höfum flestir hverjir vikið að einhverjum orðum hér. Ég get að vissu leyti fallist á að þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. landsk. þm. Kjartani Ólafssyni, þess efnis að það beri kannske ekki að vanmeta hlutverk hinna flokkspólitísku blaða miðað við ríkjandi aðstæður. Mér dettur ekki í hug að neita því að þau eigi sér einhvern tilverugrundvöll og einhverjar sögulegar forsendur. Og ég tek undir þá skoðun hans, að þeim mun brýnna er, eins og kom fram í minni framsöguræðu áðan, að ríkisfjölmiðlarnir reyni af enn þá meiri samviskusemi að ástunda hlutlægni í sínum starfsaðferðum. Ég vil ekki láta álykta það af mínu máli áðan — og vil þá taka það fram — að ég sé að lýsa þeirri skoðun að flokkspólitísk málgögn eigi ekki rétt á sér enda, ef grannt er skoðað, sjáum við það í flestum þeim löndum, sem vitnað hefur verið til, að þar er að finna flokkspólitísk málgögn, þ.e.a.s. þeir hópar, sem telja sér það nauðsyn, hafa sín flokkspólitísku málgögn þótt þau gegni fyrst og fremst því hlutverki að vera einhvers konar upplýsingamiðill innan flokksins, en leika hins vegar ekki það hlutverk að vera hin opinbera samviska þjóðarinnar út á við og nái því yfirleitt ekki þeirri stöðu að vera viðlíka áhrifamikill skoðanamótandi aðili eins og er í okkar þjóðfélagi.

Ég var af hv. þm. borinn þeim sökum að vera undir sömu sök seldur og hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir að því leyti, að ég hefði ekki nefnt dæmi máli mínu til sönnunar, þess efnis að ritstjórar Þjóðviljans hefðu sjálfir á ýmsum tímum verið haldnir þvílíku ritskoðunarhugarfari og við höfum rætt hér um í kvöld, Ég vil ekki skorast undan því að nefna slík dæmi vegna þess að ég veit að þau eru allmörg. Mér er kunnugt um það, að þess voru dæmi á því tímabili áður en pólitísk ákvörðun var tekin um það innan forustu Alþb. — allas Sósíalistaflokksins — að leyfa í málgögnum sínum gagnrýnin viðhorf á þá þjóðfélagsskipan sem náð hefur að þróast í Austur-Evrópu, en sú pólitíska ákvörðun var tekin eftir innrásina í Tékkóslóvakíu árið 1968, — fyrir þann tíma voru þess allmörg dæmi að það þótti ekki góð siðfræði, hvorki á málfundum innan samtaka Sósíalista á Íslandi né heldur í málgögnum þeirra, að birta sjónarmið eða greinar sem byggðust á gagnrýnum viðhorfum á þeirri þjóðfélagsskipan. Þetta var stundum reynt að réttlæta með því að sjálfur Sósíalistaflokkurinn íslenski byggði tilveru sína á því að vera „stikkfrí“ að því er varðaði mat á starfsaðferðum, vinnubrögðum og þjóðfélagskerfi sem mótast hafði í þessum löndum. Í raun og veru var þetta vanhugsað, þetta var hálfhugsað og þetta mótaðist af einhverri þeirri pólitískri nauðsyn flokksforingjanna að halda saman söfnuðinum, en gera það samt sem áður raunverulega í skjóli þeirrar blekkingar að sósíalísk hreyfing geti nokkurn tíma verið til eða staðist eftir að hún hefur hætt að beita því, sem á þó að vera hennar rannsóknartæki á þjóðfélagslega þróun, þ.e.a.s. sinni fræðikenningu til rannsóknar og gagnrýni á þjóðfélagsþróun. Þetta var náttúrlega út af fyrir sig á hnignunarskeiði. Þess voru einkum og sér í lagi mörg dæmi á árunum upp úr 1950, eftir að ungir menn af Íslandi lögðu leið sína til þessara landa og stunduðu nám í ýmsum fræðum með þessum þjóðum. Það hefur vafalaust gerst misjafnlega snemma að þeir gerðu upp heimanfenginn arf sinn í afstöðu sinni til þessara þjóðfélaga. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að þeir hafi margir hverjir tekið í arf héðan að heiman úr þjóðmálaumr. íslenskra sósíalista afskaplega barnalegar hugmyndir um þá þjóðfélagsskipan sem hér var um að ræða. Þess voru dæmi að allnokkrir þessara manna urðu fyrir þeirri lífsreynslu á þessum árum og höfðu til að bera þann manndóm að þeir vildu hlíta lögmáli fræðimanns eða menntamanns að láta ekki einhver pólitísk hyggindasjónarmið flokksforustu á hnignunarskeiði ráða því, hvað væri leyfilegt að segja og hvað ekki, og gáfu málgögnum sósíalistahreyfingar á Íslandi kost á því að birta slík sjónarmið. Ég þekki allmörg dæmi þess, að slíkum greinum hafi verið hafnað.

Það stoðar lítt þótt sagt sé að þetta hafi verið í gamla daga og það kunni vel að vera að slíkt gerist ekki nú. Ég minnist þess úr kosningabaráttu vestan af Fjörðum á s.l. vori, að hv. þm. ferðaðist um Vestfirði með siðferðisvottorð upp á vasann frá tímaritinu Stefni, málgagni ungra sjálfstæðismanna, þar sem einhver nafngreindur maður hafði sagt að frá og með innrásinni í Tékkóslóvakíu hefði Alþb. fengið siðferðisvottorð upp á það að það leyfði nú — (Gripið fram í.) já, það leyfði nú slíkri gagnrýni að koma fram.

Eitt er hvað gert er af pólitískum hyggindum eða illri pólitískri nauðsyn og annað það, hverjar kröfur slík hreyfing gerir til sjálfrar sín að taka til endurmats grundvallarhugmyndir, sem hún hefur byggt á tilvist sína mjög lengi og hún viðurkennir í orði, með því að leyfa slíka gagnrýni, til neydd vegna þrýstings frá almenningsáliti, sem flokkurinn stenst ekki lengur þegar hann stefnir að því að verða fjöldaflokkur á Íslandi, og annað hvaða kröfur beri að gera til þeirra menntamanna í forustu flokksins, sem telja sig byggja á sósíalískri fræðikenningu, að láta ekki þar staðar numið. Það er verk sem þessi stjórnmálaflokkur sósíalista á Íslandi hefur enn ekki haft hugrekki eða manndóm til að byrja á. Að mínu mati er það ein af alvarlegri veilum í íslensku stjórnmálakerfi að ekki skuli vera til flokkur sem raunverulega byggir á slíkum forsendum, og það er um leið ein af ástæðunum fyrir því að mínu mati að Alþb. sem slíkt hefur æ meir hrakist undan þrýstingi utanaðkomandi áhrifa og stefnir hraðbyri í þá átt að vera flokkur sem lætur sér nægja eingöngu og í allt of ríkum mæli skammtímasjónarmið, nálgast því að verða um of hentistefnuflokkur á borð við Framsfl. Ég mun láta útrætt um það.

Ég vil fyrst víkja að einu dæmi að því er varðar svarræðu hv. 4. þm. Norðurl. v., Eyjólfs K. Jónssonar. Mér var að sjálfsögðu fullkunnugt um það að Morgunblaðið og Vísir eru ekki í eigu stjórnmálaflokka að formi til, en taldi þá staðreynd ekki svo veigamikla, að það eignarréttarform eitt út af fyrir sig markaði þeim sérstöðu. Ég vil hins vegar vekja athygli hv. þm. og fyrrv. ritstjóra á því, að sá maður í þessum umr. sem er fyrrverandi kollegi hans, ritstjóri Þjóðviljans, fór að vissu marki nokkrum viðurkenningarorðum um þá viðleitni sem gætt hefur af hálfu Morgunblaðsins til þess að hefja sig upp yfir þrengstu flokkssjónarmið, og mér fyndist í nafni almennrar kurteisi að hv. þm. hefði átt að veita andstæðingi sínum viðurkenningu fyrir þessa sanngirni í skoðunum. Ég vil nefna eitt dæmi. Að sjálfsögðu er það rétt sem fram kom hjá hv. þm. að þau erlend stórblöð, sem ég nefndi í máli mínu hér áðan, eru að sjálfsögðu pólitísk blöð. Það frjálsræði til hlutlægrar afstöðu, sem ritstjórn stórblaðs eins og New York Times eða Washington Post er gefið, m.a. í krafti þess að þetta eru blöð sem styðjast við mikið fjármagn og eru fjárhagslega hugsanlega laus undan þrýstingi, þýðir ekki það að þau láti sér það eitt nægja að vera merkingarlaust dægrastyttingarlesmál. Þau eru að sjálfsögðu pólitísk blöð og þau hafa sýnt það að þau hafa getað tekið pólitíska afstöðu sem er í veigamiklum atriðum geysilega gagnrýnin á sjálfar grundvallarforsendur þeirrar stefnu sem rekin er af valdhöfum á hverjum tíma.

Nú vil ég nefna eitt dæmi sem mér finnst þýðingarmikið. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að Víetnam-styrjöldin hefur fyrir þá kynslóð, sem telst til yngri borgara á Íslandi og reyndar viðar um heiminn, verið ámóta mótandi viðburður að því er varðar ekki einungis afstöðu manna til stjórnmála, heldur lífsviðhorfsmótun ungrar kynslóðar eins og hugsanlega Spánarstyrjöldin var á sínum tíma að móta viðhorf manna gegn fasisma á sinni tíð. Eitt af því, sem ég minnist frá þeim árum, frá einmitt sjöunda áratugnum, sem ég mundi vilja nefna sem dæmi um afstöðu af hálfu Morgunblaðsins, — og menn leiðrétta mig þá ef þeir hafa rök fyrir því, — þar sem ég hygg að Morgunblaðið sem stórblað á íslenskan mælikvarða hafi verið bert að því að vera í raun og veru kaþólskara en páfinn. Þess gætti ekki á siðum Morgunblaðsins á þeim tíma að þar kæmu fram gagnrýnin viðhorf á þessa örlagaríku styrjöld sem þó mátti lesa daglega á siðum helstu blaða í Bandaríkjunum sjálfum. Þetta er að mínu mati til marks um of mikið ósjálfstæði og of „fanatíska“ einhyggju að því er varðar alþjóðleg viðhorf og gildismat og ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta táknaði raunverulega að vissu leyti viðskilnað við eðlileg sjónarmið og viðhorf hugsandi borgara um allan heim. Ég ætla ekki að fara að vekja hér upp umr. um Víetnam-stríðið að öðru leyti en því að nefna þetta sem dæmi. (Gripið fram í: Manstu á hvaða árum þetta átti að vera?) Já, þetta er sérstaklega á árabilinu frá 1964 og fram undir 1968–1969, að mínu mati. Ég hygg að tengsl Morgunblaðsins við ráðandi öfl í Sjálfstfl. hafi valdið þarna miklu um. Ég hygg að innan Sjálfstfl. — það nánast segir sig sjálft — sem er flokkur sem fær fylgi í kosningum frá 37% kjósenda og upp í það að fara yfir 40% kjósenda, — ég hygg að það segi sig sjálft að innan Sjálfstæðisfl. og meðal fylgismanna hans var þá þegar að finna fjöldann allan af mönnum sem höfðu allt annan skilning á þeim hrapallegu mistökum í bandarískri utanríkisstefnu sem Víetnam-stríðið var. Þegar ég nota þessi orð:

„Hrapalleg mistök að því er varðar bandaríska utanríkisstefnu“ — þá kann það að valda misskilningi. Ég mæli það fyrst og fremst á þann máta að framkvæmd þessarar styrjaldar og þær forsendur, sem fyrir henni lágu, voru ekki í þágu þeirrar utanríkisstefnu sem eftir á að hyggja hefði verið í samræmi við hagsmuni svokallaðra vestrænna lýðræðisríkja. Og ég hygg að enginn einstakur atburður í seinni tíma sögu hafi verið málstað þessara ríkja eins skaðlegur og þessi tiltekni atburður. Og að þessu leyti nefni ég t.d. málflutning Morgunblaðsins um þetta efni. Ég tel að í þessu tilviki hafi Morgunblaðið brugðist hlutverki sínu. En til marks um umburðarlyndi þessa öfluga málgagns, þessa öfluga dagblaðs, var það nefnt hispurslaust og hreinskilnislega, að þegar að því kæmi að ráða starfsmenn að þessu blaði, þá væru menn yfirleitt ekki spurðir að neinu nema þrennu, þeir þyrftu að uppfylla þrjár meginkröfur: að vera ekki kommúnistar, fasistar eða anarkistar. Ég get ekki að því gert, að mér kemur í hug að ýmsir af þeim, sem nú skipa raðir Alþb., jafnvel þingflokk Alþb. hafa fengið uppeldi sitt í blaðamennsku á Morgunblaðinu, og ýmsir þeirra, sem reynst hafa áhrifamiklir í íslenskri blaðamennsku við önnur málgögn, hafa einmitt átt langan feril á Morgunblaðinu, og þarf ekki að nefna nöfn í því sambandi. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri að því er varðar þau sjónarmið sem hér hafa komið fram í umr.

Ég lauk máli mínu áðan með því að lýsa áhyggjum mínum yfir þeirri tilhneigingu til mér lítt skiljanlegs skorts á umburðarlyndi, sem gætti í flutningi þessa frv., og vil ítreka að ég harma það. Það er hægt að nefna fleiri dæmi og ég get ekki staðist þá freistingu að nefna eitt slíkt dæmi í samhengi við þessa umr. Ég geri það með þeim formála að ég teldi æskilegt að einmitt æðstu yfirmenn menntamála á Íslandi litu á það sem skyldu sína, hvað svo sem líður tímabundnum pólitískum ágreiningi, að þeirra væri það öðrum fremur að virða grundvallarreglu umburðarlyndis í opinberu lífi á Íslandi og halda aftur af þeim bráðræðissjónarmiðum eða þrengstu flokkssjónarmiðum sem greinilega setja mark sitt á viðleitni tiltekinna hópa að því er varðar t.d. þetta mál.

Eitt dæmi, sem ég vil nefna um það og veldur mér áhyggjum, er t.d. þetta: Sá atburður varð á s.l. hausti að tilteknum starfsmanni menntmrn. var fyrirvaralaust sagt upp störfum og gefnar að sakarefni tvennar sakir. Í fyrsta lagi var það hin opinbera skýring, að þessi umræddi starfsmaður hefði birt grein um skólamál í nafngreindu tímariti norðanlands, og í annan stað, að þessi tiltekni starfsmaður hefði í heimildarleysi dreift skýrslu sem sérfræðingur hafði unnið um vandamál sérkennslu í íslenskum skólum. Nú kann vel að vera að menn leggi misjafnt mat á það hvað þessi atburður tákni. Menn geta haft sínar eigin skoðanir á þeim mönnum sem hér koma við sögu, og ég ætla ekki út af fyrir sig endilega að gera það að umtalsefni. Ég skal enn fremur taka það fram, að sjálfur er ég persónulega þeirrar skoðunar að æviráðningarkerfi íslenskra embættismanna væri eitt af því sem væri í þágu virks stjórnarfars og umbótasinnaðra breytinga að afnema. Ég er t.d. þeirrar skoðunar að það ætti aldrei að ráða nokkurn mann í starf til lengri tíma en 4 ára og því næst hafa það í huga að fenginni reynslu, hvort æskilegt væri að maðurinn héldi áfram í því starfi. Ég tel að þetta sé bæði rétt gagnvart almennum lýðræðisreglum grundvallarsjónarmiðum og enn fremur gagnvart skilningi manna á því hvað sé æskilegt. Ég tel óæskilegt að menn ali upp í okkar tiltölulega litla þjóðfélagi smávaldakónga sem að sjálfsögðu í skjóli æviráðningar og atvinnuöryggis hættir til þess að byggja upp lítið valdakerfi sem hætt er við að staðni.

En mér er spurn af þessu tilefni um tvennt. Úr því að sakarefnin eru þessi og manni er vísað úr starfi fyrir að hafa skrifað grein, þá kemur til álita að meta það hver greinin er og hvað er þar sagt. Ég er undirmaður hæstv. menntmrh. að starfi og starfa að skólamálum. Ég tók við þessu starfi og gerðist svo önnum kafinn við að sinna því, að ég hef lítið getað látið frá mér fara, sem ég þó hefði talið æskilegt, um viðhorf mín til skólamála og reynslu af þeim. En áður en það varð, minnist ég þess að ég lét oft á tíðum frá mér fara greinar í fjölmiðlum þar sem ég gagnrýndi ýmsa þætti skólamálanna. Ég tel rétt að mitt mat á umræddri grein, þar sem hér er um að ræða sakarefni, komi fram: Meginkjarni greinarinnar er sá að benda á mjög alvarlegar veilur í skipan framhaldsskólakerfis á Íslandi og jafnframt koma á framfæri því sjónarmiði að innan yfirstjórnar menntamála á Íslandi sé í allt of litlum mæli þess gætt að eðlileg sjónarmið menntmrn., þ.e.a.s. uppeldis- og kennslufræðileg sjónarmið, fái notið sín gagnvart þröngum fjárhagslegum formúlum. Að því er varðar kjarna þessa máls get ég lýst því yfir hér úr þessum ræðustól að ég er efnislega sammála þessari gagnrýni, og ég er reiðubúinn til að lýsa því yfir úr þessum ræðustól að ég er reiðubúinn til þess að endurtaka þau ummæli mín utan þinghelgi og taka á mig þá áhættu að verða brottrækur úr mínu starfi, ef það telst eðlilegt siðgæði og eðlilegt umburðarlyndi og eðlileg viðhorf að svo sé gert. Hitt er annað mál, að það kann vel að vera, og undir það get ég tekið, að þessum sjónarmiðum í umræddri grein hafi hugsanlega verið haldið fram líka af nokkrum skorti á umburðarlyndi, að það hafi ekki verið tekið tillit til vissra erfiðleika sem við er að fást o.s.frv., að greinin hafi verið skrifuð — eigum við að segja, eins og hv. 5. þm. Austurl. orðaði það um aðra gr. — að þessi grein hafi kannske verið skrifuð nokkuð hratt.

Annað sakarefnið er það, að umræddur starfsmaður hafi í heimildarleysi dreift ákveðinni skýrslu sem var niðurstaða af rannsókn sem ákveðinn sérfræðingur vinnur um vandamál þeirra sem verst eru settir í íslensku skólakerfi, börn á skyldunámsstigi, sem eiga sannarlega í miklum erfiðleikum, vegna þess einfaldlega að í okkar skólakerfi hefur þeim málum ekki verið gefin nægur gaumur, grundvallarsjónarmiðum að því er varðar það að taka tillit til ýmissa einstaklinga sem ekki falla inn í þetta almenna kerfi. Þessi skýrsla er, ef mér leyfist að segja það út frá minni litlu reynslu sem skólamaður, hið þarfasta plagg. Þar kemur að vísu fram gagnrýni á tiltekinn starfsmann menntmrn. sem er þannig fram sett að hún er niðurstaða af viðræðum og viðtölum við fjölda skólastjóra um land allt. Nú má líka deila um það, hvort það hafi verið rétt að þessi gagnrýni kæmi fram með þessum hætti. En tilefnið er svo smátt að ég fæ með engu móti lagt það saman, og það er algjörlega nýtt gagnvart viðhorfum manna til slíkra hluta, að hér sé um að ræða brottrekstrarsök. Ég vil t.d. vekja athygli á því að hér fyrir hv. Alþ. liggur þáltill. þar sem gerð er till. í þá átt að þessi mál verði tekin fastari tökum af hv. menntmrn. og að því stefnt að sérstökum sérfróðum starfsmönnum verði falið að fjalla um þetta — í fullri viðurkenningu þess að einmitt þessi skýrsla hafi leitt í ljós að hér er um mjög alvarlega vöntun að ræða í okkar skólakerfi.

Þetta er dæmi — og ég nefni það hér í samhengi þessara umr. — um viðbrögð og viðhorf sem ég átti ekki von á. Ég vil taka það fram að ekkert af því sem ég hef hér sagt er borið fram af illum hug eða í fjandskaparskyni við hæstv. menntmrh, Þvert á móti hef ég enga ástæðu til að ætla annað en að hæstv. menntmrh. vilji láta gott af sér leiða. Ég hafði einmitt gert mér vonir um það að hann nálgaðist flókin viðfangsefni menntamála út frá sjónarhóli þeirrar lífsreynslu sem gerði honum það kannske sérstaklega kleift að ráða fram úr slíkum vandamálum frá nýjum sjónarhóli og ferskum lífsviðhorfum. Þess vegna tel ég alveg sérstaka ástæðu til þess að harma tillöguflutning eins og þann sem hér liggur fyrir hv. Alþ. um að grípa til lagasetningar um að svipta útvarpsráð starfsfriði og skipta um útvarpsráð, þótt ekki sé eftir nema tiltölulega lítill hluti af kjörtímabili þess, án þess þó að flytjandi frv. fáist til þess að viðurkenna að þetta sé borið fram vegna vantrausts á störfum útvarpsráðs eða nein þau dæmi séu nefnd, sem ég hef enn ekki fengið að heyra, sem réttlæti þetta. Og eins er með hitt dæmið sem ég nefndi, að ég tel það bera vott um svipuð viðhorf, án þess þó að yfirstjórn menntamála hafi í þessu tilviki talið sér skylt að gera heiðarlega og ærlega grein fyrir því hvers vegna var gripið til þeirra aðgerða.

Því verður ekki af efnislegum ástæðum trúað að brottrekstrarsök umrædds starfsmanns hafi verið sú að hann skrifaði grein í blað eða hann dreifði skýrslu til skólastjóra. Hér býr eitthvað annað að baki, og ég harma að svo skuli vera og á erfitt með að trúa því að hér sé um annað að ræða en misráðnar aðgerðir sem raunverulega byggjast ekki á nægilegri íhugun á því raunverulega hvað í þeim felst. Hugsanlega er einmitt hér um það að ræða að stjórnmálamönnum á Íslandi, sem skyndilega taka að sér forstöðu fyrir viðamiklum stofnunum og ráðuneytum, hætti til þess að hafa einmitt ekki nægilegt sjálfstæði gagnvart því kerfi sem þeir koma til með að starfa í. Þeir eiga ekki að vera fangar þess, þeir eiga að stýra því.