11.02.1975
Sameinað þing: 41. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

145. mál, endurskoðun laga um iðju og iðnað

Flm. (Gunnar J. Friðriksson):

Herra forseti. Eins og getur í grg, með þáltill. þeirri, sem hér er til umr., er uppistaða laga um iðju og iðnað lög nr. 18 frá 1927. Á þeim tíma, sem síðan er liðinn, hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til að fá lögum þessum breytt. Snemma árs 1950 var skipuð n. af þáv. iðnrh. til að endurskoða lögin, Var n. sammála um frv. til iðnaðarlaga sem síðar var lagt fyrir Alþ. sem stjfrv. árið 1952. En þó að n., sem skipuð var fulltrúum iðnaðarmanna og iðnrekenda, hafi orðið sammála um frv., varð reyndin sú að samtök iðnaðarmanna höfnuðu frv. Þegar iðnn. Nd., sem hafði málið til meðferðar, var ljós þessi ágreiningur lagði hún til að málið væri afgr. með rökst. dagskrá og ríkisstj. falið að reyna að ná samkomulagi við aðila.

Næstu ár voru gerðar nokkrar tilraunir til að brúa bilið sem skildi skoðanir iðnrekenda og iðnaðarmanna, en án árangurs. Á þessum árum var verksmiðjuiðnaðurinn að vaxa úr grasi og farið var að fjöldaframleiða í verksmiðjum ýmsa þá hluti sem fram til þess höfðu einungis verið framleiddir á verkstæðum meistara. Af þeim sökum var oft um mismunandi skoðanir að ræða á því, hvað væri lögvernduð framleiðsla og mætti því aðeins vinna af sveinum og meisturum og lærlingum eða hvað mætti vera unnið af ófaglærðu starfsfólki verksmiðjanna.

Eftir því sem árin hafa liðið hefur fækkað þeim kærum sem bornar hafa verið fram vegna mismunandi skilnings á verkaskiptingu milli handverks og verksmiðjuiðnaðar. Má því ætla að nú sé grundvöllur fyrir því að samkomulag náist um nýja löggjöf um iðnað, en þurfi ekki að stranda á ósamkomulagi þessara aðila. Jafnframt má benda á að sú breyting hefur orðið á skipulagi samtaka iðnaðarmanna, að frá því að algengast var að meistarar og sveinar væru saman í iðnaðarmannafélagi hefur þróunin orðið sú, a.m.k. í hinum fjölmennari byggðarlögum, að sveinar og meistarar skipi sér hvor um sig í sitt eigið stéttar- og hagsmunafélag. Þetta þýðir það að félögin gæta hagsmuna félagsmanna sinna með samtakamætti stéttarfélaganna og þurfa því ekki að leita réttar síns fyrir sakadómi eða félagsdómi eins og gömlu lögin heimila.

Það efast enginn um gildi handverks og verksmiðjuframleiðslu, en gömul lög, sem ekki samræmast breyttum aðstæðum, mega ekki standa í vegi fyrir nauðsynlegri framþróun. Einnig mælir það mjög með endurskoðun þessara laga að mikil breyting er og hefur verið að eiga sér stað í menntmn iðnaðarmanna og annarra þeirra sem við tæknistörf fást.

1973 var skipuð n. til að endurskoða iðnfræðsluna. Hefur n. unnið mikið starf og mun starfssvið hennar jafnframt hafa færst út á svið almennrar verkmenntunar þar eð það tengist óhjákvæmilega iðnmenntuninni. Nauðsynlegt er að n. sú, sem skipuð verður ef till. þessi verður samþ., hafi samband við n. þessa.

Við vitum öll að undirstaða þróaðs verksmiðjuiðnaðar er verkmenning og tækniþekking. Það er engin sú bifreið tekin til fjöldaframleiðslu að fyrsta eintakið eða fyrirmyndin hafi ekki verið handsmíðað og reyndir iðnaðarmenn síðan framleitt þá stansa og mót sem gera fjöldaframleiðsluna mögulega. Sama máli gegnir um hvern þann hlut úr plasti sem við daglega höfum milli handa. Einnig gildir sama um flest húsgögnin, fötin o.s.frv., eða nær alla þá hluti sem í verksmiðjum eru framleiddir. Það er hagsmunamál hverrar þjóðar að eiga vel menntaða iðnaðarmenn og háþróaðan iðnað. Iðnaðarmaðurinn á að njóta virðingar vegna hæfni sinnar og kunnáttu og verksmiðjurnar trausts vegna vandaðrar vöru sem fjöldin getur eignast vegna hagkvæmni fjöldaframleiðslunnar. Það, sem skilur milli þróunarlandanna og hinna þróuðu, er iðnaður. Þjóðum, sem eiga frjósama jörð og auðug fiskimið, hefur þrátt fyrir það ekki tekist að ná þeirri efnahagsþróun sem þarf til þess að geta séð þegnum sínum fyrir viðunandi viðurværi vegna þess að iðnaðinn hefur vantað. Það er iðnaðurinn sem hvarvetna hefur lagt landbúnaðinum til tækin og efnin sem auka afköst bóndans. Sama er að segja um fiskveiðar. Þar er það iðnaðurinn sem hefur lagt fiskimanninum til fullkomnari skip, siglingar- og leitartæki og afkastameiri veiðarfæri. Hvað íslenskan sjávarútveg snertir hefur það gert mögulegt að fiskur og fiskafurðir standa undir rúmlega helmingi gjaldeyrisöflunar þjóðarinnar. Ánægjulegt dæmi um, hvernig iðnaðurinn hefur stuðlað að auknu öryggi og hagkvæmni, eru sjálfstýritæki þau sem nýlega hafa verið framleidd af íslenskum tæknimönnum og sett í skip og fiskimjölsverksmiðjur. Reynslan er sú að þjóðir, sem eru um of háðar öðrum þjóðum um tækni og iðnaðarframleiðslu, eiga erfitt með að sjá þegnum sínum fyrir viðunandi lífskjörum. Okkur íslendingum er því nauðsyn að efla iðnaðinn hvar sem við verður komið. Með því stuðlum við jafnframt að hagkvæmari nýtingu auðæfa okkar til lands og sjávar.

þáltill., sem hér er flutt, er hugsuð sem einn líður sem greiði fyrir þessari framþróun. Samkv. tölum frá 1972 unnu 22 500 manns við iðnráð, þar af um 6 þús. við fiskiðnað. Á sama tíma unnu rétt tæplega 10 þús. manns við byggingarframkvæmdir eða samtals um 32 500 manns.

Sem hundraðshluti vinnandi fólks í landinu er þetta rúmur þriðjungur.

Þó að iðnaðarþróunin hafi verið ör allt frá lokum styrjaldarinnar hafa skilyrði til iðnþróunar á ýmsan hátt verið óhagstæð og þróunin því hægari en æskilegt má teljast, sérstaklega ef hafður er samanburður við nágrannaþjóðir okkar, Orsakir þessa eru ýmsar, m.a. að hinir hefðbundnu atvinnuvegir okkar, landbúnaður og sjávarútvegur, hafa einatt átt fleiri og athafnasamari talsmönnum á að skipa en iðnaðurinn, enda þess gætt í aðgerðum þings og stjórnar þegar um ráðstafanir og fjármögnun vegna atvinnuveganna hefur verið fjallað. Það skal samt viðurkennt að þetta hefur verið að breytast eftir því sem skilningur á þjóðhagslegri þýðingu iðnaðar hefur aukist. Þjóðinni er að verða ljóst hve gífurleg auðæfi hún á í orku hvera og fallvatna, að skynsamleg nýting þeirrar orku getur verið aflgjafi iðnaðar sem tryggi aukið jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Mikilvægi þess hlýtur að vera okkur ljóst einmitt þessa dagana. Með þeirri þekkingu og tækni, sem þjóðir heims hafa nú yfir að ráða, er ekkert því til fyrirstöðu að saman geti farið virkjun orku og rekstur iðjuvera og umhverfis- og náttúruvernd. Það er von mín að Alþ. beri gæfu til að fjalla af raunsæi um öll þau mál er iðnað og iðnþróun varða og þar með stuðla að aukinni hagsæld með þjóðinni.

Ég legg til. herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. frestað og vísað til atvmn.