11.02.1975
Sameinað þing: 41. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

77. mál, fiskræktarmál eldisstöðvarinnar að Laxalóni

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt, þegar maður heyrir það nú að hv. 3. þm. Austf., sem ég hélt að væri sæmilega kjarkgóður og ýmsu vanur, hrekkur við ef maður talaði í aðeins hærri tón hér úr ræðustól en venja er. Verð ég að segja það; að ég hefði þá haldið að einhver hefði getað hrokkið við orð mín, t.d. á framboðsfundum, ef þetta hefur gefið tilefni til þess. En lítið lagðist fyrir kappann, fyrst það var ekki meira en þetta. sem hann þurfti.

En það merkilega, sem kom fram í ræðu þessa hv. þm., var það að í þáltill., sem hann er flm. að, taldi hann að í grg. væri dróttað að þessum embættismönnum meira en góðu hófi gegndi að hans dómi. Þess vegna er von að öðrum finnist svo þegar flm. sjálfum finnst það.

Það, sem um er að ræða hér, er það hvort embættismenn hafi sinnt sínu verki eða ekki. Það hefur komið hér fram í skýrslum og ekki verið mótmælt, að þeir hafa gefið út þau vottorð sem þeir hafa verið beðnir um, ef aðstæður hafa verið til að gera það þannig, að þeir hafi haft möguleika til þess að meta hvort um heilbrigði væri að ræða eða ekki. Þeir hafa ekki viljað gera það nema í sambandi við einstök tilfelli svo að það mætti bera saman vottorðsgjöfina og það sem vottorðið hljóðaði upp á. Að fara að gefa út heilbrigðisvottorð fyrir útflutningi á einn eða annan hátt út á framtíðina, það veit ég a.m.k. að læknirinn hérna vinstra megin mundi ekki gera, enda of vanur og of hygginn til þess að gera það. Ég held að það sé engum fært, sem vill halda sínu nafni og sínum heiðri, að gefa út vottorð út á eitthvað sem hann veit ekki hvað verður. Þess vegna er það sannað og það var sannað þegar ég svaraði hér fsp. í fyrra og þurfti þess vegna ekki að endurtaka málið nú, að þessir embættismenn hafa gefið út vottorð vegna útflutnings bæði á fiski og hrognum þegar þeir hafa verið í aðstöðu til þess að gera það. Þeir hafa hins vegar ekki verið í aðstöðu til að gefa út vottorð vegna veirusjúkdóma af því að þeir hafa ekki haft möguleika til þess að rannsaka þá. Hins vegar hefur af hálfu ríkisvaldsins og í samráði við þessa menn verið tekin sýni nú á annað ár til þess að reyna að fá þetta atriði sérstaklega rannsakað af þeim sem færastir eru þar um. Og það getur enginn talað um embættismannahroka eða annað því um líkt þó að embættismaður eða einn eða annar maður vilji ekki gefa út vottorð fyrir því sem hann hefur ekki möguleika til að votta, það er útilokað. Það væri þá frekar ástæða til að rannsaka hans störf ef hann gæfi út slíkt vottorð. Enda hefur líka komið fram að það hafa engar hömlur verið lagðar á þessa starfsemi S,kúla á Laxalóni. Það hefur meira að segja verið gengið lengra en hann sjálfur fór fram á þegar hann fékk leyfi til innflutnings á hrognum 1951. Og það hefur gengið dómur um þetta mál, hvort það hafi verið brotinn á honum réttur eða ekki. Auðvitað verður hann eins og aðrir menn að fara að réttum leikreglum í málinu og annað ekki. Það er í raun og veru ekkert annað sem um er deilt í þessu. Það er sannað að hann hefur fengið þau vottorð sem hafa verið möguleikar til að gefa honum. Það er sannað að hann hefur fengið líka leyfi til þess að flytja í aðra stöð þótt hann hafi áður farið fimm á það eitt að ala þetta upp í þar til gerðum húsum, eins og segir í hans bréfi upphaflega og var þessi starfsemi hans þar bundin við. Þannig hefur verið greitt fyrir honum. Hann hefur verið studdur líka fjárhagslega. En honum hefur bara dottið í hug að fá vottorð alveg án þess að væri nokkuð á bak við þau og flytja stofninn þangað sem honum hefur hugkvæmst í það og það skiptið, og af því að það hefur ekki verið gert alveg skilyrðislaust, þá er deilt á þessa starfsmenn ríkisins fyrir. Þetta finnst mér vera allt annars eðlis heldur en hv. 12. þm. Reykv. talaði hér um og það hlýtur hann nú að játa eins og fleiri að frelsi manna eru takmörk sett og þeir mega ekki sniðganga lög eða reglur þeim eftir geðþótta, ekki síst þegar um er að ræða svo alvarlega hluti eins og þetta getur verið, þar sem það gæti haft áhrif á fiskeldi landsmanna almennt.

Hvað varðar þær skýrslur sem ég hef lesið upp, þá er það rétt hjá hv. 3. þm. Austf. að ræða sú, sem ég flutti hér, var að meiri hl. ekki samin af mér, sem er þó óvenjulegt, því að yfirleitt sem ég mínar ræður sjálfur. En í slíku máli sem þessu treysti ég mér ekki til þess að semja ræðu, því að þarna er um að ræða mál sem þeir, sem ég hef leitað til kunna best skil á og rökstyðja svo að ekki verður hrakið, þannig að mér bar skylda til þess að gera það í þessum tilfellum. Hér er ekki um mitt mál að ræða, heldur embættismál sem ég taldi mér skylt að sinna.

Ég verð því að endurtaka það að mér finnst flutningur á þessari till. alls ekki viðeigandi, vegna þess að slíkt er ekki viðeigandi þó að einn og einn aðili reki sig á lög og reglur og haldi því fram, að þær hafi verið brotnar á sér. Það er búið að gera grein fyrir því hér á Alþ.fyrir einu ári að svo hafi ekki verið gert, og það hefur ekkert verið lagt fram sem sannar að það hafi verið gert, heldur liggja fyrir skýrslur sem sanna hið gagnstæða. Og ég verð að segja það, að það, sem mér þykir máli skipta og eina sem er gagn að þessari till., er að koma á framfæri þeim skýrslum sem hér hefur nú verið gert, koma þeim inn í þingtíðindin, því að þá ættu hv. þm. að geta lesið sér til í framtíðinni svo að þeir færu ekki af stað með mál sem jafnórökstutt er eins og þetta mál.