11.02.1975
Sameinað þing: 41. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1674 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

101. mál, dýpkunarskip

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) Herra forseti. Við þm. Vestfj. flytjum á þskj. 116 till. til þál. um að ríkisstj. athugi nú þegar um kaup á nýju dýpkunarskipi eða leigu erlendis frá. Ég leyfi mér að lesa till., en hún hljóðar svo:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að athuga nú þegar hvort ekki sé tímabært að efna til kaupa á nýju dýpkunarskipi eða að öðrum kosti leita fyrir sér um leigu á slíku skipi erlendis frá til að leysa úr aðkallandi þörf margra hafna á landinu.“

Þessi till. þarf ekki langrar skýringar við umfram það sem fram kemur í grg. sem henni fylgir, en í upphafi hennar er hent á atriði sem hlýtur að vega mjög þungt á metunum í þessu máli, þ.e. að íslendingar hafa stóraukið skipastól sinn á undanförnum árum. Stærri og fullkomnari skip kalla á bætt hafnarskilyrði, ella geta þau engan veginn gengt því hlutverki sínu til uppbyggingar í atvinnulífi landsmanna sem til er ætlast.

Í fjögurra ára áætlun Hafnamálastofnunarinnar um hafnargerðir á Íslandi, sem hv. alþm. fengu í hendur rétt fyrir síðustu jól og lögð verður nú alveg á næstunni sem þáltill. fyrir Sþ., er fjallað um þetta atriði í inngangi áætlunarinnar, en þar segir svo orðrétt, með leyfi forseta:

„Hinn nýi floti skuttogara hefur valdið mörgum vandamálum í höfnum landsins. Ekki hefur fylgst að fjárfesting í nýjum skipum og hafnarmannvirkjum. Flestir hinna nýju togara rista dýpra en þau flutningaskip sem notuð ern til strandsiglinga hér á landi og um einum metra dýpra en stærstu bátar. Hljóta því að skapast vandamál þegar hafnir, sem miðaðar eru við bátaútgerð og flutninga með minni flutningaskipum, þurfa að taka við skuttogurum og veita þeim viðlegu og skjól. Lítil athugun virðist hafa verið gerð á því hvort hafnir á hverjum stað hæfðu þeim skipum er keypt voru. Hafnirnar eru misdjúpar og djúprista skipanna er mismunandi eftir gerð þeirra og stærð.“

Engum blandast hugur um að stórkostleg atvinnubót er að hinum nýja skuttogaraflota, en það er jafnframt augljóst að ekki hefur verið gætt nægilegrar fyrirhyggju og aðgætni af hálfu stjórnvalda, bæði að því er varðar stærð og gerð skipanna miðað við hafnarskilyrði sem fyrir hendi eru og hins vegar fjölda þeirra sem líka snertir beint það mál sem hér er til umr, þótt ekki sé þá höfð í huga hin hlið málsins, hinn stóraukni ágangur á fiskistofna okkar sem eftir öllum sólarmerkjum að dæma, minnkandi veiðimagni, smækkandi fiski, eru nú í alvarlegri yfirvofandi hættu, ekki hvað síst þorskstofninn sem er okkur hvað dýrmætastur. Við hljótum að gera strangar kröfur til okkar sjálfra um aðgát og hófsemi í veiðiaðferðum okkar á sama tíma og við eigum í stríði gegn ásókn og rányrkju erlendra þjóða á fiskimiðum okkar.

En snúum okkur aftur að dýpkunarskipinu. Dýpkunarskipið Grettir, sem er eina skipið sinnar tegundar sem við eigum, var byggður árið 1947 og er því orðinn 28 ára gamall. Fyrir tveimur árum var hann settur í allsherjarklössun og þá gert ráð fyrir að það yrði í síðasta skipti og mundi duga næstu 5 árin. Sú áætlun hefur þó ekki staðist og nú er skipið enn komið á þurrt í aðra klössun sem mun taka nokkra mánuði, enda mun verr farið en það var metið á floti. Þetta hef ég eftir upplýsingum frá þeim aðila hjá Hafnamálaskrifstofunni, áhaldahúsi stofnunarinnar, sem umsjón hefur með viðgerðinni. Er nú til álita hjá stofnuninni hvort gera eigi eins lítið við hann og hægt er nú til stutts tíma eða miða við tveggja ára notkun til viðbótar, en sú viðgerð er áætlað að mundi kosta 30–40 millj. Er eftir upplýsingum, sem ég vitnaði til áðan, gert ráð fyrir að þessi viðgerð gæti tekið allt að 3 mánuði. Fyrrnefndur aðili hjá Hafnamálastofnun taldi í samtali við mig að með þessum mikla viðhaldskostnaði yrði leiga skipsins það há að á mörkunum sé að verjandi geti talist.

Nú hefur Grettir verið á annað ár við dýpkunarframkvæmdir í Grindavík og er enn ekki lokið framkvæmdum þar. Næst á biðlistanum koma Sandgerði, síðan Bolungarvík, Dalvík, Húsavík og auk þessara hafna er í fyrrnefndri 4 ára hafnaáætlun gert ráð fyrir dýpkun á hörðum botni á Patreksfirði, Hólmavík, Skagaströnd og Þórshöfn. Fyrirsjáanlegt er, ef engra nýrra úrræða verður leitað, að allar þessar hafnir munu biða stórkostlegan baga og atvinnutjón af óhæfilegum drætti á nauðsynlegum dýpkunarframkvæmdum. Ég vil taka hér sem dæmi þá höfnina sem ég þekki best til, Bolungarvíkurhöfn, en þeir Bolvíkingar voru núna þessa dagana að fá nýjan glæsilegan skuttogara, Dagrúnu, 500 lestir að stærð, sem ekki kemst inn á sína heimahöfn nema í logni og blíðasta veðri. Hann verður því að leita til Ísafjarðar, leggja aflann upp þar og síðan þarf að keyra fiskinn á bílum út til Bolungarvíkur, þ.e.a.s. ef fært er á Óshlíðina sem sannarlega getur brugðið til beggja vona yfir meiri hluta ársins. Bolvíkingar eiga nú einnig rúmlega 300 lesta bát í smíðum og er gert ráð fyrir að hann verði tilbúinn til veiða um næstu áramót, og gegnir sama máli um hann. Hann kemst ekki inn á Bolungarvíkurhöfn svo að öruggt sé fyrr en höfnin hefur verið dýpkuð, en Hafnamálastofnun gerir ráð fyrir þeirri framkvæmd fyrst á árinu 1976 og fjárveitingar til hafnarinnar eru miðaðar við þá staðreynd að dýpkunarskip verður ekki tiltækt fyrr en þá vegna anna við aðrar hafnir. Það er því eðlilega engin furða þótt hljóðið sé þungt í þeim mönnum sem standa að útgerð þessara skipa og annarra, sem eins er ástatt um, og því augljós nauðsyn á að stjórnvöld á þessu sviði bregði við til úrbóta svo fljótt sem nokkur kostur er.

Nú er það vitað mál að nýtt og fullkomið dýpkunarskip kostar mikið fé, ég hef heyrt lauslega áætlað 250–350 millj. kr. Á hitt ber að líta, að það er vafasamur sparnaður að því að dragast lengi með gamalt, úr sér gengið og úrelt skip sem er margfalt dýrara í rekstri, m.a. vegna þess að það útheimtir allt að því helmingi fleiri menn í áhöfn en á nýju og vel búnu skipi, segja þeir menn sem þekkja til þessara mála. Á þessu sviði sem öðrum hefur allri tækni fleygt fram á síðustu árum og margvísleg hagræðing komið til sem í senn eykur afköstin og dregur úr mannaflaþörf. Þessar staðreyndir ber að sjálfsögðu að hafa í huga þegar vegið er og metið, hvort ráðast beri í kaup á nýju skipi, en bæði er að hér er um stóra fjármuni að ræða sem ekki hefur verið gert ráð fyrir á fjárl. þessa árs og auk þess líklegt, að alllangan tíma þyrfti til að athuga um og útvega slíkt skip til kaups. Því er í till. bent á þann möguleika að taka á leigu dýpkunarskip erlendis frá, þar eð sú ráðstöfun gæti tekið skemmri tíma. Mætti vel hugsa sér að skipið, ef fáanlegt væri, yrði leigt til ákveðins tíma með kaup fyrir augum síðar ef það reyndist vel.

Þá vil ég síðast, en ekki síst benda á mikilvægt atriði í þessu máli sem hugsanlega gæti varpað nokkurri vonarglætu á mál okkar bágstöddu hafna. Til er íslenskt fyrirtæki, Björgun hf., sem er nú með nýtt dýpkunarskip í smíðum og er gert ráð fyrir að það verði tilbúið í maí eða júní n.k. Skipið er hannað í Hollandi, en smíðað hér heima í Stálsmiðjunni. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um gerð og útbúnað þessa nýja skips, sýnist mér ljóst að það muni geta leyst nokkuð af okkar vanda í þessum efnum. Það er útbúið bæði dælu og krana og getur því fengist við bæði sandbotn og harðari botn sem eldri dæluskipin Sandey og Hákur hafa ekki ráðið við. Ekki mun þó hægt að ætla því stór verkefni á við þau sem Grettir hefur fengist við, til þess er það ekki nógu öflugt, svo að þörfina á nýju og fullkomnu dýpkunarskipi er enn fyrir hendi þótt þetta nýja skip komi til og leysi vafalaust nokkuð af vandanum.

Eðlilegt hlýtur að teljast eins og þráfaldlega hefur verið bent á að verkefni við hafnarframkvæmdir verði boðin út á frjálsum markaði, enda skýrt ákvæði um það í núgildandi hafnalögum og nýútkominni reglugerð með lögunum. Það hlýtur alltaf að teljast hæpið að sami aðilinn, í þessu tilfelli Hafnamálastofnunin, annist í senn framkvæmd og úttekt í slíkri mannvirkjagerð.

Það fer ekki á milli mála að mikilvægi hafna í þjóðarbúskap okkar íslendinga sem fiskveiðiþjóðar verður vart ofmetið og því nauðsynlegt að svo vel sé að þeim búið sem efni og aðstæður framast leyfa. Að því er varðar þátt þeirra í verðmætasköpun þjóðarinnar má benda á, að árið 1972 nam verðmæti þess varnings, sem um hafnirnar fór, að meðtöldum fiskafla, 43 milljörðum kr. eða 64% af brúttóþjóðarframleiðslu sem það ár nam 67 milljörðum. Því miður hef ég ekki handbærar nýrri tölur, en öruggt má telja að þetta hlutfall hafi hækkað höfnunum í vil s.l. tvö ár með stórauknum fiskiskipastóli. Hér er því um að ræða sannkallaða lífæð atvinnulífsins.

Við Vestfjarðaþm., sem stöndum að þessari till., teljum að hér sé á ferðinni knýjandi nauðsynjamál sem við væntum eindregið að hæstv. ríkisstj. beiti sér fyrir að leysa svo skjótt sem auðið er. Mér er kunnugt um að innan Hafnamálastofnunarinnar hefur till. verið tekið feginsamlega og með jákvæðum áhuga á að málið fái sem skjótasta lausn.

Herra forseti. Ég vil að lokum mælast til að málinu verði vísað til hv. atvmn.