14.11.1974
Neðri deild: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var hér síðast á dagskrá ræddum við úr stjórnarandstöðunni um málið mjög á efnislegum grundvelli. Við ræddum beinlínís um einstakar efnisgreinar frv., sem hér liggur fyrir, og gerðum okkar aths. við þær. Nokkuð var einnig vikið að ummælum hæstv. sjútvrh., einkum að því leyti til sem augljóst þótti að þau fengju ekki staðist. Ég tók það fram í ræðu minni að ég mundi geyma mér það til síðari tíma að hefja hér umræður um stöðuna í efnahagsmálum á breiðum grundvelli og þá m.a. stöðu sjávarútvegsins. En þó að þetta væru þau sjónarmið, sem einkum komu fram hjá stjórnarandstöðunni í sambandi við þessar umr. um leið og fulltrúar stjórnarandstöðunnar gerðu grein fyrir afstöðu sinni til málsins, þá snerist hæstv. sjútvrh. þannig við að hann tók að ræða hér um stöðu sjávarútvegsins á mjög breiðum grundvelli og hóf hér mjög almennar umræður um þessi mál. Það stendur auðvitað ekki á okkur að ræða við hann eða aðra úr stjórnarliðinu um þau mál á þeim grundvelli ef þeir óska eftir því. Ég sé því ástæðu til þess að víkja hér nokkuð sérstaklega að síðustu ræðu hæstv. ráðh. í þessum efnum, jafnhliða því sem vikið verður nokkru nánar að efni þessa frv. sem hér liggur fyrir.

Hæstv. sjútvrh. sagði að hann teldi nauðsynlegt að rifja hér upp hvernig ástandið hefði verið á miðju ári eða um það leyti sem hin nýja ríkisstj. tók við. Hann las svo upp tölur og sagði, að þar hefði rekstrarhallinn á fiskveiðunum verið 1380 millj. kr., og bætti því við að það hefði nú ekki mikil áhrif á hann þó að menn væru að gera hér aths. um afskriftir og afskriftir. Síðan spurði hæstv. sjútvrh. um það hvort menn teldu rétt vera það sem fram hefði komið frá Þjóðhagsstofnuninni varðandi þessa útreikninga eða hvort menn neituðu þeim útreikningum.

Það er í fyrsta lagi við þessar fullyrðingar hæstv. ráðh. að athuga að Þjóðhagsstofnunin hefur ekki reiknað út eða sent neitt frá sér um það hver var staða sjávarútvegsins með rekstrarlega afkomu á miðju ári 1974. Forstöðumaður þeirrar stofnunar hefur alveg nýlega í almennum umr., sem fram komu í útvarpi, einmitt lagt á þetta áherslu. Þeir útreikningar sem hæstv. sjútvrh. var hér að vitna í og allmikið hefur verið rætt um, eru um ákveðna spádóma sem gerðir eru miðað við þá rekstrarstöðu, sem upp var komin í júlímánuði í sumar, og Þjóðhagsstofnunin gerði síðan spá fram í tímann um sennilega afkomu sjávarútvegsgreina á komandi 12 mánaða rekstrartímabili.

Í fyrsta lagi verða menn að gera sér grein fyrir að á þessu tvennu er auðvitað mikill munur, þ.e.a.s. á spádómum, sem settir eru fram í júlímánuði um það hvernig afkoma hinna einstöku rekstrargreina muni sennilega verða á næsta 12 mánaða tímabili, og hinu hver var raunveruleg rekstrarstaða greinanna um þetta leyti. Eftir því sem hæstv. sjútvrh. talaði hér og hefur reyndar látið áður hafa eftir sér í viðtölum í blöðum, þá var engu líkara en hann blandaði þessu algjörlega saman.

Það sem ég hef fyrir mitt leyti viljað leggja áherslu á og viljað fá skýrt fram í þessum umr., þar sem ég hef komið nærri þeim, það er einmitt þetta, að það séu dregin fram sæmilega greinargóð mynd af því hvernig ástandið var um þetta leyti, að hvaða leyti var um erfiðleika að ræða og hver var t.d. hallareksturinn, sem mjög hefur verið rætt um, í einstökum greinum og hvernig þær tölur eru fengnar sem þá eru notaðar í þeim efnum.

Það er rétt að það eru í rauninni engar fastar skýrslur liggjandi fyrir um það hver var raunveruleg rekstrarafkoma hinna einstöku greina atvinnuvegarins á miðju ári 1974. Reikningar fyrirtækjanna liggja ekki fyrir yfirleitt um það leyti nema að litlu leyti og er því ekki hægt að tilfæra nema tiltölulega takmarkaðar upplýsingar.

Þó var það svo að á venjulegan hátt fór fram athugun á vegum Þjóðhagsstofnunarinnar um þetta leyti á sérstöku úrtaki hjá frystihúsunum í landinu. Það var gerð venjuleg athugun á því hvernig fyrri hluti starfsársins, þ.e. ársins 1974, hefði í raun og veru komið út rekstrarlega séð hjá frystihúsunum borið saman við það sem áður var.

Þessi athugun var gerð með þeim hætti að upplýsingar voru fengnar úr bókhaldi 10 frystihúsa, sem eru á vegum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, og 5 frystihúsa, sem eru á vegum S.Í.S., eða 15 frystihúsa og gert hafði verið áður. Þessi athugun leiddi í ljós að afkoma þessara húsa var á miðju rekstrarári mjög í samræmi við það sem forstöðumenn þessara fyrirtækja höfðu sjálfir samið um .sem rekstrargrundvöll í ársbyrjun og talið þá viðunandi því að þeir samþykktu hann.

Þessi athugun leiddi í ljós að þó nokkur frystihús á landinu sem voru með í þessari athugun, höfðu mjög góða afkomu, meira en lagt hafði verið til grundvallar fyrir rekstri húsanna. Önnur höfðu auðvitað lakari afkomu. Það var alveg ljóst hvernig þessi mál í raun og veru voru þegar litið var á heildina. Þau frystihús í landinu, sem höfðu haldið áfram rekstri með þeim hætti að þau höfðu haldið áfram t.d. að framleiða jafnmikið af svonefndri frystri blokk fyrir Bandaríkjamarkað og þau höfðu gert áður, hlutfallslega miðað við sína vinnslu en það var blokkin sem hafði einmitt lækkað í verði og seldist ekki heldur hrúgaðist upp, þau hús höfðu auðvitað allajafna laka afkomu. En hin, sem höfðu hagað sér eftir aðstæðum og drógu úr framleiðslunni á þeirri einu grein, þar sem var um afurðaverðslækkun að ræða, og sveigðu framleiðslu sína meira yfir í þær greinar, sem betur borguðust, en verðfallið hafði aðeins orðið á frystri blokk, en ekki á pakkningum, sem mikill hluti framleiðslunnar gengur að sjálfsögðu í, og höfðu þar að auki aukið við saltfiskverkun, en þar hafði allt snúist til hagsældar í þeirri grein, — afkoma þeirra frystihúsa var auðvitað miklum mun hagstæðari

Þetta eru þær helstu upplýsingar sem liggja fyrir um afkomu frystihúsanna á miðju ári rekstrarlega nú. Auk þess hafa svo forstöðumenn nokkurra frystihúsa opinberlega lýst því yfir að þeir hefðu ekki undan neinu að kvarta fram að þessum tíma um rekstrarafkomu fyrirtækja og sumir hafa enda gefið upp álitlegan rekstrargróða.

Ég hef bent á í þessu sambandi að það er vitanlega algjörlega ástæðulaust að skekkja þessa mynd fyrir einum eða neinum með einhverjum ópum út í loftið í sambandi við óraunhæfar tölur.

Ég segi ekki með þessu — dettur það ekki í hug því að það hefur aldrei verið — að þarna hafi ekki verið margvísleg vandamál við að eiga í þessari grein, eins og ég mun koma að síðar, og auðvitað þurfti nú á þessu ári að glíma við eins og á öllum öðrum árum áður.

Ég ætla þá að víkja örfáum orðum í sambandi við stöðu atvinnuveganna um þetta leyti að rekstri veiðiskipanna. Það hefur verið mikið talað um það, m a. hæstv. sjútvrh., að það hafi verið feiknalegt tap á togararekstrinum í landinu, og nefndar háar tölur, 700–800 og allt upp í 900 millj. kr. tap á rekstri togaranna. En þær tölur, eins og ég segi, eru allar úr þessari spádómsskýrslu fyrir næstu 12 mánuði, en ekki neinar niðurstöður varðandi reksturinn eins og hann stóð á miðju ári. Varðandi afkomu þessarar greinar liggja auðvitað ekki fyrir, eins og ég sagði, neinir rekstrarreikningar nema bráðabirgðareikningar frá nokkrum fyrirtækjum. Ég hef tilfært hér upplýsingar frá nokkrum fyrirtækjum sem mér er kunnugt um, þar sem á aðalfundum þeirra fyrirtækja, sem þá voru að gera grein fyrir rekstrarafkomu s.l. árs, eins og venjulega er á aðalfundum, var einnig gerð grein fyrir því hvernig reksturinn hefði gengið á yfirstandandi ári. Þá kom í ljós að rekstur togaranna í nokkrum slíkum tilfellum var miklum mun hagstæðari í ár en í fyrra.

Ég var sjálfur staddur, eins og ég hef sagt annars staðar, á einum slíkum aðalfundi og þar kom í ljós að á árinu 197 höfðu tveir togarar þess útgerðarfélags ekki haft báðir til samans nema rúmlega 5 millj. kr.l í rekstrarafgang upp í afskriftir og þar af leiðandi ekki nægilega mikið upp í afskriftir, en nú á þessu ári, þegar fundurinn var haldinn í miðjum septembermánuði, höfðu þessir tveir togarar 23 millj. kr. upp í afskriftir í staðinn fyrir rúmar 5 millj. á árinu á undan, um miðjan septembermánuð höfðu þeir í rekstrarafgang meira en sem nam fullum afskriftum, af því að rekstrarafkoma var mun betri í ár. Auðvitað fer rekstrarafkoma togara og annarra veiðiskipa í þessum efnum mjög eftir því hvernig afli hefur verið, og það er ekkert nýtt með þetta ár, það hefur alltaf verið. Þetta kemur líka heim og saman við þær áætlanir sem gerðar höfðu verið af opinberum aðilum. Þær áætlanir, sem gerðar höfðu verið af sérstökum trúnaðarmönnum sem til þess voru settir að meta rekstrarstöðu skuttogaranna í landinu, sögðu einmitt að það mætti búast við hagstæðari útkomu þessara skipa miðað við rekstrargrundvöll á árinu 1974 en var á árinu 1973.

Ég tilfæri hér t.d. úr einni þessari skýrslu frá opinberum aðilum, en niðurstaðan þar er dregin saman úr áætlunargerðinni. Þar segir orðrétt á þessa leið um stærsta hópinn í þessum rekstrarflokki:

„Eins og fram kemur hér að framan virðast rekstrarskilyrði minni skuttogara verða talsvert betri á fyrri hluta þessa árs, 1974, en þau voru í árslokin 1973 og miklu betri en þau voru á síðasta ári, 1973, öllu.“

Það er enginn vafi á því að þessu hefur verið svona farið nema í þeim tilvikum þar sem afli hefur reynst óvenjulítill eða með minna móti, sem vitanlega getur gerst á einstaka skipum. Hið sanna um afkomu bátaflotans í landinu á fyrri hluta ársins 1974 er að bátaflotinn í landinu bjó við þau rekstrarskilyrði á fyrri hluta ársins sem forustumenn flotans höfðu samið um í ársbyrjun Þeir höfðu samið um fiskverð og þeir höfðu gert sér grein í áætlunum fyrir öllum helstu útgerðarkostnaðarliðunum sem breyttust, en breyttust tiltölulega lítið því að þyngstu liðirnir höfðu verið reiknaðir rétt út. En það gefur auðvitað auga leið að þar sem svo hefur farið á fyrri hluta þessa árs að afli hefur brugðist, þar sem afli hefur orðið miklum mun minni af ýmsum ástæðum en reiknað hafði verið með eða hann hafði verið, þar er auðvitað um erfiðleika að ræða nú og þeir erfiðleikar eru tilfinnanlegir á vissum stöðum á landinu. En það er ekkert nýtt. Slíkt hefur oft komið upp áður og við höfum sérstakt kerfi í gangi sem gerir ráð fyrir því að það sé hægt að nota til þess að hlaupa undir bagga þegar svo ber við, en það er Aflatryggingasjóður.

Ég held því þess vegna fram að á miðju þessu ári sé ekki hægt að segja að staða sjávarútvegsins almennt hafi verið sérstaklega slæm. Það voru auðvitað erfiðleikar hjá ýmsum útgerðarfyrirtækjum og ýmsum greinum eftir atvikum, svipað því og oft hefur verið áður, mun minni vandi en oft áður í mörgum greinum. En það er rétt að um þetta leyti blöstu við ný vandamál, –vandamál sem voru hrikalega stór ef ekkert hefði verið að gert. Þar á ég fyrst og fremst við þann vanda að ef upp úr miðju ári, ef verðlag í landinu hefði þá verið látið æða áfram eins og margt benti til að það mundi gera og kaupgjald síðan elta það verðlag og verðlagið aftur elta nýtt kaupgjald, þá auðvitað hefði allt farið úr skorðum. Um þetta voru í rauninni allir sammála, að um þetta leyti þurfti að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir þennan snúning. En það var hins vegar ágreiningur um það, meiri og minni, með hvaða hætti ætti að koma í veg fyrir þennan vanda.

En svo langar mig í framhaldi af þessu að víkja nokkuð að hinum margumtöluðu útreikningum Þjóðhagsstofnunarinnar um áætlanirnar, sem mest hefur verið rætt um, fyrir komandi rekstrartímabil, þ.e.a.s rekstrartímabilið frá miðju ári 1974 til miðs árs 1975. Ég hold mig þá í þeim efnum við þá skýrslu sem við þm. höfum fengið í hendur. Ég veit að Þjóðhagstofnunin er alltaf að taka þessa útreikninga sína á skýrslur til endurnýjunar, breyta þeim af því að reynslan hefur auðvitað orðið sú að spádómar um rekstrarafkomu fram í tímann hafa alltaf ruglast í reynd. Mjög sjaldan hafa þeir spádómar staðist algjörlega og er vitanlega ekki neitt Þjóðstofnunina eða starfsmenn hennar um að saka fyrir það.

En samkv. þessum skýrslum kemur fram að talað er um rekstrarhalla allra greina fiskveiðanna við landið, allra tegunda fiskiskipa, að reikna megi með því að rekstrarhalli alls veiðiflotans á ársgrundvelli á næsta 12 mánaða tímabili verði 1344 millj. kr. En það kemur skýrt fram í skýrslunni að þetta tap komi út hjá öllum flotanum þegar búið sé að tilfæra afskriftir sem nema heldur hærri upphæð en þessum rekstrarhalla, eða 1369 millj. kr. Það er því m.ö.o. alveg ljóst skv. þessari skýrslu að sú áætlun, sem þarna er gerð um rekstrarafkomu á næsta 12 mánaða tímabili, gengur út frá því að veiðiflotann vanti í rauninni viðbótartekjur til þess að standa undir afskriftum.

Ég bendi á að það er ekkert nýtt að slíkt hafi komið fram í spádómum og útreikningum sem gerðir hafa verið fyrir tímann. En ég bendi líka á það að í þessari sömu skýrslu tekur Þjóðhagsstofnunin það fram að þó að hún reikni með 1369 millj. kr. í afskriftir á öllum veiðiflotanum á ári þá séu þær afskriftir 650 millj. kr. hærri en stofnuninni sé kunnugt um að þessi floti þurfi að borga í afborganir af lánum sínum. Stofnunin bendir að vísu á að það kunni að vera að þessi floti hafi stofnlán utan stofnlánasjóðanna, hann hafi önnur lán hjá bönkunum sem mætti á sanngjarnan hátt flokka undir stofnlán en þetta kemur fram, að þessar uppfærðu afskriftir, 1369 millj., eru 650 millj. kr. hærri en kunnugt er um að afborganir séu af þessum flota. Það er auðvitað enginn vafi á því, það vita þeir sem til þekkja, að þessar afskriftir, sem hér eru færðar upp, eru miklum mun hærri í flestum tilfellum heldur en eðlilegt er og heldur en kröfur hafa yfirleitt verið gerðar um í rekstri þessa flota á undanförnum áratugum. T.d. hafa verið reiknaðar í þessum tilfellum afskriftir af okkar gömlu togurum þar sem miðað er við verð sem liggur langt fyrir ofan söluverð skipanna. Það er vitanlega alltaf álitamál hvað á að reikna með miklum afskriftum hverju sinni. Það er vitanlega sjálfsagt, þegar menn nefna áætluð rekstrartöp eins og þessa tölu, að menn láti það koma skýrt fram að þetta rekstrartap kemur fram á áætluninni með því að færa upp svona miklar afskriftir, og meira að segja þessar afskriftir eru af þessu tagi sem ég hef verið að lýsa.

Ég segi það að vissulega hefði veiðiflotinn þurft að geta haft betri afkomu en þetta. Það hefði glatt mig mikið að geta staðið að slíku. Ég tel að það sé okkar atvinnulífi mjög til styrktar að flotinn almennt geti verið rekinn með allgóðri afkomu, en ég geri mér grein fyrir því að afkoma af þessari gerð hefur verið það almennasta um langan tíma hjá okkar fiskveiðiflota.

En svo ber auðvitað að skoða þessar áætlanir á fleiri vegu en þann sem ég hef nú minnst á. Þegar áætlanir eru gerðar fram í tímann fyrir næstu 12 mánuði um afkomu veiðiflotans, þá vitanlega hafa menn orðið að gefa sér upp einhvern væntanlegan afla. Enginn veit um það fyrir fram hver afli verður á hverju einstöku skipi. Það kemur líka fram í þessari áætlanagerð að Þjóðhagsstofnunin gefur sér þá forsendu fyrir fram að afli muni rýrna um 13.5% og þessi afkoma, sem kemur út úr þessum áætlunum, er byggð á því að afli muni á næstu 12 mánuðum rýrna um 13.5%. Ef það hefði ekki verið gert hefði auðvitað útkoman orðið allt önnur. Maður getur séð það nú nýlega í blaði að forustumaður Landssambands íslenskra útvegsmanna segir að nú hafi menn einmitt sterkar vonir um það að afli muni fara vaxandi aftur, og hafa auðvitað margir trúað því að það kæmi að því að við færum að hafa nokkurn hag af okkar auknu friðun á miðunum í kringum landið, en enginn getur sagt um það fyrir fram hvernig þessi afli muni verða. Enn er það að í forsendum fyrir þessum spádómum tekur forstöðumaður Þjóðhagsstofnunarinnar fram að hann verði undir þeim kringumstæðum, sem við búum nú við, að sjálfsögðu að gefa sér eitthvert tiltekið afurðaverð, sem muni fást fyrir okkar framleiðsluvöru, og hann reiknar inn í dæmið með því lægsta verði á fiskblokkinni sem hefur verið á henni nú að undanförnu og við íslendingar höfum ekki viljað selja okkar framleiðslu á frekar en aðrar þjóðir sem þessa vöru hafa framleitt. Norðmenn gerðu sérstakar ráðstafanir til þess að framleiðendurnir þar gætu geymt þessa vöru og þyrftu ekki að selja hana á þessu lága verði því að þeir trúðu því að verðið kæmi upp síðar. Og það hafa komið fram ýmsir spádómar, m.a. birtir í íslenskum blöðum, um að það væri mjög margt sem benti til þess í fréttum frá Bandaríkjunum að þar kæmi matvælaverð til með að hækka um 14–15% að meðaltali á næstunni og væri því von til þess að þessi framleiðsluvara nyti góðs af þessu og kæmi til með að hækka aftur. Um þetta veit enginn. En forsenda þessara útreikninga er byggð á þessu lága verði og það er tekið fram í skýrslunni.

Önnur mikilvæg forsenda í þessum spádómi er sú að forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar varð vitanlega að gefa sér eitthvert verð á hinu margumtalaða fiskmjöli og loðnumjöli, hvaða verð við mundum fá fyrir þessa framleiðslu. En þar hafði einnig orðið stórkostleg verðbreyting. Og hann segist miða við að það fáist fyrir próteineininguna í mjölinu 4.15 dollarar. Við íslendingar höfum ekki selt eitt einasta kíló á þessu lága verði, ekki eitt einasta kíló. Okkar sala liggur öll langt þarna fyrir ofan og nú erum við að reyna sölu talsvert fyrir ofan þetta með sérstakri sendinefnd sem send hefur verið úr landi. Ég verð að segja það og sagði það strax þegar ég sá þessa skýrslu, mér þykir þessi forsenda vera ákaflega óeðlileg. Formaður Landssambands ísl. útvegsmanna hefur látið hafa eftir sér, og reyndar einnig formaður í samtökum fiskmjölsframleiðenda, þeir hafa sagt að ef svona verð ætti að haldast þá væri alls ekki gert út á loðnu í vetur.

Ég er sannfærður um að það verður gert út á loðnu í vetur. En ég er líka trúaður á að mjöl verði allmiklu hærra en þetta. En ég er ekki fyrst og fremst með ágreining við einn eða neinn út af því að hér hefur verið gerður útreikningur fyrir rekstrartímabil, 12 mánuði fram í tímann, sem byggt er á ákveðnum forsendum. En það sem ég hef fundið að í þessum efnum er sá rangi málflutningur sem sérstaklega hefur komið fram í Morgunblaðinu og atvinnurekendur hafa notað sér miskunnarlaust, þ.e. að draga upp þá mynd að m.a. í okkar sjávarútvegi sé allt að steypast á höfuðið, þetta sé allt um koll farið, þetta sé allt í rúst, og síðan á að sanna að nú verði að stórlækka kaup sjómanna og lækka kaup allra vinnandi manna í landinu og líka hleypa öllu í bál og brand á vinnumarkaðinum. Það er þetta sem er ábyrgðarleysi og það er þetta sem er rangt.

Það á að segja mönnum alveg eins og er, hvað liggur á bak við þessa spádóma, og það á að segja mönnum líka eins og er, hvernig er ástatt með reksturinn. Ég veit að þessi orð mín verða auðvitað tekin þannig af þeim, sem þetta kemur illa við, að ég hafi haldið því fram að það væri enginn vandi sem sjávarútvegurinn íslenski ætti við að glíma, en það er alrangt. Mér er alveg ljóst að það er við margvísleg vandamál að glíma eins og hefur jafnan verið, mjög mismunandi mikil, í ýmsum greinum, og það á að taka á þeim og það er hægt að leysa þau án þess að menn þurfi að skrumskæla fyrirliggjandi staðreyndir og túlka þær á alveg rangan veg .

Ég hef nú vikið nokkuð að afkomu og útreikningum þeim sem liggja fyrir um afkomu veiðiflotans. En það er þá rétt að minna líka á að hér liggja líka fyrir útreikningar um afkomu fiskvinnslunnar í landinu, í þessari sömu skýrslu, og þar kemur fram að Þjóðhagsstofnunin gerir þá spádóma fyrir næstu 12 mánuði að það megi búast við því að það verði hallarekstur á frystihúsunum í landinu sem nemi í kringum rétt aðeins tæpar 1400 millj. kr. En þá er líka búið að bókfæra afskriftir af frystihúsunum upp á 400 millj. kr., eða m.ö.o. það er verið að reikna með því að frystihúsin vanti þarna í kringum 1000 millj. kr. bara í tekjur á móti beinum útgjöldum, rekstrarlegum útgjöldum. Þetta auðvitað lítur ekki vel út, en eins og ég segi, þetta er mismunandi í hinum einstökum fyrirtækjum, reynslan sýnir það, og fer í rauninni alveg eftir því hvernig þeim hefur tekist að skipuleggja sinn rekstur. Þegar sum eru með mjög góða afkomu eru önnur með mjög lélega afkomu. Og það verður í mörgum tilfellum af því að frystihúsin eru illa nýtt, afli hefur orðið lítill hjá þeim, vinnutími stuttur og afkoman þar af leiðandi léleg. Og svo hefur, eins og ég hef vikið að, komið fram nokkurt verðfall á þýðingarmikilli framleiðslugrein hjá frystihúsunum, sem er fiskblokkin og einnig sá úrgangur, sem frystihúsin selja, því að þá er gert ráð fyrir því að þau verði að selja úrganginn á mjög lágu verði þegar mjölverðið hefur verið sett svona lágt í útreikningi. Ég hef að vísu fyrir mitt leyti, eins og ég hef bent forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar á í þetta skipti eins og oft áður, ýmsar aths. að gera við þær forsendur sem hann hefur byggt á þegar hann hefur fengið þessa útkomu úr dæminu, eins og t.d. tekjum frystihúsanna af úrgangi. Ég tel að sá tekjufótur sé alveg rangur, hann verði miklum mun meiri í reynd. Og ég tel vitanlega ekki nokkra sanngirni í því að reikna dæmið þannig að menn haldi áfram að framleiða jafnmikil hlutföll í fiskblokk, sem stendur svona illa, eins og þeir gerðu áður. Ég vil reikna með því að framleiðslan færist til, færist meira yfir í þær tegundir sem ekki hafa fallið í verði. En þetta er eins og ég segi dæmi sem menn eru að reikna út frá ákveðnum spádómum.

En auðvitað segir þessi afkoma frystihúsanna ekki nema hluta af öllu saman varðandi fiskvinnsluna í landinu vegna þess að í þessari sömu skýrslu kemur líka fram að aðrar greinar fiskvinnslunnar, þ.e.a.s. saltfisksverkun og skreiðarverkun, koma samkvæmt þessum útreikningum með stórkostlegan hagnað. Það er gert ráð fyrir því í þessum spádómi að saltfisksverkun og skreiðarverkun skili á þessu 12 mánaða tímabili rúmlega 1500 millj. kr. hagnaði þegar búið er að afskrifa til fulls, m.ö.o. hinn útreiknaði hagnaður á skreiðarverkun og saltfisksverkun er meiri en útreiknað tap í frystingu. (Gripið fram í.) Það er vitanlega sjálfsagt að nota þá framleiðslu sem gefur best. Það hefði t.d. þessi hv. þm. átt að vera búinn að læra að það ætti maður að gera. Menn eiga ekki endilega að framleiða bara það sem menn tapa á. En það skýtur nú reyndar svo skökku við að það var gert ráð fyrir því og kemur líka fram í þessari skýrslu að framleiðslan á saltfiski átti að dragast heldur saman þrátt fyrir þessa forsendu. Það var ein aths., sem ég gerði, að ég teldi það afskaplega skrýtilega á hlutunum haldið ef menn minnkuðu saltfisksframleiðslu undir þessum kringumstæðum, en það yrði meira lagt í hitt sem gæfi minni arð.

En þannig hefur verið haldið á þessum staðreyndum, sem hér liggja fyrir, þegar þessi mál hafa verið rædd, t.d. í Morgunblaðinu og m.a. af hæstv. sjútvrh., ég hef aldrei heyrt hann tala um annað. Menn tala í sífellu um 1400 millj. kr. tap á frystingunni, hugsa sér: 1400 millj. kr. tap, og svo geta menn þess ekki að það hafi verið 1500 millj. kr. gróði á saltfiski og skreið. Það er látið liggja og ekki minnst á það. Þetta er nú að halla sannleikanum til eftir þörfum. En sannleikurinn allur er í þessari skýrslu og ef menn lesa skýrsluna alla kemur þetta út úr henni. Auðvitað þurfti að gera ráðstafanir til þess að færa nokkuð á milli, það var ekkert um það að villast. Og það voru gerðar m.a. ráðstafanir í því frv., sem hér liggur fyrir, með því að breyta lögunum um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og ég lýsti því yfir strax við 1. umr. að ég væri sammála þessum lið í frv. af því að þessi breyting miðar að því að hægt sé að greiða úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins verulegar fjárhæðir til frystingarinnar, eins og hæstv. ráðh. tók hér fram, að með þeim reglum, sem nú er miðað við, ætti að vera hægt að greiða til frystingarinnar í landinu á ársgrundvelli 700–1000 millj. kr. eða það sem á vantar. En hins vegar yrði þessum reglum beitt þannig að það yrði dregið inn í Verðjöfnunarsjóðinn frá saltfisksverkun og skreiðarverkun sem nemur í kringum 1200 millj. kr.

Í sambandi við þennan bága rekstur sjávarútvegsins má svo einnig taka það með inn í þetta dæmi, sem líka kemur fram í þessari margumtöluðu skýrslu, hver er og hefur verið staða Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins. Morgunblaðið byrjaði á því, strax þegar við tókum við okkar stólum í vinstri stjórninni, að segja að nú væri ég byrjaður að éta upp Verðjöfnunarsjóðinn og mundi verða búinn með hann eftir nokkra mánuði. Um það leyti sem við tókum við var samkvæmt opinberum skýrslum heildarinnistæðan, sem komin var inn í Verðjöfnunarsjóð, um 700 millj. kr. En í þessari skýrslu kemur í ljós að þegar ósköpin ganga yfir er þessi sjóður orðinn um 2000 millj. kr. sem standa inni í þessum sjóði. Og m.a.s. á þessum voðalega rekstrartíma nú fram á mitt ár kemur fram í skýrslunni að gert er ráð fyrir því að inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins muni aukast á þessu voðalega tímabili fram á mitt ár um yfir 400 millj. kr. En það er eins og ég hef sagt hér áður, á þetta hefur ekki verið mikið minnst og ég er alveg sannfærður um það að hæstv. sjútvrh. er ekki tilbúinn að ræða um þetta. Hann kemur bara hér og tekur alveg eins og síðast, þegar mál var á dagskrá, þá tekur hann bara marga hringi og talar um allt annað og segir: „Þið eruð bara hræsnarar.“ Það var sú afgreiðsla sem við fengum siðast þegar við minntum á það að hér væri verið að gera óeðlilegar og hættulegar ráðstafanir varðandi sjómannakaupið. Þá sagði hann bara: „Þið eruð fyrirlitlegir hræsnarar.“ (Gripið fram í: Er þetta ekki alveg hárrétt?) Jú, ég efast ekki um að hæstv, ráðh. á eftir að endurtaka þetta. En það breytir bara engu. Staðreyndirnar standa eftir hversu oft sem þið segið að einn eða annar sé hræsnari.

Nei, það er rétt að hér var og er um margvísleg vandamál að ræða. Mér er t.d. alveg ljóst að þegar afli minnkar jafnmikið af ýmsum ástæðum og raun ber vitni um á fiskibátum á Suðurnesjum og reyndar víðar við landið, eins og varð á síðustu vertíð, þá kemur þar upp nokkurt vandamál. Og mér er líka ljóst, eins og ég sagði þegar þetta mál var síðast á dagskrá, að það var vissulega mikið vandamál að ráða fram úr því, hvernig átti að mæta verulegri olíuverðhækkun sem var að skella yfir.

Hæstv. ríkisstj. hefur með þessu frv. valið þá leið að leggja ný útflutningsgjöld á fiskafurðir og afla þannig fjár í olíuniðurgreiðslusjóð sem nema 1230 millj. kr. á ársgrundvelli. Á þennan hátt er vandinn leystur, á þennan einfalda hátt að þessi olíuvandi er raunverulega leystur þannig að sjómenn eru látnir borga allt vandamálið. Hvað þýðir það þegar 1230 millj. kr. eru teknar af brúttóframleiðslunni með útflutningsgjaldi? Það þýðir að raunverulega er verið að láta útgerðina borga af þessum 1230 millj. kr. í kringum 700 millj. og þá eiga sjómenn að borga hinn hlutann eða í kringum 630 millj. Það er aðeins eftir þessu hlutaskiptahlutfalli sem hér er um að ræða. Ef þetta gjald hefði ekki verið lagt á er alveg gefinn hlutur að þá væri hægt að hafa fiskverðið þetta miklu hærra. Útvegsmenn hefðu þá á alveg nákvæmlega sama hátt, þ.e.a.s. í gegnum hækkað fiskverð, þurft að borga hækkað olíuverð. Nú er það bara tekið af þeim með þessu útflutningsgjaldi. Þeim má vera nákvæmlega sama hvort þeir borga þetta í gegnum útflutningsgjald eða hvort þeir borga það sjálfir beint í peningum þegar þeir hafa fengið hækkað fiskverð. En af sjómönnunum er tekið í þessum efnum. Þeir áttu að fá í aflahlut úr þessum 1230 millj. sínar 530 millj. ef útflutningsgjaldið hefði ekki verið lagt á, og það er ákveðið að þeir skuli ekki fá þetta: Við leggjum á útflutningsgjald, fiskverðið hækkar ekki jafnmikið, en við tökum þennan aflahlut sjómannanna og látum hann standa undir olíuvandamálunum. — Þetta er alveg augljóst mál. Það er einhliða verið að láta sjómannastéttina í þessu tilfelli rísa undir þessum vanda.

Ég sagði við þá umr. sem fór fram um málíð hér fyrir nokkrum dögum að hér hefði vissulega verið um mikið vandamál að ræða, hvernig hefði átt að lækka olíuna í verði. Ég geri mér það alveg ljóst að það var hægara sagt en gert að segja útgerðinni að standa undir öllum þessum kostnaði. En ég leyfði mér að segja að það væri algjört óvit að ætla að leysa þetta þannig að sjómenn einir væru látnir borga þetta allt saman. En vegna þess að ég kom ekki hér fram gagngert með till. um það hvernig þá hefði átt að leysa málið, þá sagði hæstv. sjútvrh. að menn bara töluðu um þetta, en vildu ekki takast á við vandann Ég skammaðist mín ekkert fyrir það, þó að það stæði jafnvel í mér að koma fram með till. um það hvernig hefði átt að leysa vandann því að það gat vitanlega fleira en eitt komið til greina. En ég get mjög auðveldlega komið með ábendingar um það hvernig ég tel að frekar hefði átt að leysa þennan vanda.

Í fyrsta lagi er nú það að ég tel mjög hæpið miðað við allar þessar aðstæður, að ætla að setja vandamál eins og þetta upp fyrir næstu 12 mánuði í einu. Hér geta orðið á stórkostlega miklar breyt. og það var í rauninni ekkert sem kallaði beint á það. Það hefði verið miklu eðlilegra að leysa þennan vanda til takmarkaðri tíma og sjá hvernig farið hefði með rekstrargrundvöll bæði útgerðarinnar sem heildar og reyndar þróun olíuverðlagsmála En ég hika ekki við að segja það að þennan vanda upp á u.þ.b. 530 millj. kr. hefði jöfnum höndum átt að leysa á þann hátt að þær greinar framleiðslunnar, sem tvímælalaust skila miklum hagnaði og umframhagnaði stæðu undir honum, vegna þess að við erum með eitt gildandi fiskverð og við stilltum fiskverðinu þannig að t. d frystingin í landinu fái nokkurn veginn undir því risið, en það getur þá að sjálfsögðu þýtt að aðrar greinar, eins og t.d. saltfisksverkun, hefði getað borgað miklum mun hærra fiskverð. En þegar það er ekki gert, þá kemur sú grein auðvitað út með hagnaði. Norðmenn hafa farið út á þá braut að hafa mismunandi fiskverð til hinna ýmsu framleiðslugreina eða verkunargreina. Við höfum ekki verið á því hér að taka upp þá aðferð En þegar þannig er á haldið kom vissulega til greina að taka kúfinn að einhverju leyti af þeirri grein sem bar sig tiltölulega best eða þeim greinum og láta þann kúf að einhverju leyti mæta þessum vanda, en að öðru leyti og að langstærstum hluta álít ég að það hafi þurft að vera ríkisheildin sem átti að leggja þetta fé til.

Þá hefði líklega ekki átt að muna um það, sjálfstæðismennina, að standa að því, þeir sem lýstu því yfir fyrir nokkrum mánuðum að það væri vandalaust að færa niður ríkisútgjöldin um 3–4 milljarða, án þess að ríkið þyrfti að fá tekjur á móti, og fluttu um það frv. hér á Alþingi. Þeir hefðu líklega ekki átt að þurfa að blána upp þó að þeir tækju frá ríkissjóði um 300–400 millj. kr. til að leysa þennan vanda. En þeim var bara annað í hug núna. Þeim datt það ekki í hug að fara að leggja þetta á hæstv fjmrh., Matthías Á. Mathiesen, hann þurfti á sínu að halda. En sjómenn gátu vel borgað 530 millj. kr. því að annars var hætta á því, eins og sagt hefur verið, að kaup þeirra yrði allt of hátt.

Til þess að koma þessu fyrir á þennan hátt var ákveðið í 1. gr. þessa frv. sem hér liggur fyrir, að fiskverðið til sjómanna mætti ekki hækka nema um 11%. Eins og ég hef bent á áður er þetta ákveðið að fiskverðið, það sem eftir er af árinn, frá því í sept. til ársloka, megi ekki hækka nema um 11% þó að allar áætlanir, sem byggt er á, geri ráð fyrir því að aflinn minnki um 13.5%. Þetta þýðir þá í reynd að það er verið að reikna með því að sjómennirnir eigi að þola beina kauplækkun í krónum talið, auk þess svo sem krónurnar rýrna í verðgildi. Þetta eru óraunsæjar till. og í rauninni ættu svona till. ekki að koma fram nema þá frá allra blindustu útgerðarmönnum sem halda alltaf að þeir sleppi best út úr sínum vanda með því að lækka hlut sjómanna. Það eru því miður til slíkir útgerðarmenn sem hafa staðið í dellum ár eftir ár og haft af því sjálfir í rauninni ómetanlegan skaða að hafa haldið fram slíkri stefnu. Það er engin tilviljun að t.d. sá hluti togaraflotans nú í dag, sem borgar sjómönnum langsamlegasta hæsta kaupið, hefur einmitt þessa afkomu Það eru einmitt þau skipin sem ekki skortir sjómenn í dag. En frá hinum heyrist það, sem hafa pressað niður kaupið, að þá vanti menn, afkoman sé afskaplega bág og því hefur m.a. hæstv. sjútvrh. farið út á þá sérstöku braut að úthluta einstökum útgerðarfélögum beina styrki, senda þeim hverjum um sig ákveðnar ávísanir, eins og þeir hafa fengið í haust, og m.a hafa auðvitað orðið aðnjótandi þeirra ávísana aflakóngarnir í landinu, þeir sem hafa fiskað langmest og eru óumdeilanlega með stórgróða. Ég fyrir mitt leyti segi að þetta eru ekki hyggilegar aðferðir og það er ekki líklegt að þetta takist hjá hæstv. ríkisstj.

Um áramótin verður ríkisstj. eins og aðrar stjórnir að standa frammi fyrir þeim vanda að þá verður rætt um launakjör sjómanna á komandi vetrarvertíð. Þá verða allar deilur teknar upp, þessar sem hafa alltaf verið í gangi Og með því að bæta þessu ofan á það, sem fyrir var, er vitanlega verið að egna til átaka og ófriðar sem gætu leitt til stórfelldrar stöðvunar því að hér er auðvitað um mikið óréttlæti að ræða.

En það er ekki nóg með það að olíuvandamálið hafi verið leyst á þennan óhyggilega hátt. Þarna er líka gert ráð fyrir því að stórauka greiðslur af óskiptum afla í Stofnfjársjóð fiskiskipa, þ.e.a.s. sjómennirnir eru knúðir til þess að borga af sínum aflahlut afborganir og vexti af stofnlánum skipanna Nú veit hæstv. sjútvrh. að þetta er búið að vera mikið ágreiningsefni við sjómannastéttina í mörg ár og hafa sífellt komið fram kröfur um að stíga þarna skrefið til baka aftur, leggja niður 10% gjaldið sem tekið hefur verið síðan 1968 í Stofnfjársjóð. Það var því vægast sagt óhyggilegt að ætla að fara að hækka þetta nú um 15%.

En hæstv. sjútvrh. hefur auðvitað afskaplega einfalt svar við þessu. Hann ræðir ekki mikið um efni málsins Hann segir að vísu að þetta, sem honum var bent hér á, væri hrein fjarstæða, það að taka 5% til viðbótar af brúttóaflaverðmæti og leggja það í Stofnfjársjóð raski ekki á neinn hátt skiptakjörunum. Ég leyfði mér að segja að hann ætti að taka þetta aftur og ekki gera sig hlægilegan á því að segja svona fjarstæðu vegna þess að þetta er auðvitað hreint öfugmæli. Það er engin leið að segja þetta. Auðvitað er hér verið að raska þeim skiptakjörum sem byggt var á. En þá segir bara hæstv. sjútvrh: Af hverju afnam ekki fyrrv. sjútvrh. þetta gjald? Jú, það var nú svo, það var nú ekkert smáræði sem gamla viðreisnarstjórnin var búin að gera í þessum efnum. Hún var ekki aðeins búin að leggja á stofnfjárgjaldið, 10% og enn þá hærra þegar um útsiglingar var að ræða, heldur hafði hún einnig lagt á sjómennina sérstakt rekstrarþátttökugjald sem einnig var tekið af brúttóaflaverðmæti og sjómenn þannig látnir rísa undir. Það var mitt fyrsta verk sem ráðh. að afnema þetta gjald sem aðalandstaða sjómannanna hafði beinst gegn og snúa þessu þannig við að hægt var að hækka fiskverðið til sjómanna um 18–19% með þeirri aðgerð. En það var rétt, ég hafði ekki orku til þess að breyta öllu því í gott sem viðreisnarstjórnin var búin að gera illt. Hún hafði staðið í þessu í 12 ár, en mér entist nú ekki aldur nema í 3.

Hitt er alveg ljóst mál, að það var vitanlega ekki á þetta bætandi, það var óhyggilegt. Útgerðarmenn hafa oft bent á það, og það er ekki alveg án rökstuðnings, að það er orðið það langt um liðið síðan 10% stofnfjársjóðsgjaldið var lagt á að síðan hafa átt sér stað margir kjarasamningar á milli sjómanna og útvegsmanna og það hafa farið fram margvíslegar breytingar í launasamningum eftir þetta. Útgerðarmenn hafa sagt: Með þeim samningum er í raun og veru búið að viðurkenna þetta sem hvern annan fastan lið og menn eru búnir að breyta öðrum líðum í kjarasamningum með tilliti til þessa. — Og því er það að við kjarasamninga hafa sjómenn sjálfir sætt sig við gjöldin eins og þau voru. Þeir hafa að vísu mótmælt þessu og gert tilraun til þess að fá því breytt. Þeim hefur ekki tekist það. En þeir hafa þó unað við þetta En ég segi, að mér þykir mjög ótrúlegt að þeir uni því í komandi kjarasamningum að taka á sig þennan nýja skatt, sem þarna er um að ræða, og að annaðhvort verði að þeir reki þetta til baka aftur með því þá að breyta skiptaprósentunni sér í hag eða fá gjaldið afnumið eða þá að hér kemur til stöðvunar í atvinnurekstrinum vegna deilna út af þessu.

Ég tók eftir því að hæstv. sjútvrh. spurði hér með allmiklum þrjósti hvort við héldum virkilega að útgerðin í landinu hefði getað tekið á sig hækkuð gjöld til þess að standa undir afborgunum af lánum sínum og vöxtum sem nú hefði blasað við, hvort við hefðum virkilega haldið að útgerðin í landinu hefði getað þetta. Af hverju hækkuðu afborganir og vextir af þessum lánum? Það hækkaði vegna gengisbreytingar að einhverju leyti, að því leyti til sem skipin höfðu enn á sér hvílandi erlend lán en megnið af fiskveiðasjóðslánunum átti ekki að breytast nema að litlu leyti vegna gengisbreytingarinnar. En gengisbreytingin er framkvæmd eftir kröfu útgerðarinnar og fyrir útgerðarmennina í landinu. Geta þeir virkilega búist við því að heimta fyrst gengislækkun og segja svo: Ja, svo verða enn aðrir, þ.e.a.s. skipverjarnir, að standa undir kostnaðinum við framkvæmdina á gengisbreytingunni?

Hvar er hagnaðurinn af gengisbreytingunni? Af hverju er hann ekki látinn standa undir þessu eins og áður hefur verið gert? Jú, það er gert ráð fyrir því að hreinn gengishagnaður svonefndur vegna þeirra, sveiflu sem verður vegna þeirra afurða sem lágu í landinu þegar gengislækkun er framkvæmd, muni gefa í hreinar tekjur í kringum 1650 millj. kr. Og hæstv. ráðh. gerði hér grein fyrir því að það mætti telja að það væri búið að ráðstafa af þessari fjárhæð í kringum 400 millj. kr. og þá væru eftir 1 250 millj. og þeirri upphæð væri ekki búið að ráðstafa enn. En þessum gengishagnaði hefur jafnan áður fyrst og fremst verið varið til þess að draga úr þeim vanda sem upp hefur komið í sambandi við gengislækkanir þegar stofuverð skipanna hefur hækkað, þ.e.a.s. hin erlendu lán á skipunum hafa hækkað. Nú á ekki að nota þessa fjárhæð í þessu skyni, heldur á að deila henni út eftir einhverjum reglum sem hæst. hæstv. ráðh. á eftir að setja. En leiðin út úr því, þegar hann er búinn að ráðstafa þessu fé á þennan veg, er sem sagt að segja: Ja, sjómenn verða bara að leggja þetta til af sínum hluta. — Þetta er það sem við erum að segja að er ósanngjarnt og fær ekki staðist Auðvitað hefði útgerðin eins og áður átt að geta mætt þessum vanda ef hún hefði fengið það út úr gengislækkuninni sem eðlilegt var. En ef fiskverðið hefði verið látið hækka um meira en 11%, þá hefði útgerðin fengið það í sinn hlut. En nú hefur þetta verið gert á þennan hátt, hafa fiskverðshækkunina eins litla og mögulegt var, en láta útgerðina sjálfa fá sinn hluta sem átti að fá fiskverðið eftir öðrum leiðum.

Það var svo kapítuli út af fyrir sig hjá hæstv. sjútvrh. í þessum umr. að þó að hann treysti sér ekki til þess að eiga hér neinar viðræður á efnislegum grundvelli um þessa til teknu fiskverðshækkun, aðeins 11% sem þarna var ákveðin með lögum, og viki sér sem sagt alveg undan að ræða það hvort þetta hefur verið réttmætt eða ekki, þá fór hann að víkja að því að vinstri stjórnin hefði sett brbl í maí-mánuði fyrir næstu þrjá mánuði, júní, júlí og ágúst, til 1. sept. og þar hefði hún gert ráð fyrir því að fiskverðið þá yrði óbreytt. Þetta minnti mig á það að þeir í Morgunblaðinu höfðu mjög ráðist á mig í kosningabaráttunni síðustu og sögðu þar með flennifyrirsögnum að ég hefði verið að lækka kaup sjómanna um 18–19%. Það var nú hvorki meira né minna sem þá var nefnt í sambandi við þetta. En það er alveg rétt, ég gerði mér alveg grein fyrir því, þegar brbl. voru sett síðast í maímánuði, og þá var gengið út frá því, miðað við það erfiðleikaástand sem þá var stjórnmálalega séð, þegar engu var hægt að koma hér í gegnum þingið til varanlegra ráðstafana, m.a. vegna afstöðu Sjálfstfl., þá var sá kostur bestur undir þeim kringumstæðum að koma í veg fyrir allar breytingar fram yfir kosningar, festa það ástand, sem var um þetta leyti, með slíkum ráðstöfunum af hálfu ríkisins á móti að daunþegar almennt í landinu yrðu fyrir sem minnstum útgjöldum, að sem allra minnstar verðhækkanir dyndu yfir þá, jafnt sjómenn sem aðra. Ég gerði mér grein fyrir því að það hefði verið sanngjarnt að fá þá fram einhverja hækkun á fiskverðinu til sjómannanna sem hafði þá staðið óbreytt frá áramótum. En mér var líka ljóst að það var engin leið undir þessum kringumstæðum að koma neinu slíku fram án þess að margt annað hefði þar dregist á eftir, m.a. verðlagning á landbúnaðarafurðum og annað sem um var deilt. En hitt var líka alveg ljóst, að þegar vetrarvertíð var nýlega búin, þá kom tímabil sem hafði talsvert mikið aðra þýðingu fyrir sjómannastéttina almennt varðandi fiskverð. Sumarvertíð var að hefjast, þá voru m.a. humarveiðar mjög afgerandi og þar var um allt aðra fiskverðsbreytingu að ræða heldur en þá, sem hér var um rætt, og þá var að hefjast fyrir alvöru útgerðin í Norðursjó sem líka laut allt öðrum lögmálum, og fiskverðsbreytingar fyrir þessa mánuði, júní, júlí og ágúst, höfðu miklu minni þýðingu fyrir sjómenn undir þessum kringumstæðum heldur en það að tryggja að þeir yrðu ekki að taka á sig allar þær miklu verðhækkanir sem þá blöstu annars við. Hitt er svo aftur á móti að mínum dómi býsna sláandi, að mennirnir, sem réðust á mig fyrir það að hafa ekki knúið fram fiskverðshækkun í maímánuði, þeir ætluðu ekki að betrumbæta neitt þar. Þeir ætluðu aðeins að segja við sjómennina þegar kom fram í sept.: Nei, það mesta, sem þið megið fá samkv. lögum er 11% eins og láglaunahækkunin þó að ykkar kaup hafi verið fast frá áramótum og aflinn farið minnkandi. — Það sýnir bara hvað hefur verið mikið að marka áróðurinn í sambandi við það þegar Morgunblaðið fann að því að það hefði ekki verið knúin fram í sambandi við brbl. sem sett voru í maí, sérstök fiskverðshækkun. Þeir voru með allt annað í huga en það að þeir ætluðust til þess að fiskverð yrði hækkað, enda hefur það sjaldan verið þeirra boðskapur að það þyrfti að hækka hlut sjómanna.

Það væri auðvitað full ástæða til þess að ræða hér í miklu lengra máli það, sem hér kom fram hjá hæstv. ráðh., og ég skal taka það fram að ég hef ekkert nema gaman af því að ræða við hann um þessi mál og sem betur fer hef ég núna nógan tíma til þess líka En aðalatriðið í þessu, sem hér hefur komið fram, er auðvitað þetta, að það frv., sem hér liggur fyrir og er tilefni þessara umr., felur í sér raunverulega fjórar meginráðstafanir, eins og ég sagði hér í umr. þegar þær hófust. Í fyrsta lagi felur frv. það í sér samkv. 1. gr. að fiskverð á seinustu mánuðum ársins, frá sept. til áramóta, má ekki hækka um meira en 11%. Þetta er bein ákvörðun. Og sú skýring hefur komið hér fram frá sjútvrh. — og það er virkilega athyglisvert og umhugsunarvert, ekki síst fyrir sjómenn — og skýringin er þessi: Það varð að koma í veg fyrir það að launajafnrétti á milli atvinnustétta raskaðist. Hvað þýðir þetta, að það yrði að koma í veg fyrir það, að launajafnrétti á milli stétta raskaðist? Það þýðir að það var yfirvofandi hætta á að sjómenn fengju of hátt kaup miðað við annað vinnandi fólk. Þar lá nú hundurinn grafinn, hættan var þar. Það er eins og ég hef bent á hér áður, þetta er þessi gamla kenning, sem hefur svo sem skotið upp kollinum áður, að kauphækkanir í landinu, verðlagshækkanir í landinu og efnahagslegur vandi í landinu eigi rætur að rekja til þess að sjómenn hafi spennt upp kaupið. Þessi kenning hefur hvað eftir annað komið upp þó að málið hafi raunverulega staðið þannig allan tímann að við höfum alltaf verið á röndinni við það að tapa af okkar þýðingarmikla starfsliði við sjómennsku, tapa því yfir í aðrar greinar. Það hefur t. d ekki verið talin mikil hætta af þeim sem flytja þennan boðskap — þeir hafa ekki talið vera mikla hættu á því að t.d. kaupið í álverinu raskaði launakjörum á milli stétta. Álverið þurfti að fá að borga sínu fólki til þess að það gæti staðið sig. Viðhorfið gagnvart því var allt annað En í því að sjávarútvegurinn borgaði sínu fólki sæmilegt kaup var fólgin hætta. Það varð að koma í veg fyrir slíka hættu. Þetta er fyrsta atriðið í frv.

Annað meginatriðið í þessu frv. er svo fólgið í þrenns konar ráðstöfunum sem allar miða að því að taka ákveðinn hluta af brúttóaflaverðmæti áður en skipti fara fram og færa þann hluta yfir til annars aðilans, yfir til útgerðarinnar. Á þennan hátt er gerð sú ráðstöfun að af brúttóaflaverðmæti eigi að hækka framlagið í Stofnfjársjóð fiskiskipa, hækka framlögin í Tryggingasjóð fiskiskipa til þess að standa undir vátryggingu skipanna og hækka stórlega framlög til þess að borga niður olíuverðið Þetta er annað meginatriðið í því frv. sem hér liggur fyrir.

Þriðja atriðið er svo um það að breyta reglum í l. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og ég lýsti því yfir að ég er samþykkur því ákvæði þessa frv. Ég tel að það stefni í rétta átt. Það hafi þurft að gera ráðstafanir til þess að hægt væri að greiða út úr þessum stóra verðjöfnunarsjóði meiri fjármuni til þeirra greina sem þurfa á því að halda og hægt sé að taka meiri fjármuni inn í sjóðinn frá hinum greinunum sem geta virkilega staðið undir því $g var sem sagt samþykkur þessu þriðja atriði.

Í fjórða lagi felast svo í þessu frv. ákvæði um ráðstöfun á gengishagnaði, þeim gengishagnaði sem fram kemur við gengislækkunina, og þar er vikið að þessum beinu styrkjagreiðslum sem átt hafa sér stað til eigenda minni skuttogara og til eigenda stærri skuttogara og til þeirra skipaeigenda sem hafa haft skip sín í Norðursjó. Þessir aðilar hafa allir nú þegar fengið beinar peningagreiðslur eftir ákveðnum reglum sem sjútvrh. hefur sett. Ég tel fyrir mitt leyti að greiðslur af þessu tagi séu mjög varhugaverðar og um þær þurfi að setja mjög stífar reglur ef ekki á að koma þarna upp mismunun eða spilling Ég benti m.a. á það að ég teldi það í rauninni alveg óeðlilegt að þannig skyldi t.d. haldið á málum að stóru skuttogararnir, sem aðallega hafa verið gerðir út á útsiglingar, skuli fá tvöfaldan styrk, bæði úr Aflatryggingasjóði og eins samkv. þessari sérstöku úthlutun, á sama tíma sem minni skuttogararnir fá aðeins úr þessari sérstöku úthlutun, en ekkert úr Aflatryggingasjóði.

Ég held að það sé nú miklu vænlegra til árangurs, þegar mál eins og þetta liggja hér fyrir, að ræða þetta nokkuð á efnislegum grundvelli, eins og ég tel mig hafa gert, en ekki á þann hátt sem hæstv. sjútvrh gerði hér, með stóryrðum sem greinilega voru sprottin af sérstakri skapvonsku. Það var greinilegt að það hafði eitthvað verið að gerast núna að undanförnu sem hafði farið í skapið á ráðh. Honum leið eitthvað illa. Menn hafa kannske verið að sjá það betur, hvað það hefur verið, núna síðustu kvöldin og síðustu dagana. Það vill svo til, eins og sagt hefur verið, að ef menn missa af einhverjum glæp, þá hefur það sín áhrif.