12.02.1975
Neðri deild: 41. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

84. mál, útvarpslög

Frsm. minni hl. (Kjartan Ólafsson):

Hv. forseti. Ég vil aðeins ítreka ósk mína um það að síðari málsgr. brtt., sem borin er fram af minni hl. menntmn., verði borin upp sérstaklega og að viðhaft verði nafnakall. Ég sé ekki að það geti verið neitt því til fyrirstöðu að bera þetta upp í tvennu lagi, þar sem um tvö greinilega aðskilin atriði er að ræða í till. Ég tel eðlilegt að fyrri liður brtt. sé borin upp á undan og óska eftir nafnakalli um hann, en þegar kemur aftur að síðari málslið till., þá stendur ósk mín um það að viðhaft verði nafnakall og greidd atkv. um hana sérstaklega. Ég hef innt þingvanari menn en mig eftir því, hvort þetta sé ekki frambærileg ósk, og mér hefur verið tjáð að svo sé, að það sé ekki óvenjulegt eða a.m.k. að um það séu allmörg dæmi að einstakir málsliðir séu bornir upp sérstaklega ef eftir því er óskað.