12.02.1975
Neðri deild: 41. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

84. mál, útvarpslög

Benedikt Gröndal:

Virðulegi forseti. Ég er efnislega sammála þeirri hugsun sem felst í þessum málslið. En ég tel það vera svo sjálfsagt að starfsmenn erlendra þjóða eða alþjóðastofnana, sem njóta diplómatískra réttinda hér á Íslandi, gegni ekki trúnaðarstörfum fyrir íslenska ríkið, að mér finnst það vera fyrir neðan virðingu okkar að þurfa að slá slíku föstu í lögum. Þar að auki, ef það er óhjákvæmilegt að setja það í lög, þá á það ekki bara við útvarpsráðið, heldur við allar aðrar opinberar stöður. Vegna þessara formsatriða greiði ég ekki atkv.