12.02.1975
Neðri deild: 42. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1405)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur nú setið að völdum í u.þ.b. hálft ár. Hvað hefur einkennt störf hæstv. ríkisstj. á þessu hálfa ári? Ég hygg að dómur þjóðarinnar sé sá að einkenni á störfum hennar hafi verið ráðleysi, hafi verið tímasóun, hafi verið hik í störfum og ákvörðunum, en á s.l. sumri munu margir sannarlega hafa talið að nóg væri komið' af slíku. Þjóðin hafði búið við stjórnleysi í 3 ár á mestu góðærum sem yfir þjóðina höfðu gengið. Þau góðæri höfðu ekki verið nýtt til þess að leggja traustan grundvöll að heilbrigðum framtíðarbúskap Íslendinga. Þess vegna m.a. er nú komið eins og komið er.

Þeir, sem í sumar og á undanförnum mánuðum bjuggust við breyt. á stjórnarháttum, hljóta að hafa orðið fyrir vonbrigðum. Ekki aðeins þeir sem frá upphafi voru í andstöðu við þessa ríkisstj., heldur einnig fjölmargir þeirra sem studdu myndun hennar og fylgdu henni, en fylgja henni varla lengur vegna reynslunnar af henni þegar á fyrsta missirinu sem hún hefur starfað. Það litla, sem ríkisstj. hefur gert, hefur verið í því fólgið að halda áfram stefnu fyrrv. ríkisstj. Það ríkir enn sama stjórnleysið. Það ríkir enn sama óreiðan og ríkir enn sama sukkið og þjóðin stundi undir 3 árin á undan.

En hvað átti hæstv. ríkisstj. að gera þegar hún tók við völdum á s.l. sumri? Hún átti auðvitað að framkvæma allsherjarúttekt á þjóðarbúinu. En hvað á ég við þegar ég tala um allsherjarúttekt? Ég á ekki við það sem þetta orð hefur venjulega verið notað til þess að tákna, þ.e.a.s. úttekt á greiðslugetu atvinnuveganna, mat á stöðu einstakra atvinnurekenda eða atvinnuvega né heldur á því hvernig viðskiptajöfnuðurinn hafi verið, sé eða muni verða. Auðvitað þarf að athuga hvernig atvinnuvegirnir standa og hverjar horfur eru í þeim. Auðvitað þarf að athuga hver viðskiptajöfnuðurinn er og hverjar horfur eru á því sviði. En það þarf líka að athuga greiðslugetu stéttanna. Það þarf líka að gera úttekt á tekjuskiptingunni, á því hverjir geti þolað kjaraskerðingu og hverjir geti það ekki, hverjir geti borið byrðar og hverjir geti það ekki.

Þessa úttekt hefur hæstv. ríkisstj. algjörlega vanrækt að framkvæma. Hún gerði að vísu ráðstafanir í sumar, en þær ráðstafanir voru bráðabráðabirgðaráðstafanir. Hyggnir menn munu hafa séð fyrir að þær mundu verða bráðabirgðaráðstaflanir.

Undanfarnar vikur og nú síðdegis hefur komið í ljós að þær voru bráðabirgðaráðstafanir, dugðu í fáeina mánuði. Þess vegna hafa ákvarðanir dagsins verið teknar. Þess vegna er þetta frv. hér til umr. í hv. d. nú í kvöld. Þá aftur er rokið til — og hvernig? Gengið er lækkað aftur, í annað skipti á einu missiri. Látum það vera. Gengisbreyting getur verið nauðsynleg. Gengisbreyting getur verið heilbrigð. Hún er heilbrigð ef hún er þáttur í heildarlausn á þeim vanda sem við er að etja. Það ber engan veginn að fordæma gengisbreytingu undir öllum kringumstæðum. Allar þjóðir, við og allar þjóðir, nágrannaþjóðir, hafa beitt gengisbreytingu sem tæki til þess að komast út úr kreppu, til þess að leysa efnahagsvandann. En því aðeins gera skynsamar ríkisstj. gengisbreytingu að lið í stefnu að um heildarlausn sé að ræða, að von sé um jákvæðan heildarárangur. Sérhverja gengisbreytingu ber að dæma eftir því hvort hún er þáttur í slíkri heildarlausn eða ekki.

En hvað segja þeir, sem gengislækkun er fyrst og fremst ætlað að þjóna, um þetta efni, um þessa gengislækkun? Fagna útvegsmenn henni? Hafa þeir fagnað henni og óskað eftir henni? Þeir hafa ekki óskað eftir henni og þeir fagna henni ekki í dag og þeir munu ekki fagna henni á morgun. Af hverju? Af því að þeir líta þannig á að hún sé ekki fullnægjandi lausn á þeim vanda sem steðjar að íslenskum sjávarútvegi eða íslenskum efnahagsmálum yfirleitt. Þess vegna liggur það í loftinu, að ríkisstj. kunni að hafa í huga að til viðbótar þessari gengislækkun muni koma uppbætur, en til þess að greiða uppbætur þarf auðvitað að leggja á skatta, m.ö.o. að það, sem okkar bíður, sé ekki aðeins gengislækkunin frá síðdeginu í dag, heldur einnig uppbótakerfi, m.ö.o. gengisbreyting + skattar + uppbætur, og slíkt er versta heildarlausn sem hugsanleg er.

Það á að hafa hreinar línur í lausn á efnahagsmálum, annaðhvort að hafa gengisbreyt. þannig, að hún beri lausnina uppi eða þá á að fara niðurfærsluleið sem sé kjarni í lausninni. Alltaf þarf einhverjar hliðarráðstafanir. Fræðilega er til sá möguleiki að fara hreina millifærsluleið, þ.e. að fara hreina uppbótaleið, en samkrull af öllu þessu þrennu er versta og óhyggilegasta lausnin sem hugsanleg er.

Það, sem ég óttast, er að hæstv. ríkisstj. sé því miður á þessari leið, m.ö.o. að lausnin sé hrærigrautur, hún sé hvorki fugl né fiskur. Og eitt er alveg augljóst mál, að ekki örlar á því, sem hlýtur að eiga að vera undanfari allra lausna á efnahagsmálum, hvort sem kjarni þeirra er gengisbreyt., hvort sem kjarni þeirra er niðurfærsla, hvort sem kjarni þeirra er millifærsla en það er allsherjarsparnaður hjá hinu opinbera, hjá ríkinu, hjá sveitarfélögum og kvaðir á atvinnurekstur til sparnaðar. Þetta hlýtur að vera og á að vera undanfari allra tilrauna til heildarlausnar á efnahagsmálum. Á engu slíku hefur bólað hjá hæstv. ríkisstj. á því misseri sem hún er er búin að sitja við völd.

Það var í blöðum fyrir skömmu skýrt frá ræðu sem einn helsti .efnahagssérfræðingur þjóðarinnar, Jónas H. Haralz landsbankastjóri, hélt á Akureyri fyrir skömmu. Eitt stjórnarblaðanna skýrir ítarlega og að ég er viss um alveg réttilega frá innihaldi þeirrar ræðu. Það er sannarlega ástæða til að hlusta á það sem eina reyndasti og helsti efnahagssérfræðingum þjóðarinnar hefur um núverandi vanda og hugsanlega lausn hans að segja. Kjarninn í máli hans var einfaldur og hann var þessi: Fyrir alla muni á ekki að reyna að leysa yfirstandandi efnahagsvanda með því að gera eina ráðstöfun í þessu horni, aðra í hinu, þriðju í þriðja horninu. M.ö.o.: það á ekki að reyna að gera sitt lítið af hverju heldur taka á vandanum í heild og reyna að leysa bann allan. Auðvitað veit maður eins og Jónas H. Haralz að efna,hagsvandi þessi verður aldrei leystur til hlítar, aldrei til fullnustu. Menn hugsa ákveðinn tíma fram í tímann, en fyrir þann tíma verður heildarlausnin þó að duga. Það er eins og Jónas H. Haralz hafi haft eitthvert hugboð um það að ríkisstj. kynni að vera á annarri leið en þeirri sem hann taldi rétta. Það er eins og hann hefði eitthvert hugboð um það að ríkisstj. kynni að vera með það í huga að leysa einhvern hluta vandans með gengisbreyt. einhvern hluta vandans með uppbótum í einhverju formi, með því að greiða uppbætur á þennan fisk veiddan á þessum tíma og annan fisk veiddan á öðrum tíma og einhvern fisk sem fluttur var á þennan markað og annan fisk sem fluttur var á hinn markaðinn og afla tekna til þess með því að leggja þessa prósentu á þessa vöru og hina prósentuna á hina vöruna, eina prósentuna á vöruna sem kemur frá þessu landi og aðra á þá sem kemur frá hinu landinu. Við þekkjum þessa leið frá gamalli tíð. Hún er þrautreynd áður og það er eflaust við þessu sem okkar reyndi efnahagssérfræðingur hefur verið að vara, og þess vegna vitna ég sérstaklega í þessi ummæli, af því að það er ástæða til þess að halda að hann viti eitthvað um það hvað hrærist í hugum þeirra manna sem nú fara með völd á Íslandi. Ég skil ræðu hans þannig að hann óttist að þetta muni verða gert og hann vilji gera sitt til þess að vara við að þetta verði gert. En ég óttast líka núna, að þetta sé það sem er að gerast og muni gerast, og það ber að harma.

Ég skal fúslega viðurkenna, hika ekki við að viðurkenna það, að eins og á stendur í íslenskum efnahagsmálum nú, á þessari stundu og þessum vikum og þessum mánuðum, eru ekki möguleikar á allsherjar kjarabótum fyrir launþega í landinu. Það er staðreynd sem sérhver ábyrgur og skynsamur íslendingur hlýtur að viðurkenna og við það eiga menn auðvitað, stjórnvöld og aðrir, að miða stefnu sína og gerðir. Það eitt er ábyrgt og það eitt er skynsamlegt. En það jafngildir auðvitað ekki því að hægt sé að horfa aðgerðarlaus á hversu gífurlega kjör hinna lægst launuðu hafa rýrnað á undanförnum vikum og mánuðum og munu rýrna í kjölfar þessara ráðstafana, ef ekki er gripið til alveg sérstakra ráðstafana eins og raunar forsrh. hæstv. var að boða en við vitum ekki í hverju munu vera fólgnar og getum því ekki fellt neinn endanlegan dóm um á þessu stigi.

Ég sagði áðan að það væri óskynsamlegt að fordæma gengislækkun sem slíka. Það gerir í raun og veru enginn skynsamur maður sem ræðir efnahagsmál. Það verður að skoða gengisbreyt. í samhengi við aðrar ráðstafanir sem hún er þáttur í, sem hún er liður í. Hvað er í raun og veru gengisbreyting? Gengisbreyting er, með sem skýrustum orðum sagt, endurskipting á þeim hluta þjóðarteknanna sem á rót sína að rekja til utanríkisviðskipta. Hækkun á verði erlends gengis eykur tekjur allra þeirra sem framleiða til útflutnings og selja gjaldeyri, en eykur útgjöld allra hinna sem nota gjaldeyri hvort sem það er til neyslu eða til fjárfestingar. Það er í raun og veru verið að flytja tekjur frá þeim sem nota gjaldeyri, til hinna, sem skapa hann. Mér dettur ekki í hug að andmæla því að þeir, sem framleiða vörur til útflutnings nú þurfi á auknum tekjum að halda. Það er staðreynd sem væri rangt, óeðlilegt og raunar heimskulegt að andmæla og það kemur mér ekki til hugar að gera. Þeir þurfa á auknum tekjum að halda eins og þróunin hefur verið undanfarið. En þann tekjuauka, sem þeir þurfa að fá, hlýtur einhver að borga. Ef gengisbreyt. er framkvæmd og ekkert annað en gengisbreyt., borga þeir þennan tekjuauka sem erlendan gjaldeyri nota til neyslu eða til fjárfestinga. Þeir borga reikninginn. Og ef ekkert er gert annað en að breyta genginu borga allir neytendur erlends gjaldeyris reikninginn jafnt að sínum hluta eftir notkuninni á gjaldeyri og það hlýtur að teljast ranglátt. Það verður því að gera viðbótarráðstafanir, hliðarráðstafanir, sem stefna að því, sem miða að því að þessum reikningum til gjaldeyrisnotendanna sé dreift misjafnt með misjöfnum hætti, að sumir greiði ekkert, en aðrir þeim mun meira.

Ég er hiklaust á þeirri skoðun að tekjunum eigi að dreifa hlutfallslega jafnt á útflytjendur, annað gæti beint fjárfestingunni inn á rangar brautir. Þess vegna tel ég út af fyrir sig að sú hugsun í gengisbreyt. sé heilbrigð og rétt t.d. að gera ekki upp á milli sjávarútvegs og iðnaðar, ekki á milli einstakra greina sjávarútvegs og einstakra greina iðnaðarins með því að beita misjöfnu gengi. Það er ekki heldur hægt að skrá misjafnt gengi á einstakar vörur sem við notum gjaldeyrinn til kaupa á, en það má gera aðrar ráðstafanir sem gera vissum hluta neytenda, vissum hluta launþeganna kleifara en ella að greiða þann reikning sem í gengisbreyt. felst. Og það er þetta sem nauðsynlega þarf að gera. Við biðum tillagna ríkisstj. um þetta efni. Fyrir fram skal ég engan dóm um það fella fyrr en þær sjást. Mér sýnist ýmislegt benda til þess að ekki sé von til þess að launþegar geti horft björtum augum til framtíðarinnar í þessum efnum, en allan dóm um það skal ég láta bíða síns tíma.

Hinn megintilgangur gengisbreyt. er auðvitað sá að jafna viðskiptahalla. Viðskiptahallinn hefur verið uggvænlegur á undanförnum árum, sérstaklega á síðasta ári, og horfur um hann eru enn þá uggvænlegri á þessu ári. Gengisbreyting er tilraun í þá átt að jafna viðskiptahalla og að því leyti hefur hún hagkvæm og skynsamleg áhrif. Það er sjálfsagt að sé viðurkennt, en jafnframt verður enn að ítreka nauðsyn þess að það eitt er ekki nóg að stuðla að því að viðskiptahalli jafnist ef tekjuskipting raskast jafnframt með mjög óeðlilegum hætti. Þó markmiðið sé heilbrigt að jafna hættulegan viðskiptahalla, má það ekki gerast með öðrum hætti en þeim að tekjuskiptingaráhrif af þessum tilraunum séu jafnframt höfð í huga.

Ég sagði áðan að ég dragi ekki í efa að útflutningsatvinnuvegirnir þyrftu á tekjuauka að halda. En er þessi tekjuauki nógur til þess að leysa vanda útflutningsatvinnuveganna? Ég skal ekki svara því, heldur bara vitna til þess sem þeir menn segja sjálfir sem eiga að njóta hans. Þeir segja: Nei, hann er ekki nógur. Og það er það sem vekur ugg í brjósti manns um það, að sagan sé ekki öll sögð með ráðstöfununum í dag, að það séu einhvers konar uppbætur í vændum til viðbótar. Sérfræðingar munu einnig segja: Nei, gengisfellingin jafnar ekki viðskiptahallann.

Og það vekur ugg manns um það, að eitthvað annað til viðbótar sé í pokahorninu sem eigi að gera það sem gengislækkun er ekki talin gera af sérfræðingunum, þ.e. að jafna viðskiptahallann í svo miklum mæli sem nauðsynlegt er talið.

M.ö.o.: útgerðin er ekki ánægð eftir daginn í dag og hún verður ekki ánægð á morgun. Viðskiptabankarnir, sem eiga að sjá um viðskiptahallann munu ekki heldur vera ánægðir. Það er því eitthvað enn þá meira í viðbót í vændum, og það er það sem við vitum ekki enn þá hvað er. En það sýnir að um heildarlausn er hér ekki að ræða, og það er það sem er uggvænlegt. Og síðast, en ekki síst verður að vekja athygli á því í sambandi við gengisbreytinguna í dag að hún virðist vera upphaf efnahagsráðstafana, ekki efnahagsráðstafanirnar. Það er hún ekki. Hún er upphaf keðju af efnahagsráðstöfunum.

Um þessa ráðstöfun hafa engin alvörusamráð verið höfð við launþegasamtökin. Launþegasamtökin, sem oft hafa þurft að horfa upp á það undanfarna mánuði að kjör meðlima þeirra hafa farið síversnandi, að kaupmáttur tekna þeirra hefur farið síminnkandi, hafa sett fram ábyrgar og skynsamlegar óskir gagnvart vinnuveitendum og gagnvart ríkisvaldinu. Þeirra fyrsta ósk hefur verið sú að skattakerfið verði endurskoðað frá grunni. Þeirra önnur ósk hefur verið sú að gerðar yrðu ráðstafanir í húsnæðismálum til þess að létta kostnað við húsnæði sérstaklega hjá láglaunafjölskyldum. Og þau hafa óskað eftir því að sérstök endurskoðun á láglaunabótunum fari fram. Hæstv. forsrh. gat þess að vísu í ræðu sinni áðan að á slíku mundi ekki vera von, en hann nefndi ekki ráðstafanir í skattamálum og hann nefndi ekki ráðstafanir í húsnæðismálum. Þetta eru þó meginóskir verkalýðshreyfingarinnar. M.ö.o.: það er hafin röð efnahagsráðstafana með róttækri breytingu á genginu, án þess að nokkur alvörusamráð séu höfð við launþegasamtökin, og það ber sannarlega að harma.

Ég vil ekki eigna ríkisstj. það sem einn af forustumönnum bænda segir í Morgunblaðinu í dag, Gunnar Guðbjartsson, form. Stéttarsambands bænda, þar sem kemur fram þáttur í hans hugmyndum um það, hvernig eigi að leysa efnahagsvandann, sé að banna verkföll í eitt eða tvö ár, senda þá til Rússlands eða Kína, sem ekki hlýða og lengja vinnuvikuna í 50 klst. Hann tekur sem betur fer fram í lok greinar sinnar að þetta séu sínar einkaskoðanir og ég vil ekki ætla nokkrum flokksmanni, hvorki í ríkisstj. né hér á hinu háa Alþ., að þeir hafi aðrar eins skoðanir á efnahagsmálum og launþegamálum og koma fram í þessari grein þessa bændaforkólfs.

Að síðustu skal ég segja þetta: Auðvitað verður að sjá allt efnahagsdæmið áður en endanlegur fullnaðardómur verður felldur um stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum. En ég segi það enn og aftur: Ég held að þetta, sem þegar er komið, sé ekki nema hluti af því sem ríkisstj. ætlar sér að gera og hefur í hyggju að gera, og það sem t.d. ummæli Jónasar H. Haralz benda til að hrærist í huga hæstv. ríkisstj., bendir ekki í góða eða rétta átt. Ef þessi verður niðurstaðan verður framtíðin áframhaldandi verðbólga, þá verða áframhaldandi hallaviðskipti, þá verður það eyðsla og sukk sem áfram setja svip sinn á stjórn íslenskra efnahagsmála.

Ég hef sagt það áður, að auðvitað dugi ekki neitt eitt ráð til þess að leysa jafngagngeran efnahagsvanda og nú er við að etja í íslensku þjóðlífi. En ég vil segja það aftur og það skal vera það sem ég hef sem meginniðurstöðu míns máls, að forsendur allra ráðstafana sem við getum talið skynsamlegar og réttlátar, forsenda alls þess, sem á að geta borið árangur í efnahagsmálum, þarf að vera sparnaður á öllum sviðum. Ríkið verður að ganga á undan, síðan verða sveitarfélögin að taka alvarlega á og halda sínum framkvæmdafyrirætlunum og útgjöldum og þar með skattlagningu í hófi. Og það verður að knýja fyrirtæki til sparnaðar. Hjá fyrirtækjum á sér stað óhæfileg sóun á fjöldamörgum sviðum sem menn komast upp með. Það verður að stöðva. Þá fyrst þegar þetta þrennt hefur gerst verður hægt að ætlast til þess að almenningur skilji að hann verði, a.m.k. verulegur hluti hans, að herða nokkuð að sér ólina, þó að talsverður hluti hans sé þannig settur að hann geti alls ekki hert ólina og hlífa þurfi honum við öllum byrðum, og þar á ég við hina lægst launuðu.

Ég óttast að það, sem hér er á ferðinni, sé ekki bara gengislækkunin sem Seðlabankinn og ríkisstj. ákváðu í dag, heldur gengislækkun + uppbótarkerfi + skattheimta + áframhaldandi eyðslustefna og þar með stjórnleysi. Ég gat þess ekki áðan í sambandi við hugmyndirnar um það sem kynni að vera í huga ríkisstj. um skattheimtu, að það hefur verið talið að eitt af því, sem ríkisstj. hafi í huga, sé að hækka söluskattinn um 1 stig til þess að standa straum af kostnaði við bætur vegna náttúruhamfaranna í Neskaupstað. Auðvitað eru allir alþm. og auðvitað er þjóðin öll á einu máli um að það þurfi að bæta norðfirðingum það ógnartjón, það hörmulega tjón sem þeir urðu fyrir. Hitt hygg ég að hljóti að vera fráleitur reikningsmáti, að til þess að endurbyggja nokkur fyrirtæki sem sjálfsagt er að hið opinbera og þjóðin öll endurbyggi, þá þurfi 1 söluskattsstig, heilt söluskattsstig til að standa straum af þeim kostnaði. Ef það gerist á næstunni sem líður í framhaldsráðstöfunum ríkisstj., að söluskatturinn verði hækkaður um 1 stig, þó að í jafngöfugum tilgangi sé og hjálpa norðfirðingum, þá sýnir það að heildarstefnan, sem ríkisstj. hefur í huga, er ekki heilbrigð og hlýtur að mæta mjög alvarlegri andstöðu af hálfu launþegasamtakanna. Ef þessar grunsemdir mínar reynast réttar — og ég skal játa að hér er enn aðeins um grunsemdir að ræða — að stefnan sé gengislækkun + uppbótakerfi + skattheimta + áframhaldandi eyðsla, þá verður stefna ríkisstj. varla kennd við annað en það að kunna í hvorugan fótinn að stíga, og af því getur ekkert gott hlotist.

Hæstv. forseti. Um þetta frv., sem hér er til umr., er það að segja að það er í eðli sínu hliðstætt frv. sem áður hafa fylgt í kjölfar gengisbreyt. Hér er ekki um sjálfstæðar ráðstafanir Alþ. að ræða, heldur nauðsynlegar ráðstafanir vegna ákvarðana sem þegar hafa verið teknar. Ég ræði frv. ekki í einstökum atriðum þar sem ég á sæti í þeirri n. sem því mun verða vísað til. En ég vil aðeins taka fram, að í grundvallaratriðum tel ég samþykkt þessa frv. vera eðlilega og sjálfsagða og minn flokkur mun greiða fyrir því að sú n., sem frv. verður vísað til, afgr. málið skjótlega á morgun þannig að Alþ. geti lokið afgreiðslu frv. á morgun, svo að eðlileg gjaldeyrisviðskipti geti hafist þegar á föstudagsmorgni. Þetta tel ég vera eðlileg vinnubrögð og í raun og veru sjálfsagða skyldu Alþ. eins og á stendur.