14.11.1974
Neðri deild: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Guðlaugur Gíslason:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða efnislega það frv. sem hér liggur fyrir. Það hefur verið lagt til að því yrði vísað til n. sem ég á sæti í og gefst mér þar tækifæri til þess að skoða málið og koma fram mínum sjónarmiðum í sambandi við það. Ég vildi aðeins leiðrétta það sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austf. þegar hann staðhæfði í ræðu sinni að staða sjávarútvegsins á miðju þessu ári, meðan hann enn var sjútvrh., hefði ekki verið slæm, eins og hann orðaði það. Hann sagði í ræðu sinni að hvaða fullyrðingar sem menn kæmu með þá væri það alltaf svo að staðreyndirnar stæðu eftir. Þetta var rétt fullyrðing hjá honum og á hann ábyggilega eftir að reka sig á það í sambandi við þær fullyrðingar, sem hann hefur verið með hér í sambandi við stöðu sjávarútvegsins, að staðreyndirnar segja allt annað en hann hefur viljað vera láta.

Það er vitað að það eru tvær bankastofnanir í landinu sem standa undir útlánum til sjávarútvegsins. Staða þessara stofnana gagnvart Seðlabanka, að því er varðar sjávarútvegslán, er spegilmynd af stöðu sjávarútvegsins á hverjum tíma. Á miðju síðasta ári, í júní, var svo komið að a.m.k. í annarri þessari bankastofnun, þ.e. Útvegsbankanum, en hér er um að ræða Útvegsbankann og Landsbankann, sá bankastjórnin sig tilneydda að kalla til aukafundar í bankaráði þessa banka til þess að ræða stöðu bankans við Seðlabankann vegna þess að lán til sjávarútvegs höfðu farið langt fram úr því sem eðlilegt var og bankastjórnin taldi sig geta forsvarað. Það kom þá í ljós að þessir bankar, sem standa undir lánum til sjávarútvegs, voru komnir í á yfirdráttarvexti eða refsivexti, eins og það er nefnt, upp á samtals um 4 milljarða. Hefur aldrei átt sér stað undanfarna áratugi að neitt svipað því hafi komið fyrir að þessar stofnanir hafi þurft að nota þannig yfirdráttarheimild á refsivöxtum hjá Seðlabankanum eins og komið var á miðju s.l. ári. Bankaráð taldi sig ekki þá geta gert það sem bankastjórn taldi að væri eðlilegast, ef aðeins ætti að líta á málið frá hlið bankamanna og bankakerfisins. Þá hefði auðvitað legið beint við að draga í land með útlán til sjávarútvegsins og frystiiðnaðarins umfram það sem þær reglur, sem fyrir hendi eru um hin hefðbundnu sjávarútvegslán, kveða á um, en hætta öðrum lánum. Þetta hefði þýtt það eitt að allur atvinnurekstur sjávarútvegsins í landinu, bæði togararekstur, bátaútgerð og fiskiðnaður, hefði stöðvast í júní í sumar. Það hefði ekki verið hægt fyrir fiskiðnaðinn að greiða vinnulaun í sambandi við vinnslu sjávarafurða. Það hefði haft þær afleiðingar einar að þessi atvinnurekstur hefði stöðvast yfir allt landið. (Gripið fram í.) Bankaráð þessara banka töldu það ekki forsvaranlegt vegna þess ástands sem þá var í þjóðmálunum. Það var ekki ríkisstj., sem hafði meiri hl. Alþ. á bak við sig, og vildu þau þess vegna ekki vega þannig að stjórnvöldum, meðan þannig stóð á, eða efna til þess að atvinnurekstur í landinu stöðvaðist. Bankaráð þessara banka tóku heldur þá afstöðu að taka á sig refsivextina. Ég veit að a.m.k. Útvegsbankinn hefur ekki efni á að taka á sig þá refsivexti sem hann hefur orðið að gera á þessu ári. Þessir refsivextir til Seðlabankans eru mun hærri upphæð en hugsanlegt er að bankinn hafi í mismun á tekjum og gjöldum yfir árið. Þannig er aðstaðan. Það þýðir því ekkert fyrir hv. 2. þm. Austf. að koma hér og halda því fram að staða sjávarútvegsins á miðju ári hafi verið eins og hann var að lýsa hér, — ekkert slæm, sagði hann. Hún var því miður slæm og miklu verri en almennt var vitað um á þeim tíma og ég hygg miklu verri en menn almennt gera sér í hugarlund enn í dag.

Sú sorglega staðreynd liggur einnig fyrir að horfur í þessari atvinnugrein, sjávarútvegi og fiskiðnaði, eru því miður á allt annan veg en hv. 2. þm. Austf. var að lýsa, þó að svo hafi verið um afkomu einstakra greina sjávarútvegsins og hefur þar verið bent á saltfisk og skreið. Það er alveg rétt að afkoma þessara tveggja greina var mun betri en afkoma frystiiðnaðarins og fleiri greina sjávarútvegsins. En þá er það svo að mörg frystihús og sennilega flest frystihús á landinu hafa ekki einasta með að gera frystingu á fiski, þau hafa einnig með að gera saltfisks- og skreiðarframleiðslu þannig að það hefur nokkuð bætt þeirra hag. En þetta eru staðreyndir um heildarútkomu sjávarútvegsins á miðju síðasta ári. Það er alveg sama hvað fullyrt er hér á Alþ., þetta er staðreynd, sem liggur fyrir og ekki verður gengið fram hjá, að afkoma þessarar atvinnugreinar speglast hreinlega í aðstöðu bankanna, þessara tveggja banka sem lán veita til sjávarútvegsins, hún speglast í aðstöðu þeirra hjá Seðlabankanum. Ég held að það sé rétt hjá mér að því miður hafi þetta ástand ekki batnað enn. Það er vonandi að á þessu verði breyting til hins betra, en enn þá hefur það því miður ekki komið fram. Það er ágætt að lesa hér upp spádóma og tölur sem er verið að gera um hvernig afkoman muni verða einhvern tíma í framtíðinni. (Gripið fram í.) Það eru staðreyndir, eins og hv. 2. þm. Austf. sagði, sem gilda. Þær eru eins og ég hef verið að lýsa hér. Til hvers eru spádómar ef þeir standast ekki?

Það var annað atriði, sem ég vildi aðeins benda hér á, þó að það skipti miklu minna máli. Hér hefur af bæði hv. 2. þm. Austf. og fleirum verið mjög rætt um framlag í Stofnfjársjóð. Ég hygg að hver einasti þm. hefði viljað vera laus við að þurfa að gera nokkrar slíkar ráðstafanir eins og það er, en eins og hæstv. sjútvrh. benti á þá treysti fyrrv. hæstv. sjútvrh. sér aldrei til þess að afnema þetta stofnfjárframlag meðan hann sat í ráðherrastól í 3 ár. Hann sagði í fyrri ræðu sinni að þetta hefði verið fundið upp af viðreisnarstjórninni 1968, að greiða sjómönnum annað og lægra verð í sinn hlut heldur en útgerðin fengi. Ég vil einnig leiðrétta þetta. Ég man svo langt aftur í tímann að þegar fyrri vinstri stjórn sat að völdum og hv. 2. þm. Austf. var þá einnig sjútvrh., þá var greiðsla til sjómanna á allt annan veg heldur en greiðsla til útgerðarmanna. Þeir fengu minna í sinn hlut úr aflanum heldur en útgerðarmenn fengu. Það var ekki farið þá í gegnum stofnfjársjóð eins og núna, það var farið með það í gegnum það uppbótakerfi sem þá var lögleitt. Sjómenn greiddu vissulega sinn hlut í því uppbótarkerfi ekkert síður en aðrir landsmenn, þannig að ef því er haldið fram að þeir standi undir útgerðinni að sínu leyti í gegnum stofnfjárframlagið, þá stóðu þeir vissulega undir útgerðinni einnig í tíð þessa hv. þm. sem þá var sjútvrh., og það er hann sem finnur þetta fyrst upp, að skerða kjör sjómanna til hagræðis fyrir útgerðarmenn. Þetta er komið frá honum, en ekki viðreisnarstjórninni, svo langt man ég aftur í tímann. Og ég minnist þess af sérstökum ástæðum vegna þess að þá var gefið út málgagn í minni heimabyggð fyrir hans flokk. Formaður sjómannafélagsins þá, sem var mjög eindreginn stuðningsmaður þessa hv. þm., eyddi tveimur heilum blöðum í það að rökstyðja fyrir sjómönnum nauðsyn á því að fara þannig að að greiða útgerðarmönnum hærra verð í sinn hlut úr aflanum heldur en sjómönnum. Einnig þar koma staðreyndirnar fram og er best að hafa þar einnig í þessu sambandi það sem sannara reynist og rétt er.

Ég skal ekki tefja fundartíma meira. Eins og ég sagði í upphafi þá gefst mér tími til að ræða málið í n. þegar þar að kemur og gera grein fyrir afstöðu minni til þess þegar það kemur hér aftur til umr. við 2. umr.