12.02.1975
Neðri deild: 42. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka hér til máls aftur og heyrði því miður ekki allt það sem hæstv. viðskrh. mun hafa fjallað um og varðaði mig eða minn málflutning hér í kvöld. En ég held þó að ég hafi náð nokkrum hluta af því, kannske kjarnanum, en ég vil þó biðja hæstv. ráðh., ef ég hef tekið skakkt eftir eða ekki tekið eftir öllu, að hann leiðrétti það þá hér á eftir.

Hann vék að því, eins og raunar var þrautspiluð plata allra frambjóðenda Framsfl. við kosningarnar á s.l. sumri, sennilega alls staðar á landinu, í hverju einasta kjördæmi, að það hefði verið ég fyrst og fremst sem hefði staðið að falli vinstri stjórnarinnar. Það er mér kærkomið tækifæri að fá að ræða þetta að gefnu tilefni hæstv. ráðh. sjálfs við hann hér. Ég ætlaði ekki að fara að efna hér til sérstakra umr. um þetta mál að fyrra bragði, en hæstv. ráðh. hefur sjálfur valið þann kostinn og ég skal verða til viðræðu við hann um þessi mál svo og önnur þau mál sem hér kann að bera á góma á þessari nóttu, jafnvel til morguns og lengur ef með þarf.

Hver er sannleikurinn um að ég hafi fellt vinstri stjórnina? Það ætti að vera fróðlegt fyrir menn að rifja upp gang mála um það leyti sem þeir hlutir gerðust. Og það ætti hæstv viðskrh., formaður Framsfl. og oddviti þeirrar ríkisstj. sem mynduð var 1971, að festa sér í minni, ekki síst vegna þess að hann hvatti menn til þess sjálfur á þeim stjórnarárum að lesa málefnasamninginn helst kvölds og morgna. Hann hefði sjálfur átt að læra betur það sem í því plaggi stendur og varðar viðskipti og samráð við verkalýðshreyfinguna. En á því atriði strandaði samþykki okkar við því frv. sem hér um ræðir, um viðnám gegn verðbólgu. Það segir orðrétt í Ólafskveri, eins og menn kölluðu það þá, þar sem rætt er um kjaramál og efnahagsmál:

„Hún (þ.e.a.s. ríkisstj.) mun leitast við að tryggja að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helstu nágranna- og viðskiptalöndum, og í því skyni (og taki menn nú eftir) mun hún beita aðgerðum í peninga- og fjárfestingarmálum og ströngu verðlagseftirliti. Til þess að ná þessu marki vill stjórnin hafa sem nánast (ekki samráð — það stendur ekki samráð, heldur) samstarf við verkalýðshreyfinguna.“

Það var þetta og fyrst og fremst þetta, sem við í SF töldum á þessum tíma að ætti að fullnægja sem skilyrði í stjórnarsamningi. Og það var þetta sem við vildum ekki fótumtroða og þverbrjóta, en forsrh. sjálfur beitti sér fyrir og vildi gera. Og í reynd var það þáv. hæstv. forsrh. sjálfur sem var búinn með vinnubrögðum sínum í þeirri ríkisstj. að stuðla að því að hún hafði ekki þingmeirihl. hér á Alþ. Það ætti honum að vera manna kunnugast um sjálfum. Ég hygg að í hvaða pólitískum flokki sem menn eru eða hvaða stjórnmálaskoðun sem menn hafa annars, þá hefði enginn einstaklingur, hvar í flokki sem hann hefði verið, tekið þeim vinnubrögðum með þökkum sem þáv. hæstv. forsrh. beitti sinn samráðh. í þeirri ríkisstj. Það var ekki aðeins móðgun við hann sem einstakling eða þann pólitíska flokk sem hann var fulltrúi fyrir, heldur og ekki síst fyrir þau launþegasamtök í landinu sem hann gegndi oddvitastörfum fyrir. Og það var þetta, vinnubrögð sjálfs forsrh., sem varð þess valdandi að slitnaði upp úr stjórnarsamstarfi sem til var stofnað 1971. Ég hygg að ef menn vilja á annað borð líta á þessi mál af raunsæi og hleypidómalaust þá hljóti menn að verða um það sammála að samstarfsaðilar, hvort sem er í ríkisstj. eða á öðrum vettvangi, verða að kunna að eiga venjuleg og eðlileg samskipti við sína samstarfsmenn.

Þá vék hæstv. ráðh. að því að SF hefði ekki viljað niðurfærsluleiðina 1972, það haust, og það er rétt. Það verður að mínu áliti að beita aðgerðum í samræmi við þann vanda sem við er að glíma hverju sinni. Það eiga ekki alltaf við sömu aðgerðir varðandi lausn efnahagsmála. Það fer eftir ástandi í þjóðfélaginu hverju sinni. Það væri álíka vitlaus kenning að segja: alltaf gengisfelling eða alltaf niðurfærsla, eins og læknir ákvæði að beita sömu lækningaaðferðinni við hvaða sjúkdóm sem væri. Kannski vill hæstv. viðskrh. meina að slíkt sé eðlileg lausn mála, og sé það svo að hans áliti og annarra hæstv. ráðh. í núv. ríkisstj., þá er ekki við góðu að búast af stjórnvöldum sem nú ráða hér.

Þá sagði hæstv. ráðh. að í því frv., sem hann lagði fram og lagði sinn höfuðmetnað í að bæri stimpil hans sjálfs og Framsfl. á árinu 1974, — það frv. sem hann lagði þá fram og var um viðnám gegn verðbólgu, — í því hefði verið í raun og veru um niðurfærsluleiðina að ræða. Það reyndi ekkert á það hvort Samtökin hefðu endanlega fylgt því eða ekki í sambandi við efnisafstöðu til málsins. Frumkrafa okkar var að staðið yrði við málefnasamninginn og haft yrði samráð og samstarf við verkalýðshreyfinguna, eins og heitið var, um lausn efnahagsmálanna. Það var frumskilyrðið. En því var neitað af hálfu forsrh. Það er því hann og hann einn sem ber ábyrgð á því að upp úr því stjórnarsamstarfi slitnaði.

En við skulum líka líta til þeirra viðræðna sem fram fóru eftir kosningarnar á s.l. sumri. Hvar var viljinn þá hjá hæstv. forsrh., formanni Framsfl., til áframhaldandi vinstra samstarfs í landinu? Risti hann djúpt? Nei, hann risti ekki inn að hjartarótum hjá þáv. hæstv. forsrh. eða forustuliði Framsfl. almennt talað. Sú einstrengingslega afstaða formanns Framsfl. þá þess efnis að það kæmi ekki til mála að leita neins samráðs við verkalýðshreyfinguna um lausn efnahagsmálanna, hún varð auðvitað til þess að um áframhaldandi vinstra samstarf var alls ekki að ræða vegna þess að vitað var, það var komið fram, að krafa var uppi af hálfu Alþfl., jafnóskynsamleg og óhyggileg ákvörðun eins og hjá Framsfl., um að það væri skilyrðislaus krafa, ófrávíkjanlegt skilyrði, að fullt samráð væri haft við verkal.- hreyfinguna. Það eru því formaður Framsfl., forustan í þeim flokki, og forusta í Alþfl., sem bera á því höfuðábyrgð að ekki varð úr áframhaldandi myndun vinstri stjórnar á s.l. ári. Og hvað sem hæstv. viðskrh. segir og hvað sem hver annar segir úr forustuliði Framsfl., þá verður þetta ekki af þeim þvegið. Þetta hygg ég að sé öllum orðið ljóst og það þurfi engar vangaveltur, hvorki hæstv. viðskrh. né annarra, um það að það vantaði viljann hjá framsóknarforustunni til þess að halda áfram í vinstri stjórn. Hvað hefur orsakað þá ákvörðun, skal ég ekki fullyrða. Það má ýmsum getum að því leiða hver er valdur þess. Það skal ég ekki gera að sinni. En gefi hæstv. viðskrh. eða aðrir úr stjórnarliðinu tilefni til, þá verður kannske vikið að því síðar í þessum umr.