13.02.1975
Efri deild: 43. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

152. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera örstutta aths. við frv. þetta áður en það fer til n. Ég er því algerlega sammála, að það sé þörf á því að breyta þessum frádrætti til útsvars eins og rökstutt er í þessu frv. En áður en þessi breyting er gerð, sem hér kemur fram, tel ég nauðsynlegt að það sé kannað, hvort sveitarfélögin þoli í raun og veru þá lækkun tekna sem þetta hefur í för með sér. Það er svo, að sveitarfélögin hafa mörg hver barist í bökkum undanfarið og ekki veitt af þeim tekjum sem þau hafa fengið, og ég teldi mjög varasamt að lækka tekjur sveitarfélaganna.

Það er sett hér fram, að þetta muni hafa í för með sér allmikla jöfnun á milli hinna ýmsu tekjuhópa í þjóðfélaginu. Ég er þessu ekki alveg sammála, vegna þess að hér fær hver einstaklingur það sama, sömu upphæð í krónutölu fyrir sig og fjölskyldu sína, án tillits til þess hvað hann hefur í tekjur. Ef við viljum koma á meiri jöfnuði við álagningu útsvars, þurfum við að gera tvennt í senn: hækka persónufrádráttinn og hækka jafnframt skatt- eða útsvarshlutfallið. Þá fyrst kemur fram sú jöfnun, sem ég vildi kalla raunverulega jöfnun, á milli þeirra, sem lágar tekjur hafa, og þeirra, sem meiri tekjur hafa. Ég vil gera þessa fyrirvara varðandi þetta frv., og ég vænti þess að hv. n. hugleiði þessi mál vel áður en frv. verður endanlega afgreitt.