13.02.1975
Efri deild: 43. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

157. mál, Hitaveita Siglufjarðar

Flm. (Hannes Baldvinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, má eiginlega heita að vera ein af margumræddum afleiðingum þeirrar olíukreppu sem gengið hefur yfir og Ísland hefur ekki farið varhluta af. Forsaga málsins er í stuttu máli á þá leið, að í Siglufirði eins og alls staðar annars staðar, þar sem menn hafa haft grun um að jarðhiti og heitt jarðvatn væri fyrir hendi, hafa menn lagt á það réttmætt mat að þar væri um mjög mikilsverð náttúruauðæfi að ræða ef takast mætti að nýta að gagni fyrir íbúa næstu byggðarlaga.

Íbúar í Siglufirði gerðu sér grein fyrir þessu. Þeir vissu af heitum lindum inni í svokölluðum Skútudal, sem liggur skammt innan bæjarins, og þeir gerðu á sínum tíma ráðstafanir til þess að eignast þar landsréttindi og réttindi til að virkja hitaveitu, ef það kæmi í ljós við nánari athugun að þarna væri vatn fyrir hendi sem svaraði kostnaði að virkja. Um nokkurt árabil fóru fram tilraunaboranir á vegum Orkustofnunar, en vatnsmagnið, sem fékkst við þessar boranir, reyndist að dómi sérfræðinga ekki nægilegt til þess að það svaraði kostnaði að virkja það. Niðurstöður sýndu, að vatnsmagnið dugði fyrir um það bil 2/3 hlutum bæjarins, en framkvæmd virkjunarinnar mundi verða það dýr, að hitaveita í Siglufirði yrði ekki samkeppnisfær við það olíuverð sem þá var ríkjandi. En með olíukreppunni breyttust viðhorfin og bæjarstjórn Siglufjarðar eygði á ný möguleika á því að nytja heita vatnið, sem var í eigu hennar inni í Skútudal, og lét fyrir þær sakir framkvæma svokallaða frumhönnun fyrir virkjunaráætlunum í Skútudal. Þessi frumhönnun var framkvæmd af verkfræðingi hjá Vermi hf., sem heitir Matthías Matthíasson, og þær tölur, sem ég nota hér á eftir í ræðu minni, eru byggðar á þessari frumhönnun, sem hann lagði fyrir bæjarstjórn s.l. haust.

Það kemur fram, þegar farið er að gæta að orkunni sem er þarna fyrir hendi, að ef heita vatnið er nýtt, en það er um 18 sekúndulítrar án nokkurra sérstakra aðgerða, þá samsvarar það sem næst tvöföldu orkumagni þess sem hægt er að framleiða í Rafveitu Siglufjarðar við Skeiðsfoss. En það lá fyrir, að þessir 18 sekúndulítrar eru ekki nægilegir til þess að fullnægja hitaþörf kaupstaðarins, og því fór fram prufudæling til þess að ganga úr skugga um hvort ekki mætti útvega þarna nægilegt magn af heitu vatni með svokallaðri niðurdráttardælu. Þær tilraunir leiddu í ljós, að unnt mundi vera að ná þarna allt að 21 sekúndulítra af 67 gráðu heitu vatni. Það kemur fram, að eftir að búið er að áætla byggingarkostnað upp á 195 millj., þá mun varmaverð frá þeirri veitu kosta 2 521 kr. gígakalorían, en upphitun á sama magni eða einni gígakaloríu með gasolíu kostar á sama tíma 3 380 kr. Og með því að gera nokkuð greinargóða fjárhagsáætlun um framkvæmdir og rekstur kemur sú niðurstaða í ljós, að virkjun á heita vatninu í Skútudal er talin hagkvæm og um 19% ódýrari heldur en ef notuð er olía til upphitunar á jafnstóru húsnæði.

Þegar þessar niðurstöður lágu fyrir hendi fór sendinefnd á vegum Siglufjarðarkaupstaðar á fund iðnrh. og á fund Seðlabankans hér fyrir sunnan, ræddi við þá þessar niðurstöður og óskaði eftir fyrirgreiðslu af hálfu stjórnvalda til þess að unnt væri að hefjast handa um framkvæmdir, og í þessari sömu ferð voru gerðir samningar við Guðmund G. Þórarinsson verkfræðing og fyrirtæki það, er hann rekur, um að hann taki að sér fullnaðarhönnun á lagningu hitaveitu í Siglufirði með að hluta til tvöföldu kerfi um sem svaraði 1/3 hluta bæjarins. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða að undirtektir stjórnvalda hafi verið mjög vinsamlegar, en þó kom þessi sendinefnd heim án þess að hafa nokkuð afgerandi í höndunum um, hvað verða mundi um væntanlegar framkvæmdir í náinni framtíð, og ekkert á hreinu um leyfi til að fjármagna það fyrirtæki sem hér um ræðir.

En hér á Alþ. voru stuttu fyrir áramót samþ. lög um Hitaveitu Suðurnesja, þar sem á sama hátt er verið að ráða bót á þeim vanda sem skapast hefur við gífurlega aukningu á upphitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis á þéttbýlissvæðum á Suðurnesjum, og með þessum lögum kemur í ljós að ríkisstj. og Alþ. hafa talið rétt að gengið yrði til liðs við þau sveitarfélög, sem búa við þann vanda, og þeim veittur nokkur fjárhagslegur stuðningur til að hrinda málunum í framkvæmd. Þegar ég hafði komist að raun um þetta taldi ég rétt, þar sem mér gafst tækifæri til þess hér með setu minni á Alþ., að gera tilraun til að greiða fyrir málum Siglufjarðar varðandi hitaveitu á sama hátt og gert hefur nú verið með Hitaveitu Suðurnesja og samdi því það frv. sem hér liggur nú fyrir til umr. Á því varð af eðlilegum ástæðum að gera nokkrar breytingar, en þær eru þó hvergi neinar efnislegar, heldur fyrst og fremst tæknilegar og stafa af öðrum viðhorfum norður á Siglufirði en hér suður á Suðurnesjum, og mun ég nú í stuttu máli rekja þær helstu breytingar, sem um ræðir frá lögunum og í frv. sem liggur fyrir.

Inn í 1. gr. hefur verið bætt einum málslið sem hljóðar svo: „Hitaveita Siglufjarðar skal reisa kyndistöð og miðlunargeymi til að tryggja rekstraröryggi og annast frekari boranir eftir heitu vatni, teljist slíkt nauðsynlegt.“

Það hefur sem sé komið í ljós í frumhönnuninni, að nauðsynlegt er talið að reisa kyndistöð á Siglufirði og miðlunargeymi, sem safna mætti í vatni til notkunar og upphitunar í kaldari veðráttu og að eiga þarna nokkurn varasjóð upp á að hlaupa þegar álag á veituna yrði hæst. Að auki er svo setningarhlutinn „og annast frekari boranir eftir heitu vatni“ byggður á þeirri vitneskju, að það er víðar en í Skútudal í Siglufirði sem finna má nokkrar heitar lindir. Rannsóknir á þeim hafa ekki farið fram, svo að heitið geti, en e.t.v. er þar að finna lausn á eða það vatnsmagn, sem á vantar til að anna hitaþörf bæjarins að öllu leyti. En slíkar rannsóknir taka auðvitað töluverðan tíma, og ég held að allir, sem til þekkja, séu sammála um að ekki sé skynsamlegt að fresta framkvæmdum á grundvelli þeirrar áætlunar, sem fyrir liggur, þó að niðurstöður af rannsóknum, sem síðar kunna að fara fram á jarðhitasvæðinu í Siglufirði, beri jákvæðan árangur.

Í 2. gr. er ekki um neina efnisbreytingu að ræða. Þar er aðeins í stað þeirra sveitarfélaga, sem sameinast hafa með ríkissjóði, talið upp nafn Siglufjarðar, og eignarhlutfallið er hið sama í frv. um Hitaveitu Siglufjarðar og felst í l. um Hitaveitu Suðurnesja.

Í 3. gr. er einnig um lítilfjörlega tæknilega breytingu að ræða. Í l. er talað um að lögð verði Hitaveita á Keflavíkurflugvelli. Þeirri setningu er auðvitað óhætt að sleppa varðandi framkvæmdir á Siglufirði, en í staðinn bætti ég inn í ítrekun á nauðsyn þess að frekari rannsókn fari fram á þeim jarðhitasvæðum í Siglufirði sem vitað er að þar eru.

Í 4. gr. er um verulega breytingu að ræða, vegna þess að þar má segja að hlutverkin snúist við. Ríkissjóður eða Orkustofnun í eigu ríkissjóðs hefur framkvæmt allar þær undirbúningsrannsóknir sem áætlanir um Hitaveitu Suðurnesja byggjast á, og lagt var í talsverðan kostnað við boranir eftir heitu og köldu vatni og úrvinnslu gagna og áætlana á þeim niðurstöðum sem þar fengust. Þetta hlutverk var aftur á móti á Siglufirði í höndum Siglufjarðarkaupstaðar, og efnisbreytingin er sú ein að þarna verði notuð sama aðferð við mat á þeim verðmætum, sem hvort aðili fyrir sig hefur lagt fram, ríkissjóður í öðru tilfellinu og Siglufjarðarkaupstaður í hinu tilfellinu, og verðmæti þeirra framkvæmda, sem um ræðir, verði talið sem framlag eignaraðila í stofnframlagi.

Í 5. gr. er fjallað um stofnframlag, og þar verð ég að viðurkenna að mér var nokkur vandi á höndum. Í l. um Hitaveitu Suðurnesja er gert ráð fyrir að stofnframlag eignaraðila verði 50 millj. kr. Má auðvitað um það deila hversu hátt slíkt stofnframlag má vera til þess að eðlilegt megi teljast. En ég held þó að ég hafi ekki sett markið utan eðlilegra marka þegar ég tala um að sameiginlegt stofnframlag sameignaraðila að Hitaveitu Siglufjarðar verði 20 millj. kr. og undirstrika, að þá verður eignarhlutur ríkissjóðs í fyrirtækinu, ef þetta frv. verður að lögum, 8 millj. kr.

6. gr. er óbreytt frá l. um Hitaveitu Suðurnesja.

7. gr. fjallar um skipan stjórnar fyrirtækisins og þar er auðvitað um tæknileg frávik að ræða. Það er gert ráð fyrir, að stjórnin sé eingöngu skipuð af bæjarstjórn Siglufjarðar og svo ríkissjóði og þeim ráðh. sem fyrirtækið kemur til með að heyra undir.

Í 9. gr., sem fjallar um aðalfundi fyrirtækisins, er ekki um neina breytingu að ræða. Þó orkar tvímælis, hvort ekki hefði átt að fella niður 4, gr. úr l., sem segir að eignaraðilar skuli tilkynna tilnefningu nýrra manna í stjórn. Slíkt gerist í sambandi við Hitaveitu Siglufjarðar ekki nema á þriggja ára fresti, en þó fannst mér ekki ástæða til þess að fella þessa grein niður af þeim sökum.

10. gr. er algerlega shlj. í l. og í frv. og 11. gr. sömuleiðis.

Í 12. gr., þar sem fjallað er um heimild ríkisstj. til þess að takast á hendur ábyrgð á lánum til framkvæmda, er svo auðvitað um verulega breytingu að ræða, þar sem annað fyrirtækið má reikna með allt að 2 milljörðum kr. til framkvæmda, en hitt fyrirtækið ætti að sleppa að öllu áfallalausu a.m.k. með 200 millj. kr. lántöku. Skilyrðin fyrir lántökunni eru óbreytt í l. og frv. og ekki ástæða til að fjölyrða um það.

Inn í frv. hef ég bætt einni gr. frá því, sem er í l., svo hljóðandi, — það er 14. gr. í því frv., sem hér liggur fyrir:

„Siglufjarðarkaupstaður skal, án endurgjalds, leggja til lóðir og lóðarréttindi, sem eru í eigu kaupstaðarins og nauðsynlegar eru undir byggingar, miðlungargeymi, aðveituæð og önnur mannvirki, sem reist verða á vegum Hitaveitu Siglufjarðar.“

Ég taldi rétt að setja þessa gr. inn í frv., vegna þess að allar þær lóðir, sem um ræðir, eru í eigu Siglufjarðarkaupstaðar, og ég teldi óeðlilegt að hann færi að taka sérstakt lóðargjald eða lóðarleigu fyrir þau mannvirki, sem reist kunna að verða á vegum Hitaveitunnar. Mér fannst þó ekki ástæða til að sleppa niður 15. gr. úr 1., sem fjallar um eignarnámsheimild sem ráðh. getur veitt, en ég held að ég fari fullkomlega með rétt mál þegar ég fullyrði, að til slíks muni ekki koma í sambandi við virkjun á hitaveitu í Siglufirði.

Í 15. gr. er talað um að lokið skuli við skipun stjórnar fyrir fyrirtækið fyrir l5. apríl 1975. Ég tel, að þar sé um nokkuð rýmileg tímamörk að ræða og raunveruleg skilyrði fyrir því, hvort unnt verður að hefjast handa um framkvæmdir samkv. þessu frv., ef að l. verður, það tímanlega að lokið verði við verkið á næsta ári. En til þess standa fyllilega vonir samkv. þeirri fullnaðarhönnun, sem verið er að vinna að, og bæjarstjórn hefur í öllum ákvörðunum í sambandi við hitaveituna tekið mið af því að ljúka verkinu fyrir lok næsta árs. Það er meira að segja hugsanlegt að hægt verði að taka hluta af hitaveitunni í gagnið strax í haust eða í vetur.

Ég hef rakið það hér áður, að ástæðan fyrir því að þetta frv. er flutt hér er það fordæmi, sem þegar er fengið með l. um Hitaveitu Suðurnesja. Ástæðan er einnig sú, að þrátt fyrir viðræður bæjarstjórnar Siglufjarðar við stjórnvöld um heimild til framkvæmda og hugsanlega fjármögnun fyrirtækisins, þá liggur enn þá ekkert ljóst fyrir um þá fyrirgreiðslu, sem hugsanlega hefði verið hægt að ná eftir öðrum leiðum en lagasetningu. Ég tel, að með því að samþykkja þetta frv., sem hér liggur fyrir, og gera það að lögum sé tryggð sú framkvæmd, sem öllum bæjarbúum í Siglufirði og raunar öllum landsmönnum kemur að mjög góðum notum. Ég álít að sú stefna, sem raunverulega er mörkuð af hálfu Alþ. með samþykkt laganna um Hitaveitu Suðurnesja, sem felur í sér að það er talið eðlilegt að ríkisvaldið taki þátt í framkvæmd slíkra þjóðþrifafyrirtækja, sé rétt, og ég leyfi mér að vona, að sú stefna verði einnig ráðandi í afstöðu manna varðandi þær framkvæmdir sem nú eru fyrirhugaðar á Siglufirði.

Ég verð því miður að viðurkenna það, að afritið af frumhönnuninni fyrir varmaveituna barst mér ekki í hendur fyrr en rétt í þann mund sem ég var að stíga hér í ræðustól, og ég gat því ekki búið mig undir að taka nógu greinilega til meðferðar þær niðurstöðutölur sem hönnunin byggir á. En ég lýsi því yfir að ég er reiðubúinn — og ég veit að það verða allir aðilar sem málið varðar — til að leggja mitt liðsinni til að sú n., sem kemur til með að fjalla um þetta frv. hér á hv. Alþ., fái í hendur öll þau gögn, sem fyrirliggjandi eru og til upplýsinga mega verða í máli þessu.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. þessu verði vísað til hv. iðnn., og jafnframt láta í ljós þá ósk mína að sú n. afgreiði málið bæði fljótt og vel og til hagsbóta fyrir það byggðarlag sem hér um ræðir.