13.02.1975
Efri deild: 43. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (1426)

157. mál, Hitaveita Siglufjarðar

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um merkilegt mál, þar sem er Hitaveita Siglufjarðar, og vil ég strax taka það fram, að þar er um að ræða mál sem er sjálfsagt að styðja, þannig að af framkvæmdum geti orðið hið allra fyrsta. Ég tel aðeins rétt að upplýsa, hvaða afskipti iðnrn. hefur haft af þessu máli.

Það gerðist í febr. 1974, fyrir ári, að Siglufjarðarkaupstaður skrifaði iðnrn. um málið og fór fram á að rn. fjármagni frumhönnun og, komi sá kostnaður inn í stofnkostnað veitunnar ef úr framkvæmdum verður. Iðnrn. svaraði þessu bréfi í marsmánuði 1974 á þessa leið:

„Rn. hefur því miður ekki fjármagn til að kosta umrædda frumhönnun að sinni. Hins vegar skal yður tjáð, að unnið er nú að áætlun um nýtingu innlendra orkugjafa í stað erlendra og að fjármögnun í því sambandi. Ætlun rn. er að leggja fram till. um þessi efni innan skamms. Rétt er að geta þess, að Siglufjarðarkaupstaður kynni að eiga þess kost síðar að fá endurgreidd útgjöld sín varðandi þessa frumhönnun.“

Bréfið er dags. 12. mars 1974. Þrátt fyrir þessa synjun rn. að greiða frumhönnun, a.m.k. að sinni, var ráðist í hana engu að síður og liggur hún fyrir, eins og hv. flm. gat um.

Þessar hitaveitufyrirætlanir eru með nokkuð sérstökum hætti, þannig að hér er um að ræða svokallaða blandaða hitaveitu. Það virðist ekki vera nægilegt heitt vatn til þess að hita upp allan bæinn, og í þessari frumhönnun segir svo: „Að mati sérfræðinga Orkustofnunar má ekki búast við að frekari boranir auki virkjanlegt vatnsmagn í Skútudal.“ Þess vegna eru hugmyndirnar þær að byggja þessa hitaveitu annars vegar á því heita vatni, sem til er, en nota svo kyndistöð til þess að sjá fyrir því sem á vantar, og hita upp vatn með rafmagni eða olíu, svartolíu. Virðist eftir þessari frumhönnun, að þó að þessa blönduðu aðferð þurfi að nota, þá sé hér um álitlegt og æskilegt fyrirtæki að ræða, sem eins og ég gat um er sjálfsagt að styðja.

Fyrir nokkru ræddu fulltrúar Siglufjarðar við mig um þetta mál og afhentu mér þá m.a. þessa frumhönnun, sem hlutafélagið Vermir hefur gert, um varmaveitu fyrir Siglufjörð. Málið er til athugunar í iðnrn. og gert ráð fyrir að það verði afgreitt þar fljótlega.

Varðandi frv. hv. þm. vil ég aðeins taka fram, að það þarf að skoða nokkru nánar hvernig ætlað er um eignaraðild að þessari hitaveitu. Hv. þm. hefur í frv. sínu sniðið þetta eftir l. um Hitaveitu Suðurnesja. Nú er það svo að hitaveitur þær, sem reistar hafa verið hingað til, hafa yfirleitt verið eign sveitarfélaganna einna. Varðandi Hitaveitu Suðurnesja var hafður annar háttur á, þ.e.a.s. að ríkið yrði eigandi að 40%, en sveitarfélögin 7 saman að 60%. Ástæðan var sú að Keflavíkurflugvöllur kemur þarna inn sem stór aðili, væntanlega sem notandi meiri hluta hitaorkunnar, og af þeim ástæðum þótti rétt að ríkið væri þar meðeigandi og meðaðili.

Ég skal ekkert um það fullyrða, hvað þætti eðlilegast að því er Siglufjörð snertir, en fyrst dettur manni í hug hvort ekki væri eðlilegast að sami háttur væri hafður og almennt er um hitaveitur, að Siglufjarðarkaupstaður væri einn eigandi að þessu fyrirtæki. Mér hafa ekki borist neinar óskir um það frá forráðamönnum Siglufjarðar, að ríkið kæmi inn sem meðeigandi. Hins vegar vil ég taka það fram, að hvernig sem á þetta yrði litið eða hver sem niðurstaðan um eignaraðildina yrði, þá verður ríkið auðvita að veita allan þann atheina sem með þarf

í þessu skyni, bæði um ríkisábyrgð og aðra fyrirgreiðslu, e.t.v. lánsútvegun. Vænti ég þess að niðurstöður geti skjótlega orðið í þessu merka máli fyrir Siglufjörð. En að því er auðvitað stefnt að hraða sem mest má verða hitaveitum hér á landi og eru margar nýjar hitaveitur í undirbúningi.

Ég vildi aðeins, um leið og ég lýsi eindregnum stuðningi við það mál að hitaveitu verði sem fyrst komið á fyrir Siglufjörð, láta þessar skýringar fylgja.