13.02.1975
Neðri deild: 43. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson):

Hæstv. forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. hefur á fundi sínum í morgun rætt þetta frv. og er álit meiri hl. n. á þskj. 291. Haldinn var sameiginlegur fundur fjh.- og viðskn. beggja þd. um þetta mál og á fundinum mættu tveir af bankastjórum Seðlabankans, þeir Jóhannes Nordal og Davíð Ólafsson, og forstjóri Þjóðhagsstofnunarinnar, Jón Sigurðsson. Þeir svöruðu fsp. nm. og veittu ýmsar upplýsingar.

Nm. urðu ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl. hefur skilað sérálitum sem verður mælt fyrir væntanlega hér á eftir.

Svo ítarlegar umr. hafa farið fram um þetta mál að ég sé ekki ástæðu til að bæta þar miklu við hér og nú. Menn greinir á um réttmæti gengisfellingar sem slíkrar og hvers vegna við þurfum að grípa til slíkra aðgerða nú. Orsakirnar liggja að sjálfsögðu í fortíðinni, um það ættu menn að vera sammála, svo og það að gengislækkun ein út af fyrir sig er ekki ráð við öllum vanda. Þess vegna er þörf á margs konar hliðarráðstöfunum sem koma munu í kjölfarið, eins og hæstv. forsrh. greindi frá í ræðu sinni hér í gærkvöldi.

Ef gengisbreyting kemur ekki að því gagni sem vonast er til og ætlast er til, þá liggur það fyrst og fremst í því að ástandið hefur haldið áfram að versna. Slíkt hefur einmitt gerst nú á síðustu mánuðum eða frá því er síðasta gengisbreyting var gerð. Viðskiptakjör eru nú talin svipuð því og þau voru 1970, en kostnaðarstig hér hefur orðið a.m.k. þrisvar sinnum meira en í nágrannalöndum að því er talið er, og þó vafalaust enn meira í sjávarútvegi vegna þess hve sú atvinnugrein er háð þeim vörutegundum sem hvað mest hafa hækkað, þar sem er olía og veiðarfæri.

Gengisbreytingin síðasta var eins hófleg og mögulegt var að hafa hana. Hún var við það miðuð að viðskiptakjör héldu ekki áfram að versna. Það gerðu þau hins vegar og því er nú svo komið sem öllum er ljóst.

Menn spyrja sjálfsagt nú hvort einhver munur sé á þessari gengisbreytingu og hinni næstu á undan, hvort við megum eiga von á annarri eftir nokkra mánuði. Því er til að svara, að menn þykjast sjá þess merki að verð á útflutningsafurðum okkar muni ekki falla frekar og fremur hækka á næstunni. Því er ástæða til að ætla að hér sé nú nóg að gert samfara þeim ráðstöfunum sem munu fylgja. Gengisbreyting byggist á því að menn leiti fleiri úrræða til að tryggja rekstur atvinnuveganna og svo mun verða gert.

Hinar tíðu gengisbreytingar hljóta að benda til þess að einhverjar veilur séu í okkar efnahagslífi og efnahagsaðgerðum. Það eru allir óánægðir þegar til svona aðgerða þarf að grípa. Menn vilja í orði kveðnu gera breytingar sem ættu að duga, en þegar til kastanna kemur, eru menn gjarnan á móti þeim breytingum, sem þarf að gera til að umbótum verði komið á.

En nóg um þetta. Það frv., sem hér er til umr., er nauðsynlegt að lögfesta vegna þeirrar ákvörðunar, sem þegar hefur verið tekin um gengisbreytinguna. Frv. er hliðstætt þeim frv. sem áður hafa verið fylgifiskar gengisbreytinga. Meiri hl. fjh.- og viðskn. mælir með því, að frv. verði samþ.