13.02.1975
Neðri deild: 44. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Heimir Hannesson:

Herra forseti. Áður en þessari 3. umr. er lokið verð ég aðeins að vekja athygli á smávegis ósamræmi, sem gætir hér annars vegar í lagagreinunum og grg., til að öll tvímæli verði af tekin.

Í 2. gr. er sagt í sambandi við væntanlegan g:engishagnaðarsjóð að hann eigi við útfluttar sjávarafurðir, og ráðh, og aðrir talsmenn þessa frv. hafa gert grein fyrir því. Hins vegar segir í grg. á bls. 3, þar sem gert er ráð fyrir ákveðnum undanþágum, að ríkisstj. geti ákveðið til hvaða afurða ákvæði um gengismun skuli taka. Er þá sérstaklega haft í huga að undanskilja vissar afurðir, svo sem niðurlagðar og niðursoðnar sjávarafurðir.

Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á því að hér er um misskilning að ræða og nokkurt ósamræmi, vegna þess að þegar á síðasta ári, held ég að ég megi segja, lá fyrir úrskurður þáv. hæstv. iðnrh. og hans rn. um að niðurlagðar sjávarafurðir, lagmeti öðru nafni, beri að flokka sem iðnaðarvörur og séu þar af leiðandi ekki sjávarafurðir, og þarf enga undanþágu til. Ég óska eftir því í öryggisskyni, vegna þess að þótt þetta sé að vissu leyti heimildarákvæði og yfirlýsing í þá átt að slík undanþága verði veitt, þá upplýsi forráðamenn ríkisstj. hér og þá væntanlega hæstv. iðnrh., að hér sé um misskilning að ræða, þannig að öll tvímæli verði tekin af í þessu máli. Ég held það sé nauðsynlegt því að þarna hefur ákveðinn misskilningur slæðst inn.