13.02.1975
Neðri deild: 44. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

84. mál, útvarpslög

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það er mikill eftirrekstur hjá hæstv. menntmrh. með þetta frv. sem hann hefur verið að reyna að ýta í gegnum Alþ. núna í 3 mánuði og hefur hyllst til að ýta helst á eftir þegar við höfum verið að fjalla um ýmis erfið og vandasöm efnahagsleg vandamál. Við munum öll eftir því, að skömmu fyrir jólin kom upp sá vandi hvort heldur ætti að afgreiða þetta mál eða fjárl., og það tók alllangan tíma fyrir hæstv. ráðh. að sætta sig við það að fjárl. væru látin ganga fyrir.

Þegar þetta mál er hér til 2. og 3. umr., þá er öll þjóðin að ræða um mjög alvarlegar efnahagsráðstafanir sem henni hefur fundist Alþ. fjalla furðulega litið um. Við höfum í staðinn verið hér jafnvel heila daga, heil kvöld og langt fram á nótt til þess að ræða þetta mál, á sama tíma og fólkið í landinu var ákaflega áhyggjufullt vegna væntanlegra efnahagsráðstafana sem það vissi ekkert um og átti sannarlega von á að yrðu lagðar fram hér fyrir opnum tjöldum og alþm. leyft að fjalla um þær á eðlilegan hátt áður en ákvarðanir væru teknar.

Mér finnst að hæstv. menntmrh. hafi í þessu máli fyrst og fremst kynnt okkur þann þráa sem stundum er kenndur við sauðkindina. Hann hefur hins vegar ekki látið svo lítið að vilja fást til þess að fjalla um hinar raunverulegu ástæður á bak við flutning þessa frv. Hann hefur verið spurður um slíkt aftur og aftur, æ ofan í æ, og hann hefur stundum komið hér upp í stólinn og endurtekið þá aðeins sömu ræðuna, sem hann flutti í fyrsta skipti, að hér sé aðeins um að ræða tæknilega breytingu og ekkert annað, það sé ekkert á bak við þetta annað en það viðhorf hans að útvarpsráð eigi á hverjum tíma að vera eins samansett og meiri hl. Alþ., þ.e.a.s. þeir flokkar sem hafa rottað sig saman til að stjórna landinn. Hæstv. ráðh. var 1971 á gagnstæðri skoðun og hann hefur ekki gert neina grein fyrir því, hvað hafi gerst á þessum árum sem hafi valdið því að hann hefur skipt um skoðun. Hann hefur aðeins borið fram þessi tæknilegu atriði.

Nú verð ég að segja það að mér hefur runnið til rifja að sjá hæstv. ráðh. í þessu hlutverki. Ég þekkti hann sem þm. að því að vera hreinskilinn og einlægur í afstöðu sinni til mála. Ég kynntist ekki þeirri hlið á honum að fást ekki til þess að tjá hug sinn og tala opinskátt um þau vandamál sem uppi voru. Og mér þykir það leitt að hæstv. ráðh. skuli hafa tekið upp þennan hátt eftir að hann var sestur í ráðherrastól.

En það er kannske ekki alveg út í bláinn þrátt fyrir allt að við fjöllum um þetta mál á sama tíma og verið er að fjalla um meiri háttar efnahagsaðgerðir, því að tengslin þarna á milli eru vissulega raunveruleg. Það hafa gerst þeir atburðir í landinu að íhaldsstjórn hefur tekið við af vinstri stjórn, að gróðahyggjustjórn hefur tekið við af félagshyggjustjórn. Og þegar slíkar umbreytingar verða, ekki aðeins hér á landi, heldur alls staðar þar sem slíkir atburðir gerast, þá birtast áhrifin ekki aðeins á sviði efnahagsmála, þau birtast ekki aðeins í því að það er reynt að færa fjármuni til í þjóðfélaginu, frá launamönnum til forréttindastétta, eins og íhaldsstjórnir reyna ævinlega að gera, heldur birtist það einnig í nýjum og þrengri viðhorfum á sviði félagsmála og sviði menningarmála. Þetta eru ævinlega fylgifiskar slíkrar ríkisstj. Einmitt þess vegna er þetta frv. alveg augljóslega tengt þessari stjórnarbreytingu. Það er afleiðing af því að í stjórnarflokkunum báðum og ekki síst í Sjálfstfl. eru ofstækisöfl sem vilja láta sín þröngsýnu, pólitísku sjónarmið komast til meiri valda og vegs í þjóðfélaginu en verið hefur að undanförnu. Þetta viðhorf hefur ekki farið neitt leynt í Morgunblaðinu. Á þessu hefur verið klifað og þráklifað á undanförnum árum. Það hefur verið talað um að hættulegir menn hafi vaðíð allt of mikið uppi, ekki síst í ríkisfjölmiðlum, og þess hefur verið krafist að beitt yrði valdboði til þess að koma í veg fyrir að þar gæti farið fram frjáls og heiðarleg umr. um málið.

Á því er að sjálfsögðu enginn vafi að flutningur þessa frv. er tilkominn vegna þrýstings úr þessari átt. Ef það væri aðeins um þessi formsatriði að ræða sem hæstv. menntmrh. ber fyrir sig, þá vita allir að honum hefði ekki þótt taka því að flytja sérstakt frv. til þess að breyta samsetningu útvarpsráðs sem hvort eð er á að kjósa eftir 3 ársfjórðunga. Og ef ástæðan væri bara þessi, þá mundum við andstæðingar frv. ekki heldur leggja slíka áherslu á andstöðuna gegn þessum málatilbúnaði. Ástæðan þarna er sú að þetta er merki um nýja og háskalega ofstækisstefnu í menningarmálum, — stefnu sem getur orðið okkur ákaflega hættuleg ef hún fær að vaða áfram yfir þjóðfélag okkar. Við skulum vissulega minnast þess að þjóðfélag okkar byggist ekki aðeins á því, hversu mikla peninga launamenn geta talið upp úr umslögunum sínum, heldur einnig á andrúmsloftinu í landinu, á frjálslyndi okkar og umburðarlyndi, á því hvernig við getum starfað saman og ræðst saman á sem eðlilegastan hátt, án þess að á það séu lagðar óeðlilegar hömlur eins og nú er greinilega stefnt að.

Allt hefur þetta verið rætt ítarlega í umr. hér að undanförnu og hafa ekki komið fram neinar réttlætingar á þessari breytingu. Þvert á móti þótti mér afar fróðlegt að hlýða hér á hv. þm. Guðmund H. Garðarsson, þegar hann var að gera grein fyrir því, hvers vegna hann styddi þetta frv. Hann sagði þar ákaflega margar fróðlegar setningar. Hann sagði m.a. að núv. útvarpsráð hefði með því að opna útvarpið fyrir meiri og viðtækari umr., m.a. með því að hleypa ýmsum sjónarmiðum minnihlutaskoðana inn í útvarpið og leyfa þeim að gera grein fyrir skoðunum sínum, reynt að þrengja upp á íslendinga lífsskoðunum sem væru meiri hl. þjóðarinnar ógeðfelldar. Þetta sagði þessi hv. þm.: Með því að leyfa slíkt málfrelsi væri verið að þrengja upp á íslendinga skoðunum sem væru meiri hl. þjóðarinnar ógeðfelldar.

Samkv. þessari kenningu eiga engar skoðanir rétt á sér í fjölmiðlum, ríkisreknum fjölmiðlum, ef þær eru ógeðfelldar meiri hl. þjóðarinnar. Við skulum gera okkur grein fyrir því hvers konar feiknalegur háski liggur í afstöðu af þessu tagi. Þetta er í sjálfu sér nákvæmlega sams konar sjónarmið og við heyrum frá ríkjum austan járntjalds þegar verið er að verja þar árásir á afstöðu minnihlutaaðila, listamanna og annarra slíkra, sem eru valdhöfunum ógeðfelldar. Þeir segja: Meiri hl. þjóðarinnar er á móti öllum þessum tilraunum og þessari afstöðu og þessum viðbrögðum þessara menntamanna og þess vegna viljum við ekki leyfa þeim að koma fram.

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson stóð hér alveg eins og rússneskur menningarkommissar um daginn og flutti nákvæmlega sömu skoðun og þeir flytja. Ég skrifaði hjá mér að það væri reynt að þrengja upp á íslendinga lífsskoðunum sem væru meiri hl. þjóðarinnar ógeðfelldar. (GHG: Hvenær sagði ég að það ætti að útiloka minni hl.?) Með þessu, að það mætti ekki flytja skoðanir sem væru meiri hl. þjóðarinnar ógeðfelldar. (GHG: Það sagði ég ekki). Ég skrifaði það hjá mér, það birtist á prenti eftir nokkra daga. Og hv. þm. sagði miklu meira, hann sagði margt, margt meira af þessu tagi. Ég hafði ekki við að skrifa setningarnar eftir honum, þær voru allar til marks um það sama. Hann var m.a. að gagnrýna útvarpsráð fyrir það að fluttar hefðu verið í sjónvarpi kvikmyndir sem teknar hefðu verið austantjalds. Og hann sagði: Öll framleiðsla í austrænum ríkjum hefur pólitískan boðskap að flytja, svokallaðan sósíalrealisma, eins og hann sagði. Flokkurinn þar ákveður, hvað skuli vera list, og þess vegna væri með sýningu slíkra kvikmynda verið að reyna að lauma þessum áróðri yfir íslendinga ófúsa. (GHG: Þetta er rétt.) Já, þetta er rétt, segir hv. þm. Þetta er nákvæmlega það sama og rússnesku menningarkommissararnir segja þegar þeir vilja ekki flytja í sjónvarpi hjá sér kvikmyndir eða aðra þætti frá Vesturlöndum. Þeir segja: Þarna er um að ræða kapítalískan undirróður. Þetta er hættulegt fyrir þjóðfélagið. Við viljum ekki heimila þetta. — Þetta er nákvæmlega sama afstaðan, alveg nákvæmlega sama afstaðan. Og þetta er sú afstaða sem ævinlega birtist í Morgunblaðinu, vegna þess að á þessu sviði er enginn munur á afstöðu Prövdu og Morgunblaðsins. Það eru nákvæmlega sömu viðhorfin sem þar eru uppi þ.e.a.s. þjónusta við ríkjandi valdastétt. Það er þetta sem skilur á milli þeirra sjónarmiða, hvort við eigum að hafa opið og frjálst þjóðfélag með eðlilegum skoðanaskiptum eða hvort aðeins á að leyfa það sem valdhafar kæra sig um í það og það skiptið.

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson endurtók rétt einu sinni þetta sem hann sagði áður, að þjóðin hefði verið óvarin fyrir ýmsu sósíalisktísku efni. Það á að verja þjóðina fyrir sósíalistísku efni með því að banna að það sé flutt í hljóðvarpi og sjónvarpi. Það á að verja þjóðina á þann hátt. Það á að koma upp menningarvarðhundum, pólitískum kommisörum, sem eiga að sigta það hvað þjóðinni er óhætt að sjá og heyra og hvað ekki. Og hann sagði enn, — ég skrifaði mikið hjá mér, hann var alltaf að segja svo merkilegar setningar sem gefa innsýn inn í þetta ritskoðunarsjónarmið, — hann sagðist vilja koma í veg fyrir að í fjölmiðlum sé ráðist gegn því þjóðfélagi sem meiri hl. þjóðarinnar vill búa við. Slík sjónarmið mega ekki heyrast, þau mega ekki sjást. Og ég endurtek: Þetta er nákvæmlega sama afstaðan og við heyrum frá Sovétríkjunum, að það megi ekki koma þar fram í blöðum, í hljóðvarpi eða sjónvarpi neitt það sem ráðist gegn því þjóðfélagi sem þar er, þeirri þjóðfélagsskipan. Þetta er alveg sama ritskoðunarsjónarmiðið, nákvæmlega það sama og sannar þann einfalda hlut sem við þekkjum frá ákaflega mörgum löndum,að valdastéttir reyna ævinlega að tryggja völd sin með aðgerðum af þessu tagi.

Ég tel skipta ákaflega miklu máli að við íslendingar reynum að halda áfram að lífa í þjóðfélagi sem hefur önnur viðhorf til þessara mála, sem leyfir frjálsar umr., sem leyfir einnig að minnihlutaaðilar gagnrýni valdhafa og gefur almenningi kost á að taka frjálsa og sjálfstæða afstöðu til mála eins og þau eru borin fram, án þess að ákveða fyrir fram hvað þjóðin þoli og hvað hún þoli ekki, og allra síst án þess að ákveða fyrir fram að með vissum skoðunum sé vegið gegn þjóðfélaginu og þess vegna megi hún ekki heyra þær.

Árás á þjóðfélagið, sagði þessi hv. þm., það mætti ekki gera árás á þjóðfélagið, það mætti ekki gera árás á þjóðfélagið í hljóðvarpi og sjónvarpi. Og hann sagðist vilja fá að hafa þessa skoðun án þess að ráðist væri á sig. Hann þolir ekki einu sinni að hann sé kannske gagnrýndur, að skoðunum hans sé svarað. Hann vill fá að hafa þessa skoðun án þess að ráðist sé á sig. Fyrr má nú vera. Það er eins og Brésnef sjálfur sé kominn hér í þingið til okkar og vilji fara að stjórna málunum. En þessi ræða var ákaflega gagnleg, vegna þess að hún sýnir okkur nákvæmlega hvað er á bak við þetta frv., og ég skil það í sjálfu sér ákaflega vel að hæstv. menntmrh. kveinki sér undan því að þurfa að reyna að gera grein fyrir sjónarmiðum af þessu tagi á kannske svolítið hærra stigi en þessum hv. þm. hefur tekist, því að það er í rauninni alls ekki hægt.

Það hafa verið haldnar margar fróðlegar og skemmtilegar ræður í tilefni af þessu frv. M.a. flutti hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson ágæta og gagnlega ræðu á kvöldfundi. Hann fór þar mörgum fögrum orðum um íslenskt þjóðfélag, að við nytum þeirrar gæfu að búa í kannske hesta þjóðfélagi í heimi, og ég get tekið undir þetta á margan hátt. Við njótum þess í ákaflega ríkum mæli að við búum í svo litlu þjóðfélagi að hér getur ekki verið um að ræða þær miklu fjarlægðir, sem verða í milljónaþjóðfélögum á milli valdamanna og óbreyttra borgara. Við erum hér í nábýli hver við annan og eðlileg jafnréttistilfinning er okkur öllum í blóð borin. Þetta eru ákaflega verðmætir eiginleikar. En við skulum ekki gleyma því samt, að einnig í þessu þjóðfélagi okkar hefur verið reynt að halda uppi valdstjórn af valdastéttunum og beygja og kúga aðila sem hafa viljað breytingar á þjóðfélaginu, sem hafa gagnrýnt ríkjandi valdakerfi og hafa beitt sér fyrir breytingum á þjóðfélagsskipaninni. Þessi dæmi þekkjum við ákaflega mörg á undanförnum áratugum.

Það er ekki langt síðan einn merkasti rithöfundur þjóðarinnar, Þórbergur Þórðarson, lést. Ég veit ekki, hvort allir hv. þm. vita það, kannske er það nú svo þó að þeir séu yngri en að þeir muni það persónulega, að þegar Þórbergur Þórðarson skrifaði og gaf út Bréf til Láru, þá var hann rekinn úr störfum sínum einvörðungu af pólitískri ofsókn. Hann var blásnauður maður, hann þurfti á þessum störfum að halda, en hann var rekinn úr kennslustörfum fyrir að hafa skrifað þessa bók, fyrir að hafa þessar vanþóknanlegu skoðanir. Slík dæmi eru því miður ákaflega mörg á Íslandi. Hér var háð mjög hatrömm deila á milli íslenskra listamanna, ekki síst rithöfunda, og stjórnarvalda á 4. áratugnum og fram á þann 5. Meðan þessar deilur stóðu — þær stóðu um stjórnmál, þær stóðu um menningarmál, sem ekki verða skilin í sundur — þá gerðist það aftur og aftur að tilteknir listamenn voru sviptir listamannalaunum einvörðungu af pólitísku ofstæki. Þetta bitnaði ár eftir ár á Halldóri Laxness t.d., enda var aldrei birtur annað en óhróður um Halldór Laxness í stærsta blaði þjóðarinnar, Morgunblaðinu, þangað til hann fékk Nóbelsverðlaunin. Fram að þeim tíma var birt um hann endalaust níð í blaðinu, endalaust nið. Hann var talinn mjög hættulegur maður, hann var talinn erindreki erlends valds, og það var farið um hann þeim svívirðilegustu orðum sem Morgunblaðið getur fundið andstæðingum sínum og á þeim er vissulega enginn hörgull. Það gerðust meira að segja þau tíðindi að utanrrn. Íslands var beitt til þess að reyna að koma í veg fyrir að ein af skáldsögum Halldórs Laxness, Atómstöðin, væri þýdd á erlendar tungur. Því var haldið fram, að þessi skáldsaga væri þvílíkt níð um íslensku þjóðina að það yrði að forðast að aðrar þjóðir fengju vitneskju um þessi ósköp. Af hálfu utanrrn., starfsmanns í utanrrn., var reynt að koma í veg fyrir að erlendir bókaútgefendur gæfu þessa bók út og, að hún væri þýdd.

Það hefur því miður oft verið grunnt á ofstækinu á Íslandi. Það gerðist einnig á þessum árum, að það var haldin myndlistarsýning á vegum opinberra aðila til háðungar íslenskum myndlistarmönnum. Þetta átti að vera sýning sem sýndi úrkynjaða list, — alveg að fordæmi þýsku nasistanna — og meðal þeirra listamanna, sem þarna voru sýndar myndir eftir og áttu að vera þeim til háðungar, voru ýmsir af bestu listamönnum okkar, Jón Stefánsson og Þorvaldur Skúlason, — ég get ekki talið þessi nöfn. En þessir atburðir hafa líka gerst og þetta var gert af hálfu opinberra aðila í pólitísku ofstækisástandi, þegar reynt var að bæla og berja niður frjálsa og eðlilega umr. um stjórnmál, um listir og um menningarmál.

Hér voru rifjuð upp um daginn ýmis dæmi sem gerðust á tímabili kaldastríðsins, þegar íslenskir sósíalistar voru ekki taldir hæfir til þess að koma fram í útvarpinu og ýmsir þeirra hraktir þaðan burt, þótt þeir væru meðal vinsælustu útvarpsmanna landsins. Það væri hægt að rekja mörg slík dæmi, m.a. dæmi sem hafa bitnað á mönnum sem eiga sæti og hafa átt sæti í þessum sal. Þessi ofstækisafstaða leynir sér ekki enn í dag. Hún er alltaf að birtast í Morgunblaðinu í sífellu, ekki aðeins í svokölluðum lesendabréfum, sem allir vita að eru framleidd fyrst og fremst á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins, heldur einnig í afstöðu ráðamanna blaðsins.

Ég tók eftir ákaflega skemmtilegu dæmi fyrir nokkru, um það leyti þegar rússnesk stjórnvöld tóku einn mesta rithöfund sem nú er uppi, Solzhenitsyn, og fluttu hann nauðugan úr landi. Þá skrifaði ritstjóri Morgunblaðsins, Matthías Johannessen, margar greinar í blað sitt og gagnrýndi þessa ákvörðun af mjög svo skiljanlegum ástæðum. Ég gat tekið undir flest þau sjónarmið sem hann hafði uppi til þess að gagnrýna rússnesk stjórnarvöld. En það kom fram eitt atriði hjá Matthíasi Johannessen sem mér þótti ákaflega fróðlegt.

Hér á Íslandi er starfandi rússnesk fréttastofa samkv. alþjóðlegum samningum. Hún hafði birt í einhverju sem hún gefur út einhverja málsvörn rússneskra stjórnvalda fyrir þessu óhæfuverki. Og hver urðu viðbrögð Matthíasar Johannessens við þessum atburði? Hann gagnrýndi ekki aðeins þetta — eins og hann átti að sjálfsögðu að gera — hann bar fram þá kröfu að þetta blað, sem þessi upplýsingaskrifstofa gefur út, yrði bannað og að starfsmenn þess yrðu teknir og fluttir úr landi. Þetta var nákvæmlega sama afstaðan og uppi er hjá rússunum, aðeins með öfugu formerki. Það er sama ofstækisviðhorfið þarna á bak við, nákvæmlega sama ofstækisviðhorfið.

Meðan menn geta ekki áttað sig á því að forsenda heilbrigðrar, eðlilegrar umr. er umburðarlyndi, er frjálslyndi, þá komast þeir ekkert áfram. Það er ósköp auðvelt að sitja í sínum stól og segja: Ég er með allar réttar skoðanir. Ég er frjálslyndur af því að mínar skoðanir eru réttar. Hins vegar eru þessir þarna með rangar skoðanir og þess vegna má ekki heyrast neitt í þeim. — Þetta ofstækissjónarmið er enn uppi, og það er þetta ofstækissjónarmið sem er undirrót þessa frv. Einmitt þess vegna er frv. ákaflega alvarlegt og einmitt þess vegna er óhjákvæmilegt að það sé varað við því eins sterklega og hægt er að haldið verði áfram á þessari braut.

Hér hefur verið minnt á það áður í umr. að fyrir nokkru birtist í Morgunblaðinu ákaflega fróðleg grein, þar sem taldir voru upp — ég man ekki hvort það voru 7 eða 9 menn sem væru með einhverja þætti í hljóðvarpi og sjónvarpi. Þessir þættir voru ekki gagnrýndir, það var ekki sagt að þar hefði verið um misnotkun að ræða á neinn hátt. Hins vegar var þess getið að þessir sömu menn hefðu skrifað greinar í Þjóðviljann, og þess vegna var þetta ótækt, þessir menn voru óalandi og óferjandi. Vegna þess að þeir höfðu skrifað greinar í Þjóðviljann, þá voru þeir ekki hæfir um að annast um vissan þátt eða flytja visst efni í útvarpið. Menn kunna kannske að segja að ég sé að mála skrattann á vegginn og vonandi er ég að gera það. En við skulum samt vera tortryggnir þegar við verðum varir við svona ofstækistilburði í þjóðfélaginu.

Ég minntist í gærkvöld á dæmi um hrikalegt ofstæki sem fram kom í grein í Morgunblaðinu í gær frá formanni Stéttarsambands bænda, og við verðum varir við það að þetta ofstæki er uppi allt í kringum okkur. Ef við látum undan því, þá er mikil hætta á ferðum vegna þess að þarna er ekki aðeins um að ræða íslenskt fyrirbæri. Þetta ofstæki gerir vart við sig í löndunum umhverfis okkur einnig um þessar mundir. Það er svo ástatt umhverfis okkur, ekki síst í Vestur-Evrópu, að þar er um að ræða mjög alvarleg kreppueinkenni, ekki aðeins efnahagslega kreppu, heldur einnig pólitíska kreppu. Við þekkjum best dæmi frá Danmörku um þetta. En í þessu pólitíska og efnahagslega upplausnarástandi eiga ofstækiskenningar mjög auðvelt uppdráttar og við höfum sannanir fyrir því úr sögunni hvert slík ofstækisafstaða leiðir, og þess vegna ber okkur alltaf að vera á varðbergi gegn slíkum viðhorfum. Ég vona að slík tíðindi eigi ekki eftir að dynja yfir okkur. En það er hætta á því að þau geri það ef við erum ekki sífellt á varðbergi, ef við hugum ekki vandlega að því að þessir ofstækisaðilar mega ekki komast til of mikilla pólitískra valda í þjóðfélaginu.

Ég minntist áðan á grein sem formaður Stéttarsambands bænda birti í Morgunblaðinu í gær. Það er margt fleira af þessu tagi sem hefur verið uppi að undanförnu. Það er uppi alls konar ákaflega leiðinlegur rógburður gegn námsmönnum, gegn menntamönnum, gegn listamönnum. Við urðum varir við það í vaxandi mæli að það er reynt að hreykja lágkúrunni, eins og alltaf er gert á slíkum tímum, og þetta liggur í andrúmsloftinu í kringum okkur og við skulum vara okkur á því.

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði í hinni gagnmerku ræðu sinni við 2. umr., að hann sem upplýsingamiðlari fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna teldi ekki að það samrýmdist því starfi að hann persónulega tæki sæti í útvarpsráði og hann bætti við: Það sýnir þó að enn er til siðferði hjá þjóðinni. — Mér þykir vænt um að heyra að þessi hv. þm. hefur siðferðisþroska sjálfur, og sem betur fer eru það margir sem eiga hann. Það var flutt hér við 2. umr. brtt. um að starfsmenn erlendra sendiráða og fjölþjóðlegra stofnana ættu ekki að vera kjörgengir í útvarpsráð. Sumir urðu til þess að lýsa því yfir úr þessum ræðustól að þetta sjónarmið væri alveg laukrétt, en þeim fyndist leiðinlegt að setja þetta í lög, þetta væri svo sjálfsagt að það væri aðeins siðferðilegt viðhorf manna sem ætti að tryggja þetta. Og mikið væri það nú ánægjulegt ef siðferðileg viðhorf manna væru svona öflug. Þá væri vafalaust hægt að grisja lagasetningu á Íslandi þó nokkuð mikið, vegna þess að æðimörg lög hér eru af siðferðilegum toga spunnin. En því miður er raunin ekki sú og hefur ekki verið sú, t.d. að því er varðar útvarpsráð. Þegar þessi till. kom til umr. eða til afgreiðslu hér, þá gerðu menn einnig þá grein fyrir atkv. sínu að orðalagið, eins og frá því var gengið, væri þess eðlis að það væri ekki hægt að greiða um hana atkv. á eðlilegan hátt. Menn beittu fyrir sig formlegum rökum. Ég vildi leyfa mér hér við 3. umr. að flytja brtt. um þetta atriði, að á eftir 1. mgr. 5. gr., eins og hún er, eða 1. gr. frv. komi ný setning:

„Ekki eru kjörgengir í útvarpsráð ráðnir starfsmenn erlendra eða fjölþjóðlegra stofnana.“ Þetta er ákaflega einfalt og getur ekki valdið neinum misskilningi, hvað við er átt, og ég held að þetta hljóti að vera afstaða allra hv. alþm. í hjarta sínu. Ég vil leyfa mér, þar sem þessi brtt. er skrifleg, að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.