13.02.1975
Neðri deild: 44. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

84. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það eru nú aðeins örfá orð. Það fór aldrei svo að í öllum þessum ræðum sem fluttar hafa verið í þessu máli, komi þó ekki fram eitt atriði sem gleður mann stórlega, þó að það sé ekki nema staðfesting á því sem maður áður vissi, þ.e. að hv. þm., sem hér talaði síðast, staðfesti það að hann væri með öllu horfinn frá átrúnaði á hið austræna einræði sem við höfum oft kallað svo. Þetta þótti mér vænt um að heyra. Og ég tel að hv. þm. hafi haft fyllsta rétt til þess að skipta um skoðun og ég sem sagt fagna því. Á sama hátt tel ég að ég hljóti að hafa haft fullan rétt til að skipta um skoðun á því, hvort kjósa skyldi útvarpsráð á fjögurra ára fresti ellegar eftir hverjar alþingiskosningar.

Ég greiddi atkv. með breytingunni á sínum tíma yfir í það horf sem nú er, en hef skipt um skoðun. Þetta er nú allt og sumt.

Þá vildi ég segja það enn fremur, að þó að þetta gleðji mig og ég samfagni hv. þm. yfir þessum löngu teknu sinnaskiptum sem hann var bara að staðfesta núna að hann hafi tekið, þá verð ég jafnframt að segja það, að mér finnst hv. þm. örlítið vondur með að hagræða í málflutningi sínum því sem hann hefur eftir öðrum ræðumönnum. Það er kannske ekki alveg nýtt í skylmingum á Alþ. og annars staðar í orðasennum að menn geri það, og skal ég ekki fara um það fleiri orðum.

Þessi ræða var eins og margar aðrar, sem fluttar hafa verið um þetta mál, nokkuð svona á við og dreif og um sumt kannske teflt á það tæpasta. Það er t.d. ákaflega lengi hægt að ræða um úthlutun listamannalauna og um afstöðu manna til þeirra. Þar sýnist sitt hverjum enn í dag. Ýmsir telja að mismunandi viturlega sé á málum haldið og menn eru ekki alveg vissir um nema einstakir hópar hafi tilhneigingu til þess að halda utan um sitt o.s.frv.

Ég vil enn. eins og ég hef gert einhvern tíma áður, vísa á bug öllum ásökunum um það að ég stefni að því með þessari breytingu að innleiða ný vinnubrögð hjá útvarpinn í þá veru að útvarpið dragi taum eins ákveðins stjórnmálaflokks. Ég vísa því algerlega á bug. Það stendur óhaggað í útvarpslögunum og ég hef lagt á það áherslu hér í ræðu, að það telji ég eitt meginatriðið að Ríkisútvarpið gæti fyllstu óhlutdrægni í öllum sínum störfum og málflutningi. Og á það legg ég hina fyllstu áherslu enn, að það boðorð verði í heiðri haft í Ríkisútvarpinu eins og ætíð hefur verið meiningin, hver sem þarna hefur haldið um stjórnvöl, þó að auðvitað sýnist mönnum sitt hvað um það hversu til hafi tekist þá og þá. Ég hef sagt það hér og get sagt það enn til upprifjunar, að fyrir mér vakir að skipan útvarpsráðs sé í samræmi við skipan Alþ. á hverjum tíma. Ég held að þegar ákveðið er. að Alþ. kjósi þetta ráð eða þessar nefndir hlutfallskosningu, sé það í raun og veru alltaf það sem fyrir mönnum vakir, þó að menn leggi mismunandi mikla áherslu á það og þó að í sumum tilfellum hafi verið kosið til fjögurra ára. Það er alveg fráleitt að menn hafi nokkurn tíma hugsað sér það gagnstæða. Aldrei man ég t.d. til þess. að nokkurn tíma hafi komið fram till. um það að kjósa í nokkurt ráð eða nokkra n. ári fyrir alþingiskosningar. Það held ég að öllum mundi þykja fráleitt ákvæði. (Gripið fram í.) Já, það getur átt sér stað, en það hefur aldrei verið tekin ákvörðun um það í lögum frá Alþingi að þannig skuli því til hagað að kjósa árið fyrir kosningar.

Um þetta má auðvitað deila. En sú skipan, sem hér er lögð til, er mjög algeng eins og oft hefur verið tekið fram. og hún hefur oftast gilt varðandi þetta ráð. Ég hef t.d. nýlega rekið augun í það að þeir, sem undirbjuggu frv. um þjóðleikhús eða frv. til nýrra þjóðleikhúslaga, eru á þessari skoðun. Lagt er til í því frv., að kosið sé nokkuð stórt ráð sem komi saman sjaldan og leggi meginlinur, en svo verði aftur fámenn stjórn innan stofnunarinnar sem skipuleggi daglega starfið. Ég trúi að það frv. hafi að miklu leyti verið undirbúið af mönnum utan þings, en þar er lagt til einmitt að velja til þessa ráðs að loknum alþingiskosningum. En um þetta má sem sagt deila. En þetta er það sem fyrir mér vakir og það árétta ég hér enn og væntanlega í síðasta skipti við umr. um þetta mál.

Þá vil ég alveg sérstaklega vísa frá mér öllum ásökunum um það að ég hafi farið fram í þessu máli með einhverju offorsi og heimtað það afgr. fyrr en eðlilegt er að gerist hér á Alþ. Þessu frv. var útbýtt 4. des. Það er nú komið þetta á 3. mánuð, og ég held að það geti enginn haldið því fram með nokkrum rétti að þar hafi verið harkalega að unnið af hálfu meiri bl. á Alþ. Ég held að það sé alveg fráleitt. (Gripið fram í.) Ég óskaði þess strax, því að málið er að mínum dómi mjög einfalt, að málið yrði afgreitt sem fyrst og þess óska ég enn í dag. Hins vegar hef ég alltaf verið fús til þess, ef ástæður þm. t.d. hafa verið þannig að þeir hafi óskað eftir frestun, þá hefur ekki staðið á mér. Ég man eftir því fyrir jólin, að þá þurfti einn hv. þm. að sinna nefndarstörfum og orðfærði það og ég féllst að sjálfsögðu á það. Og núna sagði núv. hæstv. forseti mér að það væru ekki fleiri forsetar í húsinu, en hann sjálfur óskaði eftir að taka til máls við þessa umr., og þá var auðvitað ekkert sjálfsagðara — ef ekki hefðu komið á vettvang fleiri þingforsetar hér í d. — ekkert sjálfsagðara heldur en fresta þá málinu. En nú eins og áður ætla ég að það sé svipað um flesta sem flytja mál á Alþ., að þeir óski að þau nái fram að ganga sem fyrst. Ég sem sagt óska þess að málið fái sem greiðastan framgang úr því sem komið er, og í sjálfu sér er það ekkert óeðlilegt, jafnvel þótt mál sé einfalt, þótt það taki þennan tíma að afgreiða það á Alþ. því að þar eru vissulega mörg stór mál til meðferðar, bæði fyrir og eftir áramót, eins og allir hv. þm. vita.