13.02.1975
Neðri deild: 44. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

84. mál, útvarpslög

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég vil segja: það í upphafi míns máls að alltaf hef ég borið ákveðna virðingu fyrir hv. 3. þm. Reykv., Magnúsi Kjartanssyni. Það á sér alveg örugglega lengri sögu en þingferill hans og pólitík að svo er. En hvað sem því líður þá hefur þessi afstaða mín ekki breyst. Hins vegar verð ég að segja það, að lífsreynsla Magnúsar Kjartanssonar, sem hefur örugglega verið mjög mikil á mörgum sviðum, hefur haft töluvert mikil áhrif á hann og kemur það því miður oft fram í pólitískum málflutningi.

Það er greinilegt að hv. 3. þm. Reykv. er mjög fróður um bæði nasisma, kommúnisma, sósíalisma og ýmislegt af þessu tagi og hann hefur oft á tíðum beitt sér fyrir og stutt góð mál. En því miður slær út í fyrir honum, sérstaklega þegar komið er út í umr. sem fjalla um isma, Morgunblaðið o.s.frv.

En eitt er augljóst, að það, sem ég hef sagt hér í þessu máli, hefur greinilega farið mjög í taugarnar á hv. þm. Alþb. sem hér hafa talað. Ég tel það gott, vegna þess að ég er kominn á þetta þing til þess að tjá mig, hafa mínar skoðanir óháð því hvort þær falli saman við skoðanir hv. þm. Alþb. eða skoðanir Morgunblaðsins eða yfirleitt annarra þm. Svo verður það að ráðast hvort þær reynast réttar eða rangar eða hvort þingheimur getur aðhyllst þær eða eigi. Þess vegna er þessi umr. hér og ég hafði búist við því að hún gæti farið fram af prúðmennsku og verið öfgalaus.

Það kann að vera að fyrir suma hv. þm. hafi ég verið einum of hreinskilinn. Ég kann ekki þá list að færa mál mitt í margfaldar umbúðir sem er svo verið að taka utan af af hv. þm. sjálfum oft og tíðum eða öðrum í lengra máli. En það er e.t.v. háttur þessara reyndu atvinnustjórnmálamanna að komu yfirleitt aldrei umbúðalaust að sannleikanum eða a.m.k. umvefja sannleikann þeim umbúðum að hann sjáist ekki. Síðan hljóta þessir æfðu stjórnmálamenn að sjálfsögðu að ráðast að þeim sem eru hreinskilnir og segja hlutina eins og þeir eru.

Ég frábið mig því að vera borinn þeim sökum að í þessu máli hafi ég annarlegar skoðanir og að tilgangurinn á bak við skoðanir mínar í þessu máli sé sá, að ég ætli að útiloka minni hl. eða einhverja ákveðna einstaklinga. Það hefur margsinnis komið fram í ræðum mínum hér að það er ekki tilgangurinn með afstöðu minni til þess að kjósa skuli í útvarpsráð eftir hverjar þingkosningar.

En hverjir tala mest um að það eigi að útiloka minni hl, frá aðild að útvarpsráði eða möguleikum til tjáningar í ríkisfjölmiðlum? Hverjir hafa talað um að hrekja t.d. Sverri Kristjánsson frá því að lesa upp Passíusálmana í Ríkisútvarpinu? Það eru engir sem hafa gert það nema talsmenn Alþb. Þessi orð hafa aldrei hrotið af vörum okkar hinna. En það getur hentað hins vegar að setja það þannig upp í Þjóðviljanum til þess að færa sannleikann í búning að láta í það skína að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hafi í ræðu talað þannig að það mætti skilja það að hann vildi útiloka að sá ágæti maður, Sverrir Kristjánsson, gæti lesið upp Passíusálmana í Ríkisútvarpinu. Ef það er slíkt frelsi sem þessir hv. þm. eru að verja hér í dag, þá frábið ég mig slíku tjáningarfrelsi þeirra, manna sem hreint og beint nota sín málgögn til þess að gera mönnum upp hugsanir og skoðanir sem þeir hafa aldrei látið orð um falla hér í þingsal.

Ég kannast ekki við ofsóknir af því tagi sem verið er að gera hér skóna af hv. talsmönnum Alþb. Ég hef aldrei kynnst slíkum ofsóknum,, hérlendis né erlendis, þar sem ég hef dvalist. Ég veit ekki hvaðan þessar hugsanir eru komnar til hv. þm. Alþb. Mér finnst þær annarlegar og óeðlilegar.

Það er athyglisvert þegar maður hlýðir á mál þessara reyndu þm., þessara æfðu stjórnmálamanna sem eru búnir að vera hér í ræðustól í áratugi, sem eru búnir að skrifa útþvældar greinar um pólitík í þessum flokksmálgögnum sem Jón Baldvin Hannibalsson lýsti ágætlega í ræðu fyrr við þessa umr., — það er athyglisvert að heyra orðalag þeirra, orðbragð, hvernig þeir gera mönnum upp hugsanir og athafnir.

Það olli mér vonbrigðum þegar hv. 3. þm. Reykv. gat ekki stillt sig um að tala um að núv. stjórnarflokkar hefðu rottað sig saman,það væru ofstækisöflin í Sjálfstfl. sem réðu ferðinni og nú væri ný og háskaleg stefna á ferðinni í sambandi við menningarmál, bara út af því einu að það á að kjósa í útvarpsráð eftir hverjar þingkosningar í stað þess að kjósa samkv. lögum sem samþ. voru í ársbyrjun 1971. Ég skil þetta ekki. Og ég skil það ekki heldur þegar sami maður er að tala um frjálslyndi og umburðarlyndi í sömu andránni.

Einnig sagði hann að nú væri stefnt að hömlum. Ég skil ekki hvernig hv. þm. getur komist að þessari niðurstöðu. Ég ítreka það enn einu sinni: Það hefur aldrei komið fram, hvorki hjá mér né öðrum sem hafa talað fyrir þeim breytingum sem hér eru til umr., að það ætti að útiloka minni hl. í einu eða neinu. En ég benti hins vegar á að það efni, sem hér hefur verið töluvert til umr., þetta mikla magn af austrænu — skulum við segja — kvikmyndaefni sem hefur verið í sjónvarpinu það hefur verið óeðlilega mikið ef litið er til óska og smekks þjóðarinnar um dagskrárefni yfirleitt. Þetta hef ég sagt og við það stend ég.

Um það að verja þjóðina fyrir misnotkun ríkisfjölmiðla væri hægt að flytja hér langt mál. En ég spyr hv. þm.: Er það ekki hlutverk þingkjörinna fulltrúa að stuðla að því að ríkisfjölmiðlar séu ekki misnotaðir? — Mundi t.d. hv. 3. þm. Reykv. vilja leyfa ótakmarkaðar árásir í ríkisfjölmiðlum á hópa manna eða einstaklinga eða vilja láta endurtaka slíkar árásir, hvaðan sem þær! væru komnar? Ég hugsa að ég geti hiklaust svarað fyrir hans hönd að það mundi hann ekki vilja. Það vel þekki ég hann. Það er þetta sem ég átti við, þ.e. að Ríkisútvarpið sé ekki notað þannig og útvarpsráð komi í veg fyrir að það sé endurtekið.

Varðandi umburðarlyndið, sem ég kann vel að meta og ég veit að hv. þm. á töluvert af, vil ég segja það, að hann ætti að temja sér sjálfur ákveðið umburðarlyndi hér í þingsal, og einnig vildi ég beina því til hans, að hann beitti sínum ágætu áhrifum til þess að Þjóðviljinn, hans ágæta málgagn, sýndi meira umburðarlyndi en það yfirleitt gerir og færi betur höndunum um sannleikann í fréttaflutningi sínum.

En sem sagt, ég vísa á bug að það eigi að fara að innleiða einhverjar einræðisaðferðir, það eigi að fara að breyta stefnunni í menningarmálum. Sú stefna á auðvitað að vera frjáls. Ég hef margsinnis sagt það hér, að ég hef lagt áherslu á að ríkisfjölmiðlarnir eigi að vera sjálfstæðir og sem óháðastir stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum. Þetta hef ég sagt í hverri einustu ræðu sem ég hef flutt um þetta mál. Hins vegar hefur lítið verið talað um það atriði, sem ég minntist á í síðustu ræðu minni, breytingarnar sem hafa verið gerðar í sambandi við ríkisfjölmiðlana í nágrannalöndunum. Ég vakti t.d. athygli á því að í Frakklandi hefði sú skipulagsbreyting nýlega verið gerð, að 2/3 hlutar þeirra 7 fyrirtækja, sem voru stofnuð upp úr ríkisfjölmiðlunum í Frakklandi, væru skipuð fulltrúum frá samtökum launþega og vinnuveitenda, en 1/3 hins vegar kæmi frá hinn opinbera. Ég ræddi einnig um að það kæmi vel til athugunar — og ég get sagt það hér að ég er mjög fylgjandi því — að t.d. fulltrúar starfsmanna þessara stofnana ættu aðild að útvarpsráði. Ég tel það í anda þeirrar stefnu sem ég hef leyft mér að tala fyrir — stefnu atvinnulýðræðis í stærri fyrirtækjum og hjá ríkisstofnunum.

Ég vil leyfa mér að segja það, að eftir þessa ræðu var lítið um þetta fjallað, bæði hér í umr. og annars staðar, og það hefur ekki verið minnst á það atriði t.d., að minni hl. bar fram till. til breytingar á kjöri manna sem kæmu til greina í útvarpsráð, þar sem átti algerlega að útiloka það að starfsmenn gætu tekið sæti í útvarpsráði. Ég fyrir mitt leyti tel æskilegt að þetta atriði — þ.e. afstaða mín til þess að þessir starfsmenn gætu komist í útvarpsráð sem fulltrúar sinnar stofnunar og einnig að minni hl. hafi viljað útiloka að svo gæti orðið — að það kæmi fram í þingfréttum ríkisfjölmiðlanna. Það hefur ekki gert það. Það er lýðræði að skýra rétt og satt frá öllu sem máli skiptir. Og það er að mati okkar margra mikið mál, stefnumál verkalýðssamtakanna, að vísu ekki hér á Íslandi enn þá, en í vestrænum ríkjum, að slíkt atvinnulýðræði verði innleitt. Ég treysti því að þeir tímar komi og þá skapist svigrúm til þess hér á Alþ. að gera þær breytingar á útvarpslögunum og öðrum lögum um ríkisstofnanir og stórfyrirtæki, að starfsmenn geti átt aðild að stjórn þessara fjölmiðla.