13.02.1975
Efri deild: 44. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt tilkynnti ríkisstj. 11, febr. s.l., að hún teldi, að höfðu samráði við bankastjórn Seðlabankans óhjákvæmilegt að tekin yrði ákvörðun um breytt gengi íslensku krónunnar. Í kjölfar þess var felld niður gengisskráning erlends gjaldeyris frá og með deginum í gær. Ríkisstj. féllst í gær á till. Seðlabankans, að gengisskráning verði tekin upp að nýju á morgun að því tilskildu að frv. það, sem hér er til umr., verði þá afgreitt frá Alþ. Verði þá markaðsgengi íslensku krónunnar ákveðið sem næst 20% lægra en það gengi var er gilti áður en gengisskráningu var hætt í gær.

Frv. þetta er flutt vegna þessarar ákvörðunar.

Frv. hefur að geyma ákvæði um tollmeðferð innflutnings og ráðstöfun á gengismun á útflutningsvörubirgðum og ógreiddum útflutningi sjávarafurða. Ákvæði frv. eru svipuð þeim sem áður hafa verið sett í lög vegna breytinga á gengi krónunnar.

Gengisbreyting þessi er einn af meginþáttum efnahagsráðstafana, sem ríkisstj. beitir sér fyrir, en samkv. frv. er gert ráð fyrir sérstakri ráðstöfun á gengismun til lausnar brýnna fjárhagsvandamála innan sjávarútvegsins. Af þeim ástæðum er nauðsynlegt að lögfesta ákvæði þau, sem till. eru um í frv.

Efnahagsvandinn, sem við okkur blasir, er í meginatriðum tvíþættur: annars vegar halli í rekstri sjávarútvegs og hins vegar gjaldeyrisstaðan þegar gjaldeyrisvarasjóður landsmanna er nú þrotinn. Ég nefni hér ekki sérstaklega kjaramálin almennt, en þau eru auðvitað það vandamál sem hlýtur að setja blæ sinn á efnahagsvandann. Við getum ekki skapað önnur og betri kjör heldur en verðmætasköpunin í þjóðfélaginu gefur tilefni til á hverjum tíma, og það er efnahagsvandinn á hverjum tíma að auka verðmætasköpunina svo að bæta megi kjörin. Gengisbreytingin, sem ákveðin hefur verið, hefur þann megintilgang að bæta greiðslustöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum og tryggja rekstrargrundvöll atvinnuveganna.

Gengi krónunnar var síðast breytt í byrjun sept. s.l. og þá voru gerðar hliðarráðstafanir. Stóðu vonir til þess, að þær aðgerðir ásamt frekara aðhaldi í fjármálum og peningamálum nægði til þess að rétta við hag útflutningsatvinnuveganna og koma á þolanlegum greiðslujöfnuði við útlönd. Reyndin hefur þó því miður orðið önnur. Ör rýrnun viðskiptakjara síðustu mánuði ásamt söluerfiðleikum á ýmsum mörkuðum hefur gerbreytt rekstrarstöðu útflutningsatvinnuveganna og greiðslujafnaðarhorfum. Eru viðskiptakjörin nú um fjórðungi lakari en á árinu 1973 og 14% lakari en á s.l. sumri.

Eins og þm. er kunnugt af yfirlitsskýrslu þeirri, sem Þjóðhagsstofnun hefur tekið saman um efnahagshorfur á þessu ári, er við stórfellda erfiðleika að etja. Helstu niðurstöður áætlana Þjóðhagsstofnunar fyrir árið 1975 eru að aukning þjóðarframleiðslu verði lítil sem engin að vegna versnandi viðskiptakjara muni raunverulegar þjóðartekjur minnka um 3–5% í heild eða um 5–7% á mann, að við blasi að öllu óbreyttu mikill halli í viðskiptum við útlönd eða 14–17 milljarðar kr., að jafnvel þótt reiknað sé með ítrustu lántöku erlendis virðist ókleift að jafna viðskiptahallann með þeim hætti.

Grundvallarmisvægið milli heildarframboðs og eftirspurnar í hagkerfinu birtist inn á við í ýmsum myndum: rekstrarhalla sjávarútvegsins, fjárhagshalla hins opinbera og fjárvöntun til fyrirhugaðra framkvæmda og útlána.

Nýlegar áætlanir, sem þm. hafa fengið í hendur um afkomu sjávarútvegsins við rekstrarskilyrði um s.l. áramót, segja svo að ekki verður um villst, að mjög alvarlega horfi um rekstur mikilvægustu greina útflutningsframleiðslunnar. Við blasir alvarlegur rekstrarhalli sjávarútvegs og sjóðakerfis hans. Einkum er um að ræða taprekstur báta- og togaraflotans svo og frystihúsa, en staða söltunar og herslu er betri. Rekstur annarra vinnslugreina stendur tæplega í járnum.

Niðurstöður rekstraráætlana báta- og togaraflotans sýndu um 1 750–2 550 millj. kr. árshalla, en væri í stað afskrifta og vaxta í rekstraráætlunum miðað við áætlaða þekkta greiðslubyrði afborgana og vaxta stofnlána til opinberra sjóða lækkaði þessi halli í mesta lagi um 700–800 millj. kr. Þótt tillit sé tekið til þess, stæði eftir verulegur rekstrarhalli, auk þess sem ekki er tekið tillit til skulda við einkaaðila vegna skipakaupa eða eigin fjármagns fyrirtækja. Hér er og ótalinn olíukostnaður og halli á sjóðum sjávarútvegs, svo sem tryggingasjóða, að upphæð 1 000–1 200 millj. kr.

Frystiiðnaðurinn er talinn rekinn nú með 2 500 millj. kr. halla. Þessi halli og fiskverðshækkun, sem bæri halla fiskveiðanna uppi að einhverju eða öllu leyti, verður ekki uppi borinn af gengisbreytingu einni, heldur verður að nýta verðjöfnunarsjóð sjávarafurða að einhverju leyti, enda í samræmi við tilgang hans að draga úr þörf á gengisbreytingu.

Gengisbreyting sú, sem nú hefur verið ákveðin færir sjávarútveginum í heild mikla tekjuaukningu, en af henni hlýst jafnframt talsverð aukning tilkostnaðar, einkum fyrir útgerðina. Þessi tekjuskiptingarvandi í kjölfar gengisbreytingar er gamalkunnur hér á landi. En vandamálið hefur ágerst nú vegna þeirrar stórkostlegu hækkunar á mikilvægum kostnaðarliðum sem orðið hefur, einkum olíu og veiðarfærum og stofnkostnaði nýrra skipa.

Mikilvægt er að leysa þennan vanda með hagkvæmum hætti. Hér er ekki aðeins um kostnaðarvanda útgerðar að ræða, heldur hvort við þessum vanda verður snúist með þeim hætti, að öflugt aðhald sé veitt við notkun þessara rándýru, innfluttu aðfanga. Í núgildandi kerfi, þar sem útgerðin borgar lítinn og minnkandi hluta þessa kostnaðar felst sennilega þjóðhagsleg sóun sem ekki fær staðist til lengdar. Það er ekki unnt að halda svo áfram að þeir, sem með verðmæti fara, hafi aðeins fyrir augum innan við 1/3 hluta þess kostnaðar sem þau standa í fyrir þjóðarbúið í heild. Til skamms tíma var olíulítrinn kr. 5.80 fyrir fiskiskip, en raunveruleg kostnaðarverðmæti hans eru á milli 16 og 17 kr. Það þarf vitaskuld að sjá svo um, að útgerðin hafi tekjur til þess að mæta hækkandi olíukostnaði, sem hún greiddi beint eða hver rekstrareining fyrir sig. En það væri æskilegt að gera þarna töluverða, að ég segi ekki róttæka breytingu á sjóðakerfi útvegsins, bæði hvað snertir olíusjóðinn og tryggingasjóðinn.

Á fundi yfirnefndar Verðlagsráðs í gær náðist samkomulag með fulltrúa sjómanna og öðrum fulltrúa kaupenda um öll meginatriði ákvörðunar lágmarksverðs þeirra fisktegunda, sem venjulega fara saman við ákvörðun almenns fiskverðs, fyrir tímabilið 1. jan. – 31. maí n.k. Fiskverðsákvörðunin felur að þessu sinni í sér verulega breytingu á stærðarflokkun fisks til verðs og á verðhlutföllum milli stærðarflokka og fisktegunda. Þessar breytingar miðast í senn við breyttar aðstæður á fiskmarkaði erlendis og breytingar í tilkostnaði sjávarútvegs hér á landi, auk þess sem þær ættu að vera til þess fallnar að beina sókninni í auknum mæli að arðgæfari fisktegundum og stórfiski, sem fellur saman við sjónarmið um skynsamlega nýtingu fiskstofnana við landið.

Vegna þess hve breytingar þessar eru umfangsmiklar verður endanlegum frágangi verðs einstakra fisktegunda, gæða- og stærðarflokka ekki lokið fyrr en í fyrsta lagi í dag. En með þessari ákvörðun er leitast við að tryggja, að tekjur sjómanna standist eðlilegan samjöfnuð við tekjur annarra stétta, enda er það nú mikilvægara en oftast áður að sjósókn verði öflug. Erfitt er að meta niðurstöður til beinnar tölu, en vert er að hafa í huga að sjómenn og útvegsmenn hafa þurft að þola verulega tekjuskerðingu vegna verðlækkana á loðnu. Enginn þarf því að líta á fiskverðsbreytinguna sem fordæmi fyrir kjarabreytingum til annarra stétta. Hana ber að skoða sem nauðsynlegan þátt í því að bæta rekstrarstöðu sjávarútvegsins í heild.

Hv. þm. er kunnugt um hve greiðslujöfnuðurinn við útlönd hefur versnað á s.l. ári, en viðskiptahallinn varð þá 12% af þjóðarframleiðslunni á móti 3% árið 1973. Nú stefna útgjaldafyrirætlanir þjóðarbúsins á samsvarandi viðskiptajafnaðarhalla á þessu ári, en það er langt umfram það sem greiðslugeta þjóðarinnar leyfir. Erlend skuldaaukning af stærðargráðunni 15–17 þús. millj. kr., sem nauðsynleg yrði til þess að jafna viðskiptahallann, væri langt umfram þörf mögulegrar atvinnuuppbyggingar. Tilgangurinn væri því sá einn að fjármagna neyslu, eyðslu yfirstandandi árs á kostnað næstu ára. Erlend afborgana- og vaxtabyrði var um 11.3% af útflutningstekjum á s.l. ári, en mun hækka í 14.5% á þessu ári og er þó ekki gert ráð fyrir jafnhárri erlendri lántöku, eins og ég gat um áðan. Greiðslubyrðin mun fara vaxandi næstu árin vegna mikillar skuldasöfnunar á undanförnum árum. Lánstraust þjóðarinnar út á við hlýtur þannig að þrjóta áður en langt um líður, ef svo heldur fram sem horfir.

Það misvægi, sem þjóðarbúið hefur búið við að undanförnu, hefur annars vegar birst í vaxandi rekstrarhalla sjávarútvegsins og hins vegar í auknum greiðsluhalla ríkis og ríkisfyrirtækja og aukinni fjárvöntun til framkvæmda og útlána fjárfestingarlánasjóða, en hvort tveggja hefur áhrif á þróun greiðslujafnaðar út á við. Eins og nú horfir, stefna útgjaldaáform þjóðarinnar í heild verulega fram úr raunverulegum þjóðartekjum. Það er því auðsýnt, að nauðsynlegt er að leysa þann fjárhagsvanda, sem af þessu leiðir, annars vegar með auknu aðhaldi í útgjöldum, m.a. með því að draga úr fyrirhuguðum framkvæmdum og útgjaldaáformum og hins vegar með því að auka tekjur opinberra aðila. Í slíkri aðgerð felst hins vegar sá vandi að viðhalda eðlilegri atvinnustarfsemi í samræmi við framleiðslugetu þjóðarinnar. Megináhersla verður því lögð á það að beina innlendum sparnaði í ríkara mæli til atvinnuveganna til þess að tryggja aukna framleiðslugetu og atvinnu. Í þessu sambandi virðist eðlilegt, að haldið verði áfram á þeirri braut að beina sparnaði landsmanna hjá lífeyrissjóðum, enn meir til atvinnuveganna.

Ríkisstj. hefur unnið að endurskoðun á útgjalda- og framkvæmdaáformum ríkisaðila og útlánaáformum fjárfestingarlánasjóða, en það var markmiðið að halda útgjalda- og lánaáformum innan fjárhagsgetu þessara aðila, jafnframt því sem mótuð verður stefna um forgang framkvæmda og atvinnuuppbyggingu. Sömu stefnu er nauðsynlegt að fylgja í útlánum bankakerfisins.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara yfir frvgr., þær skýra sig sjálfar og eru mjög hliðstæðar því, sem tíðkast hefur hingað til. Ég skal þó aðeins nafna tvennt: Annars vegar er í 3. gr. heimild til að ákveða hækkun á magngjaldi af útfluttum sjávarafurðum, sem ákveðið var með 5. gr. l. nr. 106 frá 1974, í samræmi við þessa gengisbreytingu. Um hitt atriðið skal ég nefna að gengishagnaðarsjóði er ekki ráðstafað að öðru leyti í 2. gr. en að gert er ráð fyrir því, að fé af gengishagnaði skuli varið til að greiða hækkun útflutningskostnaðar, sem verður óhjákvæmilega vegna gengislækkunarinnar, og þar sem útflytjendur fá greitt fyrir gjaldeyrinn miðað við gengið fyrir breytinguna, er ekki eðlilegt að þeir beri þann kostnaðarauka.

Önnur ráðstöfun þessa gengishagnaðarsjóðs mun ákveðin af Alþ. með sérstakri löggjöf. En þó er rétt að það komi hér fram, að ríkisstj. hefur lýst yfir, að hún muni beita sér fyrir því, að 75 millj. kr. af því fé verði varið til eflingar lífeyrissjóða sjómanna.

Því er ekki að leyna, að óneitanlega fylgir gengislækkun jafnan verðbólguhætta og verðhækkanir hljóta einhverjar að fylgja í kjölfar gengisbreytingarinnar. Markmið það, sem við settum okkur, að verðbólguvöxtur hér á landi væri kominn niður á það stig, sem gerist meðal nágrannaþjóða okkar, við lok ársins, kann því að færast lengra undan. En við megum ekki missa sjónar á því markmiði, heldur stefna ósleitilega að því, þótt leiðin sé langvinnari en við bjuggumst við.

Það, sem ræður valinu að því er snertir úrræði gengisbreytingarinnar, er einkum þrennt:

Í fyrsta lagi: Áherslan á fulla atvinnu sem meginmarkmið efnahagsstefnunnar og nauðsyn þess, ef hún á að haldast til frambúðar, að staða þjóðarbúsins út á við sé tryggð.

Í öðru lagi er meginkostur gengislækkunar, að hún veldur almennri hækkun tekna útflutningsgreina án mismununar, en mismunun er fylgifiskur flestra annarra leiða. Jafnframt bætir gengislækkun samkeppnisstöðu allrar innlendrar atvinnustarfsemi gagnvart innflutningi, örvar innlenda framleiðslu og dregur úr innflutningi.

Í þriðja lagi felur valið í sér, að við höldum fast við þá fríverslunarstefnu, sem þessi ríkisstj. hefur fylgt og vill fylgja og er ein meginforsenda álits okkar og lánstrausts á alþjóðavettvangi. Við hljótum því að hafna haftastefnu og freista þess að leysa efnahagsjafnvægisvandann með almennum aðgerðum. Þetta mun þegar til lengdar lætur reynast farsælasta lausnin.

Samhliða breyttri gengisskráningu og ákvörðun fiskverðs mun ríkisstj. beita sér fyrir ýmsum hliðarráðstöfunum til þess að tryggja svo sem verða má, að gengisbreytingin nái tilgangi sínum. Flutt verður sérstakt frv. til l. um, hvernig ráðstafa skuli gengishagnaðarsjóði þeim sem stofnað er til með frv. því sem hér er til umr. Skal ég ekki á þessu stigi rekja fyrirhugað efni frv. að öðru leyti en því, að leitast verður við að létta að einhverju leyti erlendar kostnaðarhækkanir fiskiskipaflotans, og ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að 75 millj. kr. verði varið til eflingar lífeyrissjóða sjómanna, einkum til þess að styrkja getu þeirra til að greiða lífeyri til sjómanna sem lífeyrisgreiðslna eiga að njóta á þessu ári og næstu árum og til annarra uppbóta á lífeyrisréttindi sjómannastéttarinnar.

Þá verður unnið að því eins og unnt er í samráði við aðila að leysa tekjuskiptingarvandamálin innan sjávarútvegsins í þeim tilgangi að koma á hagfelldara fyrirkomulagi til að standa undir hækkuðum tryggingakostnaði, olíuverði og erlendum verðhækkunum fiskiflotans, eftir að kjör sjómanna hafa verið tryggð.

Lögð verður áhersla á við aðila vinnumarkaðarins, að vísitölukerfi launagreiðslna verði tekið til endurskoðunar, og mun ríkisstj. fyrir sitt leyti beita sér fyrir breyttu fyrirkomulagi í þessum efnum.

Í samræmi við fyrri yfirlýsingar ríkisstj. munu launajöfnunarbætur verða teknar til endurskoðunar í þeim tilgangi að auðvelda þeim, er lágar tekjur hafa, að standa undir hækkuðum framfærslukostnaði sem fram er kominn og leiðir af gengisbreytingunni. Með sama hætti verða tryggingabætur til þeirra, sem litlar eða engar aðrar tekjur hafa, teknar til endurskoðunar.

Þá er vert að geta þess, að fram fer athugun á því, með hvaða hætti breytingar á tekjuskattsálaginu gætu komið launastéttunum til góða, sem og aðgerðir í húsnæðismálum.

Þá verður og verðlagskerfi búvöru tekið til endurskoðunar svo og verðlagsmálin í heild. Vegna rýrnunar þjóðartekna og erfiðrar greiðslustöðu út á við telur ríkisstj. nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að tryggja hagstæðan jöfnuð í fjármálum opinberra aðila, en forðast skal samt óhóflega aukningu erlendra skulda. Til að ná þessu markmiði mun hún beita sér fyrir því, að dregið verði úr útlánafyrirætlunum fjárfestingarlánasjóða, útgjaldaáformum hins opinbera, en fyrir aukinni innlendri fjáröflun, að því leyti sem þetta hrekkur til.

Gengislækkun sú, sem nú hefur verið ákveðin, ásamt þeim hliðarráðstöfunum, sem ég hef nú rakið, stefnir að óhjákvæmilegri leiðréttingu á stöðu útflutningsframleiðslunnar og takmörkun á gjaldeyrisnotkun. Hér er um það að tefla, að þjóðin bregðist með sameiginlegu átaki við óvæntu og þungu efnahagslegu áfalli. Þess vegna skiptir meginmáli, að almennur skilningur allra stétta og hagsmunahópa náist á nauðsyn þessara ráðstafana og um leiðir til að tryggja sem réttlátasta skiptingu þeirra byrða sem þeim hljóta að fylgja.

Herra forseti. Ég vil gera það að till. minni, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. þessarar d. Mér er kunnugt um að nefndir beggja d. höfðu sameiginlegan fund í morgun, og vænti ég því þess að afgreiðsla n. geti verið snögg eða fer vinsamlega fram á það að hún hraði störfum sínum eins og hún frekast treystir sér til.