13.02.1975
Efri deild: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. 2. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur verið tekið fram koma fram þrjú nál. í sambandi við afgreiðslu þessa frv., þó að það sé í sjálfu sér tæknilegt atriði og viðurkenning á því sem þegar hefur verið gert af hálfu Seðlabanka Íslands, eins og lög mæla fyrir, en í samráði við hæstv. ríkisstj. og eftir hennar ábendingu.

Það er, eins og síðasti ræðumaður benti réttilega á, komið þannig fyrir þm., sem ekki er undarlegt út af fyrir sig, að mönnum finnst gengisfellingin orðin afar ógeðfelld svo að ég verð að vænta þess að næstu ráðstafanir, hvenær sem við þurfum að standa í þeim og hverjir sem það þurfa að gera, verði ekki í formi gengisfellingar. Ég held að gengisfelling sem slík eigi nú orðið mjög fáa meðmælendur eða formælendur hér á hv. Alþ., því að ekki var um það að villast að hæstv. utanrrh. taldi þetta ógeðfellt, gamalþekkt leiðindaúrræði. En það er að vonum.

Þá er að reyna hvað annað kemur til. og menn eru yfirleitt sammála um að það þurfi að hamla rösklega á móti í eyðslu. Ég tjáði mig um það hér áðan, að vegna þess, sem sagt hafi verið á ekki heppilegum tíma, og einnig vegna þess að fólk hafði vitund um væntanlega gengisfellingu og ýmislegt fleira, þá væri svo komið að það væri komið kaupæði í bænum. Og rétt áður en ég fór upp í ræðustól barst mér í hendur dagblaðið Vísir sem staðfestir það svo að ekki verður um villst á útsíðu að nú þegar séu biðraðir í vissum greinum verslunar til þess að ná öllu sem hægt er að ná út. Það er bara að það verði ekki eins og í haust, þegar ein ágæt húsmóðir kom í verslun og ætlaði að kaupa sér grillofn. Þeir voru allir búnir sem hentuðu heimilum. Hins vegar sagði hún: „Hvað er þetta?“ Jú, það var stór grillofn handa sjúkrahúsi. „Ég ætla að fá hann,“ sagði hún. „Nei, hann er nú fullstór fyrir venjulegt heimili.“ „Það skipti ekki máli, ég ætla að kaupa hann.“

Ef almenningur hugsar svona í landinu af ótta við að það verði ekkert úr sparifénu, þá tekst aldrei neitt þó að við stæðum allir hér á hv. Alþ. að baki ákveðinni ríkisstj. Fólkið verður að hafa trú á þeim aðgerðum, sem verið er að gera, til þess að jafnvægi myndist. Og ég sakna þess ef hæstv. forsrh. getur ekki gefið okkur neitt í þá áttina að gera nú átak í að verðtryggja sparifé og að einhver vísítala verði sett á útlán meira en gert hefur verið. Það er nokkuð byrjað á þessu hjá vissum stofnlánasjóðum, en almennt hafa vextir verið aðeins hækkaðir, en vísitöluhreyfing á útlán hefur ekki verið eins og skyldi. Ég held að það væri mjög þakkarvert af honum að taka frumkvæði í þessa átt núna, og ég trúi ekki öðru en hann fengi stuðning allra flokka í því efni. Ég tel ekki að hér eigi að fara með neinu óðagoti. Það þarf að undirbúa þetta vel og sýna fram á, að græddur er geymdur eyrir, þótt við séum að afnema blessaðan eyrinn og aðeins komnir að krónunni, en hún smækkar ört ef svona heldur áfram.

Það er sem sagt komið svo, að mér finnst að alþm. almennt klígi við að standa í gengisfellingaræfingum hér, jafnvel tvisvar á ári. Og ég held að almenningur muni vera sammála okkur um að það sé tími til þess nú að spyrna við fótum og að íslenska þjóðfélagið fari ekki hraðar en það sem það skilar af sér í afrakstri til heilbrigðs lífs og auk þess lántökur erlendis til eðlilegrar fjárfestingar í landinu.

Ég vil mega spyrja hérna um örfá atriði, skal ekki lengja umr. mjög í sjálfu sér, en mér liggur forvitni á að vita um Hitaveitu Suðurnesja. Það eru nú um tveir mánuðir eða rétt um það síðan frv. var samþ. Enn er ekki búið að tilkynna um stjórn í fyrirtækinu. Ég spurði hæstv. iðnrh. hvernig yrði háttað um fjármögnun þessa fyrirtækis sem er áætluð um 2 milljarðar. Hann sagði þá að væntanleg stjórn þess fyrirtækis mundi annast það, þá sennilega í samráði við hæstv. ríkisstj. Nú mun þetta fyrirtæki hækka um mörg hundruð millj. kr., og þetta er eitt af mestu hagsmunafyrirtækjum sem við stöndum í að koma á fót núna. Og ég verð að vænta þess, að þrátt fyrir það að áform séu um að þrengja að á lánamarkaði og hafa nú fast og ákveðið aðhald í fjármálum og bankamálum okkar, þá verði viss fyrirtæki, m.a. þetta og einnig varðandi Fiskveiðasjóð, ekki skert. Þetta verður að halda áfram með eins miklum hraða og framast er unnt. Það má ekki dragast miklu lengur en þegar hefur orðið — alls ekki.

Hér var fyrr í dag talað fyrir frv. um hitaveitu fyrir Siglufjörð. Hæstv. iðnrh. tók undir efni þess frv., og vil ég lýsa áhuga mínum á því einnig, það veit ég að við gerum allir í hv. d., að það mál fái einnig röska og góða athugun og eðlilegan framgang, því að það er undirstrikað í lokaorðum í bæklingi litlum frá Þjóðhagsstofnun að við verðum nú mjög að efla innlenda orkuframleiðslu og draga úr erlendri orkuneyslu og þar eigi að skapa aðhald. Og einmitt yrði ég ánægður ef hæstv. forsrh. gæti sagt okkur eitthvað frá því hvernig þetta mál stendur, sérstaklega með Hitaveitu Suðurnesja, því að það má ekki dragast ef framkvæmdir eiga að hefjast í tæka tíð og málið á að vera komið í höfn á næsta ári.

Svo spurði ég um og ítreka enn: Hvað verður um lánsloforð Fiskveiðasjóðs? Eins og hann rekur minni til spurði ég hann um það á sumarþinginu. Þá hét hann því hér úr ræðustól að hlutast til um að þau mál fengju greiðari úrlausn. Það tók nú tímann frá því í ágúst og þangað til fram í miðjan des. og tókst ekki að afgreiða nærri öll lánin fyrir áramót. Og tugir fyrirtækja í sjávarútvegi lentu í mjög leiðinlegu greiðsluþroti við sína seljendur á þjónustu og vörur vegna þess að Fiskveiðasjóður gat ekki staðið í skilum við þegar gerðar framkvæmdir, bæði við skipasmiði og í fiskvinnslu, eftir kröfu hins opinbera. Annars var fiskvinnsluhúsunum lokað, og þetta gengur náttúrlega ekki. Hið opinbera getur ekki unnið svona steinþegjandi og dautt innbyrðis að framleiðslunni og vegið svona að framleiðslunni sitt á hvað, það er ekki hægt. M.a. fara tugir millj., ef ekki hundruð millj. fyrir bragðið í súginn. Þetta þyngir allt reksturinn og þetta má ekki ganga svona.

Síðan eru vangaveltur um að taka fjárlögin til meðferðar að nýju, ef mig minnir rétt. Það kom ekki fram í þessari ræðu, en það kom fram, held ég, í fréttum að forsrh. hafi lofað stjórnarandstöðunni einhverri samvinnu. Mér er ekki kunnugt um eitt eða neitt í því efni enn þá. En það stendur til bóta. En ég sit í fjvn. og við höfum ekki verið heiðraðir með vitneskju um eitt eða neitt enn þá. Kannski eru menn bara farnir að tala um þetta sem komandi nauðsyn, en ekki meira. En ég held að almenningur vilji hafa það á hreinu, að bæði hér á Alþ. og af hálfu ríkisvaldsins sé sýnd ákveðin viðleitni í sparnaði þegar við heimtum af almenningi að hann spari. Og hæstv. forsrh. sagði það hér í framsöguræðu sinni að til þess væri ætlast með þessum aðgerðum. Við verðum að byrja á sjálfum okkur, það er óhjákvæmilegt. Annars rennur þetta allt út í sandinn.

Hæstv. utanrrh. ítrekaði hér fyrri sjónarmið sem höfðu komið fram hjá formanni Framsfl., hæstv. viðskrh., um skyldusparnað á hærri laun. Þetta er alveg bráðsnjallt, og hefði átt að framkvæma miklu fyrr og er sannarlega gott fordæmi að taka upp núna og draga það ekki. Þegar við, sem önnumst launauppgjör fyrir ýmsa, tökum nú af ungu fólki 15% og margir sjómenn hafa verið með skyldusparnað er nemur á 2. hundrað þús. kr. og auk þess er tekið af þeim orlof í viðbót þannig að þeir afhenda inn í ríkiskerfið 23% þótt þeir fái litla vexti af því, þá er ekki til of mikils mælst að hið háa Alþ. eða alþm. og hæstu embættismenn þjóðarinnar taki á sig nokkurn skyldusparnað. Það er ekki til mikils mælst. Orlofskerfið, sem sjómenn láta langmest i, fer til að reka Póst og síma, ódýrt, fyrir sáralítinn pening. Það er engin smárýrnun, sem þessir menn fórna auk hins, sem þeir taka á sig í almennri kjararýrnun vegna gengisfellingarinnar.

Það var komin á sú venja mjög víða, að áður en þetta nýja kerfi var tekið upp, borgað bara með merkjum, þá voru alls konar afföll í því sambandi og margir borguðu orlofið þess vegna beint inn. Nú er þetta sent til ríkisbáknsins til þess að útvega ríkisvaldinu ódýrt rekstrarfé og um leið verður gífurleg verðrýrnun á þessu orlofsfé. Einhverjir vextir kunna að koma á þetta, það eru vangaveltur um það, en ég held að það verði erfitt. Auk þess hafa komið í ljós ýmiss konar vandkvæði í framkvæmd við þetta kerfi, þótt öllum væri lofað góðu í upphafi. En það er nú svona, að það er oft erfiðara en menn gerðu ráð fyrir í upphafi að standa við það, sem sett er á stofn, þegar það veitir svona upp á sig eins og raun ber vitni. Allt þetta snertir kjör hins almenna borgara. Allt hefur þetta áhrif. Og mönnum er gert hér mjög misjafnt undir höfði. Fastlaunamaðurinn þarf ekki að sjá af neinu, en hinir verða að sjá af skyldusparnaði, 15%, auk þess að setja 8.33%, sem er orlofsfé, inn til Pósts og síma og geyma það þar marga, marga mánuði til þess að létta á fyrir ríkissjóðnum.

Einnig vildi ég vekja athygli á því og það hefur ekki komið fram í neinni ræðu hér, að við stöndum í gífurlegum fjárfestingaráformum vegna málmblendiverksmiðju og fyrir flugvöllinn o. fl. og þar er allt reiknað í dollurum. Við erum með þessu móti að gera þetta mjög miklu ódýrara fyrir hinn aðilann. Það má velta vöngum yfir því hvort sé skynsamlegt og æskilegt að hafa ekki þarna einhvern fyrirvara á um þessa hreyfingu. En það virðist ekki hafa verið gert.

Það hefur ekkert komið fram af hálfu hæstv. ríkisstj. hvernig rekstur togaranna verði tryggður áfram, ekki með neinu einasta einföldu dæmi á einn eða annan veg. Ég sé ekki að hann velti áfram við eðlilegar aðstæður, þótt aflinn verði góður eftir þessa gengisfellingu, af því að uppbygging við kaup þessara skipa var gerð með svo miklum erlendum lánum að endar nást ekki saman. Það er búið núna á 6 mánaða tímabili að hækka skuldir á þessum skipum á sjöunda milljarð, svo að það er ekkert smárekstrarálag sem kemur fram við þessa gengisbreytingu hjá togurunum. Hins vegar verður þetta mun léttara gagnvart bátaflotanum þar sem þar hvílir mjög lítið á af erlendum skuldum. Enn kemur þetta því afar misjafnt niður.

Frv., sem eiga að fylgja í kjölfar þessarar gengisbreytingar, verða kannske um beinar eignatilfærslur eins og verið hefur og þá bara í ögn stærri stíl á milli einstakra þátta sjávarútvegsins. Þá getur vel verið, það það sé eðlilegt að hætta við gengisbreytingarnar og færa einfaldlega á milli vasanna þar, vera ekkert að standa í því að skapa hér verðbólguhreyfingu og alls konar „spekúlasjónir“ með því að breyta genginu. Það er miklu einfaldara að færa innbyrðis á milli atvinnugreinarinnar, sem heitir sjávarútvegur. En með sama hætti mætti þá fara að færa innbyrðis á milli verslunarinnar, góður heildsali tæki á sig 5 eða 10% skatt handa lélega heildsalanum — og sama í iðnaðinum. En þá fer nú einhver að kveina og kvarta.

Ég held að það liggi orðið nokkuð ljóst fyrir að gengisfelling, þrátt fyrir það að menn hafi æðioft gripið til hennar, er algert neyðarúrræði, og eins og fram hefur komið, bæði í minni ræðu og hjá öðrum, þá leysir hún ein út af fyrir sig ekki vandamálin. Hún skapar mörg vandamál í kjölfar sitt og þess vegna koma fram margvísleg frv. eða þurfa að koma fram. En við vitum ekkert um hvað hæstv. ríkisstj. áformar í þessu efni. Meðan það ríkir er ekki hægt annað en vera á móti þessum vinnubrögðum, og ég tek fram í nál. mínu á þskj.. 297, að við í Alþfl. munum greiða atkv. gegn frv. þar sem hér er ekki lögð fram nein heildarstefna til úrlausnar á þeim vanda sem við eigum við að etja. Þó að þetta frv. sé tæknilegs eðlis í sjálfu sér, þá er ekki hægt að fallast á þessi vinnubrögð og því legg ég til að frv. verði fellt.