24.02.1975
Neðri deild: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Ólafsson:

Hv. forseti. Ég hafði í gær farið þess á leit við hv. deildarforseta að fá að taka hér til máls utan dagskrár og komið í því sambandi á framfæri við hæstv. sjútvrh. ákveðinni skriflegri spurningu. Mín spurning til hæstv. ráðh. lýtur að sama máli og hv. þm., sem hér var að ljúka máli sinu, minntist á og er á þessa leið :

Hvaða ráðstafanir hyggst ríkisstj. gera til að koma í veg fyrir þá stöðvun línuútgerðar á Vestfjörðum sem yfir vofir nú í vikunni, svo sem fram hefur komið í fréttum fjölmiðla síðustu daga?

Ég vil leyfa mér að fara örfáum orðum um það alvarlega mál, sem hér er rætt um. Það er staðreynd að af afla línubátanna vestfirsku hefur steinbítur verið um 80% síðustu daga og fer vaxandi að hluta til, en hlutur annars afla að sama skapi minnkandi dag frá degi. Þegar vetrarvertíð hófst um áramót var verð á steinbít óslægðum kr. 16.85 kg. Sjómenn, sem þá réðu sig í skiprúm, höfðu enga ástæðu til að ætla að fiskverð færi lækkandi í krónum talið, enda raunin orðið sú nú þegar fiskverð frá 1. jan. hefur loks verið ákveðið fyrir fáum dögum að almennt er um að ræða nokkra hækkun, sem mun láta nærri að sé 15–17% að jafnaði. Hvað hinsvegar steinbítinn, sem nú er uppistaða í bátaafla vestfirðinga, varðar, þá er um að ræða lækkun sem nemur hvorki meira né minna en 37% að krónutölu mánuðina jan. og febr.

Á undanförnum árum hefur það jafnan verið svo, að sama steinbítsverð hefur gilt frá áramótum til vertíðarloka. Þessi lækkun fyrir tíma sem liðinn er og til 1, mars kemur því sem algert reiðarslag yfir sjómenn á þessum bátum. Hafa að mínu viti engin gild rök verið færð fyrir því að nú er allt í einu breytt til og verð á steinbítnum stórkostlega lækkað sérstaklega fyrir jan. og febr.

Yfirnefnd Verðlagsráðs segir í Morgunblaðinu á laugardag að nokkrum hluta steinbítsaflans sé fleygt því að hann sé ekki mannamatur. Það kann að vera eitthvað til í þessu varðandi steinbítsafla af togurum sem veiða á djúpmiðum. En hvað snertir bátaaflann á línuveiðum fær þetta ekki staðist, þar er um að ræða steinbít sem veiddur er á grunnmiðum og búinn er að hrygna og farinn að fitna og þar er yfirleitt um ágæta vöru að ræða. Ég hef hér í höndum vegna ummæla Verðlagsráðs eða yfirnefndarinnar, skeyti frá fiskmatsmanni á Vestfjörðum þar sem segir: „Allur steinbítur, sem hefur verið landað hér af línubátum í jan. og febr., hefur verið metinn hæfur til vinnslu. — Friðjón Guðmundsson, fiskmatsmaður.“

Þetta er staðfest skeyti frá Súgandafirði og stangast algerlega á við túlkun yfirnefndar Verðlagsráðs.

Það er talað um 2.5% af bátaafla á Vestfjörðum í jan. og febr. 1972 og 1973 hafi verið steinbítur. Þarna hljóta togararnir að vera taldir með því að þetta er miklu meira en af línubátum. Og það er staðreynd að síðustu dagana hefur verið um að ræða ekki 2.5%, heldur 80% af steinbít. Ef litið er á hvers vænta má varðandi febr. í heild, þá má búast við að steinbítur nemi yfir 50% í heildarafla línubátanna, því að hlutur steinbítsins fer nú vaxandi dag frá degi. Frystihúsin hafa tekið við steinbitnum óhindrað og engum dottið í hug að orða að steinbítur mætti ekki vera nema 5% af afla úr hverri veiðiferð, eins og ákvæði er um í reglugerð nokkurri sem ekki hefur verið virt.

Kauptrygging hjá hásetum á línubátum á Vestfjörðum mun nú vera 62208 kr. Miðað við að aflinn sé steinbítur þarf línubátur nú að fiska hvorki meira né minna en 200 tonn á mánuði til að hafa fyrir tryggingu. Þess skal getið að í janúar var hæsti línubátur á Vestfjörðum með milli 170 og 180 tonn yfir mánuðinn og má það heita mjög góður afli. Af þessu sést að línusjómenn á Vestfjörðum eru með núgildandi verðlagsákvörðun dæmdir til að hafa nánast enga möguleika á að fiska fyrir meiru en tryggingu þrátt fyrir hörðustu sjósókn og mikinn afla.

En hugsum okkur engu að síður að einhverjum bátnum tækist að ná á land einhverjum afla umfram kauptrygginguna. Þá lítur dæmið þannig út að úr 10 tonna steinbítsróðri átti hásetinn að fá í hlut 4 901 kr. samkvæmt því verði sem gilti fyrir áramót, en hins vegar 3 084 kr. skv. núgildandi verði. Er þetta kauplækkun í krónutölu sem nemur 37%. Þarna er miðað við að skipshöfn fái í sinn hlut 32 % og sé skipt í 11 staði eins og almennt mun vera.

Steinbítsverðið nú í febr. er kr. 10.60 á kg. skv. ákvörðun Verðlagsráðs. Þetta verð var fyrir einu ári kr. 15.15 og það var fyrir tveim árum, í febr. 1973, kr. 12.45. Kaup sjómanna hefur þannig lækkað um 15% frá því sem það var fyrir tveimur árum, um 15% í krónutölu, og á sama tíma hefur framfærsluvísitala í landinu, þ.e. allt almennt verðlag, hins vegar meira en tvöfaldast eða hækkað um 103%. Ég tel að þetta sé ekki hægt að bjóða upp á gagnvart vestfirskum sjómönnum.

Sú verðákvörðun, sem nú er í gildi, er greinilega við það miðuð að línuútgerð á Vestfjörðum leggist hreinlega niður, enda mun svo fara eins og nú horfir og það þegar í þessari viku, ef ekki verður að gert. Ég vil vænta þess, að ríkisstj. grípi til skjótra aðgerða og komi í veg fyrir að svo fari.