24.02.1975
Neðri deild: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Ólafsson:

Ég vil þakka hæstv, ráðh. svörin við fyrirspurn minni. Ég vil vekja athygli á því, að það, sem athyglisvert kom fram í máli hæstv. ráðh., var að fiskvinnslustöðvarnar á Vestfjörðum mundu greiða fyrir steinbitinn það verð sem greitt var fyrir áramót, þrátt fyrir það að lágmarksverð ákveðið af Verðlagsráði væri þetta miklu lægra. Þessari yfirlýsingu ber út af fyrir sig að fagna. En krafa sjómannanna er um að borgað verði það verð sem ákveðið var frá 1. mans, 18.60 kr. á kg. Ég vil hins vegar taka það fram, að það er auðvitað ekki nokkur afsökun fyrir ákvörðun Verðlagsráðs að fiskvinnslustöðvarnar skuli vilja gera þetta, því að ef slíkt ætti að gilda, þá mætti segja sem svo, að það skipti engu máli hvaða ákvörðun Verðlagsráð tæki, fiskverðið væri einfaldlega á frjálsum markaði.

Hæstv. ráðh. hrakti ekkert af þeim útreikningum sem ég fór með hér áðan, þó að hann hefði orð um að hann hefði möguleika á því. Hann gat um uppbótina á línufiskinn. Mér var fullkunnugt um hana. En samanburðurinn sem ég gerði milli áranna 1973 og 1975, var miðaður við verð án þessarar uppbótar og þess vegna réttur. Þarna mundi koma örlítið önnur útkoma ef uppbótin á línufiskinn væri tekin með, en það breytir engu um eðli málsins.

Ég vil einnig vekja athygli á því til að minna á hve kjör vestfirskra línusjómanna hafa versnað verulega, að jafnvel þó að greitt væri það verð fyrir steinbítsafla sem á að gilda frá 1. mars, þá er samt ekki um að ræða nema 50% hækkun í krónutölu frá því sem var fyrir tveim árum, úr kr. 12.45 og upp í kr. 18.60. Það er rétt í kringum 50%. En á sama tíma hefur framfærsluvísitalan hækkað um yfir 100%. Og þetta segir okkur hvað þessir sjómenn, sem línuveiðar á Vestfjörðum stunda, hafa orðið fyrir mikilli almennri kjaraskerðingu og hversu fráleitt það var, einmitt ekki síst af þeim ástæðum, að skerða kjörin enn frekar og það jafnhrikalega og gert var með ákvörðun um steinbítsverð í janúar og febrúar.

Hæstv. ráðh. fór hér með tölur um það, hvað steinbítur hefði verið mikill hluti í afla í janúar og febrúar þetta og þetta árið á liðnum tíma. Ég ætla ekki að vefengja þær út af fyrir sig. Þetta er mjög breytilegt. En það er staðreynd, sem ég hygg að hvorki hæstv. ráðh. né aðrir, sem kynna sér málið, mótmæli, að nú í febrúarmánuði, þ.e. þessa daga sem eru að líða er steinbíturinn 80% af aflanum, fyllilega það. Því hefur ekki heldur verið hér mótmælt, og svo geta menn hugleitt hvað þarna sé að gerast varðandi kjör sjómanna og hafi verið að gerast og hvort uppsagnir þeirra frá störfum hafi ekki verið fyllilega á rökum reistar og reyndar eina eðlilega viðbragðið af þeirra hálfu sem hægt var að grípa til.