24.02.1975
Neðri deild: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

21. mál, trúfélög

Frsm. (Ellert B Schram):

Hæstvirti forseti. Allshn. Nd. hefur haft þetta frv. til meðferðar og sent það til umsagnar nokkurra aðila, einkum þó sértrúarsafnaða, sem starfandi eru hér á landi. Það er skemmst frá því að segja, að umsagnir hafa ekki borist utan ein eða tvær og þær hafa verið á þá leið, að þeir aðilar væru meðmæltir samþykkt þessa frv. eins og það lægi fyrir.

Óþarfi er að rekja efni þessa frv. ítarlega, það hefur verið gert í framsögu hæstv. kirkjumrh. Það kom fram, eins og reyndar í grg. frv., að löggjöf um þessi efni, um söfnuði utan þjóðkirkjumanna, væri ófullnægjandi og væri tímabært að setja skýrari reglur þar að lútandi. Einkum hefur það ýtt á eftir þessu máli að nokkrar umr. hafa verið um stöðu utankirkjumanna í þjóðfélaginu á undanförnum missirum og sýnst sitt hverjum. N. hefur komist að þeirri niðurstöðu að mæla með samþykkt frv., en Kjartan Ólafsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins.