24.02.1975
Neðri deild: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1847 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

156. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. 1. flm. þessa frv. er Jón Baldvin Hannibalsson. Þar eð hann hefur vikið af þingi mun ég sem meðflm. hans fylgja málinu úr hlaði.

Frv. fjallar um tvær breyt. á l. um stéttarfélög og vinnudeilur. Þessi löggjöf, sem er hin mikilsverðasta, er nú senn 40 ára gömul. Hún hefur stórfellda þýðingu vegna þess að á henni byggist kjarabarátta hinna vinnandi stétta í landinu, en framvinda þeirrar kjarabaráttu hefur að sjálfsögðu veigamikil áhrif á efnahag landsins.

Enda þótt lögin séu tekin að eldast, er ekki svo að skort hafi hugmyndir um breyt. á þeim en þessi lög eru a.m.k. verkalýðshreyfingunni ákaflega viðkvæm, og hefur ávallt farið svo að hugmyndir um breytingar hafa runnið út í sandinn. Að þessu sinni er þó ekki gerð till. um að breyta neinum af hinum veigameiri atriðum sem snerta vinnudeilur, verkföll eða annað slíkt, sem mest hefur verið um deilt, heldur er aðeins gert ráð fyrir tveim breyt. er varða stöðu trúnaðarmanna á vinnustöðum.

Á síðari árum hefur í mjög vaxandi mæli verið talað um efnahagslegt lýðræði, og hefur þar verið átt við að vinnandi fólk ætti að fá aukna hlutdeild í stjórn þeirra fyrirtækja sem það starfar hjá og aukin áhrif á það hvernig vinnustaðir og vinnutilhögun eru. Þá komu fram um þetta margar till. hér á Alþ., og í nágrannalöndum okkar hafa verið stigin allstór skref í áttina til þessa atvinnulýðræðis. Þegar það mál er nánar athugað kemur í ljós, að atvinnulýðræði byggist að verulegu leyti á því, að fyrir hendi sé vel þróað kerfi trúnaðarmanna á öllum helstu vinnustöðum. Reynslan er sú í nágrannalöndum, að slíkt trúnaðarmannakerfi er ekki aðeins uppistaða verkalýðshreyfingarinnar, heldur líka nauðsynlegt grundvallaratriði áður en hægt er að gera atvinnulýðræði í einu eða öðru formi að veruleika. Trúnaðarmannakerfið er að ýmsu leyti skóli og uppeldismiðstöð fyrir vinnandi fólk. Þeir, sem taka að sér störf trúnaðarmanna, hljóta margvíslega þjálfun. Þeir kynnast vinnustöðunum, fyrirtækjunum, svo og samverkafólki sínu, óskum þess og kröfum, betur en aðrir. Úr þessum hóp hafa oft komið menn sem reynast efni í forustumenn fyrir samtökum launastéttanna. Störf trúnaðarmannanna eru því ekki aðeins mikilvæg fyrir vinnustaðina sjálfa, fyrir atvinnurekendur, sem hafa megináhuga á því að vinnan gangi snurðulítið, og síðast, en ekki síst fyrir vinnandi fólk sjálft, sem þarf að eiga einhverjar opnar leiðir til þess að koma á framfæri óskum sínum og umkvörtunum ef einhverjar eru.

Ef lítið er á þetta tvennt, hvaða þýðingu trúnaðarmannakerfið hefur fyrir verkalýðshreyfinguna og það er þjóðarnauðsyn að verkalýðshreyfing öðlist hæfa og góða forustumenn og einnig hvaða þýðingu trúnaðarmannakerfið hefur í sambandi við hugsanlega uppbyggingu á atvinnulýðræði, þá er eðlilegt að í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur séu skýr og ítarleg ákvæði um þetta atriði. Það frv., sem hér er til umr., gerir ráð fyrir því að ákvæðunum um trúnaðarmannakerfið verði breytt, þau gerð ítarlegri og fullkomnari, en verði ekki eins almenns eðlis og eins lauslega orðuð og þau eru í 10. gr. hinna tæplega fertugu laga.

Mál þetta hefur verið rætt nú undanfarið innan verkalýðshreyfingarinnar í fræðsluhópum og á fundum og hafa þar mjög almennt komið fram skoðanir í þá átt, að nauðsynlegt sé að byggja upp sterkari kerfi trúnaðarmanna á vinnustöðum en hér hafa verið til þessa. Er þá ekkert eðlilegra en að löggjöfin komi þar á undan og mæli svo fyrir sem nauðsynlegt verður talið til þess að trúnaðarmannakerfin geti farið batnandi og eins fljótt og unnt er uppfyllt þau skilyrði, sem nauðsynleg eru.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa fleiri orð um þetta frv. á þessu stigi, en legg til að því verði að lokinni umr. vísað til 2 umr. og hv. félmn.