25.02.1975
Efri deild: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Jón Árnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Þetta frv. sem hér er til umr., það má segja að það sé efnislega að mestu leyti samhljóða þeim lögum sem í gildi hafa verið síðan 28. febr. s.l. og ganga úr gildi nú um næstu mánaðamót. Menn virðast vera á eitt sáttir um að framlengja söluskattsstig sem hefur verið til þess að standa undir kostnaði við þá niðurgreiðslu sem átt hefur sér stað á olíuverðinu á þessu tímabili. En nokkuð skiptar skoðanir virðast vera um það, hvort eigi að nota fjármagnið til þess að auka niðurgreiðslurnar eða hvort ákvæðið í e-lið, sem má segja að sé nýmæli, að gjaldið renni að einhverju leyti til Orkusjóðs til jarðhitarannsókna og hitaveituframkvæmda, eigi einnig að eiga sér stað.

Hv. þm. Ragnar Arnalds vék að því áðan og sagði í þessu sambandi, að ríkisstj. ætlaði að næla sér í nokkur hundruð millj. kr. til verklegra framkvæmda og í þessu tilfelli til aukinnar orkuöflunar. Ég held að þessi c-liður eigi fullan rétt á sér, og ég held, að það sé fátt sem komi þeim sem eiga við mestan vanda að búa í sambandi við upphitun íbúða sinna að meira gagni en að það sé hægt að flýta orkuframkvæmdum sem mest, þannig að sem flestar íbúðir geti verið tengdar annaðhvort jarðvarma eða þá fá raforku til upphitunar. Ég þykist viss um það og hef reyndar heyrt á mönnum, að þeir telja að það væri e.t.v. réttara að það væri meiri þáttur í þeim tekjum, sem hér eru til ráðstöfunar, sem ætti að verja til Orkusjóðs til jarðhitarannsókna og hitaveituframkvæmda, því að með því að verja stærri upphæð í því skyni, þá segir það sig sjálft, að þá miðar meir og fljótar áfram að virkja til upphitunar, hvort heldur er í sambandi við rafmagn eða jarðhita.

Í þessu tilfelli er því haldið fram, að það sé eðlilegra að afla tekna á annan hátt en í sambandi við þetta 1% söluskattsstig, sem hér er um að ræða. Um það geta að sjálfsögðu verið skiptar skoðanir. En ég tel, að þetta sé eitt af því sem við eigum að leggja megináherslu á, þ.e. að afla fjár til þess að hagnýtingu innlendrar orku verði sem fyrst komið á í þessu skyni. En það er fleira en aukin orka sem þarf í því sambandi, og jafnvel þó að það sé fyrir hendi á sumum stöðum í landinu nægileg raforka sem mætti selja og nota til upphitunar íbúðarhúsnæðis, þá vantar víða mikið á að dreifiveiturnar, sem fyrir hendi eru, séu færar um að taka við þeim orkuflutningi sem á þarf að halda. Þess vegna er það líka mál út af fyrir sig, sem þarf að hraða og hraða endurbótum á, lagning dreifilína, ekki aðeins í dreifbýlinu, heldur og í þéttbýliskjörnum þar sem völ er á raforku. Mér er kunnugt um það, að á sumum stöðum er ekki hægt að fá raforku til upphitunar í dag, enda þótt raforka sé fyrir hendi, vegna þess að dreifiveiturnar, sem fyrir hendi eru, eða innanbæjarkerfin bera ekki þann raforkuflutning sem á þarf að halda í því sambandi.

Það er eitt, þó að það hafi lítið komið fram enn í þessum umræðum, sem hefur verið nokkuð deilt um og mér er kunnugt um að hafa komið fram athugasemdir um, sérstaklega frá sveitarfélögunum víðs vegar úti á landi, og það er framkvæmdin á þessari niðurgreiðslu. Það er almenn kvörtun yfir því að þetta sé bæði dýrt og ekki réttlát framkvæmd í sambandi við þann styrk sem um er að ræða, eins og hún hefur verið á s.l. ári og gert er ráð fyrir að haldi áfram samkv. frv. sem hér liggur fyrir. Það eru margir sammála um það, að á þessu séu ýmsir gallar, og hefur verið talað um að greiða olíuna niður á svipaðan hátt og átt hefur sér stað um olíuna sem fer til bátanna. Það kann vel að vera að það sé rétt. Það hefur verið bent á að það séu ýmsir meinbaugir þar á. En það kann að vera, að sé til líka þriðja leiðin, og ég vil beina því til þeirrar n., sem fær nú þetta mál til meðferðar, að hún athugi sérstaklega hvort ekki er hægt að hafa einhvern annan heppilegri hátt á í sambandi við þann styrk, sem kemur til með að verða veittur, eða ráðstöfun á því fjármagni, sem hér um ræðir, heldur en þetta frv. gerir ráð fyrir.

Það hafa verið færð fyrir því rök af sveitarfélögunum, að hér sé um allt of kostnaðarsama framkvæmd að ræða, mikla fyrirhöfn og mikið starf sem í því liggur að koma þessum aurum til þeirra sem eiga að njóta þeirra. Einnig hefur verið á það bent, að í sumum tilfellum hefur þetta verið þannig, að einstaka aðilar hafa jafnvel fengið það mikið í sinn hlut, að þar hefur ekki verið um það að ræða að það sé styrkur til að færa niður olíukostnaðinn, því að það munu dæmi til þess að í einstaka tilfellum að styrkurinn hafi numið það hárri upphæð að hann hafi nægt til að borga allan olíukostnaðinn. Vissulega er það út af fyrir sig líka galli á þessu kerfi, þegar er hægt að vitna til þess að slíkt hafi átt sér stað.

Ég vil sem sagt beina því til n., hvort hún vilji ekki endurskoða eða athuga þá hlið sem veit að framkvæmdinni á þessu máli og athuga gaumgæfilega hvort það er þá ekki um einhverja enn aðra leið að ræða, ef þessar leiðir eru báðar erfiðar, bæði sú leið, sem frv. gerir ráð fyrir og eins hin leiðin, sem margir hafa bent á, að greiða hreinlega niður olíuverðið, hvort það er þá ekki hægt að fara einhverja þriðju leið í þessum efnum og það verði þá athugað gaumgæfilega í meðferð málsins hjá nefndinni.