25.02.1975
Neðri deild: 46. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Virðulegi forseti. Frv. því till., sem hér er lagt fram, er ætlað að mæta tvenns konar vanda: annars vegar að afla fjár til að standa straum af endurreisninni í Neskaupstað í kjölfar snjóflóðanna þar og hins vegar að afla Viðlagasjóði viðbótartekna, svo að sjóðurinn geti komist sómasamlega frá verkefnum sinum vegna eldgossins í Vestmannaeyjum. Mun ég greina nánar frá hvoru tveggja.

Föstudaginn 20. des. 1974. laust fyrir kl. 14, féll mikið snjóflóð á athafnasvæði Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað. Um stundarfjórðungi síðar féll annað snjóflóð litlu utar á ströndinni. Hinar hörmulegu afleiðingar þessara atburða eru öllum landsmönnum enn í fersku minni. Auk mannslífanna, sem aldrei verða bætt, urðu norðfirðingar fyrir gífurlegu eignatjóni. Með bréfi forsrh. til Viðlagasjóðs, dags. 30. des. 1974, fól ríkisstj. sjóðnum til bráðabirgða að koma fram gagnvart yfirvöldum í Neskaupstað. Verkefni Viðlagasjóðs var m.a. í því fólgið að gera úttekt á tjóninu og bæta það, að svo miklu leyti sem það kæmi í hlut annarra en venjulegra bótagreiðsluaðila. Verkfræðingar og matsmenn sjóðsins hafa nú áætlað útgjöld sjóðsins af þessu verkefni og telja þau nema 500 millj. kr. Af þeirri upphæð eru 135 millj. kr. vegna fasteignatjóns, en 225 millj. vegna tjóns á vélum, tækjum og lausafé. Er þá miðað við að síldarverksmiðja sé ekki endurreist á sama stað og að fallist verði á, að bæta yfirgefin verðmæti. Hafa verður einnig í huga að mikil óvissa ríkti um ástand véla í rústum síldarverksmiðjunnar er áætlunin var gerð, en hún er lögð fram hér sem fskj. nr. 1. Í áætluninni kemur einnig fram að kostnaður við björgun og hreinsun muni nema 50 millj. kr., aðrar bætur en áður gat 40 millj. kr. og annar kostnaður og ýmislegt ófyrirséð 50 millj. kr. Varðandi þessa áætlun vil ég taka fram, að hér er ekki um endanlega áætlun að ræða og því geta þessar tölur vitaskuld breyst, en því miður eru litlar líkur til að um lægri bótafjárhæðir verði að ræða, heldur fremur líklegt að til hækkunar komi.

Í frv. því, sem hér er mælt með, felst ákvörðun um víkkun á hlutverki Viðlagasjóðs er samkv. gildandi lögum takmarkast við eldgosið í Vestmannaeyjum og afleiðingar þess. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að stofna til bráðabirgða sérstaka deild við Viðlagasjóð með sjálfstæðum fjárhag vegna verkefnanna í Norðfirði. Ráðgert er hins vegar að leggja síðar fram frv. að varanlegri löggjöf fyrir Viðlagasjóð, þar sem sjóðurinn verði gerður að fastri stofnun er hafi yfir að ráða fjármunum og sérþekkingu til að veita skjóta og öfluga aðstoð ef meiri háttar vanda ber að höndum vegna náttúruhamfara eða annarra ófyrirsjáanlegra atvika sem tryggingar ná ekki til. Starfar nú n. á vegum trmrn. sem kannar þetta mál, og mun hún fljótlega skila áliti.

Hlutverk Norðfjarðardeildar Viðlagasjóðs er í frv. þessu þríbætt: Í fyrsta lagi að bæta tjón af völdum snjóflóðanna í Norðfirði. Í öðru lagi að greiða kostnað við björgun verðmæta og hreinsun rústa og athafnasvæða. Í þriðja lagi að stuðla að endurbyggingu atvinnufyrirtækja, sem eyðilögðust eða skemmdust í snjóflóðunum. Í frv. er skýrt tekið fram, að stjórn Viðlagasjóðs skuli við framkvæmd þessara laga hafa náið samband við bæjarstjórn Neskaupstaðar og aðra opinbera aðila sem um málefni norðfirðinga fjalla.

Stærsta einstaka tjónið í Neskaupstað er eyðilegging síldarverksmiðjunnar, Er endurbygging hennar nauðsynleg, en ekki er unnt að gera ráð fyrir að bætur fyrir gömlu verksmiðjuna nægi fyrir byggingarkostnaði nýrrar. Til þess að fjármagna þennan mismun gerir 6. gr. frv. ráð fyrir að ríkisstj. geti í samráði við Síldarverksmiðjur ríkisins selt Síldarvinnslunni í Norðfirði með hagkvæmum kjörum vélar og tæki sem fyrirsjáanlega er ekki þörf fyrir á næstunni. Auk þess gera menn sér vonir um að Byggðasjóður og Atvinnuleysistryggingasjóður hjálpi verulega til að fjármagna þennan mismun.

Áætluð útgjöld Viðlagasjóðs vegna snjóflóðanna í Norðfirði eru 500 millj. kr. sem fyrr greinir. Frv. þetta gerir ráð fyrir að sjóðnum verði aflað tekna til að standa straum af þessum útgjöldum með álagningu viðlagagjalds á söluskattstofn. Hinn 28. febr. n.k. fellur úr gildi viðlagagjald á söluskattsstofn, sem innheimt hefur verið síðan 1. mars 1973. Gjald þetta var upphaflega 2% af söluskattsstofni, sem kunnugt er, en 1% frá 1. mars 1974. Var þá hinu prósentustiginu varið til niðurgreiðslu á olíu. Í frv. þessu er nú ráðgert að framlengja viðlagagjald og leggja 2% á söluskattsstofn á tímabilinu frá 1. mars 1975 til 31. des. 1975.

Samkv. áætlunum þeim, sem frv. fylgja, er talið að tekjur Viðlagasjóðs af þessum tveimur prósentustigum í 10 mánuði verði 1 600 millj. kr. Eftir að áætlanirnar voru gerðar hefur gengisbreyting verið framkvæmd, og miðað við hana er nú áætlað að þessi upphæð gæti e.t.v. orðið eitthvað hærri eða jafnvel um 1 700 millj. kr.

Tekjurnar skiptast á deildir sjóðsins í hlutfalli við áætlaða fjárþörf og renna 32% til Norðfjarðardeildar, en 88% til Vestmannaeyjadeildar.

Sú regla gildir sem fyrr, að hækkun á útsöluverði vöru og þjónustu, sem hlýst af viðlagagjaldi á söluskatt, veldur ekki hækkun á kaupgreiðsluvísítölu.

Enn skortir Viðlagasjóð fé til að geta komist frá verkefnum sínum vegna eldgossins í Vestmannaeyjum og afleiðingum þess. Áætlun sú um tekjur og gjöld Viðlagasjóðs, sem hér er lögð fram sem fskj. nr. 2, sýnir að yfirdráttarskuld sjóðsins við Seðlabankann mun aukast enn á þessu ári og mun nema 1 600 millj. kr. í árslok ef ekki koma til nýir tekjustofnar. Samkvæmt þessu mun staðan við Seðlabankann því versna um 65 millj. kr. á árinu 1975 eingöngu vegna tjónanna í Vestmannaeyjum og er þarna e.t.v. ekki allt fram tekið sem nauðsynlegt er, þ.e.a.s. hærri upphæð til tekjubóta, svo að dæmi sé nefnt.

Hinn gífurlegi hallarekstur Viðlagasjóðs undanfarin 2 ár, sem fjármagnaður hefur verið með útstreymi úr Seðlabankanum, er einn frumþáttur þeirrar peningaþenslu og verðbólgu, sem einkennt hefur tímabilið. Þessa þróun verður tafarlaust að stöðva og snúa við.

Hlutur Vestmannaeyjadeildar sjóðsins af 2% viðlagagjaldi í 10 mánuði er áætlaður 1100 millj. kr. og er sú fjárhæð talin duga til að koma fjármálum Viðdagasjóðs á réttan kjöl. Skuld sjóðsins hjá Seðlabankanum í árslok 1975 verður þá um 55% lægri en að óbreyttum tekjustofnum eða 740 millj. kr. í staðinn fyrir 1600 millj. kr. Óinnheimtar eru þá um 220 millj. kr. af tekjum sjóðsins af álögðu viðlagagjaldi, sem berast honum á fyrstu tveimur mánuðum ársins 1976.

Í upphafi árs 1976 eru eignir Vestmannaeyjadeildar sjóðsins taldar munu vera 2125 millj. kr. að meðtöldum 220 millj. kr. af óinnheimtum tekjum af viðlagagjaldi. Eftirstöðvar af ógreiddum skuldbindingum eru þá taldar 555 millj. kr., en hætt er við að sú upphæð geti hækkað verulega vegna óútkljáðra bótakrafna sem m.a. er fjallað um fyrir dómstólunum. Hafa verður hugfast, að ógreiddar skuldbindingar í lok þessa árs eru fyrst og fremst bætur til Vestmannaeyjakaupstaðar og verður greiðslum að mestu eða öllu lokið á árinu 1976. Á hinn bóginn er stærsti eignaliðurinn skuldabréf vegna sölu innfluttra húsa, og fæst andvirði þeirra ekki greitt nema á löngu árabili og síðustu greiðslur af skuldabréfum verða ekki inntar af hendi fyrr en eftir 25 ár. Annar stærsti liðurinn er skuldabréfalán til sveitarfélaga, en þau eru almennt til 5 ára.

Af þessu má ráða, að beinn samanburður á eftirstöðvum eigna og skulda gefur ranga mynd af fjárhagsstöðu sjóðsins. Ljóst er hins vegar að endanlega, þegar skuld sjóðsins hjá Seðlabankanum hefur verið greidd, sem verður væntanlega ekki fyrr en á árinu 1978, þá verða skuldlausar eignir sjóðsins, einkum í verðbréfum, nokkrar. Gætu hær orðið hluti höfuðstóls varanlegs viðlagasjóðs.

Ég vil láta það koma hér fram við 1. umr. þessa máls, að snjóflóð hafa fallið viðar á landinu, og þar sem svo háttar til að tjón vegna þeirra fæst ekki bætt með venjulegum tryggingum, þá er eðlilegt að slík tjón verði bætt með sama hætti og gert er hér ráð fyrir, hvort sem það verður gert með greiðslum úr Viðlagasjóði eða með greiðslum úr Bjargráðasjóði. Hvora tveggja þessara leiða þarf að íhuga við afgreiðslu þessa frv., og treysti ég því að n. sú, sem fær frv. til meðferðar, taki til athugunar hvor leiðin sé heppilegri, en í því sambandi er rétt að ítreka, að n. hefur nú til meðferðar, eins og ég gat um, hvernig unnt er að koma við tryggingum þegar tjóa verða eins og þau er hér um ræðir.

Þá vildi ég láta það koma fram við þessa umr. um ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs, þar sem gert er ráð fyrir 1 prósentustigshækkun á söluskatti, að vitaskuld er þetta neyðarúrræði, en þó nauðsynlegt til þess að standa undir þeim skuldbindingum, sem allur þingheimur hefur tekist á hendur vegna Vestmannaeyjaeldgossins og snjóflóðanna í Neskaupstað.

Það er nú í dag til 1. umr. frv. til l. um olíuniðurgreiðslu sem gerir ráð fyrir að 1% söluskattsstigi sé áfram varið til þess að létta upphitunarkostnað þeirra íbúða sem byggja upphitunina á olíu, enn fremur að nokkur hluti þeirrar tekjuöflunar verði til staðar, svo að unnt sé að flýta þeim orkuframkvæmdum sem fyrirhugaðar eru. Hér er vissulega um það að ræða, að almenningur í landinu tekur á sig bagga vegna óvæntra náttúruhamfara og tjóns sem af þeim leiddi.

Það er ekki óeðlilegt, að inn í umr. um þetta mál blandist að einhverju leyti þær efnahagsráðstafanir sem ríkisstj. hefur verið að gera og mun standa að. Ég vil því láta það koma hér fram, að þær ráðstafanir, sem ókomnar eru, eru fyrst og fremst þær sem hér skal frá sagt.

Það er í fyrsta lagi ákvörðun launajöfnunarbóta. Ekki er útlit fyrir að aðilar vinnumarkaðarins geti komið sér saman um bráðabirgðasamkomulag í þeim efnum, og ríkisstj. hefur skuldbundið sig til að taka launajöfnunarbætur til endurskoðunar þegar framfærsluvísitalan væri orðin hærri en 358 stig. Þar sem hún er nú 375 stig mun ríkisstj. gera ráðstafanir til að frv. það, sem er til meðferðar í Ed. Alþ., til staðfestingar á brbl. frá s.l. hausti um ákvörðun launajöfnunarbóta verði tekið til afgreiðslu og þar verði kveðið á um, hvernig þær launajöfnunarbætur skuli hækka með tilvísun til annars vegar að mínu áliti þeirrar hækkunar, sem orðið hefur á framfærsluvísitölu frá 358 í 375, og hins vegar tel ég eðlilegt að tillit sé tekið til þeirrar söluskattshækkunar, eins stigs, sem hér er gerð til l. um, þannig að hún verði bætt þeim lægst launuðu í þjóðfélaginu og hlutdeild í söluskattsstiginu komi þess vegna á aðra þjóðfélagsþegna en þá sem verst eru staddir.

Í öðru lagi eru í undirbúningi ákveðnar till., sem samráð verður haft um við aðila vinnumarkaðarins og hefur verið haft við þá, um tekjuskattslækkun. Er það vilji ríkisstj., að sú tekjuskattslækkun verði einkum þeim til góða sem á lægri tekjubilum eru.

Í þriðja lagi verða svo hér til meðferðar, væntanlega bráðlega, ráðstafanir til þess að leysa úr tekjuskiptingarvandamáli innan sjávarútvegsins, þ.e.a.s. milli vinnslu og veiða.

Í fjórða lagi mun Alþ. fá til meðferðar till. um samdrátt í útgjöldum og útgjaldaáformum ríkisins, sem væntanlega munu nema a.m.k. 2 500 –3 700 millj. kr., en það er nauðsynlegt vegna fjárhagsstöðu ríkissjóðs sjálfs, svo að annað sé ekki þar með tekið.

Í fimmta lagi er ríkisstj. svo að vinna að ákvörðunartöku varðandi aðhald og samdrátt í útgjaldaáformum fjárfestingarlánasjóða, er samræmist útgjaldaáformum ríkisins, og því, að náð verði viðunandi viðskiptajöfnuði og greiðslustöðu gagnvart útlöndum.

Allar þessar ráðstafanir, sem þegar hefur verið gerð grein fyrir og ég hef nú minnst á, miðast við það í fyrsta lagi að full atvinna haldist í landinu, í öðru lagi að bætt verði úr gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins og í þriðja lagi að kjaraskerðing sú, sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir, komi sem minnst við þá sem lægstar hafa tekjurnar.

Ég vonast svo til þess, að hv. þdm. greiði fyrir afgreiðslu þessa máls, og legg til, að frv. yrði vísað til 2. umr. og fjh: og viðskn.