25.02.1975
Neðri deild: 46. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (1507)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst víkja að því, að ég harma að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa haft samráð við stjórnarandstöðuna um tekjuöflun til þess að standa við þau loforð, sem gefin hafa verið um stuðning víð norðfirðinga vegna þeirra tjóna sem þar urðu í snjóflóðunum. Ég hafði satt að segja gert ráð fyrir því í framhaldi af því, sem hæstv. forsrh. hafði rætt við okkur um, að það yrði haldið þannig á þessu máli, eins og áður hafði verið gert í sambandi við Vestmannaeyjamálið, að reynt yrði að hafa sem nánast samráð við alla þingflokka varðandi flutning málsins, bæði gerð þess frv., sem hér hefur verið lagt fram, og eins um tekjuöflun. En þetta hefur ekki verið gert, og ég harma að ríkisstj. skuli hafa staðið þannig að málinu.

Á hinn tel ég, að engin vafi leiki, að það hvílir á Alþ. sú skylda að sjá til þess að mögulegt verði að standa við þau fyrirheit sem gefin hafa verið þeim sem hafa orðið fyrir tjóninu á Norðfirði. Ég er á þeirri skoðun, að það hefði veríð æskilegt að reyna að afla fjár í þessu skyni með öðrum hætti en hér er lagt til, en geri mér fulla grein fyrir því, að í þessu tilfelli, alveg eins og átti sér stað í sambandi við fjáröflun vegna Vestmannaeyjavandans á sínum tíma, gátu komið fram mismunandi skoðanir um hvernig fjárins ætti að afla, og þá varð það að ráða úrslitum að samkomulag næðist, þannig að hægt yrði að standa við það sem heitið hafði verið.

Ég mun fyrir mitt leyti styðja þá fjáröflun, sem stungið er upp á í þessu frv., ef ekki tekst í þeirri n., sem fjallar um málið, að ná samkomulagi um aðra fjáröflun sem ég tel að hefði verið miklu hagkvæmari og eðlilegri, eins og nú standa sakir. Í Neskaupstað er sýnilega, miðað við þá áætlun sem gerð er grein fyrir í þessu frv., ekki gert ráð fyrir að bæta það tjón, sem þar hefur orðið, nema að litlu leyti, sennilega talsvert mikið undir hálfu því tjóni sem þar hefur orðið. Hér er því ekki um þá fjárhæð að ræða, að ekki hefði verið hægt að afla fjárins án þess að þurfa að fara þá leið að bæta við nýju söluskattsstigi. Ég verð að segja það, að ég lýsi líka yfir vonbrigðum mínum yfir því, ef þessi verður raunin í framkvæmdinni, að þessar bætur verði ekki meiri en þarna er um að ræða, miðað við það tjón sem orðið hefur. En ég vil líka ganga út frá því, að þar verði farið eftir alveg hlíðstæðum reglum og miðað hefur verið við um bæturnar í Vestmannaeyjum, og þó að hér liggi fyrir lausleg áætlum um þetta tjón, þá verði vitanlega ekki bundið sig við þessa áætlun, heldur farið eftir því sem fram kemur að tjónið muni verða metið á.

Hér er frv. á ferðinni sem fjallar ekki einvörðungu um tekjuöflun til þess að bæta mönnum það tjón sem hefur orðið í Neskaupstað, heldur er þar einnig um að ræða viðbótartekjuöflun vegna Vestmannaeyjatjónsins. Það er skoðun mín að það verði ekki undan því vikist heldur að afla viðbótartekna vegna tjónanna í Vestmannaeyjum. Þó að segja megi að staða Viðlagasjóðs sé þannig, að hann eigi raunverulega eignir til þess að standa undir þeim bótum, sem þar er gert, ráð fyrir að falli á sjóðinn, þá er ég á þeirri skoðun að ekki sé hægt að hlaupa þannig frá því vandamáli, að þar verði ekki um auknar tekjur að ræða. Það er sýnilegt að Viðlagasjóður fær ekki inn allar þessar eignir sínar, fær þau verðbréf, sem hann á ekki greidd fyrr en eftir svo langan tíma, að það er ekki hægt að láta vestmannaeyinga bíða eftir því með sitt eðlilega bótauppgjör.

Það má að sjálfsögðu vera, að misjafnar skoðanir séu um hvað eigi að afla Vestmannaeyjadeildinni mikilla nýrra tekna, hvort þörf er á 1100 millj. til viðbótar við það sem orðið var. Ég fyrir mitt leyti geri ekki neitt aðalatriði úr því og mun fallast á að tekjuöflun eigi sér stað fyrir Vestmannaeyjadeildina eins og hér er lagt til, en hefði þó talið æskilegra, eins og nú standa sakir, að draga sem mest úr því að fara þá tekjuöflunarleið, sem lagt er til með þessu frv., en reyna heldur að afla Viðlagasjóði viðbótartekna eftir öðrum leiðum. En ég undirstrika það, að það er meginatriðið, bæði varðandi fjáröflunina fyrir Norðfjarðardeildina og eins Vestmannaeyjadeildina, að samkomulag þarf að fást um að hægt sé að standa við þau fyrirheit, sem gefin hafa verið. Ef hæstv. ríkisstj. getur ekki fallist á aðra leið en þá, sem hér er lögð til, þá verður það að vera niðurstaðan og þá mun ég styðja frv., en tek það skýrt fram, að ég tel að æskilegra hefði verið að afla teknanna með öðrum hætti og tel að það væri hægt. En væntanlega -gefst tími til þess í þeirri n., sem kemur til með að fjalla um frv., athuga það nokkru nánar, hvort samkomulag gæti tekist um aðra fjáröflun að einhverju leyti a.m.k.

Ég tel, að þegar slík óhöpp skella á eins og urðu í Vestmannaeyjum og í Neskaupsstað, þá sé það eðlilegt, að þjóðarheildin taki að sér að greiða slík tjón, fyrst þau fást ekki bætt annars staðar frá, og þá tel ég að það sé fullkomlega eðlilegt að fjár til þeirra sé aflað á þann hátt, að allir leggi þar fram sinn eðlilega hlut, svo að ég skorast ekki undan því fyrir mitt leyti að standa að því að afla þessara tekna.

Hæstv. forsrh. minntist í sambandi við þetta frv. á fyrirhugaðar ráðstafanir ríkisstj. almennt í efnahagsmálum. Ég tel ekki eðlilegt að ræða þær í samhengi við það frv., sem hér liggur fyrir, og mun því ekki gera það nema að mjög litlu leyti. Ég álít að það sé ekki þörf á því að blanda þessum málum saman á einn eða neinn hátt og það sé óæskilegt, þó að það hefði vissulega komið til mála að mínum dómi, að þegar um það er að ræða að lækka áætluð útgjöld ríkissjóðs frá nýlega samþykktum fjárl. um 2500 millj. eða jafnvel 3 700 millj., sem hér voru nefndar, þá hefði vissulega komið til greina að af þessari fjárhæð hefði verið varið t.d. til Norðfjarðardeildarinnar í sambandi við þær bætur, sem lofað hefur verið, þeim 500 millj., sem nú er gert ráð fyrir að þangað kunni að renna. En ég sem sagt geymi mér að ræða um þessi atriði, sem hæstv. forsrh. minntist hér á, sem eru varðandi almennar efnahagsráðstafanir, að öðru leyti en því, að hann minntist hér einnig á frv., sem lagt hefur verið fram í Ed., um áframhaldandi niðurgreiðslu á olíuverði til húshitunar. Þá vil ég aðeins taka það fram, þó að það frv. sé ekki komið hingað, að ég tel að allar tekjurnar, sem til falla af því söluskattsprósentustigi sem hefur runnið og átti að renna til verðlækkunar á olíu til húsakyndingar, — allar þær tekjur eigi áfram að renna til þess að lækka þann gífurlega kostnaðarauka, sem orðið hefur hjá þeim sem verða að kynda íbúðarhús sín með olíu og það eigi ekki að klípa þar neitt af, eins og gert er ráð fyrir í frv. ríkisstj. nú og fara að taka hluta af þeim tekjum, sem þannig höfðu verið markaðar í þessu skyni, og ráðstafa í annað. Ég er algerlega mótfallinn því og tel, að það sé síst ástæða að draga úr þeim stuðningi sem verið hefur til þeirra, sem hafa þurft að hita upp íbúðarhús sin með olíukyndingu. En það kemur að því að það frv. komi til þessarar d., og gefst þá tækifæri til þess að ræða um það.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar. Ég er í þeirri n., sem kemur til með að fjalla um þetta frv. Ég er samþykkur efni frv. og vil sjá um að hægt verði að standa við þau fyrirheit gagnvart bæði vestmanneyingum og norðfirðingum, sem gefin hafa verið.