25.02.1975
Neðri deild: 46. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Þegar hið mikla tjón varð af jarðeldunum í Vestmannaeyjum voru það viðbrögð allra, að þar yrði þjóðarheildin að hlaupa undir bagga og rétta hlut þess byggðarlags, sem orðið hafði fyrir þyngri búsifjum en nokkurt annað byggðarlag á landinu í manna minnum. Þess var líka skammt að biða að ráðstafanir væru gerðar til þess að þjóðarbúið rétti þar hlut þeirra sem fyrir skaðanum höfðu orðið. Um þetta var enginn ágreiningur og er enginn ágreiningur, hvorki hér á Alþ. né meðal almennings, svo að mér sé kunnugt. En að sjálfsögðu var það og er áfram álitamál, hvernig rísa skuli undir þeim kostnaði sem þarna fellur á íslenska þjóðarbúið, á íslenska ríkið. Það var athugað í öndverðu hvaða leiðir væru vænlegastar. Ofan á varð að afla fjár til bóta vegna tjónsins í Eyjum með hækkuðum neysluskatti. En þá þegar hefðu menn getað gert sér ljóst, að eftir fordæmið frá Vestmannaeyjum er ekki á öðru stætt en önnur byggðarlög sem fyrir svipuðum hremmingum verða, fái einnig svipaða aðstoð, og því hefði verið vert að leiða hugann að því hversu búa skuli sig undir að rísa undir svipuðum vanda. því fagna ég því sérstaklega, að frá því er skýrt í aths. við 1. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir, að ætlunin er að leggja síðar fram frv. að varanlegri löggjöf fyrir Viðlagasjóð. Ég vil segja það sem mína skoðun og ég held skoðun okkar í Samtökunum sameiginlega, að sú leið, sem þar komi helst til greina, sé skyldutrygging mannvirkja um land allt fyrir stórkostlegum náttúruhamförum, sem venjulegar tryggingar ná ekki til, atvikum eins og jarðeldum, snjóflóðum, vatnsflóðum, fárviðrum og öðru slíku. Ég held að það sé sú leið, sem fyrst ætti að koma til athugunar, hvort og hvernig slíkum varúðarráðstöfunum, slíku heildartryggingakerfi við náttúruhamförum og tjóni af þeirra völdum verði við komið.

Þegar síðast var fjallað hér á Alþ. um fjáröflun til Viðlagasjóðs vegna Vestmannaeyja varð niðurstaðan að tekjustofn Viðlagasjóðs skyldi vera eitt söluskattsstig. Þá þegar mátti vera ljóst og var öllum ljóst að þessi fjárhæð mundi ekki nægja til að mæta kröfunum sem Viðlagasjóður þurfti að standa undir. Þetta hefur líka komið á daginn. Myndast hefur verulegur skuldahali við Seðlabankann með þeim afleiðingum, sem sjá mátti fyrir, að þetta lán Seðlabankans til Viðlagasjóðs hefur aukið á þenslu í landinu. Það var líka viðbúið að það kæmi að skuldadögum, að þessa lántöku hjá Seðlabankanum þyrfti að jafna. Síðasti ræðumaður hefur lýst því hvernig stjóra Viðlagasjóðs taldi síðla á síðasta ári að unnt væri að gera hvort tveggja í senn, rísa undir nauðsynlegum útgjöldum og lækka mjög yfirdráttinn hjá Seðlabanka með framlengingu þess söluskattsstigs sem Viðlagasjóður hefur notið. En síðan hefur það gerst, að til hefur komið stórfellt tjón í Neskaupstað af snjóflóðinu sem þar féll. Það verkefni, sem að Alþ. snýr, er nú að kveða á um hversu fjár skuli aflað til þessara tveggja staða, til eftirhreytanna að jarðeldatjóninu í Vestmannaeyjum og til snjóflóðstjónsins í Neskaupstað.

Við athugun á því frv., sem hér er lagt fram, grg. og fylgiskjölum, kemur í ljós að viðlagasjóðsgjaldið, sem gilt hefur, 1 söluskattsstig, nægir til að standa undir hinum fyrirsjáanlegu tjónabótum bæði í Vestmannaeyjum og í Neskaupstað, en hér er lagt til að við sé bætt öðru söluskattsstigi, og það söluskattsstig á næstum einvörðungu að ganga til þess að færa niður skuldina við Seðlabankann. Ég skal ekki draga úr þörfinni á því að það bráðabirgðalán sé jafnað og dregið úr þeim óheppilegu áhrifum sem sú fjármögnun Viðlagasjóðs hefur haft á fjármálaástand í landinu. En ég get ekki fallist á að eina leiðin til þess sé að leggja á nýtt söluskattsstig í því ástandi sem nú ríkir. Hafi það verið torvelt að hækka neysluskattheimtu um eitt stig á þeim tíma þegar ákvörðun var um það tekin að það skyldi Víðlagasjóður láta sér nægja, og þar með í rauninni ákvörðun um þá bráðabirgðafjármögnun sem lent hefur á Seðlabankanum, þá er það að mínum dómi margfalt erfiðara nú, svo erfitt að ég fyrir mitt leyti og við í Samtökunum teljum það ógerlegt. Ég hirði ekki að rekja fyrir hv. þm. þær breytingar, sem orðið hafa á þeim tíma sem liðinn er milli þess að Alþ. fjallar um þessi tvö mál, en ég held að þeir hljóti allir að geta samþ. það, að þær hníga einvörðungu á þá hlið að ný neysluskattheimta er margfalt varhugaverðari nú heldur en hún var þegar síðast var um fjáröflun til Viðlagasjóðs fjallað.

Ég tel að það hefði frekar átt að kanna aðrar leiðir til þess að jafna skuld Viðlagasjóðs við Seðlabankann. Ég vil nefna tvær. Við í Samtökunum höfum tekið þá afstöðu þegar um það er að ræða að leggja á annaðhvort neyslugjöld, sem falla af mjög svipuðum þunga á allan landslýð, eða leggja á gjöld, sem fer eftir efnum og ástæðum hvar lenda, þá teljum víð að fara eigi síðari leiðina og höfum þá gjarnan bent á skyldusparnað af þeim tekjum sem teljast í hærri flokkum. Ég tel, að í þessu tilviki hefði gjarnan mátt skoða þessa leið, og benti á, að það er síður en svo að Viðlagasjóður hafi efnt til skuldar við Seðlabankann sem ekkert standi fyrir. Þvert á móti þykir fyrirsjáanlegt og kemur fram í þeim plöggum, sem hér liggja fyrir, að Viðlagasjóður á og mun eignast eignir sem nema nokkurn veginn Seðlabankaskuldinni, þótt þær komi ekki inn sem reiðufé nema á nokkuð löngum tíma.

Önnur leið, sem að minni hyggju hefði einnig verið affarasælli en þessi, er að breyta bráðabirgðaskuldinni í Seðlabankanum í lengra lán hjá viðskiptabönkunum. Það ættu allir að sjá, að það hefur allt önnur áhrif í hagkerfinu í heild, hvort Seðlabankinn hleypur undir bagga með fjármögnun með þeim hætti, sem hér hefur orðið, eða hvort sú fjármögnun lendir á viðskiptabönkunum ásamt öðrum þörfum sem þeir þurfa að sinna. Og það ber að sama brunni með þessa leið og hina fyrri, sem ég nefndi, að fyrir þessu láni hefði að meginhluta getað staðið sú eign sem fyrirsjáanlegt er að Viðlagasjóður mun ráða yfir. Þar að auki hefði komið til , að svo miklu leyti sem þetta hrökk ekki til, væntanleg sjóðsmyndun af því almenna tryggingakerfi, þeim nýja varanlega Viðlagasjóði, sem fyrirhugaður er og ég hef lítillega lýst hvernig ég tel að réttast væri fyrir komið.

Þá vil ég lítillega víkja að einu atriði, sem fram kemur í fskj. með þessu frv. Þar segir í fskj. 1. að áætlun sé miðuð við að síldarverksmiðjan á Norðfirði sé ekki endurreist á sama stað og að fallast verði á að bæta yfirgefin verðmæti. Þessi verðmæti munu vera æðimikil, grunnur rammgerður með öllum leiðslum, þrær og e.t.v. fleira; svo að þarna er um mikil verðmæti að ræða. Mér er spurn: Hefur það verið athugað gaumgæfilega hver tök eru á að koma við snjóflóðavörnum á þeim stað þar sem síldarbræðslan stendur nú? Athygli manna á Íslandi hlýtur mjög að beinast að því, hvort við getum ekki lært af öðrum þjóðum, sem búa við jafnvel enn meiri snjóflóðahættu en við og reisa þó byggingar sínar og mannvirki á stöðum þar sem tvímælalaust er snjóflóðahætta, en búa mannvirkin þannig úr garði, að talið er að þeim sé ekki stórfelld hætta búin af snjóflóðum. Auðvitað mundu slík mannvirki kosta verulegt fé, en það er líka mikill kostnaður í því fólginn að yfirgefa það sem nýtanlegt er enn af mannvirkjum síldarverksmiðjunnar, og ég vil gjarnan varpa þessari spurningu fram.