25.02.1975
Neðri deild: 46. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr., en sökum þess að mér fannst hv. 9. þm. Reykv. flytja hér nokkuð óvenjulega ræðu get ég ekki stillt mig um að segja hér nokkur orð.

Þessi ræða hv. þm. var óvenjuleg að því leyti að hér er verið að ræða nokkuð óvenjulegt málefni. Hér er verið að ræða um að bæta tjón sem hefur orðið vegna náttúruhamfara og tjón sem allir eru sammála um að verði bætt. En í stað þess að ræða um það mál sérstaklega eða hvernig það skyldi gert, þá flutti hv. ræðumaður hér eins konar eldhúsdagsræðu og fór alla leið tíu ár aftur í tímann, bæði til að hæla sér og sínum mönnum og til að bera sakir á aðra. Ég mundi sjá ástæðu til þess að ræða þetta efni nokkru nánar við hv. þm. ef hann væri ekki farinn af fundi, en mér finnst eigi að síður rétt að gera nokkrar aths. við það sem hann sagði. Hann getur þá lesið það í þingtíðindunum og ég vona að þegar hann les það í ró og næði beri það enn betri árangur en ef hann hefði hlustað á það hér.

Hv. þm. byrjaði á að bera mikið lof á úrræði viðreisnarstjórnarinnar á árunum 1967–1968. Vegna þess að ég er gamall kunningi hv. þm. vil ég nú gefa honum það ráð að minnast sem allra minnst á þessi úrræði. Þessi úrræði höfðu m.a. þær afleiðingar, að á þessum árum, samkv. skýrslum alþjóðastofnunar, setti Ísland heimsmet bæði í verkföllum og atvinnuleysi á þessum tíma. Við skulum þess vegna vona að slíkir tímar komi ekki aftur og slíkum úrræðum verði ekki aftur beitt.

Þá komst hv. þm. að þeirri niðurstöðu að stjórnin, viðreisnarstjórnin, hefði með þessum úrræðum sigrast á erfiðleikunum. Þetta er mikill misskilningur. Ástæðan til þess að við komumst út úr þessum erfiðleikum var ekki sú að úrræði stjórnarinnar hefðu komið að haldi, heldur var hún sú, að viðskiptakjörin fóru batnandi og bötnuðu stöðugt á árunum 1969, 1970 og 1971, og það var höfuðorsök þess að ástandið batnaði. Það var batnandi viðskiptakjörum að þakka, en ekki því að úrræði stjórnarinnar hefðu reynst rétt.

Þá fór hv. þm. að ræða um stjórnartíma vinstri stjórnarinnar, og hann komst að þeirri niðurstöðu að á þeim tíma hefði hér verið mikil veisla, stórkostleg veisla og hann fór mörgum orðum um það hve mikil þessi veisla hefði verið. En hver var afstaða hv. þm. sjálfs til þessarar veislu? Var hann eitthvað mótfallinn veislunni? Vildi hann draga úr henni? Eða vildi hann jafnvel auka veislufagnaðinn? Ég held, að ef menn rifji upp afstöðu hv. þm. þá hér á þingi, þá verði niðurstaðan sú að hann vildi ekki draga úr veislunni, hann vildi auka veislufagnaðinn. Ég minnist þess að á þessum þingum flutti hann fjölmargar till. um útgjaldahækkanir. Ég minnist þess einu sinni við fjárlagaafgreiðslu, að þá flutti hann einsamall till. um að hækka útgjöld fjárlaga um 300 millj. kr. Ég held, að ef það hefði verið farið eftir þeim till. sem hann og hans flokkur fylgdu þá í sambandi við afgreiðslu fjárl., þá hefði veislan orðið miklu meiri en hún í raun og veru varð. Gerðist það kannske á þessum tíma að Alþfl. beitti sér fyrir því að draga úr kauphækkunum og kaupkröfum eða að draga úr verðhækkunum og kröfum þeirra aðila sem sóttu um verðhækkanir? Ég held að þvert á móti hafi reyndin verið sú að Alþfl. hafi á þessum tíma stutt svo að segja allar þessar kröfur, þannig að ef hann hefði fengið að ráða og þeir sem honum fylgdu þá að málum, þá hefði veislan orðið miklu meiri og veislufagnaðurinn miklu meiri en hann raunverulega varð.

Þá vék hv. þm. máli sínu að því að það hefði verið hér sukk og óreiða þegar vinstri stjórnin lét af völdum. Mér finnst rétt að rifja upp í tilefni af því, að staða þjóðarbúsins og staða atvinnuveganna hefur sennilega aldrei verið betri en í árslok 1973. Gjaldeyrissjóðurinn var aldrei stærri en þá, atvinnuvegirnir höfðu stórgrætt á árinu 1973, t.d. bæði sjávarútvegurinn og hraðfrystihúsin, og sama gilti í raun um allar aðrar atvinnugreinar, þannig að afkoma atvinnuveganna var sjaldan betri um langt skeið heldur en hún var einmitt í árslok 1973. Og þá er að minnast þess að á þessum árum átti sér stað alveg stórkostleg atvinnuuppbygging. Má þar fyrst og fremst benda á hinn nýja skipastól og endurbættu frystihúsin sem koma okkur að stórkostlegu gagni nú. Staðan var þess vegna góð hjá vinstri stjórninni í árslok 1973. En það gerðist síðustu mánuði ársins 1973 og ágerðist svo meira og meira á árinu 1974, að viðskiptakjörin fórn síversnandi. Það er orsök þeirra erfiðleika sem glimt er nú við. Þessir erfiðleikar stafa ekki af því að vinstri stjórnin hafi stjórnað rangt eða að núv. stjórn hafi farið rangt að. Erfiðleikarnir hafa aukist af ástæðum sem við ráðum ekki víð nema að litlu leyti.

Ég skal ekki eyða tímanum í að fara lengra út í þessa sögu, en mér finnst rétt að láta þessi atriði koma fram í tilefni af þeirri ræðu sem hv. 9. þm. Reykv. flutti hér áðan.

Þá var þessi hv. þm. að tala heilmikið um sparnað. Ég heyrði nú samt ekki að hann væri með nema eina sparnaðartill. Mér skildist að hún væri sú að leggja niður búnaðarþing. Þessi till. hv. þm. lýsir einu sinni enn furðulegri fáfræði hans á landbúnaðarmálum. Þeir, sem þekkja til sögu íslensks landbúnaðar, vita að það hefur enginn aðili átt meiri þátt í framförum landbúnaðarins en búnaðarfélagsskapurinn. Svo að segja allar þær framfarir, sem hafa átt sér stað í landbúnaði, rekja að meira eða minna leyti rætur sínar til búnaðarfélagsskaparins. Og búnaðarþingið er höfuðaðilinn í þessum samtökum, í búnaðarfélagsskapnum. Það er alveg tvímælalaust að í gegnum árin hefur búnaðarþingið haft alveg geysimikil áhrif í þá átt að hvetja bændur til aukinna framfara og koma á framfæri auknum upplýsingum um alls konar nýjungar sem horfa til bóta í landbúnaðinum. Ég held þess vegna að Alþ. gæti gert fátt sem væri óráðlegra heldur en að leggja þessa stofnun niður. Það er kannske annað sem er álíka sambærilegt, það væri að leggja niður Fiskifélagið og fiskiþing, því að þessir aðilar hafa áorkað stórkostlega miklu á sviði þeirra framfara sem hafa orðið í sjávarútveginum og fiskiðnaðinum. En þessi till. hv. þm. sýnir enn á ný, hve gersamlega ófróður hann er um landbúnaðarmál og þess vegna furðulegt að hann skuli hvað eftir annað vera að leyfa sér að tala um þau.

Ég ætla svo ekki að gera ræðu hv. þm. að frekara umtalsefni að sinni, vegna þess að hann er líka fjarverandi og það mun e.t.v. gefast tækifæri til þess að ræða við hann nánar um þessi mál síðar hér á Alþ.

En í sambandi við það frv. sem hér liggur fyrir, vil ég taka undir það sem hv. 2. þm. Austf. sagði, að það hefði vissulega verið æskilegt ef það hefði verið hægt að finna einhverja aðra tekjuöflun heldur en þá sem þetta frv. gerir ráð fyrir. En það hefur orðið niðurstaðan hjá núv. hæstv. ríkisstj. eins og vinstri stjórninni þegar hún var að leita eftir tekjuöflun á þessu sviði, að þá komst hún ekki að annarri niðurstöðu en þeirri, að þrátt fyrir allt yrði að hækka söluskattinn í þessu skyni. Í samræmi við það lagði vinstri stjórnin það til á síðasta þingi að vegna Viðlagasjóðs yrði framlengt að leggja á 2% söluskatt. Því miður fékkst ekki samþykkt þá vegna afstöðu stjórnarandstöðunnar nema 1%. Af þeim ástæðum er staða Viðlagasjóðs eins erfið í dag og raun ber vitni. Ef hefði verið fallist á till. vinstri stjórnarinnar hér í fyrra um að leggja á 2% söluskatt í þessu skyni, þá væri staða Viðlagasjóðs nú allt önnur og þá hefðum við getað lækkað þessar álögur nú um 1 % í staðinn fyrir að þurfa að bæta 1% við. Það var þess vegna mjög óheppilegt að þetta skyldi gerast á síðasta þingi. En um það þýðir ekki að tala. Við verðum að horfast í augu við ástandið eins og það er í dag. Ég tek samt undir það með hv. 2. þm. Austf., að ég hefði kosið að það hefði tekist að finna aðra tekjuöflun, sem ég hefði talið æskilegri, en fyrst ekki næst samkomulag um aðra tekjuöflun en þessa, þá styð ég þetta mál og mun vinna að framgangi þess í þeirri n. sem fær málið til meðferðar, en þar á ég sæti.