25.02.1975
Neðri deild: 46. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það var aðallega í tilefni af því sem kom fram hjá hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni í hans ræðu, sem ég kvaddi mér hljóðs, en hv. þm. hefur nú vikið úr þingsalnum og það er ekki gaman að ræða við hann á þann hátt. Hann sprettur hér upp í ræðustólinn, heldur hávaðasamar ræður og beinir gjarnan máli sínu að einstökum mönnum en þykist svo góður þegar bann hefur sloppið út úr salnum og þýtur í burtu. En ég ætla samt sem áður, þótt hann sé hér ekki nærstaddur, að gera örfáar aths. við það sem hann sagði. Ég leiði þó algerlega hjá mér að ræða við hann almennt um efnahagsmálin, af því að ég sagði það hér í ræðu minni að ég teldi eðlilegt að ræða það frv., sem hér lægi fyrir, um fjáröflun til Viðlagasjóðs vegna tveggja meiri háttar tjóna sem við höfum orðið fyrir, Vestmannaeyjatjónsins og Norðfjarðartjónsins, en ég mundi hins vegar geyma mér alla aðstöðu til þess að ræða við ríkisstj. og aðra um efnahagsmálin almennt. Ég er því ekki að elta ólar á neinn hátt við allar þær fjarstæður sem hv. þm. sagði hér varðandi þau mál. En það var sú afstaða sem kom fram hjá honum varðandi fjáröflun til að bæta tjónið í Neskaupstað, það var sérstaklega afstaða hans í þeim efnum sem ég tel ástæðu til þess að víkja nokkuð að.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sagði í ræðu sinni að hann og Alþfl. hefðu verið alveg ásáttir um það að styðja till. Viðlagasjóðs frá því í des. s.l. um að framlengja eitt söluskattsstig áfram í eitt ár eða í 12 mánuði vegna Vestmannaeyjatjónsins. Samkv. áætlun er gert ráð fyrir því að framlengja eitt söluskattsstig í eitt ár eða 12 mánuði, það muni færa sjóðnum í tekjur rúmlega 1 000 millj. kr. eins og nú er komið, þó líklega 1100 millj. kr. miðað við það verðlag sem nú verður að reikna með. Samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að Vestmannaeyjadeild Viðlagasjóðs eigi einmitt að fá áfram á þessu ári um 1 100 millj. kr. vegna þess að það á ekki að innheimta þetta söluskattsstig, sem hér er um að ræða, nema til ársloka eða í 10 mánuði á þessu ári, en áður hafði verið rætt um framlengingu í 12 mánuði. Það er því alveg ljóst af því sem hv. þm. sagði, bæði beint og óbeint, að það stendur ekki á neinn hátt á honum að samþykkja þá beiðni sem fyrir liggur um tekjuöflun handa Viðlagasjóði vegna Vestmannaeyjatjónsins og vegna stöðu Viðlagasjóðs eins og hún er nú gagnvart Seðlabankanum. Þar er enginn ágreiningur á ferðinni.

Hins vegar er í þessu frv. einnig gert ráð fyrir því að afla, eins og þar segir, um 500 millj. kr. til þess að hægt sé að standa við lofaðar bætur til manna og fyrirtækja í Neskaupstað vegna snjóflóðanna þar. Ég sagði í ræðu minni þegar ég ræddi fyrr um þetta mál, að ég hefði talið æskilegra að miðað við núverandi kringumstæður hefðu verið valdar aðrar leiðir til tekjuöflunar, bæði vegna tjónanna í Neskaupstað og eins í sambandi við Viðlagasjóð almennt. Ég benti á að það mætti athuga það í n. hvort ekki næðist samkomulag um að fara aðrar tekjuöflunarleiðir, en bætti við, að ég teldi mér og öðrum hér á Alþ. skylt að sjá um að fjár yrði aflað til þess að standa við þau fyrirheit sem gefin hafa verið. Í þessum efnum stöndum við nákvæmlega eins og við stóðum á sínum tíma þegar um fjáröflunina til Viðlagasjóðs var að ræða fyrir Vestmannaeyjar í upphafi. Allir flokkar á Alþ. lýstu því þá yfir að þeir vildu standa við fyrirheitin til vestmanneyinga og afla tekna í Viðlagasjóð, en menn voru með misjafnar skoðanir um það hvernig teknanna ætti að afla. Þá voru uppi till. um að afla tekna í Viðlagasjóð vegna tjónanna í Vestmannaeyjum með því að verja 1/3 af svonefndu aðstöðugjaldi til sjóðsins og sú leið var farin í eitt ár. Þá voru uppi till. um að Atvinnuleysistryggingasjóður legði nokkurt fé fram og það varð einnig niðurstaðan, að ríkissjóður legði nokkuð fram beint og varð einnig samkomulag um það, og síðan að fara söluskattsleiðina. Þá höfðu menn þá ábyrgðartilfinningu, að menn sögðu — þó að einn vildi fara þá leið í ríkara mæli að láta ríkissjóð leggja beint fram til þess að bæta Vestmannaeyjatjónið, en annar fékkst ekki til að samþykkja það — að þá yrði niðurstaðan að vera sú að samkomulag tækist um málið, því að féð yrði að fást.

Það var einmitt þetta, sem ég sagði í fyrri ræðu minni varðandi bæturnar til Neskaupstaðar. Ég lít svo á að samkomulag verði að fást um að þetta fé verði fyrir hendi. En það er augljóst mál að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason vill ekki taka þátti þessu. Hann segir bara einfaldlega að hann sé á móti þessu. Hann er með einhverri ákveðinni leið sem hann gerði ekki nánar grein fyrir, en er síðan á móti málinu. Mín afstaða er aftur á annan veg. Ég segi: Niðurstaðan verður að verða sú, að fjárins verði aflað svo að hægt sé að standa við gefin fyrirheit. Ég mun beita mér fyrir því í þeirri n., sem fjallar um málið, að aðrar tekjuöflunarleiðir verði farnar. En hinu geri ég mér alveg grein fyrir, að fáist mín leið ekki samþykkt, þá verð ég fremur með þessari leið heldur en að svíkjast undan því að standa við fyrirheit sem gefin hafa verið. Og það hefur ekki ýkjamikil áhrif á míg þó að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hrópi hátt að hér sé — eins og hann sagði — um ómerkilegt kjördæmissjónarmið að ræða eða hreppapólitík. Afstöðu mína þegar ég vil standa við þau fyrirheit sem gefin hafa verið til þess að bæta tjónið í Neskaupstað, kallar þessi hv. þm. ómerkileg kjördæmissjónarmið og hreppapólitísk sjónarmið sem séu á móti hagsmunum verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Þá hafa menn það.

Ég efast ekkert um að þeir eru margir innan verkalýðshreyfingarinnar sem eru svipaðrar skoðunar og ég að það hefði mátt afla tekna til þess að standa við þessi fyrirheit með öðrum hætti en hæstv. ríkisstj. leggur til og það hefði verið hægt að gera margar ráðstafanir í fjármálum á annan veg en hún leggur til, en það breytir ekki um það að ég vil ekki skorast undan að standa við það að hægt verði að bæta það tjón sem lofað hefur veríð að bæta.

Ég heyrði það á hv. þm., að hann gerði sér miklar vonir um að jafnvel Alþb. mundi tapa mikið á þessari afstöðu minni og Alþfl. væntanlega vinna einhver ósköpin á, vegna þessarar afstöðu. Það er hugsanlegt að Alþfl. fari að vinna eitthvað á á Austurlandi hlutfallslega vegna þess að hann er nærri kominn ofan í núll þar, en ekki hef ég mikla trú á því að hann bæti við sig miklu fylgi nokkurs staðar á landinu við að halda fram skoðunum af þeirri gerð sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hélt hér fram í þessum efnum.

Mér er ljóst, að það hefði verið vel hægt að leggja til að Vestmannaeyjadeild Viðlagasjóðs sætti sig við að hafa sinn tekjustofn í gildi nokkru lengur en gert er ráð fyrir í þessu frv. og tæki sínar tekjur inn á lengra tímabili, og það hefði vitanlega orðið til þess að skuld sjóðsins við Seðlabankann hefði þá orðið meiri og í lengri tíma. En ég fyrir mitt leyti treysti mér ekki til þess að neita um framlengingu á tekjum fyrir Viðlagasjóð vegna Vestmannaeyja, hafandi fyrir augunum hvernig á þessum málum hefur verið haldið, því að skuld Viðlagasjóðs við Seðlabankann hefur beinlínis orðið til þess að bitna á vestmanneyingum í framkvæmdinni. Ég tel að við eigum að standa við þau fyrirheit sem þar voru gefin, og mun taka þátt í að afla fjár í því skyni, jafnvel þó að það verði ekki eingöngu farið eftir mínum till. um hvernig fjárins skuli aflað. Ég sætti mig við það.

Þá var eitt annað atriði, sem kom fram í þessum umr., sem mér þykir rétt að víkja hér að. Það var á það minnst að í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir því að ríkisstj. verði heimilt í samráði við Síldarverksmiðjur ríkisins að selja Síldarvinnslunni á Norðfirði vélar og tæki úr þeim verksmiðjum ríkisins, sem ekki eru notaðar, á mjög vægu verði eða a.m.k. með hagstæðum greiðsluskilmálum, eins og segir í þessari grein. Ég vil taka fram í sambandi við þessa gr. að hún er ekki komin inn í frv. á neinn hátt vegna óska þeirra í Neskaupstað, og satt að segja hef ég enga trú á því að þeir kæri sig um að kaupa þær vélar sem hér er um að ræða. Sjálfsagt er að það verði athugað við þá uppbyggingu í verksmiðjunni í Neskaupstað sem er fyrirhuguð, hvort vélar fást hér innanlands sem hæfa. En í sambandi við þá aths. sem hér kom fram varðandi þetta atriði, vil ég að það komi skýrt fram að hér er ekki um að ræða neina ósk frá þeim á Norðfirði, og satt að segja tel ég ekki verulega miklar líkur á því að þessi leið verði farin.

Ég vil svo aðeins endurtaka það, að ég geri mér von um að þegar þetta mál verður tekið til afgreiðslu í fjh: og viðskn., þá verði kannað rækilega hvort ekki getur orðið samkomulag um fjáröflun eftir öðrum leiðum en hér er lagt til. Ég hef margundirstrikað það að ég teldi það heppilegra og eðlilegra og hér sé ekki um slíkan vanda að ræða að það þurfi nauðsynlega að fara þessa leið. En hitt stend ég við, sem ég hef sagt, að ég tel hvíla á mér og öðrum alþm. þá skyldu að sjá um að hægt verði að bæta það tjón sem lofað hefur verið að bæta og að ég mun taka þátt í því að leysa málið með samkomulagi og tryggja það að fé verði fyrir hendi. Þeir, sem skerast þar úr leik hrópandi eitthvað um hreppasjónarmið og flokkspólitíska afstöðu, verða af mér og áreiðanlega mörgum fleiri dæmdir þannig að þeir hafi svikist um að reyna að standa víð þau loforð sem þeir gáfu, enda verður auðvitað sá málflutningur, sem hér kom fram hjá hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, aldrei af neinum túlkaður á annan hátt en þann, að hann hafi löngun til að svíkjast um að standa við það fyrirheit sem hann stóð að því að gefa.