25.02.1975
Neðri deild: 46. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að setja á eldhúsdagstölu eins og hv. 9. þm. Reykv. En í sambandi við það sem fram kom hjá hv. 4. þm. Reykv., Þórarni Þórarinssyni, að vinstri stjórnin hefði ekki stjórnað illa, heldur mætti rekja alla þá óáran, sem við stóðum frammi fyrir er hún gafst upp, til viðskiptakjara út á við, þá hlýt ég að vera mjög á annarri skoðun í þeim efnum. Vinstri stjórnin bauð upp í þann verðbólgudans, sem alla hennar tíð var stiginn æ hraðar, með yfirlýsingum sínum við myndun stjórnarinnar að hún mundi beita sér fyrir 20% kaupmáttaraukningu, styttingu vinnutíma — styttingu vinnutíma sem hún vissi ekki einu sinni hver raunverulegur var í landinu — lengingu orlofs o.s.frv., og síðan, sem hlýtur að vera hægt að rekja til hennar, óstjórn sú sem kom í ljós hinn 26. febr. og dagana þar á undan í samningunum sem verkalýðurinn gerði þá um kaup sín og kjör, þar sem úrslitahöggið reið á það efnahagskerfi sem við þó höfðum búið við og hefði e.t.v. mátt takast að bjarga nokkurn veginn hellu í höfn ef þær ógnir hefðu ekki yfir dunið.

Ég verð að segja í sambandi við fyrri ræðu hv. 2. þm. Austurl., að mér kom á óvart þegar hann harmaði að of lítið samráð hefði verið haft við stjórnarandstöðuna af hálfu hæstv. ríkisstj. Ég þóttist vera þess fullviss og hafa það beint eftir honum, að hæstv. forsrh. hefði einmitt lagt fyrir hann þá aðferð sem hér er lagt til að viðhöfð verði við fjáröflun í því skyni að standa undir þeim áföllum sem orðið hafa í Neskaupstað. Og ég hygg að ég segi ekki frá neinu leyndarmáli þótt ég upplýsi, að það var fyrir margt löngu sem hann tjáði mér — og raunar hæstv. forsrh. líka — að þetta mál hefði verið formlega rætt þeirra í milli um þessa aðferð.

Hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, ræddi hér um .það að hann mundi í n., sem hann á sæti í og þetta mál fær til meðferðar, fitja upp á öðrum aðferðum. Hann gat þess þó ekki, í hverju þær væru fólgnar. Enda þótt það sé ekki geðfellt á þessum tímum að þurfa að leggja á nýja skatta til að mæta þeim miklu áföllum sem þjóðin varð fyrir, fyrst við eldana í Vestmannaeyjum og síðan við hið mikla snjófljóð í Neskaupstað, þá er alveg ljóst, að til þess að við hin gefnu loforð verði staðið um bætur þessa vegna og viðreisn á þessum stöðum er sú aðferð, sem hér er lagt til að viðhöfð verði, nauðsynleg. Og það verður ekki kallað annað en svíkjast undan merkjum þegar hv. 9. þm. Reykv. þenur skeiðið með þeim hætti sem hann gerði hér í þessu máli og notfærir sér það ástand, sem nú er, til þess að leggjast á fjóra fætur fyrir framan verkalýðinn í landinu og telja honum trú um það að hér sé verið að rýra kjör hans umfram nauðsyn.

Ég lít svo á, enda þótt hér liggi fyrir á fskj. 1, áætlun um þær bætur sem þarf að greiða vegna áfallanna í Neskaupstað, 500 millj., þá er það aðeins frumáætlun. Þeir, sem til þekkja, vita að ýmislegt annað kann að koma í ljós sem mundi koma til með að hækka þessa fjárhæð frá því sem þar er.

Ég tek undir það, að mjög ánægjulegt er að gert er ráð fyrir því að þau verðmæti, sem yfirgefin eru, verði bætt. Þar er átt við grunnana, bæði að verksmiðjuhúsi og öðrum húsum sem urðu snjóflóðinu að bráð. Vil ég í því sambandi aðeins ítreka það sem fram hefur komið vegna ræðu hv. 3. landsk. þm., Magnúsar T. Ólafssonar, þar sem hann fitjaði upp á þeim möguleika að varnir yrðu hafðar uppi og e.t.v. mætti þá reisa mannvirkin á sama stað, að úrskurður hefur verið gefinn af hálfu skipulagsyfirvalda ríkisins um það, að þarna á tilteknu svæði allbreiðu yrðu ekki reist mannvirki fyrst um sinn, þannig að fyrir liggur þessi úrskurður. Svo er annað mál, hvort við almennt þurfum ekki að gera ítarlegar rannsóknir á þeim svæðum þar sem snjóflóðahætta er og með hvaða hætti hafa megi uppi fyrirbyggjandi aðgerðir eða framkvæmdir í því efni.

Hv. 4. þm. Norðurl. v. vék að 6. gr. Ég tek undir það með hv. 2 þm. Austurl., að ég álít sáralitlar líkur á því að keypt verði tæki í nýja verksmiðju, sem ráðgert er að reis~a í Neskaupstað, úr mjög gömlum eða eldri verksmiðjum sem kunna að finnast í landinu. Á hitt ber að líta að það kann þó að vera möguleiki á þessu og þess vegna sjálfsagt að hafa þessa heimild í lögum. Ekki getur það skaðað. En fullvíst er það að engin slík tæki verða hrifin burt og flutt til Neskaupstaðar frá þeim stöðum þar sem þau nú eru í notkun og standa undir atvinnulífi eða með einhverjum hætti eru líður eða þættir í atvinnulífi einhverra staða. Hér yrði þá eingöngu um hluti að tefla sem lægju allsendis á lausu til ráðstöfunar.

Aðeins örfá orð til viðbótar við það sem ég sagði um ræðu hv. 9. þm. Reykv. Það var vægast sagt furðuleg ræða og ósmekkleg í hæsta máta, þar sem hann leyfði sér að viðhafa þau orð að hér væri um þröng kjördæmissjónarmið að tefla eða ómerkileg hreppasjónarmið. Ekki minnist ég þess að hafa nokkru sinni heyrt slíkt haft í frammi t.d. við þm. Suðurlands, enda þótt þeir væru búsettir jafnvel í Vestmannaeyjum, þegar þær aðgerðir voru hafðar í frammi, lífsnauðsynlegar, sem gerðar voru með stofnun Viðlagasjóðs og þeirra bóta sem fóru til Vestmannaeyja. Maður á kannske von á því að fá að heyra það, þótt seint sé og nokkuð umliðið, að það hafi ríkt í viðhorfi t.d. hv. 3. þm. Suðurl., Guðlaugs Gíslasonar, eða hv. þm. Garðars Sigurðssonar, o.s.frv., þröng hreppasjónarmið, þegar þeir voru að stuðla að og vinna kappsamlega að því að við yrði brugðist þeim gífurlegu áföllum sem í Vestmannaeyjum urðu. Þetta er auðvitað alls ekki samboðið hv. 9. þm. Reykv., þótt hann telji sér henta nú að viðhafa þau orð sem hann flutti hér í sambandi við þetta mál.

Hann vék að kaupi búnaðarþingsmanna og sagði að um árabil og áraraðir og áratugi hefði viðgengist að þeir fengju kaup. Þessi mikli bændavinur — hann er ekki nýr af nálinni, þessi mikli bændavinur, hvorki hér á hinu háa Alþ. né í ríkisstj., — nú vísar hann til þess að spara megi með því að ræna þá kaupi — menn sem vinna að einhverjum mikilvægasta þætti okkar þjóðmála, — og svo líka að sjálfsögðu menn á fiskiþingi. Þetta var eina sparnaðartill. En hvernig stóð á því að hann beitti sér ekki fyrir því í þau 15 ár sem hann sat í ríkisstj. (Gripið fram í.) Nú jæja, það sýnir með öðru að hv. þm. hefur ráðið mátulega miklu.

Ég vil svo aðeins að lokum færa ríkisstj. þakkir mínar fyrir flutning þessa frv. Ég styð það alfarið eins og það liggur fyrir. Ég ítreka það, að það er ekki nein tilhlökkun að þurfa að leggja nýjar álögur á þjóðina þegar þannig stendur á eins og dæmin sanna nú. En með öðrum hætti verður ekki staðið við þau fyrirheit sem gefin hafa verið. Það kann vel að vera að Viðlagasjóði safnist fé, enda er nú til þess stofnað að hann verði að almennum áfallasjóði, þannig að þótt fé félli til hans umfram það sem brýnasta nauðsyn er til ráðstöfunar nú, þá kemur það í hag þótt síðar verði.