25.02.1975
Neðri deild: 46. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Heimir Hannesson:

Hæstv. forseti. Áður en ég vík að því frv. sem hér liggur fyrir, langar mig að víkja aðeins með örfáum orðum að ræðu hv. 9. þm. Reykv., þó að e.t.v. sé ekki á það bætandi, og vil ég taka undir það sem menn hafa sagt um efni þeirrar ræðu, bæði hv. þm. Lúðvík Jósepsson og hv. þm. Sverrir Hermannsson, að það nær ekki nokkurri átt í slíku alvörumáli sem hér er um að ræða að kalla það mál, sem hér hefur verið lagt fram, þröngt kjördæmissjónarmið. Úr því að hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, fór að ræða efnahagsmál almennt og stjórnarsamvinnu o.fl., þá get ég ekki á mér setið að vitna í hans eigið málgagn í sambandi við almenn efnahagsmál og stjórnmál yfirleitt, áður en ég vík að því aðalumræðuefni sem hér er á dagskrá.

Út var að koma aðalmálgagn Alþfl. utan Reykjavíkur, Alþýðumaðurinn á Akureyri, kom út í síðustu viku, og með leyfi hæstv. forseta hefur stjórnmálaleiðari þess ágæta blaðs eftirfarandi boðskap að flytja:

„Hér skal ekki gert lítið úr efnahagsvanda okkar íslendinga nú. Hann blasir við augum. Og auðvitað ber okkur öllum að snúast við honum með manndómi. En tekst það þegar forustan, ríkisstj., er ráðvillt og sundurþykk? Mistökin við síðustu stjórnarmyndun voru þau að Alþfl. átti að mynda stjórnina með Framsókn og Sjálfstfl. Það var eina leiðin til að sigla fram hjá skerjum metings og afbrýðisemi stóru flokkanna í garð hvors annars, auk þess sem Alþfl. átti á að skipa reyndasta og hæfileikamesta stjórnmálaforingjanum“ — og taki menn nú vel eftir — „reyndasta og hæfileikamesta stjórnmálaforingjanum sem nú situr á Alþ. og flokkurinn fylgir þeirri jöfnunar og miðlunarstefnu, sem alltaf er þörf á, en aldrei meiri en nú.“

Þetta er nú hvorki meira né minna en boðskapur aðalmálgagns Alþfl. utan Reykjavíkur, sem þingflokksform. lagði ekki í að koma á framfæri í síðustu ræðu sinni hér áðan. Í framhaldi af þessu segir stjórnmálaleiðari blaðsins í síðustu viku, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna ráðleysis síns og ósamkomulags á því núverandi ríkisstj. að horfast í augu við staðreyndir og segja af sér. Við höfum bókstaflega ekki ráð á ráðleysissetu hennar lengur. Síðan ætti forseti Íslands að fela formanni þingfl. Alþfl., Gylfa Þ. Gíslasyni, vegna stjórnmálareynslu hans og hæfileika, að mynda nýja ríkisstj. með Framsókn og Sjálfstæði auk Alþfl. Innan allra flokkanna ern ágætlega færir menn til ráðherrastarfa sé forustan fyrir hendi. Við nefnum Benedikt Gröndal sem mennta- og trmrh., Geir Hallgrímsson sem dóms- og utanrrh., Matthías Bjarnason sem heilbr.- og sjútvrh., Þórarinn Þórarinsson sem iðn.- og viðskrh., Vilhjálm Hjálmarsson eða Ásgeir Bjarnason sem landb.- og félmrh., og Gylfi yrði að taka á sig mesta vandann, fjármálín auk forsætisins. Gunnar Thoroddsen væri kjörinn maður í sæti forseta Sþ. sökum kurteisi sinnar, fágaðrar framkomu og sanngirni.“

Ég get ekki látið hjá líða að minna á það, að ég er ekki að lesa upp úr Speglinum, heldur úr aðalmálgagni Alþfl. utan Reykjavíkur sem kemur hér með till. í stjórnmálaleiðara. Ég gat ekki á mér setið að minnast á þetta hér að gefnu tilefni eftir að form. þingfl. Alþfl. hafði fjölyrt hér um efnahagsmál. Læt ég honum um að segja sina skoðun á þessu. En eftir sem áður hefur þessi skoðun komið fram á þetta ábyrgan og óvenjulegan hátt. En sleppum því máli og víkjum aðeins að því máli sem hér er á dagskrá.

Ég vil taka undir með hv. þm. Sverri Hermannssyni og Lúðvík Jósepssyni, og ég vil sérstaklega þakka honum sem stjórnarandstöðumanni fyrir ábyrgð hans í þessu máli og hlýt að vísa því til föðurhúsanna eins og aðrir hafa gert, að hér sé um einhver þröng kjördæmismál að ræða.

Ég vil leggja á það sérstaka áherslu sem hæstv. forsrh. minntist á, og vil bæta við það örfáum orðum, að við megum ekki gleyma því, þó að vissulega hafi orðið gífurlega alvarlegir atburðir í Vestmannaeyjum og Neskaupstað, að þá er því miður við því að búast í okkar harðbýla og erfiða landi, að mjög alvarlegir atburðir eigi sér stað, meiri og minni háttar slys, sem menn taka kannske síður eftir, alvarlegir atburðir sem valda mjög miklum fjárhagslegum erfiðleikum. Mönnum hættir við að gleyma þessu, vegna þess að atburðirnir eru ekki af sömu stærð og í Vestmannaeyjum og Neskaupstað. En ég held að það sé ekkert áhorfsmál, reynslan hlýtur að hafa kennt okkur, að það er ekki verjandi annað en koma á varanlegum viðlagasjóði eða björgunarsjóði sem sé til reiðu fyrir alla þjóðina þegar atburðir gerast þess eðlis að ástæða sé til að hið opinbera grípi fram í. Og ég fagna því að hæstv. forsrh. hefur gefið það til kynna að það sé í athugun að samræma störf Viðlagasjóðs og Bjargráðasjóðs, eins og hv. þm. Tómas Árnason vakti hér athygli á áðan. Ég held að það hljóti að vera viðfangsefni ríkisstj. að beita sér fyrir því að starfsemi þessara sjóða sé sameinuð og komið sé á fót með lagabreytingu varanlegum viðlagasjóði, sem sé reiðubúinn að taka þeim áföllum sem óhjákvæmilega eiga eftir að koma yfir okkar þjóð, þó að vonandi verði það ekki með þeim hörmulegu afleiðingum sem atburðirnir í Vestmannaeyjum og Neskaupstað voru.