26.02.1975
Neðri deild: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

163. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Ellert B. Schram):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga, sem fram kemur á þskj. 301 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við a-lið 3. gr. l. bætist nýr málsliður, svo hljóðandi:

Enn fremur hús, sem eru reist og notuð einvörðungu fyrir viðurkennda tómstundaiðju, sem fram fer á vegum félags- og æskulýðssamtaka eða í tengslum við þau.“

Þetta mál er ekki stórt í sniðum þegar á heildina er litið, en hins vegar nokkuð stórt hagsmunamál fyrir þá sem hér eiga hlut að máli, Eins og fram kemur í grg. er mál þetta flutt fyrst og fremst með fasteignir og hús á vegum hestamannafélaga í huga og er málið reyndar flutt skv. beiðni viðkomandi hestamannafélaga, bæði hér í Reykjavík og annars staðar.

Um langan tíma hafa verið í gildi ákvæði varðandi fasteignaskatta, sem kveða á um undanþágur fyrir ákveðin samtök og málefni, og kemur sú undanþága fram í 5. gr. l. um tekjustofna sveitarfélaga. Þar segir: „Undanþegin fasteignaskatti eru sjúkrahús, kirkjur, skólar, íþróttahús, endurhæfingarstöðvar, barnaheimili, orlofsheimili launþegasamtaka, félagsheimili og samkomuhús, sem ekki eru rekin í ágóðaskyni, öryrkja- og elliheimill og heilsuhæli“ o.s.frv. M.ö.o. undanþága er veitt fyrir fasteignir, sem eru reknar í mannúðarskyni eða í þágu áhugasamtaka, sem ekki hafa ágóða af starfsemi sinni. Þ. á m. eru veittar undanþágur á fasteignaskatti vegna félagsheimila og íþróttahúsa. Löggjafinn hefur með þeim hætti viðurkennt þessa starfsemi og hefur sýnt skilning á því, að hún njóti undanþágu, sjálfsagt með það í huga að íþróttastarfsemi er til styrktar fyrir æskulýðinn og ekki í ágóðaskyni.

Hestamennska hefur átt vaxandi vinsældu.m að fagna, sérstaklega í þéttbýli, að undanförnu en sú tómstundaiðja hefur hins vegar ekki fengið formlega viðurkenningu enn sem íþrótt. Af þessum sökum hafa fasteignir, hesthús og féhagsheimili, sem reist eru á vegum slíkrar tómstundaiðju, ekki notið þeirrar undanþágu sem um getur í 5. gr. nefndra laga. Allir þeir, sem til þekkja, eru þó sammála um að þessi tómstundaiðja, hestamennska, sé fyllilega sambærileg við aðra íþróttastarfsemi enda verður ekki á marga tómstundaiðju betur kosið til að komast í snertingu við náttúruna og til þess að stunda heilbrigt útilíf en einmitt að vera í tengslum við hesta og hestamennsku.

Hestamannafélög og hestamenn hafa gert tilraun til að fá undanþágu eða afslátt frá því að greiða fullan fasteignaskatt, eða 11/2%, en það hefur ekki borið árangur vegna mjög skýrra lagaákvæða þar að lútandi. Hestamenn hafa leitað til viðkomandi sveitarfélaga um niðurfellingu á þessum skatti, en það hefur ekki verið unnt að verða við þeim beiðnum. Enn fremur hefur verið leitað til rn. og stjórnvalda um að breyta reglugerðum, en rn. hefur ekki talið sér fært að breyta reglugerðum vegna, eins og fyrr segir, mjög skýrra lagaákvæða um þetta efni. Af þessum sökum hefur það orðið að ráði, að flutt er hér nú frv., sem gerir ráð fyrir því að fasteignaskattur af slíkum fasteignum verði lækkaður úr 11/2% niður í 1/2 %. Vek ég athygli á því, að ekki er farið fram á algera undanþágu frá fasteignaskatti eins og gildir um sambærilegar fasteignir, t.d. íþróttahús eða félagsheimili, heldur er gert ráð fyrir í þessu frv. að fasteignaskattur af húsum, sem hér um ræðir, verði lækkaður úr 11/2 % niður í 1/2%. Þetta á við um þetta sérstaka málefni, þessa sérstöku tómstundaiðju. En vitaskuld mundu falla undir þetta ákvæði aðrar þær fasteignir, sem reistar yrðu og starfræktar fyrir viðurkennda tómstundaiðju sem fram fer á vegum félags- og æskulýðssamtaka eða í tengslum við þau, þannig að fleiri mundu njóta góðs af samþykkt þessa frv. heldur en einvörðungu hestamannafélög eða hestamenn.

Ég held, að það sé hafið yfir allan vafa, að það er sanngirniskrafa að þetta frv., þessi ósk, sem í því kemur fram, verði viðurkennd, einfaldlega vegna þess að hér er um að ræða starfsemi, iðju, sem telst vera æskileg, er vinsæl og þjóðfélagið vill áreiðanlega stuðla að að sem flestir taki þátt í.

Hestamenn, eins og aðrir áhugamenn í slíkum samtökum, reka ekki starfsemi sína í ágóðaskyni, heldur með eigin tekjuöflun, félagsgjöldum, samskotum og ýmissi annarri tekjuöflun, en hafa ekki haft styrki frá hinu opinbera, hafa ekki verið neinn baggi á ríkissjóði með fjárframlög, og ég tel að svo eigi að vera. Það er æskilegt, að frjáls æskulýðssamtök séu rekin með slíkum hætti, og er ekki gert ráð fyrir því í þessu frv. að út af því sé brugðið. Einfaldlega er farið fram á að þessi útilífsiðja, þessi starfsemi njóti að nokkru leyti sömu fyrirgreiðslu, sömu undanþágu og önnur slík starfsemi.

Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Ég held að það sé auðskilið, að hér er um mál að ræða, sem ekki er stórt í sniðum, en hefur þýðingu fyrir viðkomandi starfsemi og samtök. Það er einlæg von mín að hið háa Alþ. hafi skilning á þessu málefni og sjái sér fært að verða við þessari beiðni með því að samþ. þetta frv.

Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til annaðhvort félmn. eða fjh.- og viðskn, Ég legg það í dóm forseta að úrskurða um það, en legg til, að því verði vísað til nefndar og 2. umr.