26.02.1975
Neðri deild: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

163. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Frv. þetta er flutt, eins og fram kemur, til þess að auka við þær undanþágur, sem veittar eru frá innheimtu fasteignaskatts skv. tekjustofnalögum. Svo hagar til, að yfirfasteignamatsnefnd úrskurðar í deilumálum sem rísa af því hvort greiða skuli fasteignaskatt af tilteknum fasteignum eða ekki, þ. á m. félagsheimilum og húsnæði, sem notað er til tómstundastarfs á vegum ýmissa félagssamtaka. Í þeim reglum sem yfirfasteignamatsnefnd hefur mótað sér, hefur hún skilgreint ákvæði laga um þetta efni ákaflega þröngt, þannig að þau félagsheimili, sem fengið hafa styrk úr Félagsheimilasjóði, hafa verið talin falla sérstaklega undir þetta lagaákvæði og hafa notið þessarar undanþágu. Hins vegar eru fjölmörg svokölluð félagsheimili eða húsnæði í eigu og notkun ýmissa félagssamtaka til tómstunda- og félagsstarfsemi sem ekki hafa fengið styrk úr Félagsheimilasjóði og ekki hlotið viðurkenningu hans. Í slíkum tilvikum hefur yfirfasteignamatsnefnd synjað um undanþágu frá fasteignaskatti.

Um þá starfsemi, sem um er rætt í þessu frv., æskulýðsstarfsemi eða aðra viðurkennda tómstundaiðju á vegum félags- og æskulýðssamtaka og þó einkum, eins og fram kom í framsöguræðu flm., starfsemi hestamannafélaga, hygg ég að yfirleitt hafi ekki verið veitt fé úr Félagsheimilasjóði til þessara samtaka. Ég vil því greina frá því til upplýsinga, að miðað við þær reglur, sem yfirfasteignamatsnefnd hefur starfað eftir, mundi t.d. félagsheimili á vegum hestamannafélaga og annarra slíkra ekki falla undir ákvæði laganna nema greitt hefði verið til þeirra úr Félagsheimilasjóði.

Um þá breyt., sem hér liggur fyrir, vil ég aðeins segja það, að ég tel óheppilegt að víkka þær heimildir, sem eru til undanþágu frá gildandi lögum um fasteignaskattsálagningu. Ég tel að fremur ætti að þrengja þær undanþágur heldur en færa þær út.

Um þetta sérstaka málefni skal ég svo ekki segja annað en það, að eins og fram kom í ræðu flm. mundu fleiri njóta góðs af en hestamenn, ef farið væri út á þessa braut, og það er einmitt hættan sem í því er fólgin, ef farið er að teygja undanþágur til einstakra aðila, sem ekki hafa notið þeirra áður, að þá fylgja sífellt fleiri og fleiri í kjölfarið.