27.02.1975
Efri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh: og viðskn, hefur tekið frv. til l. um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða o.fl. til meðferðar. N. hefur rætt málið á tveim fundum. Á annan fundinn, sem var sameiginlegur fundur fjh.- og viðskn. í báðum d., komu starfsmenn viðskrn. og Þjóðhagsstofnunar og gáfu ýmsar upplýsingar.

Það er áætlað að 1. söluskattsstig geri um 960 millj. kr. á ársgrundvelli samkv. áætlunum Þjóðhagsstofnunar, og var gert ráð fyrir að þessu söluskattsstigi yrði ráðstafað á þrennan hátt: í fyrsta lagi til þeirra íbúa sem búa við olíuupphitun, í öðru lagi til að styrkja rafveitur að því marki sem þær nota olíu sem orkugjafa til framleiðslu rafmagns til hitunar íbúða á sölusvæði sinu, og í þriðja dagi til Orkusjóðs til jarðhitarannsókna og hitaveituframkvæmda.

Meiri hl. fjh: og viðskn, flytur brtt. við 2. gr. frv. og fjalla þær brtt. einkum um það, hvernig þessu fé, þ.e.a.s. 960 millj., skuli ráðstafað. Þar eru gerðar nokkrar breytingar á frá því sem gert er ráð fyrir í frv.

Í fyrsta lagi er flutt brtt. um að í stað 7 200 kr. á hvern íbúa komi 8 200 kr. Það er öllum kunnugt, að gífurlegur munur er á kostnaði við að hita upp með olíu og jarðhita og sá .munur hefur farið mjög vaxandi. Meiri hl. n. hefur því lagt til að þessi upphæð verði hækkuð, þótt ljóst sé að það nægi engan veginn til að jafna upp þá miklu hækkun sem orðið hefur. Með því að hækka þessa upphæð í 8 200 kr. á hvern íbúa er gert ráð fyrir því, miðað við að 95 þús. íbúar noti olíu til upphitunar, að til þess þurfi að verja um 800 millj. kr., þ.e.a.s. 780 millj. ef aðeins er reiknað með íbúafjölda, en síðan koma til viðbótar um það bil 20 millj. vegna elli- eða lífeyrisþega sem njóta bóta samkv. 19. gr. laga um almannatryggingar, þannig að það má áætla heildarupphæðina um 800 millj. kr.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að styrkja rafveitur að því marki sem þær nota olíu sem orkugjafa til framleiðslu rafmagns til hitunar íbúða á sölusvæði sínu. Þar er gerð till. um að sé bætt við, að upphitun með rafmagni verði ekki að jafnaði óhagkvæmari en olíukynding. Miðað við núv. verðlag á rafmagni hjá Rafmagnsveitum ríkisins má gera ráð fyrir að upphitunarkostnaður með rafmagni á hvern íbúa í landinu sé um 14 400 kr. Það hefur einnig verið áætlað, að upphitunarkostnaður á hvern íbúa með olíu sé um 23. þús. kr. Miðað við það að 8 200 kr. séu greiddar til sérhvers íbúa sem hitar hús sitt með olíu, yrði kostnaður hans nettó um 14 800 kr. Það, sem kemur inn í þennan lið til viðbótar, er einkum hugsað í því sambandi, að það orki ekki tvímælis að þessum hlutföllum skuli haldið, þannig að rafmagnskostnaðurinn fari ekki langt fram yfir kostnað við að kynda með olíu. Það er gert ráð fyrir að það þurfi að verja á næsta ári til Rafmagnsveitna ríkisins í þessu skyni um 50 millj. kr.

Það verður einnig að gera grein fyrir því, að gerð er sú brtt. að síðasti málsliður í a-lið frv. falli niður, þ.e.a.s. „styrkur þessi skal eigi greiddur til þeirra, sem fá íbúðarhúsnæði sitt tengt við hitaveitu fyrir 29. febr. 1976“, en lagt til að í þess stað komi: „Styrkur þessi skal ekki greiddur til þeirra, sem eiga kost á að tengja íbúðir sínar við hitaveitu á þeim ársfjórðungi, sem styrkur kemur til greiðslu.“ Með þessu er gert ráð fyrir því, að ef íbúðarhús hefur verið tengt hitaveitu, þá komi engin greiðsla til eftir að viðkomandi íbúar þess húss njóta þeirra kjara.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir þeirri breytingu, að e-liður orðist þannig: „Til Orkusjóðs til að hraða hitaveitu- og raforkuframkvæmdum vegna hitunar íbúða, að því leyti sem tekjunum er ekki ráðstafað samkv. a- og b-lið þessarar gr.“ Það er ljóst, að ákveðin svæði á landinu fá aldrei hitaveitu, og þess vegna þótti rétt að þessi upphæð yrði notuð til hagsbóta fyrir alla, en ekki aðeins þá sem búa við þau sérstöku skilyrði, að jarðhiti er í námunda við þá. Er áætlað, að þessi upphæð muni nema um það bil 100 millj. kr., og það er rétt að geta þess, að á s.l. ári voru um það bil 8 þús. íbúar tengdir hitaveitu. Ef þessir íbúar hefðu kynt húsnæði sitt með olíu áfram þyrfti að leggja fram fjármagn í því skyni, a.m.k. 70 millj. kr., þannig að fram kemur að allur sá sparnaður, sem orsakast af því að hitaveitur eru tengdar, verður lagður í Orkusjóð til áframhaldandi framkvæmda, en kemur ekki til skiptingar milli þeirra, sem hafa ekki fengið hitaveitu.

Ég sé ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir brtt. meiri hl. n. Ég vil að lokum endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem eru lagðar fram á þskj. 321.