27.02.1975
Efri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Frsm. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram ræddi fjh: og viðskn. frv. á tveimur fundum sínum og áhrif þess til að draga úr kostnaði fyrir þá er verða að kynda upp húsnæði sitt með olíu. Á fund n. komu ráðuneytisstjóri og skrifstofustjóri viðskrn. og einnig hagrannsóknastjóri ásamt fulltrúa frá Þjóðhagsstofnun. Þessir aðilar gerðu grein fyrir framkvæmd gildandi laga og kostnaði við olíu-, jarðvarma- og rafmagnsupphitun í landinu. Samkvæmt því kom í ljós, að meðalverð á olíu til húshitunar fyrir árið 1974 reyndist vera kr. 12.53, en er nú kr. 20.20. Hér er því um hækkun að ræða er nemur 61.2% og enn má reikna með að olían hækki nokkuð. Augljóst er því að þeir, sem nota olíu til húshitunar, munu enn fá á sig aukin útgjöld vegna þessarar verðþróunar.

Í 1. gr. frv. segir, að leggja skuli 1% söluskatt á til þess að draga úr áhrifum verðhækkunar á olíu til hitunar íbúðarhúsnæðis. Eftir því sem næst verður komist munu notendur olíu til hitunar húsnæðis síns vera um 95 þús. manns í dag, og miðað við núgildandi verðlag yrði kostnaður á mann, reiknaður á 95 rúmmetra rými á hvern mann, samtals 23 028 kr. Tilsvarandi kostnaður reiknaður á sama hátt fyrir þá, er njóta jarðvarma með verðlagi 32 kr. hvert tonn af heitu vatni, yrði þá 6 536 kr.

Augljóst er að þeir, sem njóta hitaveitu nú þegar, búa við verulega betri lífskjör, er nemur mörgum tugum þúsunda hjá hverri fjölskyldu á árstímabili. Því er talið réttlætanlegt að leggja á 1% söluskatt er síðan sé jafnað út til þeirra er verða að kynda hús sín með olíu.

Minni hl. fjh.- og viðskn. telur að þessi styrkur geti ekki verið minni vegna verðþróunar þeim í óhag, er nota olíu, en 10 þús. á ári á mann. Gert er ráð fyrir að 1 söluskattsstig muni gefa um 960 millj. kr. alls á yfirstandandi ári og ekki verður annað séð en að hér sé varlega áætlað. Það er því augljóst mál, að þótt styrkurinn sé hækkaður upp í 10 þús. á hvern mann á ári mun enn verða eftir talsverð upphæð sem getur komið til ráðstöfunar samkv. liðunum b og c í brtt. okkar, einkum þegar það er haft í huga að á næstu mánuðum mun tenging hitaveitu við íbúðarhúsnæði eiga sér stað í Kópavogi, Garðahreppi og Hafnarfirði. Þess er að vænta, að framkvæmdum í þessu skyni seinki ekki, svo að fleiri geti notið kosta hitaveitu en verið hefur.

Við teljum, að ekki geti með rökum verið um lægri upphæð til jöfnunar á hitunaraðstöðu að ræða á hvern íbúa en 10 þús. kr. miðað við ársgreiðslu. Því berum við fram á sérstöku þskj. till. um þessa greiðslu og einnig að þeir, sem nota rafmagn til upphitunar húsa sinna, þurfi ekki að sæta hærri hitunarkostnaði af húsnæði sinn en olíuhitun hefur í för með sér. En þess munu finnast dæmi að slíkt hefur átt sér stað.

Í till. okkar, sem koma fram á þskj. 319, er tekið fram að við leggjum til að upphæðin verði 10 þús. kr. sem er ákveðið að ráðstafa. Einnig breytum við svo til. að þegar svo háttar að styrkþegi á von á hitaveitu til upphitunar íbúðar sinnar skal hann njóta styrks fram til þess mánaðar er tenging fer fram. Upphaflega var gr. í frv., sem olli nokkurri andúð, um það að ekki skyldi verða um styrk til þeirra að ræða, er áttu von á hitaveitu með allt að ársfyrirvara. Meiri hl. hefur gengið til móts við þá gagnrýni, sem fram kom, og dregur svo í land að hann miðar við ársfjórðung og er það út af fyrir sig veruleg bót. Við teljum, að samkv. eðli frv. sé rétt að fara eins nálægt sómasamlegri framkvæmd og hægt er, og leggjum því til, vegna þess að það skapar alls ekki meiri vanda í framkvæmd laganna. að menn njóti styrksins að þessu tímabili, þ.e.a.s. ef maður fær hitaveitu tengda í ákveðnum mánuði, þá sé greitt fram að byrjun þess mánaðar, mánaðamótum. Þetta er ekki flókið vandamál þar sem greiðslur koma jafnan fram ársfjórðungslega síðar. og mun því alltaf liggja fyrir í tæka tíð hverjir fá hitaveitu tengda, svo að sveitarstjórnir. sem hafa af þessu ýmislegt óhagræði. lenda ekki í meiri vanda en efni standa til.

Það komu reyndar fram í framsögu hér ýmislegar vangaveltur um þetta mál og þarf ég ekki að rekja bað, en c-liður á að fá þarna afgangspeninga. Hvað þeir geta verið há upphæð skal ég ekki spá nákvæmlega um, en eftir því sem upplýstist á nefndarfundi má ætla, að enn sé óráðstafað af tekjum s.l. árs 150–200 milli kr., a.m.k. nokkuð á annað hundrað millj. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun, hvernig á að ráðstafa því með öðrum hætti en að það renni þá til e-liðar, sem við erum fylgjandi, að Orkusjóður fái aukið fjármagn til frekari rannsókna og flýti þannig fyrir notkun á jarðvarma og hitaveituframkvæmdum. Einnig mun þrátt fyrir hækkun upp í 10 þús. kr. verða afgangur — ég trúi ekki öðru — eitthvað á annað hundrað millj. Það er því sýnilegt, að við erum ekki að herða að Orkusjóði á einn eða annan veg, heldur að leggja til að hann fái aukið fjármagn fram yfir gildandi fjárlög, með því að taka undir það sjónarmið að Orkusjóður fái afgangsfjármagn þarna.

Þetta er sameiginleg afstaða okkar allra, aðeins orðuð með mismunandi hætti. En við teljum eindregið, að talan 8 200 kr. á ári á íbúa, er styrkinn eiga að fá, sé of lág. Enda kom það fram í framsöguræðu frsm. meiri hl. áðan. Hann gat ekki dulið það, að verulega hallaði á hjá þeim, sem nota olíu til húsaupphitunar, og þrátt fyrir þessa hækkun væri enn hallað á þá vegna þeirrar miklu olíuhækkunar sem hefur átt sér stað. Ég tel því að hv. þm. ættu að hugleiða það mjög alvarlega og rólega, hvort 10 þús. séu ekki viðráðanleg tala, og reyna að jafna þetta bil.

Það hefur verið upplýst, að reykvíkingar einir, eftir því sem grein í Morgunblaðinu upplýsir, muni njóta — hvað getur maður sagt? — betri lífskjara er nemur um 2 600 millj. kr., miðað við verðlag í dag á ársnotkun heitavatns gegn ársnotkun á olíu í sama húsnæði og á sama íbúafjölda. Þetta er ekki lítil búbót. Við skulum segja, að ef söluskatturinn gerir um 1000 millj., þá eru auðvitað reykvíkingar skattlagðir, og við getum áætlað að sá skattur nálgist 500 millj., þannig að þar leggja þeir til hagsbóta hinum, er ekki njóta hitaveitu, um 500 millj. Nettómismunur þeim í hag er þá um 2 milljarðar. Nú liggur að vísu fyrir beiðni um hækkun á hitaveitu líklega um 24% miðað við síðustu fregnir, að það verði jafnvel samþ., þannig að hér hallar aftur til minnkunar fyrir þá. En það eru líka fleiri íbúar úti um landið sem blessunarlega njóta hitaveitu, og það hefur ekki verið talið fært enn þá að fara að mynda sérstakan skatt, annaðhvort söluskatt eða einhvern annan skatt, á notendur heits vatns í landinu, heldur láta þá taka á sig kvöð í gegnum söluskatt. Í sjálfu sér gæti verið umhugsunarvert, hvort ætti að fella svona söluskattsstig niður og setja sérstakan skatt á heitt vatn, en það hefur ekki verið gert enn þá og þess vegna óþarfi að vera með miklar vangaveltur um það. En niðurstaðan hefur sem sagt orðið sú, að allir telja það rökrétt og eðlilegt og vel verjanlegt að hafa söluskattsstig til þess að jafna þennan aðstöðumun nokkuð. Aðeins greinir okkur á um það, hver endurgreiðsluupphæðin eigi að vera.

Eftir því sem frsm. meiri hl. upplýsti mundi talan 8 200 kr. á mann gera í endurgreiðslu um 800 millj. á ári. Þá er augljóslega eftir til ráðstöfunar fast að 200 millj. Frá s.l. ári eru enn óráðstafað hátt í 200 millj., þannig að Orkusjóður mun eiga þarna von á allmiklu fjármagni. En ég tel, eins og ég sagði í ræðu minni við 1. umr., að vandamál Orkusjóðs eigi að athuga sérstaklega og við ættum að fá nýtt yfirlit um þarfir Orkusjóðs núna vegna gengisbreytingar og vegna þess að nú liggja fyrir meiri kvaðir á Orkusjóði um jarðvarmarannsóknir en áður hefur verið. Ég er alveg viss um það að allir hv. alþm. eru reiðubúnir að standa að því að efla Orkusjóð. En ég tel, að þegar við erum að veita slíkar upphæðir án þess að hafa þær nánar sundurgreindar, séum við að fara út á heldur hálan is, vegna þess að í fyrsta lagi hefur fjvn. samkv. þingsköpum þann rétt eða þá kvöð, eftir því hvað menn vilja kalla það, að fjalla um fjárþarfir ríkisstofnana og síðan leggja sitt álit fyrir, en hér erum við að veita einni ríkisstofnun ótiltekna upphæð, sem nemur mörgum hundruðum millj., án þess að grennslast nánar um beinar þarfir stofnunarinnar. En hvað sem því líður, þá má segja að í þessu tilfelli sé þörfin brýn og nauðsynleg og þess vegna sé þetta kannske réttlætanlegt við ríkjandi aðstæður. Ég tel samt sem áður að við eigum að gæta hófs í þessu efni og ekki að vera of bjartsýnir um ráðstöfun til Orkusjóðs, þar sem hlutverk hans er að rannsaka, en ekki að standa í stórframkvæmdum.

Það má segja, að efnislegur ágreiningur sé ekki orðinn mikill hjá okkur. Langstærsti þátturinn er talan, sem við leggjum til að sé greidd út, og hún hlýtur að eiga að vera eins há og hægt er með góðu móti að sjá að þetta fjármagn skiptist upp til, vegna þess að forsendan fyrir að afla þessa fjármagns er að bæta aðstöðumismuninn. Það er forsenda frv., og þess vegna er það ósanngjarnt að skilja eftir mjög stóra tölu til ráðstöfunar í öðru skyni, þrátt fyrir það að Orkusjóður sé alls hins mesta maklegur í þessu efni. En það ætti þá að fylgja sem lágmarkskurteisi við okkur að sýna nýja rekstraráætlun fyrir Orkusjóð og nýjar þarfir hans, vegna þess að forstjóri Orkustofnunar gerði grein fyrir þörfum til fjvn. fyrir áramót, og þó að fjvn. mætti ekki öllum hans óskum á sínum tíma, er það sómasamlegt, og væri eðlilegt að við fengjum nýja áætlun við breyttar aðstæður og tryggðum þá Orkusjóði nauðsynlegt fjármagn.

Herra forseti. Ég skal ekki að öðru leyti fara að karpa um efni frv. Það kom fram við 1. umr., að hæstv. forsrh. drap á, að ég teldi þetta enn einu sinni bera vott um óstjórn, og líkti mér við Kató. Ég held ég bæti nú því við, að þó að Karþagóborg hafi verið talin óvinnandi vígi á sínum tíma, þá féll hún, og svo mun einnig verða um hæstv. ríkisstj.