27.02.1975
Efri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ef orðstír núv. ríkisstj. verður jafnmikill og orðstír þess Hannibals, sem stóð í fyrirsvari fyrir Karþagóborg á sínum tíma, þá óttast ég ekki um eftirmæli núv. hæstv. ríkisstj. Auðvitað kemur einhvern tíma að því að þessi hæstv. ríkisstj. lætur af völdum eins og allar ríkisstj.

Ég ætlaði ekki að vera fjölorður um það frv. sem hér er til umr. Það er eins og fram hefur komið hjá þeim hv. þm. sem þegar hafa talað við þessa umr., að það er ekki mikill ágreiningur um málið og í raun og veru enginn ágreiningur um megintilgang frv., þ.e. að afla fjár til að jafna aðstöðumun þeirra, sem hita upp hús sín með jarðvarma og raforku annars vegar og hins vegar með ollu. Ég er mjög veikur fyrir þeim sjónarmiðum, að það veiti ekki af að allt það fjármagn, sem aflast á þann hátt sem frv. gerir ráð fyrir, fari til niðurgreiðslu á olíu. Það getur ekki verið neinn ágreiningur um að þörf er á því nú eins og var þegar sams konar ákvæði var sett fyrir einu ári. Hér er um að ræða ráðstafanir til þess að koma þegar í stað til aðstoðar þeim sem verr eru settir í þessu efni og til þess að jafna aðstöðumun.

Þetta breytir hins vegar að sjálfsögðu ekki því, að það er ákaflega þýðingarmikið að afla fjár til þess að vinna að framkvæmdum í hitaveitu- og raforkumálum til þess að auka húsahitun á þann hátt. Í því efni verðum við fyrst og fremst að treysta á yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. í því efni. Það er eitt af meginmálum hæstv. ríkisstj. að leggja áherslu á virkjunarmálin. En þó að svo sé vil ég ekki undir öllum kringumstæðum hrinda burt þeirri hugsun, að eitthvað sé hyglað framtíðarverkefnum í þessu efni með því fjármagni sem inn kemur með þeim hætti sem frv. þetta gerir ráð fyrir. En spurningin er: Hvað er ætlað að gera í því efni? Ákvæði frv. um það, eins og það er orðað í e-lið 2. gr., er á þann veg að ég tel það alls ekki fullnægjandi.

Ég tel, að ef eigi að taka af þessari fjárhæð eitthvað, skerða niðurgreiðslurnar, þá verði að vanda mjög til þess verkefnis sem það fjármagn er ætlað, sem af er skorið. Þá finnst mér, fyrst tilgangur þessa frv. er að jafna aðstöðumun, að hafa verði nokkuð í huga hvernig þeim tilgangi verði best náð, og þá sýnist mér augljóst að þar eigi fyrst og fremst að koma til greina að líta til þeirra landshluta og þess fólks sem hefur ekki aðstöðu og getur ekki haft aðstöðu í næstu framtíð eða kannske um fyrirsjáanlega framtíð til að njóta hitaveituframkvæmda. Ég tel þess vegna að brtt. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. um það að breyta orðalagi e-liðar þannig, að ráðstöfun fjárins nái til raforkuframkvæmda, sé ákaflega þýðingarmikil og breyti afstöðu minni verulega. Við verðum að hafa í huga, að það eru heilir landshlutar, eins og t.d. Vestfirðir, sem enga möguleika hafa til að njóta góðs af hítaveituframkvæmdum, engin þéttbýlissvæði þar, svo að heitið geti. Og ég tel að það eigi að líta til þessa fólks alveg sérstaklega í sambandi við ráðstöfun þess fjár sem verður til umráða, ef frv. verður samþ. í því formi sem það liggur nú fyrir.

Ég vil leggja áherslu á það, að ég lít svo á að ef brtt. um þetta efni verður samþ., þá hljóti hún að þýða framkvæmd eitthvað í þessum anda annars væri hún markleysa. Í því trausti að svo sé, mun ég fylgja þessu frv., ef brtt. á þskj. 321 verða samþ., og þá hef ég sérstaklega í huga breyt. á e-lið 2. gr. og svo hækkunina á upphæð niðurgreiðslnanna úr 7 200 kr. í 8 200 kr. Ég tel það spor í rétta átt.