27.02.1975
Efri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. frsm. n. fyrir þær upplýsingar sem hann kom með og n. hefur aflað. Þar kom greinilega í ljós að þessi munur, aðstöðumunur hefur aukist, eins og ég reyndar færði rök að við 1. umr. um þetta mál. Ég sé einnig, að hv. n. hefur tekið nokkurt tillit til þess og hækkað styrkinn úr 7 200 í 8 200 kr., sem komi til greiðslu fyrir hvern olíunotanda eða hvern einstakling, og er þetta vissulega allt til bóta.

Ég er einnig hlynntur þeirri breyt. sem kemur fram í b-lið. Ég tel að framkvæmd eins og þarna er gert ráð fyrir sé að öllu leyti viðráðanlegri heldur en var í upphaflegu frv. Sýnist mér jafnframt ekki óeðlilegt að allt að ársfjórðungur sé tekinn af þeim sem von eiga á að fá hitaveitu, en einkum sýnist mér mikilvægt að þessi framkvæmd er stórum auðveldari.

Ég tek einnig undir það, sem hér hefur komið fram, að Orkusjóður þarf aukið fjármagn. Á því er enginn vafi. Ég get reyndar tekið undir það, sem hv. 1. landsk. þm. sagði, að það væri æskilegra að þekkja þörf Orkusjóðs eða hafa áætlun yfir það. En ég held að við gerum okkur allir grein fyrir því, að í raun og veru er þörf Orkusjóðs margföld sú fjárhæð sem hér um ræðir. Mér skilst að þetta séu um 110 millj. sem af eru teknar og renna í Orkusjóð. Ég hefði að vísu kosið fremur að þessu yrði öllu úthlutað, en hins vegar fallist á að inn í Orkusjóð renni það sem sparast þegar notandi tengist hitaveitu. Það er minna fjármagn, að því er mér skilst. Voru það ekki um 40 eða 50 millj. kr. eða u.þ.b.? Það finnst mér eðlilegt að renni í Orkusjóð. Nú má vitanlega segja, að ef sama regla hefði gilt á yfirstandandi tímabili, því sem er að líða, þá hefðu sparast í Orkusjóð líklega um 60 millj. Um 8000 manns munu hafa tengst hitaveitu á tímabilinu, og því mætti segja að þessar 110 millj. séu ákveðnar með nokkru tilliti til þess.

Ég tel með þessum skýringum að frv. hafi tekið mikilvægum breyt. til batnaðar og mun fylgja því þannig, þó að ég eins og ég sagði, hefði heldur kosið hina leiðina, að skipta þessu öllu til olíunotenda.

Aftur á móti vil ég koma að því, sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Árm. Héðinssyni um þann afgang sem mun hafa orðið á síðasta ári og hann telur vera um 100 millj. Ég hygg, að áætlaðar tekjur af einu söluskattsstigi séu um 860 millj., en ákveðið muni hafa verið að greiða í kringum 760 millj. Þó er ég ekki viss um að þetta liggi svo ljóst fyrir enn. Engu að síður er þarna um töluverða fjárhæð að ræða, sem skiptir nokkrum tugum millj. a.m.k. — og hvað á að gera við hana? Lögin, sem nú eru í gildi, heimila ekki annað en að þessu fjármagni sé ráðstafað til þess að jafna hitunarkostnað, og í þessum lögum er ekki gert ráð fyrir að grípa þar neitt inn í. Er minn skilningur því ekki réttur, að þessu fjármagni hlýtur að verða ráðstafað til þess að jafna hitunarkostnað, að því verði skipt upp? Þetta vildi ég gjarnan fá upplýst. Líta má svo á að þessir milljónatugir hafi sparast saman, ef við viljum kalla það sparnað, vegna þess að um 8 000 manns hafa tengst hitaveitu, og ef sú regla hefði gilt á síðasta tímabili, að leggja slíkt í Orkusjóð, þá hefði það runnið að verulegu leyti í Orkusjóð. Hins vegar getum við ekki gert hvort tveggja, að rökstyðja að taka hér af um 100 millj., með því að þetta gilti ekki á síðasta tímabili og láta svo jafnframt það, sem þarna sparast á síðasta tímabili renna í Orkusjóð. Þarna sýnist mér vera laus endi í þessu máli, og ég vil gjarnan varpa þeirri spurningu fram, hvort skilningur minn sé ekki réttur, að þau lög, sem nú gilda, heimili aðeins að þessu sé skipt til olíunotenda og því hljóti svo að verða.