27.02.1975
Efri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Mál þetta er harla einfall og ástæðulaust að orðlengja um það. Í fyrra var lagt 1% söluskattsgjald á söluskattskyldar vörur og það átti að duga til að greiða niður olíu sem nam 7 200 kr. á mann. Meðalkostnaður við upphitun húsa með olíu var á s.l. ári um 13100 kr., og þegar styrkurinn er frádreginn má ætla, að meðalkostnaður hafi raunverulega numið 6 900 kr. Til samanburðar er svo rétt að geta þess, að kostnaður við hitun húsa með hitaveitu á mann er talinn hafa numið 4100 kr. Niðurstaðan er því sú, að olíuhitun hafi verið 68% dýrari á s.l. ári, þegar tekið hefur verið tillit til olíustyrksins.

Nú hefur orðið gífurleg hækkun á olíu milli ára, eins og kunnugt er. Eins og nú er útlit fyrir og þá ekki gert ráð fyrir neinum verulegum hækkunum á næstunni, þá er útlit fyrir að olíuverð á árinu 1975 verði um 61% hærra en var á árinu 1974.

Um það er fullt samkomulag, að á verði lagt enn á ný 1% söluskattsgjald. Hins vegar er ljóst, að þetta gjald mun hvergi nærri ná því marki að jafna út milli þeirra sem hafa hitaveitu og þeirra sem hafa olíu. Til þess að styrkurinn væri jafngildur því sem hann var á s.l. ári, þyrfti hann að nema 11600 kr. Ef þessu 1% væru öllu ráðstafað í þessu skyni er hins vegar útlit fyrir að það mundi duga til 10 000 kr. greiðslu á mann. Við í minni hl. fjh.- og viðskn. leggjum til að þetta verði gert, að þessu fjármagni verði að öllu leyti varið í þessu skyni, með því að veita hverjum manni 10 000 k:. styrk. En þeir, sem í meiri hl. eru, vilja aðeins láta 8200 kr. og vilja ætla talsverða upphæð til annarra nota.

Hæstv. utanrrh: undraðist reikningskúnstir okkar í minni hl. og gerði fsp. um hvernig mætti koma heim og saman þessu dæmi okkar. Við því er ósköp einfalt svar, sem hann í raun og veru gaf sér sjálfur í sinni ræðu. Við föllumst ekki á þær forsendur sem hinir leggja til grundvallar sínum reikningum. Við erum því ekki samþykkir að það sé raunhæft að reikna með að söluskatturinn muni aðeins gefa 960–970 millj. kr. Þetta kemur raunar fram í einni setningu í nál., sem hann las ekki, þar sem tekið er fram, að vísu kannske með óþarflega vægum orðum, að um augljóslega mjög varlega áætlun sé að ræða.

Ég er algerlega samþykkur hæstv. utanrrh. um það, að ef gengið er út frá því að þessi áætlun sé rétt, þá muni 10 000 kr. greiðslan draga meira úr ríkissjóði en inn í hann kæmi vegna þessa gjalds. En ég lít svo á, að það hljóti að koma meira inn í söluskatti en nemur þessum 960 millj. kr. Ég var einmitt að lesa um það áðan í Alþingistíðindum, umr. frá því í fyrra þegar afgr. voru lög frá Alþ. um skattkerfisbreyt., hvað menn sögðu þá að 1 söluskattsstig mundi gefa á árinu 1974, og ég get upplýst það, að menn úr öllum flokkum voru sammála um að á árinu 1974 gerði það a.m.k. 800 millj. að lágmarki til 800 millj. kr. Margir nefndu þá 900 millj. Það er með þetta í huga sem ég á dálítið erfitt með að koma því inn í höfuðið á mér, hvernig í ósköpunum það geti átt sér stað aðsöluskatturinn gefi á þessu ári ekki meira en 960 millj., þegar haft er í huga að verðhækkun milli ára er alveg vafalaust í kringum 50%, fer að vísu dálítið eftir því við hvað er miðað og hvernig það er reiknað, en í grófum dráttum er hún í kringum 50%, og gengisbreyting, sem orðið hefur síðan þessar umr. fóru fram hér í þinginu, er hvorki meira né minna en milli 70 og 80% með viðeigandi hækkunum á innfluttum vörum. Ég veit að vísu, að þessi áætlun gerir ráð fyrir gífurlegum samdrætti í hvers konar neyslu, og ég býst við, að það sé alveg rétt til getið af hálfu þeirra, sem þetta hafa reiknað út, að samdráttur eigi sér stað. En að hann verði svo gífurlegur sem hér er reiknað með, því trúi ég ekki enn. Þess vegna er ég sannfærður um, að upphæðin muni nema a.m.k. um 1050 millj. og þess vegna virðist mér að sjálfsagt sé að hafa upphæðina a.m.k. 10 000 kr. enda dálítið óþægilegt að draga fram á síðari hluta ársins að ákveða þessa upphæð. Ég tel að það sé nauðsynlegt að ákveða þessa upphæð strax og þá séu 10 000 kr. ákaflega nærri lagi.

Ég viðurkenni það, að reikna þarf með því að rafveiturnar fái 50–70 millj. kr. til að greiða niður kostnað sinn vegna hækkunar á olíu. En eins og reikningsdæmið lítur út frá mínum bæjardyrum séð, — ég tók ekki eftir því hvernig hv. meðflm. minn að þessum till. tók til orða, — en frá mínum bæjardyrum séð verður ekki ýkjamikið eftir handa Orkusjóði, miðað við þessa upphæð, og ég viðurkenni að það er ekki útlit fyrir að svo verði, enda geri ég alls ekki ráð fyrir því í till. mínum. Hins vegar lít ég svo á, að um það verði ekkert sagt á þessu stigi málsins, hvort söluskattsstigið kemur til með að gefa 1000 eða 1050 eða 1100 kr. á næsta ári, og ég er því þess vegna algerlega samþykkur að ef einhver afgangur verði þarna, sem vel getur orðið, þá renni hann til þessara framkvæmda. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt, að gera ráð fyrir því, að einhver aðili geti tekið við afgangi ef einhver afgangur verður.

Ég viðurkenni það hins vegar fúslega, að reikningsáætlun mín kann að vera röng. Það kann að vera, að samdráttarstefna ríkisstj. verði svo gífurleg, að hún leiði til þess að söluskatturinn gefi aðeins — segjum 1 000 millj. Þá er það ályktun mín, að þá verði ríkissjóður að greiða það sem á vantar, ef eitthvað vantar á. Það verða aldrei nema fáeinir tugir millj., því að ég lít svo á, að ef ríkisstj. hefur komið fram svo gífurlegri samdráttarstefnu, þá muni svo sannarlega ekki veita af að greiða eitthvað úr ríkissjóði til þeirra sem verst eru stæðir hvað snertir olíukyndingu.

Um þetta mál er sem sagt engin ástæða til að fjölyrða frekar, ef misskilningi hefur að öðru leyti verið eytt. Við teljum, að hér sé allt of smátt skammtað og að 10 000 kr. séu lágmark þess sem eðlilegt sé að greiða til að lækka kyndingarkostnað með olíu, og ég minni þá á það, að ef till. okkar verður samþ., þá er gert ráð fyrir því að kyndingarkostnaður á mann verði 13 000 kr., sem er ekkert smáræði.

Í ræðu minni við 1. umr. þessa máls nefndi ég vanda þeirra sem búa við rafmagnshitun og hafa í mörgum tilvikum þurft á s.l. ári að greiða hæstu kyndingargjöldin. Ég lít svo á, að eftir að hafa fengið þær upplýsingar sem n. hefur fengið, þá hafi það verið staðfest, þótt erfitt sé kannske að sanna það beint, séu a.m.k. yfirgnæfandi líkur á því, með hliðsjón af olíustyrknum, sem ekki var greiddur til þeirra sem höfðu rafmagn, að kjör manna, sem kyntu hús sín með rafmagni á s.l. ári hafi í mjög mörgum tilfellum verið langsamlega lökust. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara í flókna röksemdafærslu fyrir þessari fullyrðingu minni, en hún liggur mjög beint við og er tiltölulega auðveld. Ég ætla ekki að orðlengja það frekar, það er liðin tíð, og ég lít svo á að mestu máli skipti að þetta endurtaki sig ekki. Ég óskaði eftir því, að inn í frv. yrði sett ákvæði, sem tryggði að þetta endurtæki sig ekki, og ég fagna því, að meiri hl. n. hefur fallist á þetta með því að taka upp í brtt. sínar það orðalag, að upphitun með rafmagni verði ekki að jafnaði óhagkvæmari en olíukynding. Ég vil geta þess, að við hv. þm. Jón Árm. Héðinsson erum einnig með sömu hugmynd í okkar till. um b-lið 2. gr. Þar er okkar till. svolítið öðruvísi orðuð, en ég verð að játa að kannske sé eðlilegra og sanngjarnara að hafa orðalagið eins og þeir hafa ákveðið það. Ég get vel fellt mig við að það verði ofan á að bæta við setningunni: „að jafnaði óhagkvæmari“.

Ég vil svo að lokum segja það, að ég tel að eins og meiri hl. n. hefur orðað c-liðinn, þá sé það að sumu leyti betra, en að öðru leyti lakara. Þeir segja: „Til Orkusjóðs til að hraða hitaveitu- og raforkuframkvæmdum vegna hitunar íbúða, að því leyti sem tekjunum er ekki ráðstafað samkvæmt a- og b-lið þessarar gr.“ Ég er alveg samþykkur að bæta við orðunum „raforkuframkvæmdum“. En mér er til efs, að þá eigi að segja: „Til Orkusjóðs til að hraða hitaveitu- og raforkuframkvæmdum.“ Mér er ekki ljóst, að Orkusjóður sé hinn rétti framkvæmdaaðill í þessu sambandi, og hefði talið hyggilegra að orða þetta þannig, að þessum fjármunum hefði mátt verja til raforkuframkvæmda án þess að þær rynnu beinlínis í gegnum Orkusjóð. Þetta atriði má kannske hugleiða betur á milli umr., og ég hef því ekki fleiri orð um málið að sinni.